mánudagur, desember 27

Stefnumót við heiminn

HöfundurÞótt ég hvetji aðra til að sýna enga miskunn í gagnýni sinni á bækur, hrjáir mig sú hvimleiða fötlun að skrifa aðeins um þær íslensku bækur sem mér finnst góðar. Ég sleppi hins vegar alveg að tjá mig um þær slæmu, sérstaklega ef þær eru eftir gamla íslenska höfunda, sem ég vil ekki særa, eða unga íslenska höfunda, sem ég vil ekki draga kjarkinn úr.

Bókin Stefnumót við heiminn eftir Ingólf Guðbrandsson var ekki tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún hefur ekki verið meðal þeirra nýútkomnu bóka sem mest er fjallað um eða mest hefur selst. Samt mun hún vera meðal þeirra bóka sem lifa allt glysið og lætin af. Hún verður ein af þeim strýtum sem eftir munu standa þegar jólabókaflóðinu slotar.

Fjöldi fallegra mynda prýðir bókina og textinn er skemmtilegur. Stundum meira að segja speki sem hittir beint í mark. Aðalhöfundur bókarinnar er eins og áður segir tónlistarmaðurinn, ferðafrömuðurinn og mystíski ævintýramaðurinn Ingólfur Guðbrandsson. En einnig er fjöldi gestahöfunda. Gestahöfundarnir eru Arnaldur Indriðason, Benedikt Gunnarsson, Bjarni Bragi Jónsson, Friðrik Hróbjartsson, Guðlaug Sigurðardóttir, Kristín Marja Baldursdóttir, Sigurdór Sigurdórsson, Sjöfn Har, Sveinn Guðjónsson og Sverrir Pálsson. Að auki eru í bókinni viðtöl eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur og Pál Kristinn Pálsson.

Ég á engra hagsmuna að gæta (ekki frekar en venjulega) þegar ég segi að enginn eigi að láta þessa bók framhjá sér fara og tilvalið að fá sér hana í staðinn fyrir bækur sem er skipt eftir jólin.

Eftirfarandi brot er eftir Ingólf og úr kafla sem heitir Vor í Prag:
Þótt nú sé bæði auðvelt og ódýrt að ferðast og margir séu á ferðinni eru listir og menningararfur Evrópu þorra Íslendinga enn sem lokuð bók eða ónumið land eins og á dögum Fjölnismanna. Krárnar og búðarrápið situr enn í fyrirrúmi eða bílaleikur í mengaðri svækju á yfirfullum hraðbrautum álfunnar, án takmarks eða tilgangs nema sýndarmennsku eða að geta sagzt hafa komið í þetta land eða hitt án þess að sjá neitt. Þetta er nýtt afbrigði nesjamennskunnar og minnir á ástand í þróunarlöndum, þegar þyrst, hungrað og klæðalítið fólk fer í fyrsta sinn í kaupstað. Íslendingar vilja helzt flytja Ísland með sér, hvert sem þeir fara og hegða sér samkvæmt kjörorði sínu „að vera hress“! Inntak ferðalagsins verður ekki ný, spennandi og lærdómsrík upplifun, heldur gengur allt út á að vera hress á þennan sérstaka þjóðlega hátt með ærandi hávaða en sljórri vitund og muna helst ekki neitt daginn eftir. Í augum útlendinga vekja slík þjóðerniseinkenni undrun og minna á frumbýlingshætti fólks sem skortir allt, en þó fyrst og fremst menningu. Aðrar siðmenntaðar þjóðir leggja áherzlu á menningarlegt gildi ferðalaga. Hinn háværi „hressi“ lífstíll er oft gríma til að fela innri tómleika og öryggisleysi. Hamingjan fer sér hægt og er aldrei hávær.
..
>> Lesa

miðvikudagur, desember 15

Rökvísi og tilfinningalíf í heimspeki Spinoza

HöfundurHeimspekingar ætla að ræða rökvísi og tilfinningalíf í heimspeki Spinoza næstkomandi fimmtudag á Celtic Cross. Frummælandi verður Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Guðfríður Lilja lauk BA gráðu í sagnfræði og stjórnmálafræði frá Harvard háskóla árið 1996 og M.Phil gráðu í stjórnmálaheimspeki frá Cambridge háskála árið 2000.
..
>> Lesa

föstudagur, desember 10

Spáð í Hin íslensku bókmenntaverðlaun II

Höfundur Að skipta í flokka þegar veitt eru bókmenntaverðlaun er alltaf dálítið vafasamt. Ég skal alveg kaupa það að hægt sé að bera saman skáldsögu, smásagnasafn og ljóðabók, því endanlegt markmið þeirra er það sama, að fanga hug lesenda. Þetta er kannski dæmi um að bera saman epli og appelsínur, en bæði eru þó ávextir, þannig að við látum það hjá liggja. Í flokki þeim sem sem Félag íslenskra bókaútgefenda kallar fræðirit og bækur almenns eðlis er þetta öllu sérkennilegra. Þar er blandað saman verkum sem hafa sömu markmið og fagurbókmenntir annars vegar, og fræðiritum hins vegar, sem leitast við að auka við þekkingu heimsins. Að bera saman ljósmyndabók og fræðilega úttekt á þjóðernisímynd Íslendinga er eins og að bera saman mangó og Þorlákshöfn.

Þetta er seinni hluti. Fyrri hlutan má lesa hér.

(Áður en lengra er haldið skal hér með upplýst að faðir minn, Torfi Tulinius, skrifaði bók sem lögð var fram til bókmenntaverðlaunanna í almenna og fræðibókaflokknum, Skáldið í skriftinni, sem var ekki tilnefnd. Svo er betra að nefna að faðir minn var einnig „einvaldur“ í fagurbókmenntaflokknum árið 2001, þegar það fyrirkomulag tíðkaðist á útnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna)

Eins og með allar flokkanir þá er margt á reiki í skiptingunni. Eru ferðabækur almenns eðlis eða fagurbókmenntir? Slíkt er alltaf á reiki. Ég er þó ekki að leggja til að flokkarnir verði afnumdir. Þó að vissulega sé það athyglisverð hugmynd að velja eina bók á ári sem „bestu bók ársins“ sama hvað „flokk“ hún kunni að skipa. Það sem ég hef frekar í huga er að flokkarnir verði hugsaðir upp á nýtt. Jafnvel að almenna og fræðibókaflokknum verði skipt í tvennt, í bækur almenns eðlis og fræðirit. Það eitt myndi strax bæta verulega úr málum.

Annað sem mætti gera er að birta rökstuðning. Ástæðurnar afhverju tilnefndu bækurnar voru valdar frekar en hinar. Það mætti jafnvel hafa ritara með nefndinni sem ritaði fundargerð sem síðan yrði birt. Það er svo annað hvenær þetta kæmi út. Nóbelsakademían, sem vissulega er öðruvísi apparat, birtir sínar fundargerðir fimmtíu árum eftir valið. En ég held að það mætti bíða talsvert skemur þegar kemur að Hinum íslensku bókmenntaverðlaunum.

Fyrir utan það að gera allar ákvarðanir nefndarinnar traustari, þá myndi það einnig bæta til muna alla þá umræðu sem á sér stað eftir að tilnefningarnar eru kynntar. Í staðinn fyrir að það nákvæmlega heyrist aftur og aftur og aftur þá væri hægt að ræða konkret atriði. Væri lífið ekki ögn betra ef í staðinn fyrir að verið væri að röfla enn einu sinni enn að tilnefnt væri eftir flokkum, þá væri hægt að segja eitthvað eins og „mér finnst það nú frekar óbókmenntaleg rök að sé ekki hægt að tilnefna Steinar Braga af því hann hefur samvaxnar augabrýr. Hann hefur ekki einu sinni samvaxnar augabrýr!" Jú, lífið væri svo sannarlega betra.

Jafnvel mætti hafa þetta þannig að tekið yrði upp lokafundur nefndarinnar þegar hún kemur sér saman um tilnefningarnar. Það yrði ágætt sjónvarpsefni held ég. Það þyrfti þó kannski eitthvað að klippa það til. Svo væri til dæmis Kristján í Kastljósinu, sem nota bene er lærður bókmenntafræðingur, fenginn til að vera svona efasemdarmaður eins og ég lagði til að væri með nefndinni í fyrri hluta þessarar greinar. Eða bara hafa svona rithöfundasurvivor. Það yrði magnað! „Fylgist með í næsta þætti! Einar Kárason étur fulla skál af iðandi lirfum. Nær hann að klára? Kastar hann þeim upp? Þið komist að því í næsta þætti af Survivor: Surtsey!“

En afhverju skipta þessi verðlaun svona miklu máli. Ég hef haldið áfram að hugsa um þetta síðan ég skrifaði fyrri hlutann. Það er alltaf frekar lítið um gagnrýni á verðlaunin þegar bækur ársins er valdar í febrúar. Ég held að þetta megi skýra með tímasetningu. Tilnefningarnar eru kynntar 5. desember, nítján dögum fyrir jól, þegar jólabókaflóðið ber strendurnar af hvað mestum móð. Í febrúar eru bókmenntirnar aftur orðnar að bara enn einni listgreininni. Hvort að önnur verðlaun yrðu þvílíkt umtalsefni ef tilnefningar yrðu birt á sama tíma er spurning sem ég hef velt fyrir mér. Yrði allt vitlaust ef DV verðlaunin yrðu kynnt 10. desember? Hvað með verðlaun Tómasar Guðmundssonar eða Halldórs Laxness? Kannski, kannski ekki. Ef þau væru í beinni útsendingu þá væri séns. Nú er DV og Stöð 2 í sömu höndum. Einfalt mál. Svo væri 50% afsláttur af tilnefndu bókunum í Hagkaup. Allir græða!

Jæja, núna er ég búinn að hugsa nógu lengi um þessi verðlaun og komið nóg. Kannski maður ætti að fara að lesa einhverjar jólabækur. Svo er aldrei að vita nema maður setji af stað sín eigin verðlaun. Það er enginn kvóti á slíkt. „Bókmenntaverðlaun Kára Tulinius hlýtur...“.

Hljómar vel.

Svo gætir þú, kæri lesandi, jafnvel veitt þín eigin. Og ef þú hefur eitthvað að segja um Hin íslensku bókmenntaverðlaun, bókmenntaverðlaun yfirleitt, bækurnar sem voru tilnefndar eða nokkuð annað sem þér hugnast að tjá okkur, sendu okkur þá endilega línu á ritstjorn@skyjaborgir.com
..
>> Lesa

fimmtudagur, desember 9

Spáð í tilnefningarnar II

Höfundur Síðari hluti: Skáldverk
Skáldverkalistinn sem tilnefndur er til íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár hefur vakið athygli og jafnvel furðu. Hér er vöngum velt yfir þeim skáldverkum sem eru á listanum og reynt að koma með eina útgáfu af svari við þeirri spurningu sem allflest bókmenntafólk landsins glímir við um þessar mundir: Hvað er í gangi?

Andræði eftir Sigfús Bjartmarsson
Það þykir jafnan „dipló“ að tilnefna eina ljóðabók. Sigfús hefur tekist á við allmörg verkefni á bókmenntasviðinu í áranna rás, og verið brautryðjandi á sumum sviðum: Hann hefur skrifað smáprósa sem ekki er hægt um vik að skilgreina hvort teljast ljóð eða sögur (Speglabúð í bænum, Vargatal), skrásett íslenskar þjóðsögur í nútímabúningi (m.a. hina þekktu „Móðir mín í blokk, blokk“), þýtt Carver, Borges og Octavio Paz, en að þessu sinni er viðfangsefnið kunnuglegt. Andræði er safn e.k. heimsósómakvæða. Besta leiðin til að fá tilnefningu til bókmenntaverðlauna er þá kannski að fást við form og inntak sem kemur fólki kunnuglega fyrir sjónir. Hitt er annað mál að þar sem Andræði mun vera hvöss ádeila á ýmis konar ófögnuð nútímans, sýndarmennsku, auglýsingaskrum, ótakmarkaðan hressileika, plebbisma og alræði markaðarins, þá hlýtur það að vera það versta sem gæti komið fyrir þessa bók að hljóta íslensku bókmenntaverðlaunin.

Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson
Einar Már er einn af áskrifendunum að tilnefningum til íslensku bókmenntaverðlaunanna – hann hefur nú fengið fjórar. Bítlaávarpið er sú bók hans sem hefur fengið hvað blendnastar viðtökur í seinni tíð, gagnrýnendur annað hvort hampa henni sem enn einu listaverkinu eða barma sér yfir því hvað hún sé ómerkileg. Sjálfur hef ég bara lesið upphafskaflana sem eru óneitanlega bráðfyndnir, og ekki spillir að í formálanum er m.a.s. daðrað við metafiction. Þessi er mjög vænleg til vinnnings.

Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur
Í fyrra voru engir kvenrithöfundar tilnefndir í skáldverkaflokknum og voru ófáir hneykslaðir yfir því. Þótt Fólkið í kjallaranum sé örugglega allra góðra gjalda verð er ekki laust við því að sú hugmynd kvikni að hún sé meðal annars tilnefnd til að jafna kynjakvótann í ár. Auður hefur þó fengið fína dóma fyrir þessa bók, enda er hún nú búin að vera í bransanum í dágóðan tíma. Í bókinni er glímt við hugsjónir tveggja kynslóða, '68-kynslóðarinnar og X-kynslóðarinnar. Hugmyndin virðist a.m.k. góð. Einnig má nefna að Auður fyllir þann fámenna hóp fólks sem er bæði rithöfundar og bloggarar, eins og sjá má hér.

Kleifarvatn eftir Arnald Indriðason
Nú hljóta að renna tvær grímur á bókmenntasnobbara þessa lands. Hvað segir það okkur um þessi verðlaun að nýjasta skáldsagan hans Arnaldar sé tilnefnd, en ekki t.a.m. bækur eftir Braga Ólafsson, Gerði Kristnýju, Guðberg Bergsson eða Kristínu Ómarsdóttur? Vinsældir og almennt umtal hljóta að skipta einhverju máli, a.m.k. ekki minna máli en fagurfræðin. Íslenskir glæpasagnalesendur (sem eru margfalt fleiri en fólkið sem les Kristínu Ómars og Guðberg) gleðjast eflaust yfir þessari tilnefningu. Mér finnst það samt klisja að segja að þetta sé til vitnis um að mörkin milli hámenningar og lágmenningar að þurrkast út, því þau mörk eru útþurrkuð fyrir löngu.

Öðruvísi fjölskylda eftir Guðrúnu Helgadóttur
Af þessari tilnefningu má ráða tvennt: 1) Hugmynd valnefndarinnar var að reyna að fá sem mesta breidd í listann, og 2) Fyrri verk höfundar skipta líka máli. Enginn efast um hæfileika Guðrúnar Helgadóttur sem rithöfundar. Samt er eitthvað skrýtið að sjá hana á þessum lista. Ég legg til að á næsta ári verði byrjað að hafa tilnefningarnar þematengdar, og fyrsta þemað verði barnabækur. Þannig er hægt að útmá umræðuna um það hvort sumar bókmenntir eigi heima í flokk með öðrum, og einbeita sér að því sem máli skiptir: Bókunum sjálfum.

Mitt val: Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson

..
>> Lesa

miðvikudagur, desember 8

Spáð í Hin íslensku bókmenntaverðlaun I

Höfundur Það er ekkert að bókmenntaverðlaunum. Matthías Johannesson heldur hinu gagnstæða fram, en satt að segja á ég alltaf erfitt með að taka fólk alvarlega sem hefur þá skoðun. Verðlaun eru í grunninn gæðamat, eins konar leikræn sviðsetning á gagnrýni. Og ég efa að Matthías setji sig upp á móti því að til sé bókmenntagagnrýni. Hins vegar er ekkert að því að tala um bókmenntaverðlaun og gagnrýna þau, pæla í hugsanagangi veljenda, ræða þau verk sem valin voru, og hver hefði átt að tilnefna í staðinn. Gott dæmi um slíka grein er Víðsjárpistill Eiríks Guðmundssonar.* Ég ætla ekki að gera neitt slíkt í hér, heldur að fjalla um bókmenntaverðlaunin sem Félag Íslenskra Bókaútgefenda veita og koma með nokkrar tillögur að því hvernig þau mættu bæta.

(Áður en lengra er haldið skal hér með upplýst að faðir minn, Torfi Tulinius, skrifaði bók sem lögð var fram til bókmenntaverðlaunanna í almenna og fræðibókaflokknum, Skáldið í skriftinni, sem var ekki tilnefnd. Svo er betra að nefna að faðir minn var einnig „einvaldur“ í fagurbókmenntaflokknum árið 2001, þegar það fyrirkomulag tíðkaðist á útnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna)

Talsverðar óanægju hefur gætt með valið í ár. Satt að segja hef ég enn ekki rekist á nokkurn mann sem er ánægður með listann. Ég leyfi mér þó að halda að tilnefndu höfundarnir séu kampakátir og þau sem standa að verðlaunum séu stolt af afrakstrinum. En aðra ánægða hef ég ekki séð tjá sig. Við þessu gætu einhverjir sagt að þau séu alltaf umdeild, en ég man satt að segja ekki eftir því að tilnefningarnar hafi áður vakið jafn mikla og víða gremju. Minni mitt dugar þó ekki mikið lengra en til ársins 1997.

En hvernig bera þessar tilnefningar að? Tvær þriggjamanna nefndir voru skipaðar, ein fyrir fagurbókmenntir, hin fyrir fræðibækur og bækur almenns eðlis, sem síðan velja fimm bækur til tilnefningar. Nefndirnar hafa um það bil tvo mánuði til að lesa yfir allar þær bækur sem lagðar eru fram og velja hverjar séu þess verðugar að vera tilnefndar. Nú er ég ekki einn af þeim sem telja að nefndir séu endilega af hinu illa, annað en til dæmis Þorsteinn Gylfason, sem hefur lagt til að sett verði í stjórnarskrá að bannað verði að skipa nefndir. En vissar hættur skapast þegar ákvarðanir eru teknar af hópi fólks sem ekki eru til staðar ef ein manneskja ræður.

Groupthink heitir það á ensku sem á íslensku mætti snara sem hóphugs. Það er ákveðin hegðun smárra, samheldina hópa sem leiðir til slæmra ákvarðana. Það er ekki ætlun þessarar greinar að fjalla um hóphugs, en benda á nokkrar hóphugshegðanir sem gætu komið sér sérstaklega illa við tilnefningu til bókmenntaverðlauna.

  • Sjálfsritskoðun. Nefndarmanneskja er kannski alls ekki sammála skoðun hinna tveggja, en treystir sér ekki til að að andmæla. Kannski er ein eða fleiri bókanna alger hörmung, en af því hinum finst bókin frábær þá vill nefndarmanneskjan ekki fara í karp.


  • Tálsýn um að allir séu sammála. Fyrst enginn mótmælir hljóta allir að vera sammála. Því þarf ekki að hugsa aftur um það hvort bókin eigi heima á listanum eða ekki.


  • Og aðalatriðið, ekki nægileg gagnrýni á frumforsendur. Nú veit ég náttúrulega ekki hverjar frumforsendur nefndanna eru, en notum sem dæmi að ein af þeim hafi verið að hafa tilnefndu bækurnar af ólíku tagi. Þetta hljómar kannski vel en erfitt er að svara spurningunni af hverju er það gott að hafa bækurnar af ólíku tagi. Við því eru hins vegar ýmis mótrök, veigamest náttúrulega að í jafn litlu úrvali af bókum og því sem lagt er fram til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna er ólíklegt að bestu bækurnar verði endilega ólíkar. Þrjár af fimm bestu bókunum geta verið ljóðabækur eða ferðabækur eða eitthvað slíkt.


Hvað ber að gera til að laga þetta? Augljósast er að hafa einhvern einstakling aukreitis sem ekki hefur lesið bækurnar og hefur ekki atkvæðisrétt þegar kemur að tilnefningum. Hlutverk hans eða hennar er hreinlega að spyrja spurninga um einstakar bækur sem og forsendurnar sem nefndin gefur sér. Spyrja jafnt nefndina sem heild sem og hvern og einn nefndarmeðlim sér. Þannig væri hægt að gera alla ákvarðantöku betur ígrundaðri. Auðvitað er þetta ekki eina lausnin, en mér líst best á hana persónulega. Svo er náttúrulega að fara aftur í gamla „einvalds“ fyrirkomulagið og losa sig við nefndirnar.

Svo er eitt annað sem amar að bókmenntaverðlaununum. Þau eru of einsömul. Þar sem þau eru langmikilvægustu verðlaun á sínu sviði þá fá þau vægi langt úr öllu samhengi. Í rauninni eru þau einu verðlaunin á Íslandi sem fólki er ekki nokk sama um. Fyrir utan hver vinnur Idol náttúrulega. Það er engin lausn við því. Þau munu líklega alltaf verða það. En eitt gæti aðeins togað þau niður á jörðina. Fleiri verðlaun. Sem væri náttúrlega hið besta mál því það er ekkert að bókmenntaverðlaunum.

Þetta er fyrri hluti, ég mun fjalla meir um Hin íslensku bókmenntaverðlaun næsta föstudag.



*Leiðrétting. Í upprunalegri gerð þessarar greinar stóð að Eiríkur Guðmundsson setti sig upp á móti bókmenntaverðlaunum yfirleitt. Höfundur þessarar greinar misskildi pistil Eiríks og harmar mistök sín.
..
>> Lesa

þriðjudagur, desember 7

Spáð í tilnefningarnar I

HöfundurFyrri hluti: Fræðibækur og bækur almenns efnis
Tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2004 voru opinberaðar fyrir skemmstu. Hér er litið yfir listann og reynt að velta vöngum yfir því hverjir séu heitir og hverjir afleitir.

Halldór Laxness eftir Halldór Guðmundsson

Sú bók sem kom minnst á óvart að þessu sinni. Án efa þrælgott verk, hafi maður áhuga á ævi Halldórs Laxness. Undanfarin misseri hafa hins vegar verið gerðar svo margar bækur, blaðagreinar og sjónvarpsmyndir um ævi skáldsins að ég efast um að ég nenni að lesa þessa bók fyrr en eftir svona 5-6 ár. Vonandi kemur senn sú tíð að fólk byrjar að skrifa bækur um skáldverk nóbelsskáldsins, en ekki höfundinn sjálfan, því þar er mikið starf óunnið. Í fyrra var Hannes Hólmsteinn tilnefndur fyrir sína bók, þannig að það hefur varla komið annað til greina en að tilnefna þessa líka, svona til að gera þessi verðlaun ekki hlægileg í sögulegu samhengi.

Íslendingar eftir Sigurgeir Sigurjónsson og Unni Jökulsdóttur
Ákaflega fín og flott bók. Texti Unnar er léttur og hlýlegur, en veigamestar eru auðvitað ljósmyndir Sigurgeirs, sem eru svo skemmtilegar að maður getur horft á þær tímunum saman. Í sumar voru þær til sýnis á Austurvelli með enskum og íslenskum texta, og hefur mörgum erlendum ferðamanninum vísast þótt það dágóð sárabót fyrir þær fúlgur fjár sem hann var flettur í hingaðför sinni. Íslendingar er eins og rökrétt framhald af Stikluþáttum Ómars Ragnarssonar frá því fyrir rúmum tuttugu árum, því megináherslan er á fólk sem er ekki alveg í samræmi við vísitölur.

Íslensk spendýr, ritstjóri Páll Hersteinsson
Fermingargjafabækur sem innihalda orðin „íslenskur“ eða „Ísland“ slæðast reglulega inn á tilnefningalistann (Íslenskar eldstöðvar 2001, Hálendið í náttúru Íslands 2000, Undraveröld hafdjúpanna við Ísland 1996, Hraunhellar á Íslandi 1990). Þetta eru stórar og þungar bækur sem kosta um og yfir tíuþúsundkallinn, bækur sem eru yfirleitt aldrei lesnar frá fyrstu síðu til þeirrar seinustu (ef þær eru þá lesnar yfirleitt) og bæta venjulega engu nýju við þekkingarsamfélagið. Þessar bækur öðlast mikilvægi sitt fremur sem uppflettirit, og eru örugglega flestar fínar sem slíkar. Íslensk spendýr er líka merkileg fyrir þær sakir að fyrsta opinbera verk forseta Íslands eftir að hafa beitt synjunarvaldinu í sumar var að veita viðtöku fyrsta eintakinu af þessari bók.

Ólöf eskimói eftir Ingu Dóru Björnsdóttur

Um Ólöfu þessa Sölvadóttur hef ég aldrei neitt heyrt né lesið, enda hefur fátt verið skrifað um hana mér vitanlega, að undanskildum 36 bls. bæklingi eftir Sigurð Nordal sem var prentaður í 650 eintökum árið 1945. Inga Dóra hefur það því óneitanlega umfram Halldór Guðmundsson að hún er ekki að hjakka í sama farinu og hundruð manna áður. Söguþráðurinn í bók Ingu Dóru minnir nokkuð á bókina Catch Me If You Can eftir Frank W. Abagnale. Inga Dóra hefur skrifað ýmislegt um kvenkennda þætti í mótun íslenskrar þjóðernisvitundar, auk greinar um Leif Eiríksson, þannig að hún virðist vera rétta manneskjan í þetta verk.

Saga Íslands, 6. og 7. bindi, aðalhöfundur Helgi Þorláksson

Fyrsta bindið í bókaflokki þeim sem nefnist Saga Íslands kom út fyrir þrjátíu árum, og þar af leiðandi fimmtán árum áður en nokkur maður tók að sér að búa til fyrirbæri sem kalla mætti „Íslensku bókmenntaverðlaunin“. Ég held að Sigurði Líndal gæti ekki verið meira sama um þessi verðlaun. Sú staðreynd að hér eru tilnefnd tvö bindi vekur mann líka til umhugsunar: Er þetta frekar hugsað sem virðingarvottur við bókaflokkinn í heild? Ef svo er ekki, af hverju var þá ekki bara 6. bindið tilnefnt? Eða bara 7. bindið? Mér finnst að einhver önnur bók hefði mátt koma í staðinn fyrir þessi tvö bindi, það er svo mikil skylduræknislykt af þessu einhvern veginn.

Mitt val: Íslendingar eftir Sigurgeir Sigurjónsson og Unni Jökulsdóttur
..
>> Lesa

mánudagur, desember 6

Svar/Andsvar

Höfundur Ágúst Borgþór sendi höfundi greinarinnar Hvað hrjáir Þráin Bertelsson? tölvupóst. Hér er það bréf ásamt svari höfundarins, Kára Tulinius, og svari Ágústs við svari hans.

From: Ágúst Borgþór Sverrisson
To: Kári Tulinius
Subject: Vegna skrifa um ritdeilu við Þráinn

Ég verð að segja að mér er dálítið misboðið yfir pistli þínum um ritdeilu mína og Þráins. Þó að ég sé sammála þér um efnisatriði málsins þá finnst mér stöðugt tal þitt um hvað ég sé lítilsigldur rithöfundur ómaklegt og barnalegt. Ég er vissulega ekki mjög þekktur rithöfundur en hef þó hlaðið á mig alls kyns viðurkenningum, m.a. fimm smásagnaverðlaunum. Flestar bækurnar mínar hafa fengið afbragðsgóða dóma, m.a. í alþjóðlega bókmenntatímaritinu World Literature Today. Þá má þess geta að ég á smásögur í þekktum íslenskum safnritum sem hafa komið út á síðustu misserum.

skyjaborgir.com eiga að heita menningar- eða bókmenntavefur en mér finnst þetta viðhorf þitt vera mjög ómenningarlegt: Nefnilega að rithöfundar sé ómerkilegir ef þeir eru ekki ofboðslega frægir metsöluhöfundar. - Úti um allan heim eru góðir rithöfundar sem eru ekki víðfrægir en njóta virðingar í vissum hópum. Eins og þú veist gildir það líka um aðrar listgreinar.

Þráinn er umfram allt þekktur fyrir kvikmyndagerð en hefur ekki skrifað margar bækur. Þó að hann sé frægur og vel seldur og eigi það bara skilið, þá efast ég um að hann njóti mikið meiri virðingar en ég á meðal þeirra sem helst fylgjast með bókmenntalífinu.

Að meta listamenn eingöngu eftir frægð og sölutölum er vægast sagt lítt bókmenntalegt viðhorf.

Kveðjur
ÁBS

From: Kári Tulinius
To: Ágúst Borgþór Sverrisson
Subject: Re: Vegna skrifa um ritdeilu við Þráinn

Sæll Ágúst,

Takk fyrir að nota tíma þinn í að lesa greinina og svara henni. Þú misskilur það sem ég er að segja, sem er svo sem ekki skrítið, þar sem beina útskýringu vantar í textann. Ég ákvað á seinustu stundu að taka út fyrstu málsgreinina að greininni því mér fannst sú málsgrein sem greinin byrjar á núna best til slíks. En hún var málsgrein númer tvö upprunalega. Í fyrstu málsgreininni minntist ég á Anne Rice (ástæður þess geturðu lesið um hér) og notaði hana sem dæmi um frægan og ríkan höfund sem ekki hefur notið hylli gagnrýnenda. Henni líkti ég síðan við Þráinn Bertelsson.

Allar líkingar mínar á „stærðarmun“ ykkar Þráins eiga ekki við um gæði ritverka ykkar heldur hve plássfrekir þið eruð í íslenskum bókmenntaheimi. Sama á við um kommentið mitt um smásagnahöfunda. Skáldsögur eru plássfrekari en smásögur, ekki bara í lengd, heldur einnig í því hve mikið er fjallað um þær, hve mikið þær eru keyptar og svo framvegis. Ég notaði aldrei orðið lítiðsigldur. Ég líkti þér
annars vegar við smáblóm og hins vegar við ungan dreng sem þarf að ganga við hækju. Þar á ég ekki við að þú sért ómerkilegri en tréið og strákurinn sem hrindir unga drengnum, heldur að þú eigir erfiðara með að láta heyra í þér. Þráinn, fyrir utan að vera metsöluhöfundur og virtur kvikmyndaleikstjóri, er líka einn áhrifamesti dálkahöfundur landsins og getur haft mikil áhrif á „þjóðfélagsumræðuna“. Þótt að blogg þitt sé meðal víðlesnustu blogga á Íslandi, þá er ekki hægt að líkja saman stöðu þinni í samfélaginu við Þráins. Ég var ekki að reyna að gera lítið úr þér, heldur lýsa „stærðarmun“ ykkar tveggja á ljóðrænan hátt.

Ekki halda að ég sé þar með að setja sjálfan mig á stall. Ég viðurkenni fúslega að í hinum íslenska ritjurtagarði er ég arfi :)

með góðum hug og von um góða sölu og hlutlæga gagnrýni á Tvisvar á ævinni,
Kári Tulinius

From: Ágúst Borgþór Sverrisson
To: Kári Tulinius
Subject: Re: Vegna skrifa um ritdeilu við Þráinn

Sæll og þakka svarið. Eins og þú hefur orðið var við og fjallað um eru rithöfundar viðkvæmir og ofsóknaræðið veður uppi í jólabókaflóðinu. Núna erum við komnir með dæmi um ofsóknaræði þar sem þrjár kynslóðir höfunda koma við sögu og sá eldri ásakar þann yngri og munar líklega um tveimur áratugum í hverju tilviki: Frá Þráni til mín til þín.

Bestu kveðjur
ÁBS
..
>> Lesa

sunnudagur, desember 5

Englar og djöflar eftir Dan Brown

HöfundurÆtli það sé nokkuð hægt að fjalla um Engla og Djöfla eftir Dan Brown án þess að minnast á Da Vinci lykilinn eftir sama höfund? Þá er því lokið og við getum snúið okkur að verkinu sem er til umfjöllunar. Englar og djöflar kom út árið 2000 á enskri tungu, en Bjartur var nýlega að gefa út íslenska þýðingu Karls Emils Gunnarssonar. Þegar Dan Brown útskrifaðist úr háskóla fór hann að kenna ensku í smá tíma. Hann þraukaði ekki lengi sem kennari og fór fljótlega að snúa sér að skriftum þar sem hann tók sérstaklega fyrir áhuga sinn á dulmálskrukki og samsæriskenningum um ríkisstjórnir. Hann er sonur margverðlaunaðs stærðfræðiprófessors og trúarlegs tónlistamanns. Það voru þessar andstæður vísindanna og trúarlegra skoðanna í uppeldi Brown sem voru kveikjan að verkinu Angels and Demons. Hr. Bjartur segir eftirfarandi um söguna:
Robert Langdon, prófessor í táknfræði við Harvard-háskóla, er boðaður til Sviss með skömmum fyrirvara og falið að rannsaka vettvang óhugnanlegs morðs á þekktum vísindamanni. Fyrr en varir er hann flæktur inn í aldalangar erjur kaþólsku kirkjunnar og leynifélagsins Illuminati sem hefur í hyggju að valda usla í sjálfum Páfagarði í Róm.
Þetta er ágætt, en það mætti fylgja með að strax í upphafi –kafla sem kallaður er formáli- er framið morð. Spennan er bókstaflega látin stökkva fram og grípa lesandan á upphafsíðum bókarinnar, og meira að segja áður en sagan sjálf hefst. Slíku útspili fylgir mikil áhætta, því að nú má lesandinn ekki missa áhugan og verður verkið því að halda sama eða svipuðum þræði allt til enda. Merkilegt nok! Þá tekst það glæsilega hjá Brown. Frásagnirnar í sögunni er vel fléttaðar saman til þess að spennan haldist í allri byggingu verksins. Flestir kannast eflaust við áhrifin sem fylgja góðri byggingu í spennusögu. Maður getur ekki hætt að lesa fyrir nokkra muni, einmitt það sem kom fyrir mig.

Kaþólskri trú er stillt upp á móti vísindahyggju nútímans. Höfuðstöðvar hvors fyrir sig eru Páfagarður annars vegar og rannsóknastofan CERN hinsvegar. Þessir máttarstólpar hafa látið hvorn annan í friði þangað til að fornt leynibræðralag sem kallar sig Illuminati, eða hinir upplýstu, kemur upp á yfirborðið. Mitt á milli eru táknfræðimaðurinn Rober Langdon og náttúrufræðikonan Victoria Vetra. Mér fannst smá kaldhæðni liggja í því að láta páfagarð þurfa að leita hjálpar vísindamanna til að leysa gátur óvinarins. Þannig eru það í raun tveir upplýstir pólar sem berjast um tilveru trúarinnar en ekki trúin á móti vísindum. Einhvern veginn er eins og undir niðri liggi spurningin: á Guð að vera til?

Það er eins og Brown skrifi að einhverju leyti undir áhrifum kvikmynda. Það þarf ekki endilega að vera slæmur hlutur þar sem lesendur eru óneitanlega flestir undir slíkum áhrifum. Þannig held ég að bókin nái ótrúlega auðveldlega að kalla fram þær myndir í huga lesanda sem ætlast er til. Persónurnar eru flestar skemmtilegar og vel úr garði gerðar. Aðalpersónan, Langdon breytist úr fræði- og bókabéus í Indiana Jones. Með öðrum orðum þá verður Robert Langdon það sem alla fræðimenn dreymir um að verða.

Ég get lítið tjáð mig um íslenska þýðingu verksins þar sem ég las hana á ensku. En ég efast ekki um að Karl Emil hefur staði sig vel við þýðinguna, líkt og áður.

Kannski tóku sumir eftir því hér í byrjun að bókin Englar og djöflar kom út á undan Da Vinci lyklinum. Hún er fyrsta bókin um Langdon og ef marka má sögusagnir, þá er von á fleirum bókum frá Dan Brown um táknfræðinginn. Ég vona að bækurnar verði fleiri því að bókin fangaði mig gjörsamlega og er einhver allra besta spennufrásögn, sem ég hef komist í, síðan ég sá Indiana Jones.

Vefur Bjarts um bókina.

Vefur Dans Browns
...
>> Lesa

föstudagur, desember 3

Gler leikur að orðum

HöfundurLjóðabókin Þríleikur að orðum eftir Hrafn Andrés Harðarson kom út árið 1990. Sjálfur tiltillinn felur í sér loforð um tvær bækur til viðbótar, og fyrir stuttu síðan kom út önnur bókin í þessum þríleiks Hrafns, Gler leikur að orðum.

Á sama tíma og orðaleikir fara fram er sviðsljósinu beint að glerinu. Skáldið skoðar hvernig glerið kemur okkur fyrir sjónir í ýmsum birtingarmyndum dags daglega, en veltir einnig fyrir sér hliðstæðum glers í óbeislaðri náttúrunni. Hvað ef ekki væri til neitt gler? Er lesandin spurður að í einu ljóðinu, eflaust spurning sem fáir hefa velt fyrir sér, né áttað sig á hvað gler er mikilvægur þáttur í hversdagslegri tilveru okkar.

Þrátt fyrir að glerið sé í aðalhlutverki er komið víða við og skáldið bregður upp myndum af fortíðinni, tímanum, húsáhöldum, ástinni, tröllum ásamt þeirri náttúrulýrík sem virðist flæða í gegnum allt verkið, og á köflum glíma við efnislega veröld manneskjunnar. Mitt á milli og í bland við allt saman er verið að leika sér að orðum, oftast á skemmtilegan og broslegan hátt.

Hér er á ferðinni ágætis ljóðabók. Flest ljóðin hitta vel í mark og ná tilætluðum árangri, hvort sem það er að fá lesandan til umhugsunnar eða glotta við tönn. Sjálfur þóttist ég verða var við jörðun skáldsögunnar, heimsósóma og fleira, en það eru túlkunnar atriði sem hver og einn verður að gera upp við sig. Það besta við þessa ljóðabók Hrafns er að ljóðin bjóða uppá margvíslega túlkun og að mínu mati er það grundvöllur að góðri lýrík. Ljóðakver sem er ánægjuleg lesning og skemmtir fólki um leið með atthyglisverðum orðaleikjum.
..
>> Lesa

miðvikudagur, desember 1

Hvað hrjáir Þráin Bertelsson?

Kári TuliniusÁgúst Borgþór Sverrisson, smásagnahöfundur, heldur úti bloggi, og er talsvert frægari fyrir það en smásögur sínar. Nýverið var hann fenginn til að tjá sig í Silfri Egils um nýútkomna bók Þráins Bertelssonar, Dauðans óvissi tími. Ég horfði á þáttinn, en satt að segja man ég sáralítið eftir umræðunni, þess þá heldur því sem Ágúst Borgþór hafði sérstaklega fram að færa. Mig grunar að ég hafi dottað yfir Silfrinu, sem gerist æ oftar eftir því sem ég eldist. En nóg um það. Hins vegar þá var Ágúst fenginn til að fjalla um nokkrar jólabækur fyrir kistuna.is. Hann ákvað að fjalla fyrst um bók Þráins, þar sem hann var búinn að lesa hana. Svo birti hann kistugreinina einnig á bloggi sínu. Mat Ágústs á bókinni er ljóst strax í titli gagnrýninnar, Slarkfær reyfari. Ekki góður dómur, sem sagt. Nú jæja, ekki mjög stórar fréttir kannski, minniháttar rithöfundur gefur bók metsöluhöfundar slæma einkunn. Varla miklar fréttir það. En öllum þeim til happs sem hafa gaman að því að sjá fólk æla á peysuna sína á almannafæri þá fréttir Þráinn Bertelsson af þessu og ákveður að svara. Hefst þá gamanið.

Ekki ætla ég að birta allan svarpistilinn, en ef maður ætti að draga út helstu atriði þá eru þau eftirfarandi (allur texti innan gæsalappa í þessari grein er úr umræðu Ágústs og Þráins):

  • Ágúst Borgþór er með bók Þráins á heilanum og talar um hana út í eitt

  • Þeir sem gefa bók Þráins lélega dóma eru „að reyna að koma sér í mjúkinn hjá voldugum aðilum með því að taka að sér að skvetta úr koppnum þeirra“.

  • Rithöfundum er leyfilegt og „jafnvel beinlínis skylt að fjalla um allt milli himins og jarðar“.

  • „þar með talið að velja sér jafnóspennandi viðfangsefni og vesaling minn“ (ég vona innilega að hann meini sína eigin persónu, en ekki, umm... þið vitið, vesalinginn hans).

  • „enginn rithöfundur í veröldinni getur skrifað aukatekið orð án þess að það eigi sér upptök í hans innsta eðli“.

  • Ágúst Borgþór getur kannski raðað orðum saman svo að úr verði setningar, en hann er ekki rithöfundur fyrir fimm aura.

  • Ull á þig!

Ágúst svarar pent fyrir sig, útskýrir fyrir Þránni afhverju hann hafi verið að tjá sig um bókina, biður svo honum að njóta velgengni sinnar sem og þakkar fyrir fyrri bók Þráins, Einhvers konar ég, sem Ágústi hafi vel líkað. Svarar þá Þráinn aftur.

  • Ávarpar Ágúst Borgþór sem „Ágúst Þór“, sem verður að teljast nokkuð hart.

  • Vitið þið hvað, svarið er svo hnitmiðuð fullkomnun að ekkert má missa sín, svo ég birti það bara í heild sinni:

  • „Það sem þú virðist ekki skilja er þetta:
    Fyrir rithöfund sem er með bók á jólabókamarkaðnum er heldur ósmekklegt að nota hvert tækifæri til að brigsla keppinaut sinn opinberlega um kjaftasögur, vinnusvik og dylgjur. Það ber vott um fullkomið siðleysi - eða fádæma heimsku.
    Nema hvort tveggja sé.“

Ég viðurkenni að ég táraðist af gleði þegar ég las þetta tilsvar. Hvílík snilld! Sjaldan séð jafn mikla heift í svo stuttum texta. Ágúst Borgþór svarar svo fyrir sig með því að benda á að hann sé lítt þekktur, sem er vissulega rétt, og að ef Þráinn ætli að gefa út bók sem sé svo „eldfim“, þá ætti hann að koma sér upp aðeins þykkari skráp. Ágúst sér sko ekki eftir neinu! Hann segir líka eitthvað um þöggun og sjálfsritskoðun. Svar Þráins er jafn hnitmiðað, en kannski ekki í sama gæðaklassa og hið fyrra.

  • Þráinn ávarpar Ágúst bara sem „Ágúst“, honum finnst greinilega ekki taka því lengur að eyða tveimur nöfnum í manninn.

  • „Þetta svar þitt staðfestir minn versta grun. Það er hvort tveggja sem amar að.
    Læt svo þetta útrætt af minni hálfu.
    Vegni þér vel.“

Síðan skellir sér einhver nafnlaus inn í samræðuna, en við skulum ekkert pæla í því sem hann segir heldur hoppa beint í lokainnlegg Ágústar. Hann bendir á að rithöfundum sé leyfilegt að fjalla um bókmenntir og að það sé hálf hlægilegt að hugsa sér Þráinn og Ágúst sem keppinauta, slíkur sé munurinn á sölunni. Bæði satt og rétt.

En nóg af endursögn, snúum okkur að kjarna málsins. Hvað fær Þráinn Bertelsson, sem hefur hlotnast meiri heiður og velgengni en langflestum núlifandi íslenskum listamönnum, til að bregðast svo harkalega við gagnrýni frá smáblómi í íslenska ritjurtagarðinum?

Það er vel þekkt að margir listamenn líti svo á að öll slæm gagnrýni á sköpunarverkum sínum jafngildi persónulegum árásum á höfundinn, gott ef ekki að slíkt séu andlegar morðtilraunir í hugum sumra. Þrátt fyrir þetta eru ákaflega fáir höfundar sem eyða tíma sínum og orku í það að svara fyrir sig. Nær allir vita að það kemur gagnrýni eftir þessa gagnrýni, og það sem maður segir þegar manni er heitt í hamsi er oftast eitthvað sem betur væri ósagt. Ég efast ekki um það að Þráinn er jafn kunnugt um þetta og mér. Hvað fær hann þá til að ráðast svona harkalega á Ágúst Borgþór?

Það fyrsta sem ber að athuga í því samhengi er að Þráinn er greinilega búinn að ákveða það að allir sem gagnrýni Dauðans óvissa tíma séu „að reyna að koma sér í mjúkinn hjá voldugum aðilum“. Enginn sem setur eitthvað út á bók hans gerir það af því að eitthvað féll ekki fagurfræðilega í kramið, heldur af því að Þráinn Bertelsson ætlar sér að kýla stóru kallana kalda, og þess vegna munu ýmsir finna sig knúna til að gerast handbendi hinna sterku og hindra Þráinn í ætlunarverki sínu. Það er gaman að fyrrum kvikmyndaleikstjóri upplifi sig eins og hetjuna í Schwarzenegger-ræmu. Áður en hann getur tekist á við stóra vonda óvininn þarf hann fyrst að verjast árásum fjölda smáfjenda.

En það sem er kannski áhugaverðast við þetta er að með þessu þarf Þráinn aldrei að efast um gæði eigin verks. Öll slæm gagnrýni getur verið afgreidd sem afurð annarlegra hvata. Það finnst engum bókin hans léleg eða miðlungs í alvörunni, fólk er bara að reyna að ganga í augun á „voldugum aðilum“. Það sem er svo sniðugt við þetta samsæri gegn Þránni er að það er sjálfsprottið. Engar skipanir eru gefnar, þessir „heilmargir“ sem taka að sér að gagnrýna bókina fyrir hönd stóru, vondu kallana gera það „meira að segja í sjálfboðavinnu“.

Það rennur örugglega mörgum í grun að Þráinn hrjái mikilmennskubrjálæði. Þar get ég ekki verið alveg sammála. Hinn sanni mikilmennskubrjálæðingur lætur smáblóm ritjurtagarðsins sig litlu skipta. Nei, einhver önnur ástæða hlýtur að vera nærtækari. Fyrir utan heiftina og bræðina eru líka mikil sárindi í þessum pistlum Þráins, sérstaklega þeim fyrsta. Hann talar um sjálfan sig sem „vesaling“ og um bókin er „þessi skræða“. Og þó að hugmyndin sem hann setur fram um að rithöfundar geti ekki „skrifað aukatekið orð án þess að það eigi upptök sín í hans innsta eðli“ verði honum að lokum tæki til að skjóta á Ágúst þá er þessi hugmynd mjög falleg og talsvert á skjön við afganginn af pistlinum. Þráinn er þarna að skilgreina það hvað sé að vera „alvörurithöfundur“ út frá sjálfum sér. Hann virðist þarna vera í raun að segja:

Sjáðu mig, ég er alvörurithöfundur!

Sem er náttúrulega eitthvað sem fólk sem eru visst í sinni sök um að vera „alvörurithöfundar“ gera ekki. Ég skynja þarna þrá til þess að verða metinn sem mikill listamaður. Ógæfa Þráins sem listamanns er að hans elskuðustu og dáðustu listaverk, Nýtt líf, Dalalíf og Löggulíf eru grínmyndir og í því samfélagi sem við lifum í eru grín, glens og gaman ekki talin eiga heima í alvöruþrungnum listaverkum. Ég þarf ekki annað en að benda á það húllumhæ sem varð þegar Þráinn var skipaður í heiðurslaunaflokk íslenskra listamanna.

Þráinn er listamaður á efri árum. Þó að hann sé nýsprunginn út sem rithöfundur þá rennur mér í grun að hann þrái viðurkenningu sem „alvörurithöfundur“. Einhver mér vitrari sagði fyrir margt löngu að það væru tvær leiðir til að vera hærri en aðrir í kringum sig, önnur væri að vera rísa upp úr fjöldanum, hin að berja keppinautana niður.

Það er frekar hlægilegt að keppinauturinn sem Þráinn kýs að ráðast á er Ágúst Borgþór, sem er það umkomulausasta af öllu umkomulausu á ritleikvellinum, smásagnahöfundur. Fyrir Þráinn Bertelsson að ráðast á Ágúst er eins og þegar stór strákur í elsta bekknum hryndir yngri strák, sem þarf að ganga við hækju, ofan í drullupoll. Hraplegur ofleikur af nokkrum sem vill láta taka sig alvarlega eins og Þráinn svo augljóslega þyrstir í.

Hver er þá sjúkdómsgreiningin? Hvert er svarið við spurningunni sem spurt er í titli þessarar greinar, hvað hrjáir Þráinn Bertelsson?

Ég myndi halda að það myndi blasa nokkuð augljóslega við. Minnimáttarkennd í bland við þá vissu Þráins að hann sé mikill listamaður. Hann þolir ekki gagnrýni, og áður en nokkur hefur verið sett fram ákveður hann að öll sú sem hann fái sé sett fram af vafasömum ástæðum. Það ber ekki vott um mikið sjálfstraust. Þvert á móti, hann virtist búast við henni, og áður en hann fær hana kemur hann sér upp varnarmúr.

Svo þar hafið þið það, það sem rekur Þráinn Bertelsson til að ráðast á Ágúst Borgþór, það sem hrjáir Þráinn, er þrá eftir viðurkenningu sem hann er ekki viss um að aðrir telji hann verðskulda.

Eða það held ég alla veganna. Ef þú hefur aðrar kenningar þá endilega sendu mér ímeil á ritstjorn@skyjaborgir.com Til að skoða færslu Ágústar og komment Þráins þá smellið hér. Njótið vel.
..
>> Lesa

Greinasafn

september 2004 október 2004 nóvember 2004 desember 2004 janúar 2005 febrúar 2005 mars 2005 apríl 2005