þriðjudagur, mars 15

Ultra-la-la

HöfundurÉg var staddur í Mexíkó fyrir nokkrum árum síðan og gerði þar mikla athugun sem ég mun koma að eftir stuttan inngang á þessum pistli. Þó að við sneiðum framhjá kaktusum, tequila, fjórhliðuðum píramídum, og litskrúðugum markvörðum þá er Mexíkó afar áhugavert land sem gaman er að bera saman við okkar eigið. Að sjálfsögðu er rétt að taka það fram að það finnast í raun engar afgerandi forsendur fyrir því að bera samfélagshætti Mexíkó saman við Norðurlandaþjóð eins og Ísland enda eru íbúarnir miklu fleiri og atvinnuvegir aðrir. Þrátt fyrir það hef ég alltaf leyft mér að staldra við ákveðna þætti í mexíkósku samfélagi til að glöggva mig betur á því íslenska.

Mexíkó hefur aldrei haft velferðarkerfi á borð við hið vestur-evrópska. Sterkt miðstýrt ríkisvald hefur þó alltaf verið til staðar, en það hefur frekar verið fólki til bölvunar, valdið spillingu og óreiðu. Fólk er skattlagt en í stað þess að dreifa hinum sameiginlega sjóði í sjúkrahús og menntastofnanir eru keypt vopn eða byggðar glæsilegar forsetahallir til að styrkja virðinguna fyrir ríkinu enn frekar. Þetta er sögð saga og ríkjandi vandamál í meiri hluta lýðvelda heimsins. Það sem okkur finnst sjálfsagt á Íslandi þurfa menn að berjast fyrir annars staðar í heiminum. Öll þjónusta er einkavædd og stríðið er hart. Það kann því engan að undra að frjálshyggjan í Mexíkó hefur ekki yfir sér neinn glamúr-brag. Þar finnast hvergi nýútskrifaðir viðskiptafræðingar í De Fursac jakkafötum sem prísa frjálsan markað enda eru allir of uppteknir við að verða ekki undir og frjálshyggjan löngu búinn að snúast í andhverfu sína. Mexíkóar búa í samfélagi þar sem ekkert er öruggt. Þar sem fólk byrjar að safna fyrir útför sinni fljótlega eftir fermingu og þar sem allir hlutir, hversu sjálfsagðir sem þeir þykja hjá okkur, eru orsakir deilna og stríðs.

Þessi inngangur var nauðsynlegur til að ég geti með einhverju móti útskýrt þá einkennilegu hugsun sem skaust upp í huga mér þegar ég komst að því mér til mikillar furðu að mjólk, hvíti drykkurinn úr beljunum, heitir ekki mjólk eða leche í Mexíkó heldur Ultra-la-la. Einhvern tímann, ég veit ekki hvenær eða hvernig, hefur einhverjum mjólkurframleiðandanum ekki þótt nógu söluvænlegt að selja mjólk undir sínu náttúrulega nafni og byrjað að kalla hana eitthvað annað. Ég veit ekki hvað það var. Kannski var það Leche-Plus eða Super-leche eða eitthvað álíka tilgangslaust. Þessi nýja ofur-mjólk hefur þá byrjað að seljast mun betur heldur en hin venjulega mjólk og það hefur fengið einhvern samkeppnisaðilan til að toppa ofurmjólkina og hann hefur þá kannski hent fram nafninu Super-lech’-plus. Þannig hefur þetta algerlega tilgangslausa stríð haldið áfram og það þarf enginn að segja mér að því sé lokið. Árið 2001 hét mjólk í Mexíkó Ultra-la-la. Afhverju? Jú, útaf því að það vill að sjálfsögðu engin kaupa mjólk ef hann getur keypt hvítan últrasafa á sama verði. Og í hvernig umbúðum skyldi þessi safi svo vera? Glærum ómerktum glerflöskum? Nei, neon-bleikum glans stútum með boogie-nights letri. Að sjálfsögðu.

Á Íslandi hefur mjólkin einnig verið í smá krísu undanfarin ár. Virtir læknar segja að betra sé að þamba ólívuolíu en að húða á sér innyflin með gerilsneyddri kálfafæðu. Slíkt hjal er bara tíska eins og allt annað. Mjólkin breytist ekkert, hún er alltaf jafn hvít og lyktarlaus, hún er sumum holl en öðrum ekki, og óþarfi að koma með öfgafullar allt-eða-ekki yfirlýsingar í því sambandi. Ég sé enga ástæðu til að deila út af mjólk. Ef menn ætla að deila yfir einhverjum vökva ætti það frekar að vera olía eða eitthvað sem meiri peningalykt er af. Samt, útaf okkar heimskulega sjálfmiðaða samkeppnisrúnki, þurfum við að gera mjólk að einhverju rosalegu máli. Svar mjólkurframleiðanda við tískuþvaðri læknanna er að gera mjólk að einhverjum sex-safa. Milljónum hefur verið eytt í að búa til sjónvarpsauglýsingar þar sem einhverjar retro-jazzballet-stíliseraðar thunder-píkur ropa mjólkinni út úr sér undir dunandi pornó-bassa. Og hvert er markmiðið með þessum auglýsingum? Jú, að breyta ímynd mjólkur. Það er alveg ómögulegt að fólk sjái fyrir sér einhverjar uppþornaðar mjaltakerlingar þegar mjólk ber á góma. Besta leiðin er náttúrulega að hætta að nota orðið mjólk enda hljómar það eins og einhver kúaafurð. Ultra-la-la kemur sterklega til greina en það er víst frátekið. Mjólkin skal heita Muu. Og þið þurfið engar áhyggjur að hafa, það er hægt að fá létt- og ný-muu og bráðum verður eflaust hægt að skola kornflexinu niður með Ultra-muu eða LGG-muu-muu-plús. Og já já, ég næ alveg tengingunni, kýrin segir “muu”, en samt köllum við þorskalýsi ekki ekki neitt. Náðuð þið þessum? Tvöföld neitun og mikill hraði. Úpps, aðeins of sleipur.

Eða er ég kannski bara svona gamaldags? Er ég kannski mesti hálfvitinn af öllum? Er ég maðurinn sem rembist eins og rjúpan við staurinn við að predika yfir fólki að hætta að deila um sjálfsagða hluti en geri svo ekki annað en að hella bensíni á bálið? Ég tel mikilvægt að varpa þessu fram. Því þótt ótrúlegt megi virðast þá er ég ekki enn eitt kaldhæðnisfíflið sem tel nauðsynlegt að snúa út úr öllu sem gert er til að kreista fram nokkur ha-ha. Ég hef verulegar áhyggjur af raunveruleikaskyni nútímamannsins og ég vona að enginn lesandi sé svo heimskur að halda að þessi mjólkurpistill sé upphaf og endir málsins. Hér er aðeins um lítið dæmi að ræða. Við lifum í heimi sem er svo brenglaður að það veldur hausverki, ef ekki þunglyndi, að reyna að horfast í augu við hann. Afhverju má mjólk ekki bara vera mjólk? Afhverju þarf að láta fólk fá standpínu til að það kaupi sér tannbursta? Við nútímamennirnir glottum oft yfir heimsku horfinna kynslóða. Við hlæjum að tvöföldu siðgæði viktoríutímans eða stéttaskiptingu miðalda en getum ekki fengist til að horfast í augu við heimsku dagsins í dag. Öll okkar orka fer í gagnkvæmar ögranir og sýndarmennsku. Allt okkar kerfi byggist á frjálsu vali en hvað stoðar það þegar valið stendur á milli muu eða mjólkur? Þegar betur er að gáð veljum við aldrei neitt. Olíufélögin eru bara þrjú mismundandi lógó, símafélögin hafa símanúmer sem byrja á mismunandi tölustöfum og tryggingafélögin eru staðsett á mismunandi stöðum í bænum. Það er kominn tími til að Hamlet fái sér stóran spegil og líti í hann með Harry Klein svip og segi: ,,Check dich Mann”. Eða er það ekki svona sem maður endar póst-módernískar greinar? Hvað segið þið sérfræðingarnir? Of flókið? Ýkt óheppnir.