fimmtudagur, janúar 27

Davíð Stefánsson

Höfundur110 ár eru liðin frá fæðingu Davíðs Stefánssonar, skálds frá Fagraskógi í Eyjafirði. Davíð var eitt helsta skáld landsins. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Er rétt að fara örlítið yfir ævi hans og skáldferil í tilefni afmælis hans.

Davíð fæddist að Fagraskógi, 21. janúar 1895. Kenndi hann sig ávallt við æskuheimili sitt og varð það alla tíð fastur hluti af skáldnafni hans. Foreldrar hans voru Stefán Stefánsson bóndi og alþingismaður, og eiginkona hans, Ragnheiður Davíðsdóttir. Davíð var fjórði í röð sjö systkina. Fagriskógur var þá og er enn í dag eitt af helstu býlunum í Arnarneshreppi og mikið fremdarheimili. Ungur fór Davíð til náms í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, lauk hann gagnfræðaprófi 16 ára gamall, 1911. Davíð dvaldist í Kaupmannahöfn 1915-1916 og komst á skrið sem skáld. Fyrstu ljóð Davíðs birtust í tímaritum á þessu tímabili. Fór hann í lærdómsdeild Menntaskólans í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1919.

Sama ár kom fyrsta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir út. Með útkomu hennar var braut skáldsins mörkuð. Bókinni var tekið mjög vel og varð ein af helstu ljóðabókum aldarinnar. Setti mikið mark á sögu ljóðanna Eitt af fallegustu ljóðunum í þeirri bók er Stjörnurnar.

Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.

Honum fannst ekkert af öllu
yndi sér veita né ró
og allt vera hégómi og heimska
á himni, jörð og sjó.

Svo var það á niðdimmri nóttu,
að niðri á jörð hann sá,
hvar fagnandi hin fyrsta móðir
frumburð sinn horfði á.

Og þá fór Guð að gráta
af gleði; nú fann hann það
við ást hinnar ungu móður,
að allt var fullkomnað.

En gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er grét hann í fyrsta sinn,
eru stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn.

Haustið 1920 hélt Davíð til útlanda og dvaldi víðsvegar um Evrópu, t.d. á Ítalíu. Samdi hann þar fjölda fallegra ljóða og setti Evrópuferðin mikinn svip á aðra ljóðabók hans, Kvæði, sem kom út árið 1922. Davíð kenndi sögu við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1922-1924 en hélt þá til Noregs og var þar í nokkra mánuði. Hann kom heim síðar sama ár og þá kom út þriðja ljóðabókin, Kveðjur. Með henni festi Davíð sig endanlega í sessi sem eitt vinsælasta ljóðskáld landsins. Eitt þekktasta ljóðið í bókinni er Til eru fræ:

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.

Árið 1925 fluttist Davíð til Akureyrar þar sem hann bjó allt til æviloka. Hann varð bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri sama ár. Ennfremur reyndi hann þá fyrir sér við leikritagerð og hið fyrsta kom til sögunnar ári síðar, Munkarnir á Möðruvöllum. Næsta ljóðabók Davíðs kom út árið 1929 og bar heitið Ný kvæði. Eitt þekktasta ljóðið í þeirri bók er Kveðja:

Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál
er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur.
En seinna gef ég minningunum mál,
á meðan allt á himni og jörðu sefur.
Þá flýg ég yfir djúpin draumablá,
í dimmum skógum sál mín spor þín rekur,
Þú gafst mér alla gleði sem ég á.
Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur.

Svo kveð ég þig. En er þú minnist mín,
þá mundu, að ég þakka liðna daga.
Við framtíð mína fléttast örlög þín.
Að fótum þínum krýpur öll mín saga.
Og leggðu svo á höfin blá og breið.
Þó blási kalt og dagar verði að árum,
þá veit ég að þú villist rétta leið
og verður mín - í bæn, í söng og tárum.

Árið 1930 vann Davíð til verðlauna í samkeppni um Alþingishátíðarkvæði. Sá hluti kvæðisins sem helsta frægð hlaut er Sjá dagar koma:

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða. -
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.

Næsta ljóðabók Davíðs kom út árið 1933 og bar heitið, Í byggðum. Þóttu ljóðin í henni bera annan keim en þau sem áður höfðu komið út og vera nokkuð meiri félagsleg ádeila og horfa í aðra átt og sýna Davíð í öðru ljósi sem ljóðskáld. Ein þekktasta ljóðabók Davíðs, Að norðan, kom út árið 1936 og telst enn í dag marka mikil þáttaskil á ferli hans. Á þessum árum hóf hann að safna bókum af miklum áhuga og átti við ævilok sín á sjöunda áratugnum mikið safn bóka sem ættingjar hans ánöfnuðu Amtsbókasafninu. Að norðan markaðist vissulega af því að Davíð fór eigin leiðir í yrkisefnum og leitaði sífellt meir til fortíðar í yrkisefnum og hugsunum í ljóðlist. Vinsældir hans voru mestar á þessu tímabili og má fullyrða að bókin Að norðan hafi átt stóran þátt í hversu vel hann festist í sessi sem eitt helsta ljóðskáld aldarinnar. Eitt þekktasta kvæði bókarinnar er Þú komst í hlaðið.

Þú komst í hlaðið á hvítum hesti,
þú komst með vor í augum þér.
Ég söng og fagnaði góðum gesti
og gaf þér hjartað í brjósti mér.

Ég heyri álengdar hófadyninn,
ég horfi langt á eftir þér.
Og bjart er alltaf um besta vininn
og blítt er nafn hans á vörum mér.

Þó líði dagar og líði nætur,
má lengi rekja gömul spor.
Þó kuldinn næði um daladætur,
þá dreymir allar um sól og vor

Í kjölfarið fór Davíð í auknum mæli að leggja rækt við leikritagerð og skáldsagnaritun og sinnti því fleiru en ljóðunum. Árið 1940 kom út skáldsaga Davíðs í tveim bindum og bar heitið Sólon Íslandus. Fjallar hún um einn þekktasta flæking Íslandssögunnar, Sölva Helgason. Ári síðar gaf Davíð út leikritið Gullna hliðið, byggt á hinni þjóðkunnu sögu, Sálin hans Jóns míns, sem hann hafði áður ort um þekkt kvæði. Leikritið varð strax mjög vinsælt og urðu söngljóðin í leikritinu landsfræg í þekktum búningi Páls Ísólfssonar sem gerði við þau þekkt lög. Eitt hið þekktasta var Ég leiddi þig í lundinn:

Ég beið þín lengi lengi
mín liljan fríð,
stillti mína strengi
gegn stormum og hríð.
Ég beið þín undir björkunum
í Bláskógarhlíð.

Ég leiddi þig í lundinn
mín liljan fríð.
Sól skein á sundin
um sumarlanga tíð.
Og blærinn söng í björkunum
í Bláskógarhlíð.

Davíð hóf aftur að yrkja um miðjan fimmta áratuginn. Árið 1947 kom út ljóðabókin Nýja kvæðabókin. Skömmu síðar veiktist hann alvarlega og varð óvinnufær næstu árin. Í upphafi sjötta áratugarins samdi hann leikritið Landið gleymda. Tæpum 10 ár liðu á milli þess að Davíð gæfi út ljóðabók, árið 1956 kom út ljóðabókin Ljóð frá liðnu sumri. Það síðasta sem birtist eftir Davíð meðan hann lifði voru Háskólaljóð árið 1961. Síðasta ljóðabók Davíðs Stefánssonar kom út árið 1966, að honum látnum. Bókin bar hið einfalda nafn Síðustu ljóð. Í þeirri ljóðabók birtist það síðasta sem skáldið orti fyrir andlát sitt. Eitt þekktasta ljóðið í bókinni var ljóðið Vornótt, þar sem hann yrkir til heiðurs Eyjafirði.

Í nótt er gott að gista Eyjafjörð
og guðafriður yfir strönd og vogum.
Í skini sólar skarta haf og jörð
og skýjabólstrar slegnir rauðum logum.

Það veit hver sál, að sumar fer í hönd,
en samt er þögn og kyrrð um mó og dranga,
og hvorki brotnar bára upp við strönd
né bærist strá í grænum hlíðarvanga.

Svo ljúft er allt í þessum heiða hyl,
svo hátt til lofts og mjúkur barmur jarðar,
að víst er engin veröld fegri til
en vornótt björt í hlíðum Eyjafjarðar.

Davíð Stefánsson fluttist árið 1944 í hús sem hann reisti sér að Bjarkarstíg 6 á Akureyri. Þar bjó hann allt til æviloka. Eftir daga hans var húsið ánafnað Akureyrarbæ og þar er safn til minningar um hann. Húsið er varðveitt eins og það var er hann yfirgaf það síðasta sinni og er engu líkara en þegar gesturinn sem kemur til að líta þar inn og skoða heimili skáldsins en að viðkomandi sé gestur Davíðs en hann hafi í raun brugðið sér frá örskotsstund. Andi skáldsins er ljóslifandi í húsinu þó fjórir áratugir séu liðnir síðan hann yfirgaf það hinsta sinni. Þeir sem eiga leið um Akureyri eru eindregið hvattir til að líta í Bjarkarstíg 6 og kynna sér þetta merka hús, heimili sannkallaðs heimsmanns sem þrátt fyrir að vera sveitastrákur að uppruna varð sannkallaður veraldarmaður að lokum. Bý ég skammt frá Bjarkarstíg og fer ég oft á sumrin í safnið og á veturna er einnig oft gengið þar framhjá. Húsið er lítið en fullt af merkilegum sjarma sem er erfitt að lýsa í orðum. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

Á sextugsafmæli Davíðs, 21. janúar 1955 var Davíð sýndur sá heiður að hann var gerður að heiðursborgara Akureyrarbæjar. Er líða tók að ævilokum skáldsins varð hann sífellt minna áberandi. Hann sat oft heima við bókalestur og varð æ minna sýnilegur í skemmtanalífinu, en hann var rómaður gleðimaður og var þekktur fyrir að skemmta sér með veraldarbrag, eða ferðaðist sífellt minna um heiminn. Seinustu árin áttu Eyjafjörður og Akureyri hug hans allan, eins og sést af seinustu kvæðum hans og skrifum. Hugurinn leitaði heim að lokum. Fjörðurinn og það sem hann stóð fyrir að mati skáldsins var honum alla tíð mjög kær og jókst það sífellt eftir því sem leið að ævikvöldi hans. Í ljóðabókinni Að norðan, árið 1936 orti Davíð svo til Akureyrar, bæjarins sem hann síðar varð heiðursborgari í.

Bærinn stendur við botn á löngum firði
Bláir álar í sólskininu loga
Þó kann öðrum að þykja meira virði,
að þorskur og koli fylla alla voga.
Hvernig sem blæs, er fjörðurinn alltaf fagur.
Fáir heilluðu lengur gamla vini.
Hann skín, þegar ljómar á lofti heiður dagur
Hann leiftrar í stjarnanna dýrð og mánaskini.
Við borgarans augum blasa fjallatindar
brekkur og hlíðar vaxnar grænu lyngi.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þann 1. mars 1964, 69 ára að aldri. Seinustu árin hafði Davíð átt við veikindi að stríða og hafði kennt sér hjartameins sem að lokum leiddi hann til dauða. Akureyrarbær lét gera útför hans eins virðulega og mögulegt var og fór hún fram frá Akureyrarkirkju, þann 9. mars 1964. Mikið fjölmenni fylgdi Davíð seinasta spölinn. Hann var jarðsettur í kirkjugarðinum í sveitinni heima, að Möðruvöllum í Hörgárdal. Eins og sagði í upphafi var Davíð skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.