sunnudagur, febrúar 20

Á slóðum Jóns Sigurðssonar

Höfundur Ritið Á slóðum Jóns Sigurðssonar eftir Lúðvík Kristjánsson verður að teljast eitt af þeim höfuðverkum sem samin hafa verið um ævi og störf sjálfstæðishetju Íslendinga, Jóns Sigurðssonar, forseta. Bókin skiptist í þrjá meginkafla eða bókarhluta og undir þeim eru fjölmargir undirkaflar. Segja má að bókin sé í raun þrjár aðskildar, en þó eðli málsins samkvæmt nátengdar, frásagnir. Um það segir höfundurinn: „Þetta rit, sem ég hef kosið að nefna „Á slóðum Jóns Sigurðssonar“, er ekki samfelld saga, heldur þættir með auðsæjum tengslum.“

Fyrsti kaflinn fjallar um þjónustu Jóns við Íslendinga og íslenzka hagsmuni, þá yfirleitt meira eða minna launalaust. Kaflinn fjallar í fyrstu einkum um störf Jóns fyrir Bókmenntafélagið, í annan stað um skrif hans og uppfræðslustörf, þá einkum með útgáfu Nýrra félagsrita, og að lokum um fyrirgreiðsluþjónustu Jóns þar sem hann stóð í alls kyns reddingum í Kaupmannahöfn fyrir fólk heima á Íslandi.

Í öðrum kaflanum er fjallað um það hvernig efnahagur Jóns var upp og ofan og hvernig honum gekk að afla sér tekna þrátt fyrir að hann sjálfur liti svo á að hentugast væri fyrir hann að binda ekki hendur sínar of við föst embætti eða störf. Niðurstaða kaflans er sú að þegar tvísýnast hafi verið um tekjuöflun Jóns hafi það verið Danir sem hafi rétt honum hjálparhönd, en Íslendingar hafi að sama skapi brugðizt honum þegar honum reið mest á.

Þriðji kaflinn segir svo frá samskiptum Jóns við Englendinginn George Powell sem fékk Jóni mikið fé fyrir að rita sögu Íslands sem aldrei varð þó af. Þessi síðasti hluti bókarinnar er einna lengstur af þessum þremur þrátt fyrir að minnstar heimildir séu um þau mál en viðfangsefni fyrri kaflanna. Um það segir Lúðvík í eftirmála bókarinnar:
Oft getur það orðið áhorfsmál hverju á að sleppa, þegar heimildir eru svo fyrirferðarmiklar, að þess reynist ekki kostur að nýta þær allar. Nefni ég í þessu sambandi þáttinn „Mörg var bón landans“. Þar er af svo mörgu að taka, að þessi þáttur gat ekki rúmað nema brot af því efni. En ég hygg, að þótt ég hefði valið einhver önnur dæmi, þá hefði þverskurðurinn orðið svipaður og niðurstaðan sú sama. – Nokkru öðru máli gegnir um viðskipti Jóns Sigurðssonar og George Powells. Þar eru heimildir alltakmarkaðar, og að mínu viti gat ekki annað komið til mála en nýta allt úr þeim, er með einhverjum hætti mátti skýra þau viðskipti og gildi þeirra fyrir Jón. En þá varð heldur ekki af sér keypt, að úr yrði alllangt mál.
Um ritun bókarinnar
Bókin er að langmestu leyti byggð upp með þeim hætti að Lúðvík notar bréfaskriftir Jóns og samtíðarmenn hans til að byggja upp eins konar samtal á milli þeirra sem hann tjáir sig sjálfur mismikið um inn á milli. Um það segir hann í upphafi bókarinnar:
Ég hef kosið þann hátt í þessu riti að láta Jón Sigurðsson og samtíðarmenn hans ræðast við, að svo miklu leyti, sem því verður við komið, látið þá ótruflaða af minni hálfu beita sínu tungutaki og koma til dyra í sínum klæðnaði, alveg án tillits til þess, hversu skrautlegur hann er.
Lúðvíki er greinilega talsvert umhugað, bæði í inngangi bókarinnar (fyrsta undirkaflanum) og í eftirmála hennar, að fjalla um hlutleysisskyldu fræðimannsins og meðferð hans á heimildum almennt. Fer mestur hluti þessara beggja bókarhluta í vangaveltur um þá hluti. Þannig segir hann t.a.m. í inngangskaflanum:
Mat sagnfræðingsins á því, hverju á að kasta og hvað á að nýta, getur verið ærið frábrugðið og sama heimildargagn orðið að forskrift að fleiri en einni niðurstöðu í sögulegri túlkun þeirra. Þess vegna er það einstætt, að sá kostur hlýtur jafnan að verða beztur, ef hann er unnt að nýta, að láta heimildirnar sjálfar tala. Engan veginn girðir það fyrir, að sagnritari geti dregið af þeim sínar ályktanir og birt þær í riti sínu, en með þessari aðferð veitir hann öllum, sem verk hans lesa, færi á að mynda sér sína skoðun grundvallaða á málsskjölum heimildanna.
Hliðstæða umfjöllun er að finna í eftirmálanum:
Engan veginn lá beint við, hvernig hagnýta skyldi þessi aðdráttarföng. Ofan á varð að takmarka not þeirra að sinni við þau viðfangsefni, sem birta ókunn sannindi eða leiðrétta það, sem áður kynni að vera missagt.
Það virðist því helzt sem Lúðvík líti svo á að það sé ekki hlutverk sagnfræðingsins að leggja mikla dóma á þær heimildir sem fyrir liggi heldur fyrst og fremst að koma þeim á framfæri við almenning sem síðan sé að mestu eftirlátið að mynda sér skoðun á umfjöllunarefninu.

Afstaða höfundar til viðfangsefnisins
Ljóst verður að telja að afstaða Lúðvíks til Jóns Sigurðssonar sé afar jákvæð þó hann reyni með mjög áberandi hætti að fjalla um málið á fræðilegan hátt og láta ekki tilfinningar eða annað slíkt birgja sér sýn. Þannig segir hann t.a.m.:
Nú er það alkunna, að menn fá svo góðan þokka á einu eða öðru, mönnum og málum, ýmist af persónulegum kynnum eða afspurn, að þeir fá glýju í augun, villast úr götu, missa af stefnumiðum og vilja jafnvel ekki við villuna kannast, þótt þeim sé á hana bent.
Það er því nokkuð ljóst að Lúðvík leggur sig fram við það að skyggnast framhjá þjóðhetjunni Jóni Sigurðssyni og reyna að fjalla eingöngu um hann út frá þeim heimildunm sem fyrir liggja. Hvernig honum tekst til er annað mál. Að mínu mati tekst honum það þó að mörgu leyti vel, ekki sízt með það í huga að bókin er rituð aðeins um 15 árum eftir stofnun lýðveldisins. Hins vegar fer ekki á milli mála, eins og fram kemur hér á undan, að afstaða Lúðvíks til Jóns er afar jákvæð og leggur hann t.a.m. mikla áherzlu á það að þó Jón hafi ekki verið gallalaus maður frekar en aðrir þá hafi kostir hans verið svo miklir að gallarnir hafi algerlega horfið í skuggann af þeim. Þannig segir hann um Jón:
Jón Sigurðsson forgyllti ekki menn, hann var of mikill sagnfræðingur og vísindamaður til þess að láta berast út á þann ís, þótt stundum kynni það að hafa gagnað honum sem stjórnmálamanni. Þess sér og bein deili, að það átti ekki við lund hans, að hann væri forgylltur eða gerður að goðveru. Hann hafði hins vegar ekki á móti því, að hann væri vegsamaður né heldur að honum væri sýnd virðingarmerki svo fremi, að fyrir því lægi sönn og eðlileg ástæða. Jón var ekki breyzkleika- né brestalaus fremur en aðrir dauðlegir menn. Fjarri öllu lagi er að draga fjöður yfir það og hann vafalaust aldrei til þess ætlazt. En í sinni gerð var hann stór, yfirburðir hans svo miklir, maðurinn svo einstakur, að þess, sem miður fór, gætir ekki í þeim samanburði. Ég er ekki að víkja að þessu í því skyni að gefa mönnum undir fótinn með það, að í þessu riti sé leitazt við að sýna snögga bletti á Jóni, heldur eingöngu til ábendingar um, að ég hef ekki fellt þá undan, ef þeir hafa með einhverjum hætti birzt í því efni, sem hér er fjallað um.
Kostir og gallar bókarinnar
Á heildina litið er bókin að ýmsu leyti ágætis rit aflestrar þó hún sé á köflum frekar tyrfin aflestrar. Oft er Lúðvík frekar langorður um hluti sem manni findist að hægt væri að afgreiða á mun styttri og hnitmiðaðri hátt. Samræðustíllinn, sem Lúðvík byggir bókina einkum á, verður að teljast bæði galli og kostur. Kostur að því leyti að þessi stíll færir lesandann nær viðfangsefninu þar sem um frumheimildir er að ræða. Gallinn er hins vegar sá að fyrir vikið verður textinn þyngri og ólíklegra en ella að hann höfði til almennra lesenda.

Það er ótvíræður kostur við bókina að í henni eru tilvísanir settar í neðanmálsgreinar þannig að aðgengilegt er fyrir lesandann að kynna sér þær hafi hann hug á því. Lúðvík rökstyður ennfremur mál sitt vel með tilvísunum í heimildir, einkum bréfaskriftir Jóns og samtíðarmanna hans. Í bókinni er síðan nokkuð af myndum tengdum viðfangsefninu sem verður óneitanlega að teljast kostur.

Gallar bókarinnar eru sem fyrr segir að Lúðvík á það til að verða langorður á köflum og fyrir vikið getur textinn orðið frekar tyrfinn. Hann á það ennfremur til að vera með langar beinar tilvitnanir sem ósjaldan eru allt að því heil blaðsíða eða jafnvel meira. Á heildina litið tel ég þó bókina áhugavert og mikilvægt innlegg í fræðilegar vangaveltur um ævi og störf Jóns Sigurðssonar. Hins vegar er jafnljóst að mínu mati að bókin er ekki til þess fallin að almenningur taki sér hana í hönd og lesi sér til afþreyingar heldur er hér fyrst og fremst um fræðirit að ræða.Heimildaskrá:
Lúðvík Kristjánsson: Á slóðum Jóns Sigurðssonar. Hafnarfjörður. 1961.