miðvikudagur, mars 9

Fyllt í eyðurnar

HöfundurÞórarinn Eldjárn: Baróninn
Vaka-Helgafell, 2004


Halldór Laxness sagði einhverju sinni í viðtali að ef sér hafi tekist vel upp með Gerplu hafi það verið vegna þess að hún er byggð á bókmenntaverki sem er ákaflega misjafnt í stíl og samsetningu, og átti þar við Fóstbræðra sögu. Þessu grundvallaratriði hafi t.d. Jóhann Sigurjónsson flaskað á þegar hann skrifaði leikritið Mörð Valgarðsson, sem byggt er á Njálu. Njála er einfaldlega of mikið listaverk til þess að hægt sé að bæta neinu við hana, svo það sé ekki nema von að Jóhanni Sigurjónssyni hafi fatast í það skipti.

Þessi orð koma í hugann þegar litið er til söguefnisins sem Þórarinn Eldjárn hefur valið sér í nýjustu skáldsögu sína, Baróninn. Sagan fjallar um fransk-bandarískan barón, Charles Gauldrée Boilleau, sem fluttist til Íslands 1898 og hóf hér umsvifamikinn atvinnurekstur, reisti stórbýli í Borgarfirði og stærsta fjós landsins í Reykjavík. Hann var tónskáld og sellóleikari og gerði sitt til að kynna Íslendinga fyrir borgaralegri, klassískri tónlist sem þá var alls óþekkt í landinu. Og víst er um það að í sögu barónsins eru margar gloppur, hann var dularfullur maður sem fáir vissu hvaðan kom eða hvað gekk til. Heimildir um lífshlaup hans eru æði slitrukenndar, blaðagreinar, bréf og bókarkaflar á stangli. Rými Þórarins til skrifanna er því mikið, og með bók sinni hefur honum tekist að mynda sterka og sannfærandi heild úr brotunum, listaverk þar sem mætast fjölmargir þræðir úr Íslands- og mannkynssögu 19. aldar. Í síðustu köflum má segja að sagnfræðin nái yfirhöndinni yfir skáldskapnum þar sem raunverulegar blaðafréttir og bréfaskrif eru birt óbrjáluð.

Baróninn byrjar með hvelli – í bókstaflegum skilningi þess orðs – á því að baróninn bindur enda á líf sitt í lest á Englandi. Hann er þá eignalaus og Íslandsævintýrið er að baki. Athygli lesandans er þannig tekin tangarhaldi strax á fjórðu blaðsíðu, forvitnin um orsakir þessarar miklu óhamingju rekur hann áfram við lesturinn. Síðan er sagan rakin jafnt og stígandi frá því að baróninn kemur fyrst til Íslands.

Frásögnin er á þremur sviðum. Meginhluti textans er þriðjupersónufrásögn af veru barónsins hér á landi og er hver kafli dagsettur. Sjónarhornið miðast að miklu leyti við Íslendingana sem eru fullir spurninga um takmark og tilgang þessa óvenjulega heimsmanns. „Kjaftaklöppin“ á Skólavörðuholti, þar sem alþýða manna kemur saman til að slúðra, verður að miðju þessara vangaveltna. Í öðru lagi er sagan sögð í bréfum bræðra barónsins, Bentons og Philips, til bróður síns á Íslandi. Með þessum bréfum er skapað mótvægi við draumkennt vafstur barónsins, þeim fylgir jafnan peningasending frá bræðrunum sem baróninn hefur óskað eftir til að geta haldið áfram að fjármagna ævintýri sín, en tónninn í bréfunum einkennist af miklum efasemdum um þessi umsvif. Í þriðja lagi er um að ræða dagbókarfærslur Philips Boilleau, yngsta bróðurins, skrifaðar rúmum áratug eftir andlát barónsins. Hann skoðar atburðina úr fjarlægð og tilgreinir líka ýmsar upplýsingar um æsku þeirra bræðra, ætt og uppruna. Philip er bitur í garð íslensku þjóðarinnar sem hann telur að hafi gert sér bróður sinn að féþúfu og stuðlað þannig að falli hans. Í dagbókarköflunum kemur í ljós hversu bein tenging baróninn var við mörg stórmenni mannkynssögunnar á 19. öld, t.a.m. Teddy Roosevelt Bandaríkjaforseta, Napóleon þriðja Frakkakeisara og John Charles Frémont, sem var fyrsti ríkisstjóri Kaliforníu.

Stíll sögunnar er laus við öfgar og glæsileiki hennar er að miklu leyti falinn í nokkrum lykilsenum sem eru táknrænar án þess að vera tilgerðarlegar, og varpa ljósi á persónur og aðstæður á afar hugvitssamlegan hátt. Í einu atriðinu er t.a.m. greint frá því þegar baróninn leikur svítu eftir Bach á sellóið á sama augnabliki og barn fæðist á næstu hæð fyrir ofan. Þetta barn er Engel Lund sem síðar varð fræg söngkona. Eins er um fyrstu endurminningu Philips frá því þegar þeir bræðurnir eru eins og tveggja ára. Þeir eru að leika sér saman þegar hestur fælist rétt hjá þeim, hleypur í átt til þeirra og stekkur yfir þá. Philip, sem er eins árs, skríkir af kæti yfir þessu atviki, en Charles, sem er tveggja og hálfs, verður frávita af hræðslu. Philip verður því að passa hann, og þetta atvik gefur tóninn fyrir samskipti þeirra allar götur síðan.

Boilleau barón er maður stórra þversagna, í senn fulltrúi hinnar gömlu Evrópu og hinnar nýju Ameríku, og hefur aldrei fest rætur á neinum stað um ævina. Hann er breyskur en trúir á drauma sína, og skapgerð hans er eins og öldugangur: Stundum geysist hann fram í framkvæmdagleði en öðrum stundum er hann fullur sjálfsvorkunnar. Þótt hann sé afar mistækur kaupsýslumaður er hann einlægur og hæfileikaríkur tónlistarmaður. Í dagbókarskrifum Philips svífur alltaf yfir vötnunum spurningin um hvort Charles hefði ekki farnast betur ef hann hefði aldrei til Íslands komið og einbeitt sér frekar að frama innan tónlistarinnar.

Baróninn er saga um brostnar vonir, hún hefst um vor og lýkur um haust. Þrátt fyrir það leiftrar allt um leið af þeirri fínlegu gamansemi sem er einkenni Þórarins. Hún felst ekki síst í sjálfsvísun frásagnarinnar eins og hún birtist í dagbókarfærslum Philips sem talar um að örlög bróður síns séu skáldlegri en nokkur veruleiki, og hittir þar naglann á höfuðið. Hann harmar ósegjanlega að öll bréf sín til bróður síns skuli hafa endað í dánarbúi hans uppi á Íslandi þar sem þau bíða þess eins að verða „rithöfundum og lygurum“ að bráð. Það er óhætt að fullyrða að fáir verði sviknir af því að lesa Baróninn og upplifa þær tvíbendu tilfinningar sem kvikna við lesturinn. Því þótt sagan sé harmræn kemst maður ekki hjá því að hrífast og gleðjast yfir þessari sagnfræði Þórarins Eldjárns, blandinni dásamlegri lygi.