laugardagur, febrúar 19

Hundshræ og bækur um dautt fólk: Umskipti Davids Lurie í Vansæmd Coetzees

Höfundur Í Vansæmd (1999) eftir J. M. Coetzee er sögð saga Davids Lurie, háskólaprófessors sem fæst við kennslu en leggur mestan metnað sinn í ritun fræðibóka um rómantísk skáld og rithöfunda. David er hámenntaður í evrópskri menningu og sækir flestar viðmiðanir sínar í sígildar bókmenntir. Hann er maður tungumáls og rökhugsunar, er fluglæs á ítölsku, frönsku og þýsku, og getur fært sannfærandi rök fyrir flestum skoðunum sínum. Í Vansæmd er lýst atburðum sem fá David Lurie til þess að endurskoða hugsunarhætti sína og mat á veruleikanum. Í stuttu máli sagt er Vansæmd sagan um það hvernig David Lurie byrjar að vantreysta eigin dómgreind, menntun og rökhugsun, en umfram allt tungumáli.

Rödd sögumannsins í Vansæmd dregur hvarvetna dám af menntun Luries og allmargar lýsingar bókarinnar eru sóttar óbeint í hugarheim hans. Oft eru fyrirbæri nefnd á fleiri en einu tungumáli, eins og til þess að ganga úr skugga um að merkingin komist til skila en þó ekki síður til að endurspegla djúptæka menntun aðalpersónunnar. Oft eru notaðar viðlíkingar úr klassískri goðafræði, eða spunnar inn vísanir í rómantísk skáld; Goethe, Byron, Flaubert. Snemma í bókinni er lýst þeirri skoðun Luries að tungumál eigi rætur sínar í söng: „…að hans mati er uppruna máls að leita í söng, og uppruna söngs í þörfinni fyrir að fylla hina ofvöxnu og tómlegu mannssál af hljóðum.“ (7) Þessi skoðun rímar vel við atriðið í þriðja kafla þar sem Lurie beitir fagurgala orða sinna og lærdómstali í kennslustundinni í þeirri von að heilla Melanie, eins og fugl sem syngur til að heilla hitt kynið.

En tungumálið er líka aðferð fólks (og þá ekki síst karlmanna) við að ná til síðari kynslóða. David Lurie er með óperu um Byron í bígerð vegna þess að hann „langar til að skilja eitthvað eftir sig.“ (61) Þegar Lurie lýsir verkinu sem afkomanda sínum skín í gegn sú óorðaða skoðun hans að slíkir afkomendur standi honum nær heldur en raunveruleg dóttir hans. Í þessari afstöðu er rökvilla hans fólgin, að mati söguhöfundar. David Lurie treystir um of á tungumál og menningarafurðir. Hann á í erfiðleikum með að horfast í augu við lífið eins og það er í raun og veru. Hann tekur rökhugsun fram yfir tilfinningar og stendur berskjaldaður þegar aðstæður snúast honum í óhag. Samskipti hans við annað fólk eru í ólestri og orðin ein duga skammt til að fást við erfiðleika og mótlæti.

Strax í 6. kafla kemur þessi staðreynd í ljós. Þegar Lurie fer í yfirheyrslu hjá rannsóknarnefndinni reynist ekki nóg fyrir hann að játa sekt sína. Iðrun hans er dregin í efa þar eð hún er „einungis“ sett fram í orðum. Lurie setur þetta í beint samhengi við tíðarandann: „Þau vildu hneyksli: harmagrát, iðrun, helst tár. Sjónvarpsþátt, satt að segja. Ég vildi ekki gera þeim það til geðs.“ (64–5) Vanmáttur tungumálsins er dreginn enn skýrar fram í ellefta kafla, þegar árásin á sér stað. Tungumálakunnátta Luries kemur að engu gagni við slíkar aðstæður. Hann getur aðeins brugðist við með „formlausum öskrum sem byggja ekki á neinum orðum, aðeins ótta.“ (94) Tilburðir hans við að hugga dóttur sína eftir nauðgunina skila engum árangri. Hann er of fastur í tungumálinu til þess að ná til hennar.

Þegar fram í sækir færast efasemdirnar um gildi tungumálsins yfir á gjörvalla siðmenninguna. David Lurie verður æ fráhverfari vissum sviðum siðmenningar og þeim höftum sem hún setur á náttúruna. Sagan um hundinn sem var barinn fyrir að eltast við tíkur er skýrt dæmi um þetta: Lurie samsamar sjálfan sig hundinum. Viðhorf hans til dýra í sögunni er táknrænt fyrir þá breytingu sem á honum verður. Þegar hann sér lömbin hans Petrusar sem bíða slátrunar fyllist hann óhug og getur ekki hugsað sér að mæta í veisluna þar sem kjötið af þeim verður á boðstólnum. Hann stendur þá enn of föstum fótum í borgaralegri blindni gagnvart lögmálum náttúrunnar – hann getur vel hugsað sér að borða kjöt sem hann kaupir í búð en tilhugsunin um líf fórnardýranna og slátrunina sjálfa er honum of þungbær. Eftir að hann byrjar að vinna hjá Bev Shaw byrjar hin stranga rökhugsun að þoka smám saman. Hann fer að leyfa hundunum að sleikja á sér hendurnar áður en þeir eru aflífaðir, en ekki vegna þess að það virðist skynsamlegt. Samkennd hans með hundunum ræður þar mestu. Að nokkrum tíma liðnum fær hann lífsfyllingu sína með því að eyða hundshræjum. Maðurinn sem athafnaði sig áður í fílabeinsturni fræða sinna og skeytti lítið um aðra en sjálfa sig vinnur nú verkin sem eru of ómerkileg til þess að nokkrum öðrum detti í hug að vinna þau.

Þannig lýkur sögunni Vansæmd. David Lurie á sér þá ósk heitasta að geta orðið einfaldari en hann er. Hann er hættur að skrifa „bækur um dautt fólk“ (156) og er m.a.s. orðinn áhugalaus um Byron–óperuna sína. Friðþæging syndarans er fólgin í athvarfi náttúru, málleysis og tilfinninga. „Hinni ofvöxnu og tómlegu mannssál“ er hollara að vera fyllt af annars konar hljóðum en rökréttum orðum og tali.