sunnudagur, mars 27

Á venjulegum sunnudegi

HöfundurDýragarðssagan
Höfundur: Edward Albee
Leikstjóri: Halldór Magnússon
Leikfélag Hafnarfjarðar


Smáborgaralegur maður um fertugt, klæddur í brúnar buxur og ullarjakka, situr á bekk í Central Park á sunnudagseftirmiðdegi og les bók. Hann er truflaður við lesturinn þegar kæruleysislegur og nokkuð óheflaður náungi gengur upp að honum og segist vera að koma úr dýragarðinum. Aðkomumaðurinn byrjar að spyrja manninn á bekknum óþægilegra spurninga um hjónaband hans og börn, hvað hann hafi í tekjur og hvar hann eigi heima. Hann reynir að vera kurteis en er óneitanlega nokkuð brugðið við þessa undarlegu uppákomu.

Svona hefst leikritið Dýragarðssagan, fyrsta leikrit Edwards Albee frá 1959. Verkið er einfalt í sniðum, stuttur einþáttungur fyrir tvo leikara. Leikfélag Hafnarfjarðar setti þetta leikrit upp á dögunum í Lækjarskóla, og var þar um að ræða fimmtu og síðustu sýningu félagsins í seríu klassískra nútímaverka. Áður höfðu verið sýnd verkin Hamskiptin (Kafka), Beisk tár Petru von Kant (Fassbinder), Að sjá til þín maður (Kroetz) og Birdy (Wallace). Þessi verk eiga sameiginlegt að þau henta hinu nýja sviði leikfélagsins býsna vel, að Birdy kannski undanskildu sem er stærra í sniðum, þótt sú aðlögun hafi heppnast vel.

Í Dýragarðssögunni leikur Edward Albee sér að mörkum hversdagsleikans og fáránleikans og virðist komast að þeirri niðurstöðu að þau séu kannski ekki eins skýr og margir telja – stundum er það hversdagsleikinn sem er fáránlegastur af öllu. Leikritið gaf tóninn fyrir síðari verk Albees sem sum hver skarta mjög óvenjulegum persónum og aðstæðum, enda ekki að ósekju sem Albee hefur verið markaður bás undir merki fáránleikaleikhússins, eða „Theater of the Absurd“. Dýragarðssagan er stúdía á viðbrögðum „venjulegs“ borgara við óhugnanlegri röskun hversdagslífsins, hugleiðing um hvað það sé að vera öðruvísi, en umfram allt saga af manneskjum í óskiljanlegum heimi.

Í uppfærslu Leikfélags Hafnarfjarðar kemst þessi kjarni verksins ekki nógu vel til skila, þótt skemmtanagildið hafi verið talsvert. Munaði þar mestu um passívara hlutverkið, Peter, hlédræga bókabéusinn á bekknum sem var túlkaður afar skemmtilega af Gunnari Birni Guðmundssyni. Við að horfa á Gunnar leika kemst maður að því að hlutverk Peters er stærra en það virðist vera þegar leikritið er lesið. Hann skilaði vandræðagangnum og vaxandi hræðslunni þannig að áhorfendur gátu ekki annað en hrifist – oft byrjaði einhver í salnum að flissa af mjög litlu tilefni og það smitaði út frá sér. Það var erfitt annað en að finna til með þessum hrekklausa vesaling, sem lætur þó ekki bjóða sér hvað sem er og ákveður að verja bekkinn sinn áður en sunnudagurinn er úti. Hlutverk aðkomumannsins, Jerrys, er miklu erfiðara, þar er meiri texti og skapgerðarsveiflurnar stór þáttur. Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson reyndist ekki nógu burðugur leikari til að túlka brjálæðislegt tal Jerrys – til þess var röddin of eintóna, þagnirnar of fáar og ákafinn ekki nógu mikill. Lokamínúturnar voru þó sterkasti leikræni hluti sýningarinnar, eftir að Peter fær nóg af yfirganginum. Þá fyrst var sem samleikurinn heppnaðist fyrir alvöru. Það er bara ekki öllum leikurum gefið að tala út í tómið svo lengi.

Leikmyndin var flott, þótt kannski hafi hún verið dálítið aðþrengd. Í leikritum Albees er grunntilfinningin oft sú að persónurnar séu lítið fólk í stóru tómi. Með marglitum snúrum umhverfis sviðið skapaðist þó viss þrívíð dýpt fyrir augað, sem getur e.t.v. virkað á líkan hátt. Helsti ókostur sýningarinnar var hins vegar þýðingin, sem var langt í frá nægilega góð. Í frumtextanum er texinn fyrst og fremst talmálskenndur, en í þýðingunni áberandi stirður og þunglamalegur. Heildartilfinningin í íslenska textanum var ekki eins mikil og í frumtextanum, ekki síst vegna þess að endurtekningarnar eða leiðarstefin í texta Albees (sagan af því sem gerðist í dýragarðinum, börn Peters og fjölskyldulíf hans) fletjast einhvern veginn út.

Ekki hefur enn verið gefið upp hvað Leikfélag Hafnarfjarðar tekur sér fyrir hendur næst. Með Dýragarðssögunni er lokað hring sýninga sem voru á heildina litið mjög skemmtilegt innlegg í íslenskt leikhús, þótt þær hafi verið heldur brokkgengar. Við fáum aldrei of mikið af klassísku 20. aldar leikhúsi eins og staðan er núna, og því við hæfi að enda á því að skora á önnur áhugaleikfélög að taka Hafnfirðingana sér til fyrirmyndar í efnisvali.