fimmtudagur, febrúar 10

Barthes: Camera Lucida

HöfundurLjósmyndun er umdeilt listform, og vilja sumir ekki einu sinni kalla hana listform. Hvað skilur að fjölskyldumyndirnar og glamúrmyndir í tímaritum? Ef til vill aðeins tækniatriði. Mörkin þar sem ljósmynd verður listræn eru óljós í besta falli. Hér eru þó ýmsir færir ljósmyndarar að verki og lifir ljósmyndun á Íslandi góðu lífi, eins og sést meðal annars á vefsíðunni ljosmyndakeppni.is sem opnaði síðastliðinn desember. Auk þess er yfirleitt einhver ljósmyndabók í flokki "jólabókanna", þetta árið Íslendingar eftir Sigurgeir Sigurjónsson og Unni Jökulsdóttur sem var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Þó vill svo til að flestar þessar bækur eru annaðhvort samansafn af ljósmyndum, eða einskonar "manúall" sem inniheldur tæknilegar upplýsingar frekar en raunverulega gagnrýni. Það kitlaði því hugann að komast að því að fræðimaðurinn Roland Barthes hefði skrifað um þetta efni í bók sinni Camera Lucida, enda gaf það mér tækifæri til að sameina tvö mín helstu áhugamál. Ritið stóð svo sannarlega undir væntinum, því ljósmyndun var þar greind á bókmenntafræðilegum forsendum.

Barthes tekur ekki að sér að fjalla um tæknileg atriði, eða gagnrýna einstakar ljósmyndir útfrá viðteknum reglum, heldur fjallar hann frekar um ljósmyndun sem fyrirbæri, hvaða gildi hefur ljósmyndin sjálf og hvaða áhrif hefur hún ein og sér, enda segir hann að við sjáum aldrei ljósmyndina sjálfa, hún er ósýnilegur spegill hlutanna sem hún sýnir. Ljósmyndin, segir hann, er eins og tákn í táknkerfi sem vísar alltaf út fyrir sjálft sig. Ljósmyndin er mynd af einhverju og list hennar felst í því sem hún sýnir, ólíkt til dæmis málverkum þar sem listin felst enga síður í listaverkinu sjálfu sem er sérstakur hlutur óháður myndefninu.

Hvaða hliðstæðu hefur ljósmyndin við upprunalegt málverk? Negatívuna? Ljósmyndin er listform okkar tíma, listform sem má fjöldaframleiða, þar sem erfitt er að merkja sérstakan uppruna (og þó hefur myndast ákveðið listasnobb fyrir "fyrstu prentun" ljósmynda, sem gefur þeim meira gildi en seinni prentunum). Hins vegar hefur lítið verið skrifað um einhverskonar teoríu ljósmyndunnar, þrátt fyrir hin gífurlegu áhrif sem hún hefur á daglegt líf okkar. Ljósmyndir eru alls staðar.

Barthes varpar fram áhugaverðum spurningum, gefur nýja og dýpri sýn á ljósmyndun og gildi hennar, og vil ég því mæla með Camera Lucida við hvern þann sem hefur áhuga á ljósmyndun ljósmyndunar vegna.