mánudagur, mars 14

Stórisannleikur Kviksögu

HöfundurMjög góð grein eftir Ingólf Margeirsson, sem ber yfirskriftina Teflt við söguna, birtist á vefritinu Kviksögu 8. mars. Greinin er um póstmódernisma og einsögufræði. Hún fjallar á mjög skynsaman hátt um ýmislegt sem ég hef velt mikið fyrir mér að undanförnu og mér finnst ástæða til að mæla með henni.

Ingólfur hittir að mínu mati naglann á höfuðið í lok greinar sinnar þegar hann segir eftirfarandi:
Það jákvæða við póstmódernismann, líkt og við marxismann er að hann víkkar út sögutúlkun okkar, færir okkur ný verkefni og nýja hugsun. En sem heildarkenning dugar hvorki póstmódernisminn né marxisminn til lengdar. Uppreisnin er því stutt – en skemmtileg. Helsti kostur einsögunnar er að hún er skemmtileg, það er orðið skemmtilegt að lesa sögu, ekki síst vegna þess að einsagan treður ekki slóðir hinnar þungu, byrókratísku hefðar. Hún hafnar miðlægum hugsunarhætti en hampar hugmyndalegri margræðni, rýfur tengsl veruleika og tungumáls. Það er ekki lítið afrek í sjálfu sér. Einsagan er því allt í senn: nýstárleg, fræðandi og upplyftandi. Engu að síður er kjarni málsins: Við verðum alltaf að skoða hlutina í víðu samhengi. Horfa yfir allt taflborðið eins og góðir skákmenn í stað þess að einbeita okkur að fáum leikjum í einu horninu. Þá gætum við tapað skákinni við söguna eða jafnvel fallið á tíma.
Það er hvimleitt og allt of algengt að fólk sem hafnar einhverjum stórasannleik, finnur nýjan stórasannleik, sem það veðjar á. Póstmódernistar og einsögufræðingar ættu að hafa það í huga að þeirra nálganir eru ákveðin sýn á veruleikann, sem er ekki sú eina rétta, heldur aðeins ein af mörgum. Markmið þeirra ætti ekki að vera að fá fólk til að hafna öðrum nálgunum (eins og ég og fleiri hafa óneitanlega á tilfinningunni), heldur að fá fólk til að tileinka sér þeirra nálgun ásamt öðrum nálgunum.