sunnudagur, apríl 10

Skýjaborgarar í frí

HöfundurVegna anna meðlima Skýjaborga verður vefritið ekki uppfært um óákveðinn tíma...
>> Lesa

sunnudagur, apríl 3

Bernskan og fögnuðurinn

HöfundurVilborg Dagbjartsdóttir: Fiskar hafa enga rödd
JPV-útgáfa, 2004


Tólf ár eru liðin frá því að Vilborg Dagbjartsdóttir sendi síðast frá sér ljóðabók. Þar á undan leið tuttugu og eitt ár á milli bóka. Á fjörutíu og fjögurra ára löngum ferli hefur þessi virta skáldkona aðeins skrifað fimm ljóðabækur, auk ljóða í tímaritum. Ævistarf Vilborgar liggur fyrst og fremst á sviði kennslu og barnabókmennta, en hún starfaði sem barnaskólakennari í hálfan fimmta áratug, og þær barnabækur sem hún hefur skrifað og þýtt skipta tugum. Þrátt fyrir það bera ljóð Vilborgar þess engin merki að vera aukabúgrein eða tómstundagaman. Allt frá upphafi hefur Vilborg fylgt þeirri reglu ímagistanna að teikna upp skýrar ljóðmyndir með orðum sem „hitta í mark“, ljóð hennar eru ekki „um það bil“ heldur „akkúrat“, tær og sjaldnast torskilin, þótt margt leynist undir yfirborðinu.

Fiskar hafa enga rödd, nýjasta bók Vilborgar, markar ekki beinlínis þáttaskil á ferli hennar, heldur er hún eðlilegt framhald af fyrri bókum. Yrkisefnin eru kunnugleg; ljóð um hugarheim barnsins eru sérstaklega áberandi. Við kynnumst sveitastelpunni sem fagnar nýju kúnni á bænum, syni flugfreyjunnar sem hefur meiri áhuga á því að teikna flugvélar en gera deilingardæmi í stílabókina sína og leikskólabarninu sem gleðst á haustmorgni yfir því að guð hafi sett glimmer á götuna. Fögnuður og lífsgleði eru helstu einkenni þessara ljóða. Ljóðið „Vor“ (bls. 14) fjallar um stúlku sem vaknar að morgni og uppgötvar að vorið hefur komið um nóttina: „Hún fann návist þess / eins og það væri manneskja / eða guð“. Hér er komið nýtt tilbrigði við gamalt stef, en ljóðið „Undur“, í Laufinu á trjánum, fyrstu ljóðabók Vilborgar, fjallar líka um það þegar vorið kemur að nóttu: „Þetta skeði í nótt / meðan ég svaf,“ segir þar. Upphafsljóðin í þessum tveimur bókum eiga líka margt sameiginlegt, bæði fjalla þau um mörk draums og veruleika. Ljóðmælandinn í „Raunveruleika“ (Fiskar hafa enga rödd, bls. 7) veit ekki hvort sumir dagar eru raunverulegri en aðrir, heldur „man aðeins drauminn / sem bjó í huga mínum“.

Titill bókarinnar er sóttur í ljóðið „Reynsla“ (bls. 12) sem er endurminning konu um atburð sem gerðist þegar hún var átta ára. Hún fangar síli með höndunum og sleppir því í bala þar sem hún ætlar að skoða það, en áttar sig ekki á því að vatnið í balanum er sjóðandi heitt svo að sílið rekur upp skerandi vein og deyr samstundis. Í þessu ljóði eru orðuð sannindi sem margar persónur í ljóðum Vilborgar eiga sameiginleg: „Hvað eru staðreyndir og skynsemi ef reynslan stangast á við hvorutveggja?“ Enginn trúir stúlkunni þegar hún segir að fiskurinn hafi veinað, því fiskar hafa enga rödd. Segja má því að í titli bókarinnar felist visst röklegt mótvægi við þann draumkennda og einlæga heim sem er svo áberandi í henni.

Ljóð um konur hafa lengi fylgt Vilborgu, jafnvel pólitísk kvennaljóð, og svo er einnig hér. Amman í ljóðinu „Klædd og komin á ról“ (bls. 8) sækir sér góðan dag með því að hneigja sig í sólarátt og fara með morgunbæn, íslensk alþýðukona sem er að sínu leyti jafnmikilvæg samfélagsleg stoð og trygga eiginkonan í ljóðinu „Vör“ (bls. 9) sem undirbýr komu eiginmanns síns af sjónum. „Mansöngur útivinnandi húsmóður“ (bls. 18-19) hefur undirtitilinn „Gömul tugga“, og má af því ráða að Vilborg nálgist viðfangsefnið með nokkurri gamansemi, þótt boðskapurinn sé alvarlegur. Ljóðið fjallar um húsmóður sem er svo upptekin einn morguninn að pakka niður fyrir manninn sinn sem er að fara til útlanda og koma börnum sínum í skólann og leikskólann að hún mætir sjálf of seint í vinnuna og fær skammir fyrir: „Verslunarstjórinn hneykslaður: / Þetta kvenfólk / það hefur ekkert tímaskyn“. Kona þessi á sér þjáningarsystur í eldra ljóði eftir Vilborgu, „Óði til mánans“ sem birtist í safnritinu Ljóð árið 1981. Þar talar kona sem ætlar að steyta skrúbbinn sinn framan í mánann, því þangað hefur engin kona verið send.

Vísunarheimar ljóða Vilborgar eru fjölbreyttir í þessari bók, líkt og fyrr. Íslensk myndlist er kveikjan að tveimur ljóðanna: Ljóðið „Landslagsmynd“ (bls. 27) er ort um eitthvert af Heklumálverkum Ásgríms Jónssonar og „Snót“ (bls. 31) er um höggmynd eftir Sigurjón Ólafsson. Í þeim báðum er listinni ljáð líf og raunverulegt yfirbragð, hrísla bærist við Heklurætur og höggmyndastúlka Sigurjóns horfir kankvís á skapara sinn. Ljóðið „Viðbótarsálmur (ónúmeraður)“ er ort út frá lokalínunum í „Passíusálmi nr. 51“ eftir Stein Steinarr, og hjá Vilborgu er það stúlkan með sægrænu augun sem talar. Trúarlegur undirstraumur bókarinnar verður breiðari í seinni hluta bókarinnar. Í ljóðinu „Þrír englar“ (bls. 36-7) heldur Vilborg áfram hugsun sem verður vart í bókinni Klukkan í turninum frá 1992, ellin hefur knúið dyra og dauðinn stiginn inn á athyglissviðið. Hjá Vilborgu er samt engan dauðabeyg að finna, endan kvíða heldur aðeins sátt við lífið og almættið.

Bókinni lýkur á þremur þýddum ljóðum eftir Sylviu Plath sem stinga nokkuð í stúf við heildaryfirbragð verksins. Tónn þeirra er myrkari og örvæntingarfyllri, og orðfarið heldur þæfðara. Þessi ljóð skipa sér ekki í röð bestu ljóðaþýðinga Vilborgar, einkum vegna þess hvað þau eru miklu þyngri í vöfum en frumtextinn, atkvæðin fleiri og línurnar lengri. Sú leikandi en svarta rómantík sem er aðaleinkenni Sylviu Plath skilar sér ekki fullkomlega, og skrifast það kannski á nákvæmnina sem hér verður Vilborgu fjötur um fót – þýðingarnar eru líklega of orðréttar til þess að geta staðið sjálfar.

Kennslukonan Vilborg og skáldkonan Vilborg eiga örugglega margt sameiginlegt. Samt birtist Vilborg Dagbjartsdóttir sjaldan sem kennslukona í ljóðum sínum, hún eftirlætur lesandanum að móta þá sýn sem hún tendrar og fer bil beggja á milli ímyndunar og staðreynda. Fiskar hafa enga rödd er vandvirknisleg og falleg bók, angurvær en full af spennu. Vonandi verður ekki langt að bíða næstu bókar frá Vilborgu Dagbjartsdóttur.
..
>> Lesa

Greinasafn

september 2004 október 2004 nóvember 2004 desember 2004 janúar 2005 febrúar 2005 mars 2005 apríl 2005