föstudagur, mars 4

Óendanleg og skilyrðislaus samkennd með öllu sem er

HöfundurÁ mínum framahaldsskólaárum skrifaði ég heimskulega grein þar sem ég mærði egóisma. Egóið hefur verið mér hugleikið síðan. Afstaða mín til þess hefur rokkað dálítið síðustu árin, en yfirleitt hef ég þó verið frekar neikvæður gagnvart því. Ég held að það sé alla vegana nauðsynlegt að vera meðvitaður um egóið; hvernig það starfar, hvernig það hefur áhrif á allt.

Egóið þrífst á einhvers konar baráttu. Egóið velur sér einhvern málstað og gerir þann málstað hluta af sér og sinni sjálfsmynd. Egóið og málstaðurinn verður eitt. Síðan vill egóið styrkja þá sjálfsmynd og til þess er píslarvættisaðferðin helst notuð. Egóið vill deila um málstaðinn og verða fyrir árásum vegna hans, því að þá finnur það til sín, það eykur sjálfsvitund og sjálfselsku egósins. Egóið þrífst einnig í tímanum – í fortíð og framtíð. Hin líðandi stund er óvinur egósins og það vill sífellt láta hugan reika um fortíð og framtíð, því að slíkar hugsanir styrkja egóið og láta það finna til sín.

Allt efni í alheiminum á sér sameiginlegan uppruna, sameiginlega rót. Þó að við greinum mismundandi hluti í kringum okkur, lítum á eina manneskju sem einingu, eitt tré sem einingu, einn stein sem einingu og svo framvegis, þá er þetta ekki svo einfalt. Heimurinn er á vissan hátt einn og óskiptur. Flestir líta á sjálfan sig sem mjög afmarkaða einingu, en það er ekki svo. Sjálf fólks er ekki mjög afmarkað, heldur er það mjög tengt umhverfi okkar og öðrum sjálfum (nútíma sálfræði styður þessa fullyrðingu). Í raun má ganga svo langt og segja að okkar sanna sjálf sé heimurinn allur. Hver og einn getur bælt niður egóið og tengst þessu sanna sjálfi. Tilfinningin sem fylgir því er óendanleg og skilyrðislaus samkennd með öllu sem er. Að vera eitt með öllu.

Á hinn bóginn væri það ekki farsælt fyrir mannlíf á jörðinni að bæla egóið alveg niður. Það er mikill drifkraftur fólginn í egóinu. Það yrðu litlar efnislegar framfarir án þess.

Ég held að lausnin sé að vera meðvitaður um hið sanna sjálf, en nota hins vegar egóið til jákvæðra hluta. Láta hið sanna sjálf hafa stjórn og taumhald á egóinu.