fimmtudagur, mars 31

Kastað í flóanum

HöfundurNýlega var bókin Kastað í Flóanum eftir Ásgeir Jakobsson endurútgefin af Bókafélaginu Uglu. Í bókinni er rakin sagan af upphafi togveiða við Ísland. Lýst er baráttu landsmanna gegn botnvörpunni og tilraunum erlendra auðjöfra til togaraútgerðar á Íslandi. Brugðið er upp lifandi mannlýsingum af þeim sem við sögu koma, til dæmis Einari Benediktssyni, Jóni Vídalín og Indriða Gottsveinssyni, fyrsta íslenska togaraskipstjóranum.

Bókin hlaut góðar viðtökur þegar hún kom fyrst út árið 1966 og bókmenntafræðingurinn Eiríkur H. Finnbogason skrifaði meðal annars eftirfarandi:
Bókin er þannig rituð, að hún ætti að geta orðið nokkur skemmtilestur hverjum sem er, þótt ekki væri fyrir annað en málfarið, sem bæði er myndrænt, mjög svo persónulegt og óvenju hispurslaust.
..
>> Lesa

sunnudagur, mars 27

Á venjulegum sunnudegi

HöfundurDýragarðssagan
Höfundur: Edward Albee
Leikstjóri: Halldór Magnússon
Leikfélag Hafnarfjarðar


Smáborgaralegur maður um fertugt, klæddur í brúnar buxur og ullarjakka, situr á bekk í Central Park á sunnudagseftirmiðdegi og les bók. Hann er truflaður við lesturinn þegar kæruleysislegur og nokkuð óheflaður náungi gengur upp að honum og segist vera að koma úr dýragarðinum. Aðkomumaðurinn byrjar að spyrja manninn á bekknum óþægilegra spurninga um hjónaband hans og börn, hvað hann hafi í tekjur og hvar hann eigi heima. Hann reynir að vera kurteis en er óneitanlega nokkuð brugðið við þessa undarlegu uppákomu.

Svona hefst leikritið Dýragarðssagan, fyrsta leikrit Edwards Albee frá 1959. Verkið er einfalt í sniðum, stuttur einþáttungur fyrir tvo leikara. Leikfélag Hafnarfjarðar setti þetta leikrit upp á dögunum í Lækjarskóla, og var þar um að ræða fimmtu og síðustu sýningu félagsins í seríu klassískra nútímaverka. Áður höfðu verið sýnd verkin Hamskiptin (Kafka), Beisk tár Petru von Kant (Fassbinder), Að sjá til þín maður (Kroetz) og Birdy (Wallace). Þessi verk eiga sameiginlegt að þau henta hinu nýja sviði leikfélagsins býsna vel, að Birdy kannski undanskildu sem er stærra í sniðum, þótt sú aðlögun hafi heppnast vel.

Í Dýragarðssögunni leikur Edward Albee sér að mörkum hversdagsleikans og fáránleikans og virðist komast að þeirri niðurstöðu að þau séu kannski ekki eins skýr og margir telja – stundum er það hversdagsleikinn sem er fáránlegastur af öllu. Leikritið gaf tóninn fyrir síðari verk Albees sem sum hver skarta mjög óvenjulegum persónum og aðstæðum, enda ekki að ósekju sem Albee hefur verið markaður bás undir merki fáránleikaleikhússins, eða „Theater of the Absurd“. Dýragarðssagan er stúdía á viðbrögðum „venjulegs“ borgara við óhugnanlegri röskun hversdagslífsins, hugleiðing um hvað það sé að vera öðruvísi, en umfram allt saga af manneskjum í óskiljanlegum heimi.

Í uppfærslu Leikfélags Hafnarfjarðar kemst þessi kjarni verksins ekki nógu vel til skila, þótt skemmtanagildið hafi verið talsvert. Munaði þar mestu um passívara hlutverkið, Peter, hlédræga bókabéusinn á bekknum sem var túlkaður afar skemmtilega af Gunnari Birni Guðmundssyni. Við að horfa á Gunnar leika kemst maður að því að hlutverk Peters er stærra en það virðist vera þegar leikritið er lesið. Hann skilaði vandræðagangnum og vaxandi hræðslunni þannig að áhorfendur gátu ekki annað en hrifist – oft byrjaði einhver í salnum að flissa af mjög litlu tilefni og það smitaði út frá sér. Það var erfitt annað en að finna til með þessum hrekklausa vesaling, sem lætur þó ekki bjóða sér hvað sem er og ákveður að verja bekkinn sinn áður en sunnudagurinn er úti. Hlutverk aðkomumannsins, Jerrys, er miklu erfiðara, þar er meiri texti og skapgerðarsveiflurnar stór þáttur. Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson reyndist ekki nógu burðugur leikari til að túlka brjálæðislegt tal Jerrys – til þess var röddin of eintóna, þagnirnar of fáar og ákafinn ekki nógu mikill. Lokamínúturnar voru þó sterkasti leikræni hluti sýningarinnar, eftir að Peter fær nóg af yfirganginum. Þá fyrst var sem samleikurinn heppnaðist fyrir alvöru. Það er bara ekki öllum leikurum gefið að tala út í tómið svo lengi.

Leikmyndin var flott, þótt kannski hafi hún verið dálítið aðþrengd. Í leikritum Albees er grunntilfinningin oft sú að persónurnar séu lítið fólk í stóru tómi. Með marglitum snúrum umhverfis sviðið skapaðist þó viss þrívíð dýpt fyrir augað, sem getur e.t.v. virkað á líkan hátt. Helsti ókostur sýningarinnar var hins vegar þýðingin, sem var langt í frá nægilega góð. Í frumtextanum er texinn fyrst og fremst talmálskenndur, en í þýðingunni áberandi stirður og þunglamalegur. Heildartilfinningin í íslenska textanum var ekki eins mikil og í frumtextanum, ekki síst vegna þess að endurtekningarnar eða leiðarstefin í texta Albees (sagan af því sem gerðist í dýragarðinum, börn Peters og fjölskyldulíf hans) fletjast einhvern veginn út.

Ekki hefur enn verið gefið upp hvað Leikfélag Hafnarfjarðar tekur sér fyrir hendur næst. Með Dýragarðssögunni er lokað hring sýninga sem voru á heildina litið mjög skemmtilegt innlegg í íslenskt leikhús, þótt þær hafi verið heldur brokkgengar. Við fáum aldrei of mikið af klassísku 20. aldar leikhúsi eins og staðan er núna, og því við hæfi að enda á því að skora á önnur áhugaleikfélög að taka Hafnfirðingana sér til fyrirmyndar í efnisvali.
..
>> Lesa

föstudagur, mars 25

Síðbúin svör við rímnadómi Jónasar

HöfundurÁ þriðja áratug tuttugustu aldar óskaði danski lýðskólakennarinn Holger Kjær eftir upplýsingum frá íslensku alþýðufólki um heimanám og uppeldi á Íslandi á 19. öld. Svörin sem honum bárust við þessum spurningum eru varðveitt á Þjóðminjasafninu og varpa athyglisverðu ljósi á viðhorf nokkurra einstaklinga sem fæddir eru á tímabilinu 1850 til 1900 til rímnakveðskaparins. Koma þar fram önnur viðhorf en þau sem Jónas Hallgrímsson viðraði í Fjölni í frægum dómi sínum um rímur eftir Sigurð Breiðfjörð. Má jafnvel lesa þau sem síðbúin svör við dómi Jónasar

Meðal þeirra sem tjá sig um rímurnar er Einar Jónsson (f. 1853) frá Stóra-Steinsvaði í Hróarstungu. Hann telur víst að ritdómur Jónasar hafi drepið rímnakveðskapinn en bætir við: „Ég hygg nú eigi að síður, að rímnakveðskapurinn hafi átt mikinn og góðan þátt í, að halda við lífsgleði þjóðarinnar og fróðleik hennar í gegnum hina löngu þrautatíma hennar. Það var mikilsverð tilbreyting fyrir hana, að þurfa ekki alltaf að hlusta á endurtekinn lestur sagnanna, en fá efnið sungið eða kveðið annað veifið.“ Jón Helgason (f. 1876) frá Brattahlíð í Svartárdal tekur í svipaðan streng: „Þá má telja rímunum það til gildis að þær hafa hjálpað mjög til að muna sögurnar því það er mikið sem það minnir á, ef vísa er til staðins.“

Lýsingar fleiri heimildarmanna minna jafnframt á að rímurnar voru ekki bara textar heldur líka tónlist sem flutt var við tilteknar aðstæður og skapaði sérstakt andrúmsloft. Ólafur Ólafsson (f. 1886) frá Haukadal í Dýrafirði rifjar upp, með vissri glýju í augum, að fornsagnalestur og rímnaflutningur hafi fléttast saman við handavinnu fólksins á kvöldvökunni. „Gekk þá verkið betur. Kambarnir örguðu, rakkarnir suðuðu, slögin urðu tíðari í skeiðinni hjá vefaranum, skyttan þaut óðfluga, en yfir allt þetta ómaði kvæðalagið eða sögulesturinn af köppunum fornu, hetjunum hugumstóru og guðunum gömlu. Þannig var sveitalíf íslenskt fram á síðasta mannsaldur.“ Jóhannes Guðmundsson (f. 1892) á Þórólfsstöðum í Kelduhverfi tengir rímnaflutninginn hins vegar fátíðu veisluhaldi: „Man ég ekki til að ég heyrði rímur kveðnar nema í brúðkaupsveislum þegar menn voru orðnir hreifir af víni. Söfnuðust gömlu mennirnir þá saman stundum og kváðu rímur eftir Sigurð Breiðfjörð, einkum bardagarímur og létu þá all vígmannlega. Varð stundum að þessu góð skemmtun.“

Viðamesti vitnisburðurinn af þessu tagi er hins vegar í svari Eskfirðingsins Björns Guðmundssonar (f. 1874) til Holgers Kjær. Björn skrifar:

„Þótt rímur væru nær aldrei kveðnar hér á heimilinu heyrði ég þær samt kveðnar annars staðar, en því miður aldrei til bestu „kvæðamannanna“, en svo voru þeir nefndir er best þóttu kveða rímur. Það var og sérstök list, sem fáum var gefin. Best þótti að heyra „kveðið saman“, en þá kváðu fleiri en einn, og þurftu þeir að vera vanir því ef vel átti að fara. – Ég var svo heppinn að heyra kveðið saman tvisvar til þrisvar sinnum, og þótti mikið til þess koma, enda voru þeir sem „kváðu“ vanir því og sæmilegir raddmenn.

Eftir því sem ég veit best mun kveðskapur hér í sveit hafa verið í hnignun í æsku minni, því rímnakveðskapur á kvöldvökum var svo sjaldgæfur. En við ýmis tækifæri – og helst ef menn höfðu bragðað áfengi – var kveðið. Man ég einkum eftir því í veislum, á veitingahúsum, í sjóferðum þegar siglt var, og síðast og ekki síst álandlegudögum í fiskiveri. Einnig var kveðið í fjárleitum – göngum – á haustin þar sem menn höfðu náttdvöl. Hefir mig oft furðað á því hve mikið menn kunnu af alls konar vísum, bæði úr rímunum sjálfum, og svo ýmsar lausavísur.

Þegar vel er kveðið get ég vel hugsað mér að fleirum muni fara sem mér. Kvæðalagið og allur blærinn í kveðskapnum hefir undarleg kitlandi áhrif á mann, það er eins og manni hitni stundum um hjartarætur, en hinn sprettinn er sem kalt vatn seitli um mann allan, eða kaldur gustur lengst framan úr öldum leiki um mann. Eða einhver seiðandi, töfrandi kraftur fylgi kveðskapnum, kraftar sem maður verður ósjálfrátt var við, en skilur ekki, veit ekki hvaðan er runninn eða hvert hann stefnir. Maður kann vel við áhrifin, eitthvað kunnlegt og laðandi fylgir þeim, eða eins og gamall kunningi og vinur sé kominn eða maður viti af honum í nálægð. Og í huga manns fæðast ýmsar þrár og eftirlanganir, − fæðast og deyja hver á eftirannari, koma ósjálfrátt og hverfa eins, maður ræður ekki við þetta, en gefur sig á vald áhrifunum og lætur berast viljalaust með straumnum. − Og þegar kveðskapurinn þagnar, vara samt áhrifin, strengir þeir er kveðandin hefir vakið í huga manns, óma enn um stund, misjafnlega lengi eftir atvikum; og hverfa raunar aldrei til fulls, við endurminninguna taka þeir aftur til að hljóma og þá vakna sömu kenndir aftur, en eðlilega daufari, og ef til vill með öðrum litum − en þó svo skýrar að ómögulegt er að villast á þeim.

Rímnakveðskapurinn er æfagamall, og átti á liðnum öldum mjög sterk ítök í íslensku þjóðinni, enda finnst mér ekki ósennilegt, að hún eigi honum meira að þakka en nú er almennt talið eða viðurkennt. Og er nú óhugsandi að áhrif þau er hann hafði á mig og ég hef reynt að lýsa hér að framan eigi meðal annars rót sína að rekja til þess að kveðskapur þessi er arfur „Íslendingsins“ − gjöf frá forfeðrum hans − lengst framan úr tímum.

Um efni rímnanna verð ég fáorður, enda fá menn besta hugmynd um það með því að kynna sér rímurnar sjálfir. En ég get ekki varist því að benda á það að þótt efni þeirra og orðfæri sé að mörgu leyti ábótavant, þá er í mörgum þeirra sterk siðferðileg undiralda, sem óspart lofar allt hið góða og göfuga í fari manna, en lastar hitt; sem málar dygðirnar með björtum litum, en lestina og ódrengskapinn með dökkum. Og aðeins eitt enn. Rímurnar sem ég kynntist hvöttu mig mjög til að ná í sögurnar sem þær voru orktar útaf og urðu þannig til að auka lestrarþrá mína.“

Vart er hægt að hugsa sér skemmtilegra og andríkara svar við gagnrýni Jónasar á rímurnar, nema ef vera skyldi hin glæsilega útgáfa kvæðamannafélagsins Iðunnar og Smekkleysu á Silfurplötum Iðunnar.
..
>> Lesa

þriðjudagur, mars 15

Ultra-la-la

HöfundurÉg var staddur í Mexíkó fyrir nokkrum árum síðan og gerði þar mikla athugun sem ég mun koma að eftir stuttan inngang á þessum pistli. Þó að við sneiðum framhjá kaktusum, tequila, fjórhliðuðum píramídum, og litskrúðugum markvörðum þá er Mexíkó afar áhugavert land sem gaman er að bera saman við okkar eigið. Að sjálfsögðu er rétt að taka það fram að það finnast í raun engar afgerandi forsendur fyrir því að bera samfélagshætti Mexíkó saman við Norðurlandaþjóð eins og Ísland enda eru íbúarnir miklu fleiri og atvinnuvegir aðrir. Þrátt fyrir það hef ég alltaf leyft mér að staldra við ákveðna þætti í mexíkósku samfélagi til að glöggva mig betur á því íslenska.

Mexíkó hefur aldrei haft velferðarkerfi á borð við hið vestur-evrópska. Sterkt miðstýrt ríkisvald hefur þó alltaf verið til staðar, en það hefur frekar verið fólki til bölvunar, valdið spillingu og óreiðu. Fólk er skattlagt en í stað þess að dreifa hinum sameiginlega sjóði í sjúkrahús og menntastofnanir eru keypt vopn eða byggðar glæsilegar forsetahallir til að styrkja virðinguna fyrir ríkinu enn frekar. Þetta er sögð saga og ríkjandi vandamál í meiri hluta lýðvelda heimsins. Það sem okkur finnst sjálfsagt á Íslandi þurfa menn að berjast fyrir annars staðar í heiminum. Öll þjónusta er einkavædd og stríðið er hart. Það kann því engan að undra að frjálshyggjan í Mexíkó hefur ekki yfir sér neinn glamúr-brag. Þar finnast hvergi nýútskrifaðir viðskiptafræðingar í De Fursac jakkafötum sem prísa frjálsan markað enda eru allir of uppteknir við að verða ekki undir og frjálshyggjan löngu búinn að snúast í andhverfu sína. Mexíkóar búa í samfélagi þar sem ekkert er öruggt. Þar sem fólk byrjar að safna fyrir útför sinni fljótlega eftir fermingu og þar sem allir hlutir, hversu sjálfsagðir sem þeir þykja hjá okkur, eru orsakir deilna og stríðs.

Þessi inngangur var nauðsynlegur til að ég geti með einhverju móti útskýrt þá einkennilegu hugsun sem skaust upp í huga mér þegar ég komst að því mér til mikillar furðu að mjólk, hvíti drykkurinn úr beljunum, heitir ekki mjólk eða leche í Mexíkó heldur Ultra-la-la. Einhvern tímann, ég veit ekki hvenær eða hvernig, hefur einhverjum mjólkurframleiðandanum ekki þótt nógu söluvænlegt að selja mjólk undir sínu náttúrulega nafni og byrjað að kalla hana eitthvað annað. Ég veit ekki hvað það var. Kannski var það Leche-Plus eða Super-leche eða eitthvað álíka tilgangslaust. Þessi nýja ofur-mjólk hefur þá byrjað að seljast mun betur heldur en hin venjulega mjólk og það hefur fengið einhvern samkeppnisaðilan til að toppa ofurmjólkina og hann hefur þá kannski hent fram nafninu Super-lech’-plus. Þannig hefur þetta algerlega tilgangslausa stríð haldið áfram og það þarf enginn að segja mér að því sé lokið. Árið 2001 hét mjólk í Mexíkó Ultra-la-la. Afhverju? Jú, útaf því að það vill að sjálfsögðu engin kaupa mjólk ef hann getur keypt hvítan últrasafa á sama verði. Og í hvernig umbúðum skyldi þessi safi svo vera? Glærum ómerktum glerflöskum? Nei, neon-bleikum glans stútum með boogie-nights letri. Að sjálfsögðu.

Á Íslandi hefur mjólkin einnig verið í smá krísu undanfarin ár. Virtir læknar segja að betra sé að þamba ólívuolíu en að húða á sér innyflin með gerilsneyddri kálfafæðu. Slíkt hjal er bara tíska eins og allt annað. Mjólkin breytist ekkert, hún er alltaf jafn hvít og lyktarlaus, hún er sumum holl en öðrum ekki, og óþarfi að koma með öfgafullar allt-eða-ekki yfirlýsingar í því sambandi. Ég sé enga ástæðu til að deila út af mjólk. Ef menn ætla að deila yfir einhverjum vökva ætti það frekar að vera olía eða eitthvað sem meiri peningalykt er af. Samt, útaf okkar heimskulega sjálfmiðaða samkeppnisrúnki, þurfum við að gera mjólk að einhverju rosalegu máli. Svar mjólkurframleiðanda við tískuþvaðri læknanna er að gera mjólk að einhverjum sex-safa. Milljónum hefur verið eytt í að búa til sjónvarpsauglýsingar þar sem einhverjar retro-jazzballet-stíliseraðar thunder-píkur ropa mjólkinni út úr sér undir dunandi pornó-bassa. Og hvert er markmiðið með þessum auglýsingum? Jú, að breyta ímynd mjólkur. Það er alveg ómögulegt að fólk sjái fyrir sér einhverjar uppþornaðar mjaltakerlingar þegar mjólk ber á góma. Besta leiðin er náttúrulega að hætta að nota orðið mjólk enda hljómar það eins og einhver kúaafurð. Ultra-la-la kemur sterklega til greina en það er víst frátekið. Mjólkin skal heita Muu. Og þið þurfið engar áhyggjur að hafa, það er hægt að fá létt- og ný-muu og bráðum verður eflaust hægt að skola kornflexinu niður með Ultra-muu eða LGG-muu-muu-plús. Og já já, ég næ alveg tengingunni, kýrin segir “muu”, en samt köllum við þorskalýsi ekki ekki neitt. Náðuð þið þessum? Tvöföld neitun og mikill hraði. Úpps, aðeins of sleipur.

Eða er ég kannski bara svona gamaldags? Er ég kannski mesti hálfvitinn af öllum? Er ég maðurinn sem rembist eins og rjúpan við staurinn við að predika yfir fólki að hætta að deila um sjálfsagða hluti en geri svo ekki annað en að hella bensíni á bálið? Ég tel mikilvægt að varpa þessu fram. Því þótt ótrúlegt megi virðast þá er ég ekki enn eitt kaldhæðnisfíflið sem tel nauðsynlegt að snúa út úr öllu sem gert er til að kreista fram nokkur ha-ha. Ég hef verulegar áhyggjur af raunveruleikaskyni nútímamannsins og ég vona að enginn lesandi sé svo heimskur að halda að þessi mjólkurpistill sé upphaf og endir málsins. Hér er aðeins um lítið dæmi að ræða. Við lifum í heimi sem er svo brenglaður að það veldur hausverki, ef ekki þunglyndi, að reyna að horfast í augu við hann. Afhverju má mjólk ekki bara vera mjólk? Afhverju þarf að láta fólk fá standpínu til að það kaupi sér tannbursta? Við nútímamennirnir glottum oft yfir heimsku horfinna kynslóða. Við hlæjum að tvöföldu siðgæði viktoríutímans eða stéttaskiptingu miðalda en getum ekki fengist til að horfast í augu við heimsku dagsins í dag. Öll okkar orka fer í gagnkvæmar ögranir og sýndarmennsku. Allt okkar kerfi byggist á frjálsu vali en hvað stoðar það þegar valið stendur á milli muu eða mjólkur? Þegar betur er að gáð veljum við aldrei neitt. Olíufélögin eru bara þrjú mismundandi lógó, símafélögin hafa símanúmer sem byrja á mismunandi tölustöfum og tryggingafélögin eru staðsett á mismunandi stöðum í bænum. Það er kominn tími til að Hamlet fái sér stóran spegil og líti í hann með Harry Klein svip og segi: ,,Check dich Mann”. Eða er það ekki svona sem maður endar póst-módernískar greinar? Hvað segið þið sérfræðingarnir? Of flókið? Ýkt óheppnir.
..
>> Lesa

mánudagur, mars 14

Stórisannleikur Kviksögu

HöfundurMjög góð grein eftir Ingólf Margeirsson, sem ber yfirskriftina Teflt við söguna, birtist á vefritinu Kviksögu 8. mars. Greinin er um póstmódernisma og einsögufræði. Hún fjallar á mjög skynsaman hátt um ýmislegt sem ég hef velt mikið fyrir mér að undanförnu og mér finnst ástæða til að mæla með henni.

Ingólfur hittir að mínu mati naglann á höfuðið í lok greinar sinnar þegar hann segir eftirfarandi:
Það jákvæða við póstmódernismann, líkt og við marxismann er að hann víkkar út sögutúlkun okkar, færir okkur ný verkefni og nýja hugsun. En sem heildarkenning dugar hvorki póstmódernisminn né marxisminn til lengdar. Uppreisnin er því stutt – en skemmtileg. Helsti kostur einsögunnar er að hún er skemmtileg, það er orðið skemmtilegt að lesa sögu, ekki síst vegna þess að einsagan treður ekki slóðir hinnar þungu, byrókratísku hefðar. Hún hafnar miðlægum hugsunarhætti en hampar hugmyndalegri margræðni, rýfur tengsl veruleika og tungumáls. Það er ekki lítið afrek í sjálfu sér. Einsagan er því allt í senn: nýstárleg, fræðandi og upplyftandi. Engu að síður er kjarni málsins: Við verðum alltaf að skoða hlutina í víðu samhengi. Horfa yfir allt taflborðið eins og góðir skákmenn í stað þess að einbeita okkur að fáum leikjum í einu horninu. Þá gætum við tapað skákinni við söguna eða jafnvel fallið á tíma.
Það er hvimleitt og allt of algengt að fólk sem hafnar einhverjum stórasannleik, finnur nýjan stórasannleik, sem það veðjar á. Póstmódernistar og einsögufræðingar ættu að hafa það í huga að þeirra nálganir eru ákveðin sýn á veruleikann, sem er ekki sú eina rétta, heldur aðeins ein af mörgum. Markmið þeirra ætti ekki að vera að fá fólk til að hafna öðrum nálgunum (eins og ég og fleiri hafa óneitanlega á tilfinningunni), heldur að fá fólk til að tileinka sér þeirra nálgun ásamt öðrum nálgunum.
..
>> Lesa

miðvikudagur, mars 9

Fyllt í eyðurnar

HöfundurÞórarinn Eldjárn: Baróninn
Vaka-Helgafell, 2004


Halldór Laxness sagði einhverju sinni í viðtali að ef sér hafi tekist vel upp með Gerplu hafi það verið vegna þess að hún er byggð á bókmenntaverki sem er ákaflega misjafnt í stíl og samsetningu, og átti þar við Fóstbræðra sögu. Þessu grundvallaratriði hafi t.d. Jóhann Sigurjónsson flaskað á þegar hann skrifaði leikritið Mörð Valgarðsson, sem byggt er á Njálu. Njála er einfaldlega of mikið listaverk til þess að hægt sé að bæta neinu við hana, svo það sé ekki nema von að Jóhanni Sigurjónssyni hafi fatast í það skipti.

Þessi orð koma í hugann þegar litið er til söguefnisins sem Þórarinn Eldjárn hefur valið sér í nýjustu skáldsögu sína, Baróninn. Sagan fjallar um fransk-bandarískan barón, Charles Gauldrée Boilleau, sem fluttist til Íslands 1898 og hóf hér umsvifamikinn atvinnurekstur, reisti stórbýli í Borgarfirði og stærsta fjós landsins í Reykjavík. Hann var tónskáld og sellóleikari og gerði sitt til að kynna Íslendinga fyrir borgaralegri, klassískri tónlist sem þá var alls óþekkt í landinu. Og víst er um það að í sögu barónsins eru margar gloppur, hann var dularfullur maður sem fáir vissu hvaðan kom eða hvað gekk til. Heimildir um lífshlaup hans eru æði slitrukenndar, blaðagreinar, bréf og bókarkaflar á stangli. Rými Þórarins til skrifanna er því mikið, og með bók sinni hefur honum tekist að mynda sterka og sannfærandi heild úr brotunum, listaverk þar sem mætast fjölmargir þræðir úr Íslands- og mannkynssögu 19. aldar. Í síðustu köflum má segja að sagnfræðin nái yfirhöndinni yfir skáldskapnum þar sem raunverulegar blaðafréttir og bréfaskrif eru birt óbrjáluð.

Baróninn byrjar með hvelli – í bókstaflegum skilningi þess orðs – á því að baróninn bindur enda á líf sitt í lest á Englandi. Hann er þá eignalaus og Íslandsævintýrið er að baki. Athygli lesandans er þannig tekin tangarhaldi strax á fjórðu blaðsíðu, forvitnin um orsakir þessarar miklu óhamingju rekur hann áfram við lesturinn. Síðan er sagan rakin jafnt og stígandi frá því að baróninn kemur fyrst til Íslands.

Frásögnin er á þremur sviðum. Meginhluti textans er þriðjupersónufrásögn af veru barónsins hér á landi og er hver kafli dagsettur. Sjónarhornið miðast að miklu leyti við Íslendingana sem eru fullir spurninga um takmark og tilgang þessa óvenjulega heimsmanns. „Kjaftaklöppin“ á Skólavörðuholti, þar sem alþýða manna kemur saman til að slúðra, verður að miðju þessara vangaveltna. Í öðru lagi er sagan sögð í bréfum bræðra barónsins, Bentons og Philips, til bróður síns á Íslandi. Með þessum bréfum er skapað mótvægi við draumkennt vafstur barónsins, þeim fylgir jafnan peningasending frá bræðrunum sem baróninn hefur óskað eftir til að geta haldið áfram að fjármagna ævintýri sín, en tónninn í bréfunum einkennist af miklum efasemdum um þessi umsvif. Í þriðja lagi er um að ræða dagbókarfærslur Philips Boilleau, yngsta bróðurins, skrifaðar rúmum áratug eftir andlát barónsins. Hann skoðar atburðina úr fjarlægð og tilgreinir líka ýmsar upplýsingar um æsku þeirra bræðra, ætt og uppruna. Philip er bitur í garð íslensku þjóðarinnar sem hann telur að hafi gert sér bróður sinn að féþúfu og stuðlað þannig að falli hans. Í dagbókarköflunum kemur í ljós hversu bein tenging baróninn var við mörg stórmenni mannkynssögunnar á 19. öld, t.a.m. Teddy Roosevelt Bandaríkjaforseta, Napóleon þriðja Frakkakeisara og John Charles Frémont, sem var fyrsti ríkisstjóri Kaliforníu.

Stíll sögunnar er laus við öfgar og glæsileiki hennar er að miklu leyti falinn í nokkrum lykilsenum sem eru táknrænar án þess að vera tilgerðarlegar, og varpa ljósi á persónur og aðstæður á afar hugvitssamlegan hátt. Í einu atriðinu er t.a.m. greint frá því þegar baróninn leikur svítu eftir Bach á sellóið á sama augnabliki og barn fæðist á næstu hæð fyrir ofan. Þetta barn er Engel Lund sem síðar varð fræg söngkona. Eins er um fyrstu endurminningu Philips frá því þegar þeir bræðurnir eru eins og tveggja ára. Þeir eru að leika sér saman þegar hestur fælist rétt hjá þeim, hleypur í átt til þeirra og stekkur yfir þá. Philip, sem er eins árs, skríkir af kæti yfir þessu atviki, en Charles, sem er tveggja og hálfs, verður frávita af hræðslu. Philip verður því að passa hann, og þetta atvik gefur tóninn fyrir samskipti þeirra allar götur síðan.

Boilleau barón er maður stórra þversagna, í senn fulltrúi hinnar gömlu Evrópu og hinnar nýju Ameríku, og hefur aldrei fest rætur á neinum stað um ævina. Hann er breyskur en trúir á drauma sína, og skapgerð hans er eins og öldugangur: Stundum geysist hann fram í framkvæmdagleði en öðrum stundum er hann fullur sjálfsvorkunnar. Þótt hann sé afar mistækur kaupsýslumaður er hann einlægur og hæfileikaríkur tónlistarmaður. Í dagbókarskrifum Philips svífur alltaf yfir vötnunum spurningin um hvort Charles hefði ekki farnast betur ef hann hefði aldrei til Íslands komið og einbeitt sér frekar að frama innan tónlistarinnar.

Baróninn er saga um brostnar vonir, hún hefst um vor og lýkur um haust. Þrátt fyrir það leiftrar allt um leið af þeirri fínlegu gamansemi sem er einkenni Þórarins. Hún felst ekki síst í sjálfsvísun frásagnarinnar eins og hún birtist í dagbókarfærslum Philips sem talar um að örlög bróður síns séu skáldlegri en nokkur veruleiki, og hittir þar naglann á höfuðið. Hann harmar ósegjanlega að öll bréf sín til bróður síns skuli hafa endað í dánarbúi hans uppi á Íslandi þar sem þau bíða þess eins að verða „rithöfundum og lygurum“ að bráð. Það er óhætt að fullyrða að fáir verði sviknir af því að lesa Baróninn og upplifa þær tvíbendu tilfinningar sem kvikna við lesturinn. Því þótt sagan sé harmræn kemst maður ekki hjá því að hrífast og gleðjast yfir þessari sagnfræði Þórarins Eldjárns, blandinni dásamlegri lygi.
..
>> Lesa

sunnudagur, mars 6

Kviksaga og kanónan

Höfundur Flestir þekkja orðið „kanóna“. Orðið vísar til einhvers sem er talið æðra en eitthvað annað, en er notað í margvíslegum skilningi. T.d. er hægt að tala um heildarkerfi þeirra bókmennta sem eru viðurkenndar sem „góðar“ af málsmetandi stofnunum samfélagsins sem kanónu. Jaðarhöfundar og „vondir“ höfundar eru þannig ekki flokkaðir sem hluti af kanónunni. Eins og nærri má geta eru ekki allir mjög hrifnir af því að myndað sé svona stigveldi bókmennta þar sem sumir höfundar eða sumar bókmenntagreinar eru flokkuð sem merkilegri en önnur. Öll verk tiltekins höfundar geta líka verið kölluð kanóna. Þannig má t.d. tala um að eintal Hamlets um sjálfsmorð sé einna frægasta ræðan í allri Shakespeare-kanónunni.

Í mörgum tilvikum er þetta kristið orð. „Kanóna“ vísar í kirkjulegu samhengi til safns þeirra rita sem viðurkennt er að eigi heima í helgri ritningu. Hinar svokölluðu apókrýfu bækur eru þær bækur sem komu til greina í Biblíuna en voru ekki samþykktar að lokum. Mér er ekki fullkunnugt um hvaða þættir réðu mestu um það hvaða bækur rötuðu inn í Biblíuna en veit þó að í frumkristni og á miðöldum var mjög algengt að reynt væri að „kanónísera“ texta með því að eigna þá höfundum sem höfðu raunverulegt kennivald. Þannig reyndu minni spámenn stundum að eigna sinn eigin texta höfundum sem voru svo frægir að með því að festa nafn þeirra við textann var framgangur verksins tryggður og líkurnar á því að fólk tæki boðskap textans alvarlega jukust stórlega. Þetta er ekki bundið við kristnina eina, frá Grikklandi hinu forna eru t.a.m. varðveitt kvæði sem kölluð eru hómerískir hymnar. Talið er næstum öruggt að þessi kvæði séu ekki eftir Hómer sjálfan, heldur hafi þau verið eignuð honum síðar, annað hvort til þess að auka vinsældir þeirra eða vegna þess að þau hafi þótt svo góð að útilokað hafi verið að einhver annar en höfuðskáld fornaldarinnar hafi samið þau.

Í dag er fremur sjaldgæft að fólk reyni að kanónísera texta, enda hefur höfundarnafnið verið í nokkuð föstum skorðum síðustu tvær aldirnar. Það er miklu algengara að þessu sé snúið við, þ.e. að fólk taki texta annarra og geri hann að sínum. Í síðustu viku gerðist þó sá fremur óvenjulegi atburður í netheimum að á þeim hluta vefritsins Kistunnar sem nefndur er Kviksaga birtist grein sem eignuð var íslenskum bókmenntafræðingi og rithöfundi, en skömmu síðar kom á daginn að sá sem var titlaður höfundur greinarinnar hafði alls ekki skrifað hana. Greinin hafði bara verið eignuð honum án hans samþykkis eða vitundar, en raunverulegs höfundar greinarinnar hefur enn ekki verið getið neins staðar.

Áður en lengra er haldið er rétt að reyna að geta sér til um ástæður þessa uppátækis. Sú skýring sem virðist líklegust er að hér hafi verið um hefðbundna „kanóníseringu“ að ræða, að ritstjórn Kviksögu hafi vilja gefa greininni aukið vægi með því að ljúga því að lesendum sínum að hún hafi verið eftir þennan tiltekna höfund. Þannig virðast þeir hafa beitt aldagamalli aðferð til að gera boðskap sinn gjaldgengari í umræðunni. Þetta er óneitanlega dálítið þversagnarkennt í ljósi þess að Kviksaga er vefritlingur sem virðist hafa þá meginreglu að birta greinar þar sem barist er gegn kanónum af öllu tagi. Ritstjórnarstefna Kviksögu einkennist umfram allt af menningarlegri útjöfnun, þar sem hinu smáa, hjásetta og hversdagslega er hampað, en grafið er undan allri upphefð („upphefð“ er mikið uppáhaldsorð hjá ritstjórn Kviksögu) og menningarlegri skurðgoðadýrkun. Burtséð frá því hvort Kviksaga er góður eða slæmur vefritlingur verður þó að viðurkennast að efnistökin einkennast ekki af sérlega mikilli breidd. Flestar greinarnar eru skrifaðar út frá sama reiknilíkani, ekki ósvipað og tíðkast á flestum vefritum hinna pólitísku ungliðahreyfinga. Á Kviksögu eru allar gjörðir fólks sem lætur eitthvað til sín taka á sviði menningarinnar metnar út frá sama kvarða, því hvort viðkomandi sýnir tilraun til andófs gegn kanónunni (sem er alltaf gott) eða hvort hann „steypir eigin haus og hugsun“ (hvað sem það nú þýðir) með því að styrkja ríkjandi ástand.

Greinin sem getið var hér að framan bar þann snjalla titil „Hin íslensku bókmenntaverðlaun.is“ og var eignuð Hermanni Stefánssyni. Þar sem hún er nú eilíflega horfin lesendum Kviksögu (og ekkert situr eftir nema þessi nafnlausa afsökunarbeiðni) er við hæfi að glugga í greinina hér og reyna að draga af henni einhvern lærdóm.

Tilefni greinarinnar er stutt innslag í útvarpsþættinum Víðsjá föstudaginn 25. febrúar sl. þar sem umsjónarmaður þáttarins, Eiríkur Guðmundsson, brá á leik með skáldunum Braga Ólafssyni og Sjón. Um var að ræða „ljóðaeinvígi“ á léttum nótum þar sem skáldin vörpuðu fram tilvitnun í eigin ljóðabækur sem hinn aðilinn skyldi síðan svara með tilvitnun í eitthvert af sínum verkum, e.k. uppfærð útgáfa af þeirri list að kveðast á. Hinn ímyndaði Hermann Stefánsson talar í háðskum tón um þetta uppátæki í grein sinni, líkir skáldunum við framsóknarmenn á þorrablóti úti á landi og segist „vona að þeir komist á listamannalaun sem fyrst“. Sú staðreynd að báðir þessir höfundar hafa nýlega fengið verðlaunaútnefningu er margítrekuð í máli greinarhöfundar. Gagnrýni greinarhöfundarins beinist þó einkum að stjórnanda Víðsjár, Eiríki Guðmundssyni, og er hann sakaður um að hafa verið ósáttur við tilnefningarnar til hinna íslensku bókmenntaverðlauna af þeirri ástæðu einni að vinir hans hafi ekki verið tilnefndir.

Höfundur greinarinnar „Hin íslensku bókmenntaverðlaun.is“ bendir á þá mótsögn í afstöðu Eiríks til verðlaunaafhendinga að hann hafi annars vegar sagt í Víðsjá að bókmenntir og markaður ættu ekki samleið, en hins vegar hafi hann komið að því að skipuleggja ímynduð bókmenntaverðlaun á vegum bókaforlagsins Bjarts fyrir síðustu jól með það að augnamiði að auka bóksöluna. Heimild greinarhöfundar er samtal á forlagsskrifstofunni sem á að hafa farið fram milli Eiríks, Hermanns, „Jóns Karls [Helgasonar] og feðgana [svo] Snæbjarnar [Arngrímssonar] og Magnúsar“. Þar sem höfundur greinarinnar er ímyndaður hlýtur þetta samtal líka að vera ímyndað, og ásakanir um óheilindi Eiríks Guðmundssonar þar af leiðindi byggðar á sandi. Velta má þó fyrir sér hvort aðkoma „Magnúsar“ að þessum ímyndaða fundi gefi vísbendingu um raunverulegan höfund greinarinnar, en einn af ritstjórum Kviksögu heitir Magnús Þór Snæbjörnsson. Snæbjörn Arngrímsson á hins vegar engan son sem heitir Magnús.

Í framhaldinu er Eiríkur sakaður um einfeldni og birtur er fjöldi tilvitnana í víðsjárpistil hans sem fluttur var daginn eftir að tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna voru opinberaðar fyrir síðustu jól. Þegar greinin er lesin með þeirri vitneskju að Hermann er ekki raunverulegur höfundur hennar sést berlega að málið er þó tekið með ákveðnum silkihönskum og fjölmargir varnaglar slegnir. Hinn ímyndaði Hermann kallar Eirík „vin“, „sinn góða félaga“ og fleira í þeim dúr. Þar sem greinin sekkur hvað dýpst dregur höfundur hennar Matthías Viðar Sæmundsson inn í umræðuna og kallar hann „vin okkar heitinn“.

Af þessari grein kviksögumanna má ráða að þeir svífast einskis í baráttu sinni gegn hinni alræmdu upphefð sem þeir sjá í hverju horni. Í „Hin íslensku bókmenntaverðlaun.is“ er jafnvel vegið að heiðri nafngreindra manna úr skjóli nafnleyndar. Af þessu tilefni má vitna í 2. mgr. 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972, þar sem segir: „Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, er skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.“ Mín ráðlegging til ritstjórnar Kviksögu er að glugga í þessi lög næst þegar þeir hugsa sér að ráðast á þá sem fara í taugarnar á þeim. Við hin, lesendur Kviksögu, fylgjumst spennt með framhaldinu, því það er aldrei að vita hverju þessir postular póstmódernismans, þessir riddarar einsögunnar taka upp á næst í baráttunni sinni.
..
>> Lesa

föstudagur, mars 4

Óendanleg og skilyrðislaus samkennd með öllu sem er

HöfundurÁ mínum framahaldsskólaárum skrifaði ég heimskulega grein þar sem ég mærði egóisma. Egóið hefur verið mér hugleikið síðan. Afstaða mín til þess hefur rokkað dálítið síðustu árin, en yfirleitt hef ég þó verið frekar neikvæður gagnvart því. Ég held að það sé alla vegana nauðsynlegt að vera meðvitaður um egóið; hvernig það starfar, hvernig það hefur áhrif á allt.

Egóið þrífst á einhvers konar baráttu. Egóið velur sér einhvern málstað og gerir þann málstað hluta af sér og sinni sjálfsmynd. Egóið og málstaðurinn verður eitt. Síðan vill egóið styrkja þá sjálfsmynd og til þess er píslarvættisaðferðin helst notuð. Egóið vill deila um málstaðinn og verða fyrir árásum vegna hans, því að þá finnur það til sín, það eykur sjálfsvitund og sjálfselsku egósins. Egóið þrífst einnig í tímanum – í fortíð og framtíð. Hin líðandi stund er óvinur egósins og það vill sífellt láta hugan reika um fortíð og framtíð, því að slíkar hugsanir styrkja egóið og láta það finna til sín.

Allt efni í alheiminum á sér sameiginlegan uppruna, sameiginlega rót. Þó að við greinum mismundandi hluti í kringum okkur, lítum á eina manneskju sem einingu, eitt tré sem einingu, einn stein sem einingu og svo framvegis, þá er þetta ekki svo einfalt. Heimurinn er á vissan hátt einn og óskiptur. Flestir líta á sjálfan sig sem mjög afmarkaða einingu, en það er ekki svo. Sjálf fólks er ekki mjög afmarkað, heldur er það mjög tengt umhverfi okkar og öðrum sjálfum (nútíma sálfræði styður þessa fullyrðingu). Í raun má ganga svo langt og segja að okkar sanna sjálf sé heimurinn allur. Hver og einn getur bælt niður egóið og tengst þessu sanna sjálfi. Tilfinningin sem fylgir því er óendanleg og skilyrðislaus samkennd með öllu sem er. Að vera eitt með öllu.

Á hinn bóginn væri það ekki farsælt fyrir mannlíf á jörðinni að bæla egóið alveg niður. Það er mikill drifkraftur fólginn í egóinu. Það yrðu litlar efnislegar framfarir án þess.

Ég held að lausnin sé að vera meðvitaður um hið sanna sjálf, en nota hins vegar egóið til jákvæðra hluta. Láta hið sanna sjálf hafa stjórn og taumhald á egóinu.
..
>> Lesa

Greinasafn

september 2004 október 2004 nóvember 2004 desember 2004 janúar 2005 febrúar 2005 mars 2005 apríl 2005