sunnudagur, mars 6

Kviksaga og kanónan

Höfundur Flestir þekkja orðið „kanóna“. Orðið vísar til einhvers sem er talið æðra en eitthvað annað, en er notað í margvíslegum skilningi. T.d. er hægt að tala um heildarkerfi þeirra bókmennta sem eru viðurkenndar sem „góðar“ af málsmetandi stofnunum samfélagsins sem kanónu. Jaðarhöfundar og „vondir“ höfundar eru þannig ekki flokkaðir sem hluti af kanónunni. Eins og nærri má geta eru ekki allir mjög hrifnir af því að myndað sé svona stigveldi bókmennta þar sem sumir höfundar eða sumar bókmenntagreinar eru flokkuð sem merkilegri en önnur. Öll verk tiltekins höfundar geta líka verið kölluð kanóna. Þannig má t.d. tala um að eintal Hamlets um sjálfsmorð sé einna frægasta ræðan í allri Shakespeare-kanónunni.

Í mörgum tilvikum er þetta kristið orð. „Kanóna“ vísar í kirkjulegu samhengi til safns þeirra rita sem viðurkennt er að eigi heima í helgri ritningu. Hinar svokölluðu apókrýfu bækur eru þær bækur sem komu til greina í Biblíuna en voru ekki samþykktar að lokum. Mér er ekki fullkunnugt um hvaða þættir réðu mestu um það hvaða bækur rötuðu inn í Biblíuna en veit þó að í frumkristni og á miðöldum var mjög algengt að reynt væri að „kanónísera“ texta með því að eigna þá höfundum sem höfðu raunverulegt kennivald. Þannig reyndu minni spámenn stundum að eigna sinn eigin texta höfundum sem voru svo frægir að með því að festa nafn þeirra við textann var framgangur verksins tryggður og líkurnar á því að fólk tæki boðskap textans alvarlega jukust stórlega. Þetta er ekki bundið við kristnina eina, frá Grikklandi hinu forna eru t.a.m. varðveitt kvæði sem kölluð eru hómerískir hymnar. Talið er næstum öruggt að þessi kvæði séu ekki eftir Hómer sjálfan, heldur hafi þau verið eignuð honum síðar, annað hvort til þess að auka vinsældir þeirra eða vegna þess að þau hafi þótt svo góð að útilokað hafi verið að einhver annar en höfuðskáld fornaldarinnar hafi samið þau.

Í dag er fremur sjaldgæft að fólk reyni að kanónísera texta, enda hefur höfundarnafnið verið í nokkuð föstum skorðum síðustu tvær aldirnar. Það er miklu algengara að þessu sé snúið við, þ.e. að fólk taki texta annarra og geri hann að sínum. Í síðustu viku gerðist þó sá fremur óvenjulegi atburður í netheimum að á þeim hluta vefritsins Kistunnar sem nefndur er Kviksaga birtist grein sem eignuð var íslenskum bókmenntafræðingi og rithöfundi, en skömmu síðar kom á daginn að sá sem var titlaður höfundur greinarinnar hafði alls ekki skrifað hana. Greinin hafði bara verið eignuð honum án hans samþykkis eða vitundar, en raunverulegs höfundar greinarinnar hefur enn ekki verið getið neins staðar.

Áður en lengra er haldið er rétt að reyna að geta sér til um ástæður þessa uppátækis. Sú skýring sem virðist líklegust er að hér hafi verið um hefðbundna „kanóníseringu“ að ræða, að ritstjórn Kviksögu hafi vilja gefa greininni aukið vægi með því að ljúga því að lesendum sínum að hún hafi verið eftir þennan tiltekna höfund. Þannig virðast þeir hafa beitt aldagamalli aðferð til að gera boðskap sinn gjaldgengari í umræðunni. Þetta er óneitanlega dálítið þversagnarkennt í ljósi þess að Kviksaga er vefritlingur sem virðist hafa þá meginreglu að birta greinar þar sem barist er gegn kanónum af öllu tagi. Ritstjórnarstefna Kviksögu einkennist umfram allt af menningarlegri útjöfnun, þar sem hinu smáa, hjásetta og hversdagslega er hampað, en grafið er undan allri upphefð („upphefð“ er mikið uppáhaldsorð hjá ritstjórn Kviksögu) og menningarlegri skurðgoðadýrkun. Burtséð frá því hvort Kviksaga er góður eða slæmur vefritlingur verður þó að viðurkennast að efnistökin einkennast ekki af sérlega mikilli breidd. Flestar greinarnar eru skrifaðar út frá sama reiknilíkani, ekki ósvipað og tíðkast á flestum vefritum hinna pólitísku ungliðahreyfinga. Á Kviksögu eru allar gjörðir fólks sem lætur eitthvað til sín taka á sviði menningarinnar metnar út frá sama kvarða, því hvort viðkomandi sýnir tilraun til andófs gegn kanónunni (sem er alltaf gott) eða hvort hann „steypir eigin haus og hugsun“ (hvað sem það nú þýðir) með því að styrkja ríkjandi ástand.

Greinin sem getið var hér að framan bar þann snjalla titil „Hin íslensku bókmenntaverðlaun.is“ og var eignuð Hermanni Stefánssyni. Þar sem hún er nú eilíflega horfin lesendum Kviksögu (og ekkert situr eftir nema þessi nafnlausa afsökunarbeiðni) er við hæfi að glugga í greinina hér og reyna að draga af henni einhvern lærdóm.

Tilefni greinarinnar er stutt innslag í útvarpsþættinum Víðsjá föstudaginn 25. febrúar sl. þar sem umsjónarmaður þáttarins, Eiríkur Guðmundsson, brá á leik með skáldunum Braga Ólafssyni og Sjón. Um var að ræða „ljóðaeinvígi“ á léttum nótum þar sem skáldin vörpuðu fram tilvitnun í eigin ljóðabækur sem hinn aðilinn skyldi síðan svara með tilvitnun í eitthvert af sínum verkum, e.k. uppfærð útgáfa af þeirri list að kveðast á. Hinn ímyndaði Hermann Stefánsson talar í háðskum tón um þetta uppátæki í grein sinni, líkir skáldunum við framsóknarmenn á þorrablóti úti á landi og segist „vona að þeir komist á listamannalaun sem fyrst“. Sú staðreynd að báðir þessir höfundar hafa nýlega fengið verðlaunaútnefningu er margítrekuð í máli greinarhöfundar. Gagnrýni greinarhöfundarins beinist þó einkum að stjórnanda Víðsjár, Eiríki Guðmundssyni, og er hann sakaður um að hafa verið ósáttur við tilnefningarnar til hinna íslensku bókmenntaverðlauna af þeirri ástæðu einni að vinir hans hafi ekki verið tilnefndir.

Höfundur greinarinnar „Hin íslensku bókmenntaverðlaun.is“ bendir á þá mótsögn í afstöðu Eiríks til verðlaunaafhendinga að hann hafi annars vegar sagt í Víðsjá að bókmenntir og markaður ættu ekki samleið, en hins vegar hafi hann komið að því að skipuleggja ímynduð bókmenntaverðlaun á vegum bókaforlagsins Bjarts fyrir síðustu jól með það að augnamiði að auka bóksöluna. Heimild greinarhöfundar er samtal á forlagsskrifstofunni sem á að hafa farið fram milli Eiríks, Hermanns, „Jóns Karls [Helgasonar] og feðgana [svo] Snæbjarnar [Arngrímssonar] og Magnúsar“. Þar sem höfundur greinarinnar er ímyndaður hlýtur þetta samtal líka að vera ímyndað, og ásakanir um óheilindi Eiríks Guðmundssonar þar af leiðindi byggðar á sandi. Velta má þó fyrir sér hvort aðkoma „Magnúsar“ að þessum ímyndaða fundi gefi vísbendingu um raunverulegan höfund greinarinnar, en einn af ritstjórum Kviksögu heitir Magnús Þór Snæbjörnsson. Snæbjörn Arngrímsson á hins vegar engan son sem heitir Magnús.

Í framhaldinu er Eiríkur sakaður um einfeldni og birtur er fjöldi tilvitnana í víðsjárpistil hans sem fluttur var daginn eftir að tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna voru opinberaðar fyrir síðustu jól. Þegar greinin er lesin með þeirri vitneskju að Hermann er ekki raunverulegur höfundur hennar sést berlega að málið er þó tekið með ákveðnum silkihönskum og fjölmargir varnaglar slegnir. Hinn ímyndaði Hermann kallar Eirík „vin“, „sinn góða félaga“ og fleira í þeim dúr. Þar sem greinin sekkur hvað dýpst dregur höfundur hennar Matthías Viðar Sæmundsson inn í umræðuna og kallar hann „vin okkar heitinn“.

Af þessari grein kviksögumanna má ráða að þeir svífast einskis í baráttu sinni gegn hinni alræmdu upphefð sem þeir sjá í hverju horni. Í „Hin íslensku bókmenntaverðlaun.is“ er jafnvel vegið að heiðri nafngreindra manna úr skjóli nafnleyndar. Af þessu tilefni má vitna í 2. mgr. 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972, þar sem segir: „Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, er skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.“ Mín ráðlegging til ritstjórnar Kviksögu er að glugga í þessi lög næst þegar þeir hugsa sér að ráðast á þá sem fara í taugarnar á þeim. Við hin, lesendur Kviksögu, fylgjumst spennt með framhaldinu, því það er aldrei að vita hverju þessir postular póstmódernismans, þessir riddarar einsögunnar taka upp á næst í baráttunni sinni.