föstudagur, mars 25

Síðbúin svör við rímnadómi Jónasar

HöfundurÁ þriðja áratug tuttugustu aldar óskaði danski lýðskólakennarinn Holger Kjær eftir upplýsingum frá íslensku alþýðufólki um heimanám og uppeldi á Íslandi á 19. öld. Svörin sem honum bárust við þessum spurningum eru varðveitt á Þjóðminjasafninu og varpa athyglisverðu ljósi á viðhorf nokkurra einstaklinga sem fæddir eru á tímabilinu 1850 til 1900 til rímnakveðskaparins. Koma þar fram önnur viðhorf en þau sem Jónas Hallgrímsson viðraði í Fjölni í frægum dómi sínum um rímur eftir Sigurð Breiðfjörð. Má jafnvel lesa þau sem síðbúin svör við dómi Jónasar

Meðal þeirra sem tjá sig um rímurnar er Einar Jónsson (f. 1853) frá Stóra-Steinsvaði í Hróarstungu. Hann telur víst að ritdómur Jónasar hafi drepið rímnakveðskapinn en bætir við: „Ég hygg nú eigi að síður, að rímnakveðskapurinn hafi átt mikinn og góðan þátt í, að halda við lífsgleði þjóðarinnar og fróðleik hennar í gegnum hina löngu þrautatíma hennar. Það var mikilsverð tilbreyting fyrir hana, að þurfa ekki alltaf að hlusta á endurtekinn lestur sagnanna, en fá efnið sungið eða kveðið annað veifið.“ Jón Helgason (f. 1876) frá Brattahlíð í Svartárdal tekur í svipaðan streng: „Þá má telja rímunum það til gildis að þær hafa hjálpað mjög til að muna sögurnar því það er mikið sem það minnir á, ef vísa er til staðins.“

Lýsingar fleiri heimildarmanna minna jafnframt á að rímurnar voru ekki bara textar heldur líka tónlist sem flutt var við tilteknar aðstæður og skapaði sérstakt andrúmsloft. Ólafur Ólafsson (f. 1886) frá Haukadal í Dýrafirði rifjar upp, með vissri glýju í augum, að fornsagnalestur og rímnaflutningur hafi fléttast saman við handavinnu fólksins á kvöldvökunni. „Gekk þá verkið betur. Kambarnir örguðu, rakkarnir suðuðu, slögin urðu tíðari í skeiðinni hjá vefaranum, skyttan þaut óðfluga, en yfir allt þetta ómaði kvæðalagið eða sögulesturinn af köppunum fornu, hetjunum hugumstóru og guðunum gömlu. Þannig var sveitalíf íslenskt fram á síðasta mannsaldur.“ Jóhannes Guðmundsson (f. 1892) á Þórólfsstöðum í Kelduhverfi tengir rímnaflutninginn hins vegar fátíðu veisluhaldi: „Man ég ekki til að ég heyrði rímur kveðnar nema í brúðkaupsveislum þegar menn voru orðnir hreifir af víni. Söfnuðust gömlu mennirnir þá saman stundum og kváðu rímur eftir Sigurð Breiðfjörð, einkum bardagarímur og létu þá all vígmannlega. Varð stundum að þessu góð skemmtun.“

Viðamesti vitnisburðurinn af þessu tagi er hins vegar í svari Eskfirðingsins Björns Guðmundssonar (f. 1874) til Holgers Kjær. Björn skrifar:

„Þótt rímur væru nær aldrei kveðnar hér á heimilinu heyrði ég þær samt kveðnar annars staðar, en því miður aldrei til bestu „kvæðamannanna“, en svo voru þeir nefndir er best þóttu kveða rímur. Það var og sérstök list, sem fáum var gefin. Best þótti að heyra „kveðið saman“, en þá kváðu fleiri en einn, og þurftu þeir að vera vanir því ef vel átti að fara. – Ég var svo heppinn að heyra kveðið saman tvisvar til þrisvar sinnum, og þótti mikið til þess koma, enda voru þeir sem „kváðu“ vanir því og sæmilegir raddmenn.

Eftir því sem ég veit best mun kveðskapur hér í sveit hafa verið í hnignun í æsku minni, því rímnakveðskapur á kvöldvökum var svo sjaldgæfur. En við ýmis tækifæri – og helst ef menn höfðu bragðað áfengi – var kveðið. Man ég einkum eftir því í veislum, á veitingahúsum, í sjóferðum þegar siglt var, og síðast og ekki síst álandlegudögum í fiskiveri. Einnig var kveðið í fjárleitum – göngum – á haustin þar sem menn höfðu náttdvöl. Hefir mig oft furðað á því hve mikið menn kunnu af alls konar vísum, bæði úr rímunum sjálfum, og svo ýmsar lausavísur.

Þegar vel er kveðið get ég vel hugsað mér að fleirum muni fara sem mér. Kvæðalagið og allur blærinn í kveðskapnum hefir undarleg kitlandi áhrif á mann, það er eins og manni hitni stundum um hjartarætur, en hinn sprettinn er sem kalt vatn seitli um mann allan, eða kaldur gustur lengst framan úr öldum leiki um mann. Eða einhver seiðandi, töfrandi kraftur fylgi kveðskapnum, kraftar sem maður verður ósjálfrátt var við, en skilur ekki, veit ekki hvaðan er runninn eða hvert hann stefnir. Maður kann vel við áhrifin, eitthvað kunnlegt og laðandi fylgir þeim, eða eins og gamall kunningi og vinur sé kominn eða maður viti af honum í nálægð. Og í huga manns fæðast ýmsar þrár og eftirlanganir, − fæðast og deyja hver á eftirannari, koma ósjálfrátt og hverfa eins, maður ræður ekki við þetta, en gefur sig á vald áhrifunum og lætur berast viljalaust með straumnum. − Og þegar kveðskapurinn þagnar, vara samt áhrifin, strengir þeir er kveðandin hefir vakið í huga manns, óma enn um stund, misjafnlega lengi eftir atvikum; og hverfa raunar aldrei til fulls, við endurminninguna taka þeir aftur til að hljóma og þá vakna sömu kenndir aftur, en eðlilega daufari, og ef til vill með öðrum litum − en þó svo skýrar að ómögulegt er að villast á þeim.

Rímnakveðskapurinn er æfagamall, og átti á liðnum öldum mjög sterk ítök í íslensku þjóðinni, enda finnst mér ekki ósennilegt, að hún eigi honum meira að þakka en nú er almennt talið eða viðurkennt. Og er nú óhugsandi að áhrif þau er hann hafði á mig og ég hef reynt að lýsa hér að framan eigi meðal annars rót sína að rekja til þess að kveðskapur þessi er arfur „Íslendingsins“ − gjöf frá forfeðrum hans − lengst framan úr tímum.

Um efni rímnanna verð ég fáorður, enda fá menn besta hugmynd um það með því að kynna sér rímurnar sjálfir. En ég get ekki varist því að benda á það að þótt efni þeirra og orðfæri sé að mörgu leyti ábótavant, þá er í mörgum þeirra sterk siðferðileg undiralda, sem óspart lofar allt hið góða og göfuga í fari manna, en lastar hitt; sem málar dygðirnar með björtum litum, en lestina og ódrengskapinn með dökkum. Og aðeins eitt enn. Rímurnar sem ég kynntist hvöttu mig mjög til að ná í sögurnar sem þær voru orktar útaf og urðu þannig til að auka lestrarþrá mína.“

Vart er hægt að hugsa sér skemmtilegra og andríkara svar við gagnrýni Jónasar á rímurnar, nema ef vera skyldi hin glæsilega útgáfa kvæðamannafélagsins Iðunnar og Smekkleysu á Silfurplötum Iðunnar.