mánudagur, nóvember 29

Orðastaður Torfhildar

Höfundur Þann 30. nóvember næstkomandi verður fyrsti Orðastaður Torfhildar í vetur haldinn á Dillon, en Torfhildur er félag bókmenntafræðinema við Háskóla Íslands. Þar er áætlað að hittast og hlusta á tvær framsögur og spjalla um efni þeirra á eftir.

Framsögumenn eru tveir að þessu sinni. Þeir eru:

Davíð A. Stefánsson. Davíð mun fjalla um bók sem hann vinnur að með stuðningi frá Mjólkursamsölunni og lesa úr henni valda kafla. Bókin fjallar á einfaldan hátt um ljóð, tungumál og táknfræði daglega lífsins, og er ætlunin með henni að vekja unglinga til umhugsunar um hinar ýmsu hliðar á valdi tungumálsins. Bókin verður færð öllum 13 ára unglingum að gjöf haustið 2005.

Hannes Óli Ágústsson. Hannes fjallar um sjónvarpsþættina South Park eftir Trey Parker og Matt Stone. Fjallað verður um myndmál þáttanna og tengsl þess við kenningar Bakhtins um gróteskt raunsæi. Skýrt verður hvernig hið einfalda framleiðsluferli þáttanna nær að gera paródíu þeirra hreinni og beinskeyttari í nútímasamhengi. Skoðað verður hvernig South Park leitast við að afbyggja hugmyndafræði bandarísks samtíma.

Samkoman hefst kl. 20:30. Tilboð á barnum og umræður á eftir. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!
..
>> Lesa

sunnudagur, nóvember 28

Hljóðbók með kvæðum Einars Benediktssonar

HöfundurFyrir stuttu kom út hljóðbók með 20 kvæðum eftir Einar Benediktsson. Jón Júlíusson les kvæðin og gerir það ágætlega, en ekki óaðfinnanlega. Tvímælalaust er hægt að mæla með þessari hljóðbók og Skýjaborgir fagna útgáfu hennar...
>> Lesa

föstudagur, nóvember 26

Hannes Hafstein eftir Kristján Albertsson

HöfundurÍ tilefni af 100 ára afmæli heimastjórnar á Íslandi hefur Bókafélagið Ugla sent frá sér ævisögu Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson. Ritið var fyrst gefið út í þremur bindum fyrir rúmum 40 árum, en kemur nú út allmikið stytt í einu bindi í kiljuformi. Í frétt frá útgefanda segir meðal annars:

„Um fáa menn Íslandssögunnar leikur meiri ljómi en Hannes Hafstein – skáldið ástsæla, glæsimennið og fyrsta ráðherra Íslendinga.

En hver var maðurinn Hannes Hafstein? Hvernig skáld var hann? Hvaða spor markaði hann í þjóðarsögunni? Hvernig stjórnmálaforingi var hann?

Ævisaga Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson er eitt af klassískum verkum íslenskra bókmennta, skrifuð af listfengi, þekkingu og innsæi.

Bókin vakti geysimikla athygli þegar hún kom fyrst út – og var ákaft deilt um söguskoðun hennar. En allir voru á einu máli um að hún væri frábærlega vel skrifuð, listilega uppbyggð og einstaklega læsileg.“

Kristján Albertsson (1898–1989) var einn þekktasti rithöfundur og menningarfrömuður þjóðarinnar á 20. öld. Hann var ritstjóri og ritdómari, leikstjóri og lektor, stjórnarerindreki og menningarfulltrúi, auk þess sem hann skrifaði leikrit, smásögur, skáldsögur og ævisögu Hannesar Hafsteins. Um sextíu ára skeið var hann einn þekktasti ritgerða- og greinahöfundur landsins og skrifaði jöfnum höndum um stjórnmál, bókmenntir og sið og brag þjóðar sinnar.
..
>> Lesa

fimmtudagur, nóvember 25

Nafnabókin

HöfundurNafnabókin er verk Amélie Nothomb, höfundar sem nýtur mikilla vinsælda í Frakklandi um þessar mundir. Í bókinni segir hún sögu stúlku sem ætluð er stór og mikil framtíð. Hin kornunga móðir hennar vill að hún hljóti nafn í samræmi við það og því hefur það ófyrirsjáanlegar afleiðingar þegar eiginmaður hennar leggur til nöfn sem bera með sér meðalmennsku og hversdagsleika. Hún skýtur hann til bana og sviptir sig lífi í fangelsi – en ekki fyrr en hún er búin að tryggja að stúlkan hljóti nafnið Plectrude.

Móðursystir Plectrude sér til þess að stúlkan hljóti uppeldi sem hæfir nafni hennar og örlögum. Plectrude er alin upp sem ævintýrabarn. Hún er dubbuð upp í prinsessuföt, hlustar á prinsessutónlist og borðar prinsessumat. Það reynist henni því í fyrstu erfitt að fóta sig í þeim gráma hversdagsleikans sem skólaganga er. Í hennar augum er hversdagurinn fáránlegur. Hún nær þó að fóta sig, verður brátt efnilegur ballettdansari og kemst inn í virtan balletskóla. Þar er lagt afar hart að nemendunum og áður en varir verður Plectrude haldin lystarstoli.

Nafnabókin hefur á sér einhvern töfraljóma og jafnvel fáránleikablæ á köflum. Sem dæmi má nefna það hvernig Nothomb skrifar sjálfa sig inn í endi sögunnar með skemmtilega ósvífnum hætti. Athyglisvert er að það sem almennt myndi þykja eðlilegt þykir Plectrude fáránlegt – og öfugt. Þannig tekur hún uppeldi sínu sem ævintýrabarni sem sjálfsögðum hlut, en skólagangan og hið daglega líf finnst henni fáránleg. Litlu fáránlegri, þrátt fyrir að á annan hátt sé, er meðferðin á nemendum ballettskólann, en Plectrude sér ekkert óeðlilegt við hana. Um leið og þessi skakka sýn hennar á tilveruna vekur upp spurningar um hvað sé eðlilegt og hvað ekki, og ástæðurnar fyrir því, endurspeglar hún hugarheim lystarstolssjúklingsins sem sér sjálfan sig á allt annan hátt en aðrir.

Lystarstolið er ekki eini vandinn sem steðjar að Plectrude. Nothomb skrifar einnig um nokkuð dæmigerð vandamál æsku og unglingsáranna. Plectrude er öðru vísi en aðrir og fyrst um sinn eignast hún ekki vini, hún kynnist ástinni, og jafnframt ástarsorginni, og þegar líður á söguna nær hún ekki að standa undir væntingum móðursystur sinnar. Einnig er áberandi að Plectrude heldur dauðahaldi í æskuna og sættir sig illa við kynþroskann.

Sagan er auðlesin, lipur og vel skrifuð. Þrátt fyrir erfiðleikana sem steðja að Plectrude og dauðann sem er upphaf og endir sögunnar verður hún aldrei þung. Þvert á móti er hún létt og fjaðurmögnuð, rétt eins og söguhetjan. Amélie Nothomb er höfundur sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.
..
>> Lesa

Skýjaborgir vakna

HöfundurVegna tæknilegra vandamála hefur ekkert efni birst á vefritinu í eina viku. Efni mun nú aftur birtast reglulega...
>> Lesa

fimmtudagur, nóvember 18

Blikkkóngarnir

HöfundurÁrið 2001 sendi Magnus Mills frá sér sína þriðju skáldsögu, Blikkkóngana (e. Three to see the King). Ferill Mills hófst með skáldsögunni Taumhald á skepnum (e. The Restraint of Beasts) sem hann skrifaði samhliða því að aka strætisvagni. Sú bók var mjög vinsæl og var höfundur tilnefndur til Booker- og Whitbread verðlauna fyrir hana. Gagnrýnendur lofuðu bókina í hástert, fannst hún vera ferskur andblær og frábærlega vel skrifuð. Þeir höfðu þó af því áhyggjur hvort Mills væri einnar bókar undur, menntunarlaus bílstjóri sem hafði verið heppinn að ramba á eina góða hugmynd. Til allrar lukku, bæði fyrir Mills og lestrarþyrstan almenning, hefur hann haldið áfram að skrifa og gert það vel. Hann hefur einkum verið lofaður fyrir einfaldan og einstakan stíl sinn, svartan, lúmskan húmor og fókus á hinn hversdagslega mann. Honum hefur hins vegar verði legið að hálsi fyrir að skrifa bækur þar sem lítið gerist og fyrir líkindi milli bóka. Blikkkóngarnir sýnir þó að Mills er fær um að breyta til, en þar færir hann sig frá verkamannastéttinni og umhverfi hennar sem hefur verið honum hugleikinn í fyrri verkum.

Í skáldsögunum Taumhald á skepnum og Quiet on the Orient Express (sem ekki hefur verið þýdd á íslensku) hélt Mills sig innan verkamannastéttarinnar, sem er honum vel kunn af eigin raun, og sérkennilegra, lítilla dreifbýlissamfélaga. Sögupersónur unnu mikið, fóru í sígarettupásur og skruppu stundum á hverfisbarinn eftir vinnu. Þetta var samfélag sem almenningur þekkir af eigin raun, en þó undarlegt og á einhvern hátt öðruvísi og óhugnalegri en maður á að venjast. Í Blikkkóngunum er launuð vinna, sem skiptir svo miklu máli í fyrri bókum Mills, hins vegar víðs fjarri. Engin sögupersóna Blikkkónganna stundar launaða vinnu. Að sögn höfundar er ástæðan sú að hann vildi losna við allar hömlur – kærði sig ekki um sagnfræðilegar, landfræðilegar eða efnahagslegar tilvísanir af neinu tagi. Auk þess hefur áferð nútímasamfélagsins verið afmáð – hefðir og sambönd eru jafn berskjölduð og víðáttumikið tómt, landslag bókarinnar. Mills hefur því að mestu leyti hreinan flöt til að byggja sögu sína á, sem reynist jafnvel undarlegri, strjálli, einangraðri og djarfari en þær sem hann hefur áður skrifað.

Sagan gerist á ónefndum stað, á óvissum tíma. Nafnlaus sögumaður býr í tveggja hæða blikkhúsi með fátt í kringum sig nema rauðan sand og vindinn. Hann hafði fyrir tilviljun fundið þetta hús og sest þar að, og virðist vera fullkomlega sáttur með tilveru sína, jafnvel stoltur yfir því að hafa rambað á svona heppilegt hús og geta verið fjarri öðru fólki, samfélagi og menningu. En skyndilega er rútínubundin tilvera sögumannsins rofin með komur Mary Perie, sem var vinur einhvers vinar, ólíklegasta manneskjan til að birtast svona allt í einu. En hana virtist langa til að skoða sig um, svo svo hann býður henni inn. Innan skammst takast með þeim ástir og er samdráttur þeirra með því skemmtilegra í sögunni, hann er svo raunverulegur og lýst með svo hárbeittum húmor að unun er af.

Sögumaður á þrjá nágranna, Steve, Philip og Simon, sem búa í þægilegri fjarlægð frá honum – ekki of nálægt og ekki of langt í burtu. Tilbreytingasnauð tilvera sögumann flækist enn frekar þegar þeir segja honum af Michael Hawkins, manni sem býr enn legnra úti á auðninni en nokkur þeirra og er að þeirra sögn afbragð annarra manna. Michael þessi er að gera eitthvað stórkostlegt, svo stórkostlegt að Steve, Philip og Simon pakka saman blikkhúsunum sínum og fara til hans. Kyrrðin er rofin enn frekar þegar sögumaður og Mary fara að koma auga á sífellt fleira göngufólk sem skilur eftir fótspor í rauðum sandinum – og allt er þetta fólk á leið til Michael Hawkins. Að lokum ber forvitnin sögumann ofurliði, og þrátt fyrir að vera á móti þessum Michael heldur hann af stað til að sjá hvað um er að vera. Þegar hann kemur á áfangastað sér hann fjölda blikkhúsa, svipuðu sínu eigin, og fjölda fólks sem allt vinnur að sameiginlegu markmiði undir stjórn Hawkins – að byggja eins konar útópíu, eða fyrirmyndarsamfélag, ofan í gljúfri. Þetta gengur að sjálfsögðu ekki þrautalaust fyrir sig, svo ekki sé fastar að orði kveðið til að skemma ekki bókina fyrir væntanlegum lesendum.

Blikkkóngarnir er auðveld aflestrar, skrifuð á einfaldan hátt og sagan rennur vel áfram. Þrátt fyrir fjarstæðukennda tilveru sögupersóna og undarlegan söguþráð var ég fljótlega sokkin ofan í bókina. Þó svo að sagan fjalli um fólk, alveg eins og mig og þig, lýtur hún sínum eigin samfélagsreglum og þegar lesandi hefur áttað sig á því þarf hann ekki lengur að bera hana saman við sýna eigin tilveru. Endir bókarinnar hefur vafist fyrir allnokkrum gagnrýnendum, þeim þótt hann í lakara lagi og svolítið út í bláinn. En lokin eru eins og svo margt annað í sögunni – eitthvað sem lesandi verður sjálfur að túlka og mynda sér sjálfur skoðun á. Og það er aldrei verra þegar bækur krefjast þess að lesendur hugsi sjálfstætt.
..
>> Lesa

miðvikudagur, nóvember 17

Taumhald á skepnum

HöfundurTaumhald á skepnum eftir Magnus Mills fjallar um þriggja manna verkflokk sem leggur girðingar í Bretlandi. Með snarklikkaðan fullkomnunarsinna sem yfirmann, og hvern kúnnan öðrum verri hangandi yfir sér, leggja ónafngreindur sögumaður, Tammi og Rikki háþansgirðingar í votviðri og vesöld og neyta þess á milli ógrynnum öllum af bjór og sígarettum.

Hráslagalegt umhverfi sögunnar, leiðingjörn, endurtekningasöm vinnan og einhæft lífernið fellur vel að tilþrifalausri frásögn sögumanns sem virðist tiltölulega sáttur við stöðu sína. Þannig fer sagan af stað og frásagnarmátinn breytist ekkert þegar, fyrir slysni, Tammi drepur fyrsta kúnnan. Þeir einfaldlega grafa hann undir girðingarstólpa, velta aðeins fyrir sér hvort ekki verði í lagi með kýrnar hans og halda svo áfram.

Það er varla að maður taki eftir fáránleikanum, því fyrir verkamönnunum er þetta aðeins enn eitt vinnuslysið, þó sýnu auðleystara en brotin sleggja. Dauði manns er aðeins óþægilegt, en auðgleymanlegt (og grafið), atvik. Þurri, hlutlausi stíllinn og lúmskur svartur húmor eins og hann gerist bestur blanda spennu í þessa annars leiðingjörnu tilveru. Spennan milli leiða og firringar minnir á óumflýjanlega ógn hverdagsleikans í Réttarhöldum Kafka, þar sem einstaklingurinn týnist í kerfinu. Mannslífið er lítils virði, aðeins enn einn plús eða mínus í bókhaldinu. Þannig fara verkamennirnir á milli verkefna, að því virðist án nokkurs vals, og inn á milli verklýsinga er hver kúnninn á fætur öðrum grafinn undir girðingarstaur svo lítið beri á.

Taumhald á skepnum er bráðskemmtileg frásögn, en fleira býr að baki en sniðug hugmyndin. Mills vekur mann til umhugsunar um hversdagsleika og firringu, baráttu einstaklingsins gegn einangrun, doða og leiða í heimi sem verður sífellt ópersónulegri. Aðalpersónunum þremur er “hóað saman” og þeir “reknir af stað” út í haga, svo efast má um hverjar skepnurnar eru sem þarf að hafa taumhald á. Um leið og höfundur dregur upp litríka mynd af þessum sérstöku persónum gefur hann annað sjónarhorn, sjónarhorn fyrirtækisins, ópersónulegu vélarinnar, sem í raun lítur á þá sem hvert annað húsdýr. Mills fer ekki dult með það, enda er yfirmanninum endurtekið lýst sem eins konar vélmenni, hann stendur fyrir gróðabatteríið sem verkamennirnir knýja áfram eins og burðardýr.

Höfundur nær að magna upp spennuna og firringuna eftir því sem á líður, en með því fylgir það vandamál að erfiðara verður að viðhalda hversdagsleikanum og leiðanum. Eftir því sem hryllingurinn eykst fara möguleikarnir á einfaldri lausn að hverfa og verður hver lesandi fyrir sig að ákveða hvort endirinn nái að mynda hámark sögunnar eða hvort mörk veruleika og hryllings hafi verið teygð of langt.
..
>> Lesa

þriðjudagur, nóvember 16

Kæri rekkjunautur

HöfundurHvað er í raun og veru og hvað er ekki? Efinn er vafinn óvissu. Hvað sýnist okkur og hvað sjáum við? Efablandin óvissa Hamlets er enn til staðar. Hvað er okkur gert að sjá og hvað er falið fyrir okkur? Við komumst tæpast að sannleikanum fyrr en hann er hættur að skipta máli. Því oft þarf að reyna hvort tveggja, það sem er rétt og það sem er rangt, uns fullvissa fæst um hvað er og hvað er ekki. Hver er sá sem hann læst vera, hver stendur við það sem hann segir - um slíkt er í raun ógerningur að skera úr um. Enginn er fullkominn. Allir geta gefið misvísandi bendingar sem hægt er að skilja á ýmsan máta.

Kæri rekkjunautur, hvernig vilt þú að ég beiti mér?

Hver, ef frá er talinn eftirlætis stjórnmálamaður, skáld eða blaðamaður hvers og eins, segir í raun það sem hann meinar alltaf hreint? Þingmaður nokkur fyrir suðurlandskjördæmi, sagðist á síðasta kjörtímabili ekki hafa sagt allan sannleikan. Pétur neitaði Jesú Kristi. Er ekki hægt að draga þann sannleik af Villiönd Henriks Ibsen að eins oft megi satt kyrrt liggja. Þó að sannleikurinn muni beina mönnum annað en þögnin, þó það sé ef til vill óþægilegri aðstæður, eru allir betur settir með sannleikan sér við hlið. Hávamál kenna okkur að við verðum ekkert betur sett með að vita eigin örlög – „Meðal vitur skili manna hver.“

Okkur var sýnt fram á að heimsmarkaðsverð réði eldsneytisverði á Íslandi annað er að koma á daginn. Upplifði almenningur í raun ánægju vegna þriggja stafa einsatkvæðisorðs ÓRG í júní síðastliðinn, eða voru það fáir einstaklingar sem glöddust í raun. Endurheimti þjóðin eitthvað sem hafði áður glatast. Ætlaði Ingibjörg sér að vera borgarstjóri í fjögur ár. Er „vort lýðræði allt [...] leikhús“ eins og Steinn Steinar komst að orði eða mætti fela tilveru okkar alla í einu leikverki. Með smækkun má sjálfsagt reyna það svona eins og meginmál Íslendingasagnanna var dregið saman í: Bændur börðust.

Vita „meira í dag en í gær“.

Ég ólst upp við að það væri heitt í öðrum löndum en Íslandi, þess vegna voru þau uppnefnd „heitulöndin“. Svo var ég einu sinni á Ítalíu í rigningu og þá fréttist að það væri hlýrra á Vopnafirði en á baðströndinni. Þótti mönnum það súrt í broti að hafa reitt af hendi háar fjárhæðir fyrir sólarlandaferð, þegar hægt hefði verið að fylla bensíntankinn, taka tjaldið með og aka austur á Vopnafjörð. Sá lærir sem lifir nógu lengi til að læra um lífið. Svo lærir lengi sem lifir. Vonandi lærum við að lifa með þeim sem hafa eitt sinn blekkt okkur. Sem dæmi um góð viðbrögð má nefna það að ekki var um setuverkfall hjá ferðalöngunum að ræða í ljósi yfirverðs á Celsius-gráðunum ítölsku, miðað við þær vopnfirsku.

Við eflumst almennt séð af þekkingu og þrótti dag frá degi, þótt sumt gleymist og sumir þreytist. Nú vitum við hvað átti sér stað. Menn þarf ekki að gruna neitt þegar þeir vita. Ég hef ekki lesið skýrslu Samkeppnisstofnunar. Það sem drepur mann ekki herðir mann. Þjóðin ætti að vera þróttmeiri fyrir vikið, nú þegar samráðið hristist af baki hennar. Orðaflaumurinn fylgir í kjölfarið. Þegar refsigleðin er runnin af fólki og hiti augnabliksins hefur kólnað í þátíðinni þá má ef til vill spyrja náungann, landann, hvern sem er þegar út í það er farið. Í þessu tilviki eins og svo mörgum fleirum.

Kæri rekkjunautur, hafðir þú einhverja ánægju eða yndisauka af öllu tilstandinu?

Fúkyrðaflaumur skrýddur andstyggð og öfund brýst oftar en ekki af stað í umræðu stjórnmála sem og annarra mála á Íslandi. Fyrirgefning syndanna er gjarnan jafn vonlítil og miðlunartillaga ríkissáttasemjara í kjaradeilukennara og sveitarfélaga. Íslendingar segja sig stundum siðaða þjóð og sumir þeirra telja merki um það vera afnám dauðarefsinga fyrir rúmum sjö tugum ára. Í stað þess að sjá blóðið spýtast úr dæmdum sakamönnum höfum við annað veifið vaska og vakandi menn sem gera út af við mannorð einstaklinga með meiðandi ummælum. Sá sem er til umræðu hverju sinni skal afhöfðaður með örðum. En þar sem afhöfðunin er ekki eiginleg þarf almenningur síðar að umgangast þann mannorðslátna.

Kæri rekkjunautur, heldur þú að þú hafir það betra eftir að hafaríinu er lokið?
..
>> Lesa

mánudagur, nóvember 15

Davíð konungur

HöfundurKvæðið „Davíð konungur“ er í Hvömmum, sem kom út árið 1930. Tvö síðustu erindin eru gulls ígildi.

Þá Davíð stóð fyrir stóli Sáls -
strengi hann drap undir orðum þess máls,
sem hirðtunga varð vorra himna.
Með Betlehems rísandi stjörnu hann sté
og stillti sín ljóð fyrir Ísraels vé.
Um aldir beygir heimurinn hné
við hjarðkóngsins voldugu ymna.

Námfús á lífið hann náði hæð.
En naðra blundaði í hjartans æð.
Hjarðknapinn hneigðist til skálar.
- Svo útvaldi drottinn sinn afbrotalýð.
Hans ætlun var hyldjúp. Til sigurs þarf stríð.
Og iðrun krefst syndar, um eilífa tíð,
svo ávaxtist pundið sálar.

Já, Davíð var herra vors heilaga lands;
svo hátt gnæfði bragur og vilji þess manns
að dáðust drottnarnir sjálfir.
Hans bæn flutti hásöng af lifandi list,
sem ljóðbylgjur reisti af höfum yst.
- Nú jarðsyngja trúna á Jahve og Krist
játendur veilir og hálfir.

Iðrun er kraftur. Hún krefur til hljóðs
og knýr þá dýpstu strengi til óðs,
sem víðboðum hjartnanna varpa.
Sál verður ljósblind í sólar geim;
en syndarinn týndi leitar heim.
Hann föðurhöndum er tekinn tveim;
þá tóna á Davíðs harpa.

Oss dreymir í hæðunum hörpuslag,
er hrynur í einu sem kór og lag;
af setning samhljóðs og raddar.
En jörð verður stjarna heilög og hrein,
þá hafdjúpsins mál talar bára ein -
og undir þar tekur steinn við stein
uns strandir til hljóðs eru kvaddar.

Orðvald er dánarheims dýrasta snilld;
hún dregur sinn knörr, fyrir utan fylgd,
á Ginnungasæinn svarta.
En list heimtar trú, gegnum stjarnanna storm,
og styrk sinna drauma um himneskt form.
Við fallandi engil, við freistandi orm,
þarf fyrirgefning og hjarta.

Aldrei fannst mál fyrir myrkari harm -
né mæddi sjálfdæmi harðar neinn barm.
Hans sál leit ei sólina bjarta.
Af þrúguvið batt hann sér þyrnikrans,
þegninn guðs og konungur lands.
Vínhelið ríkti á valdstól þess manns,
sem var eftir drottins hjarta.

Hvað skín yfir sofandi barnsins brá,
hvað birta oss draumar, sýn og spá,
um líf allra stjörnulanda?
Mun jarðskólinn storkna við reglur og rit,
þar raunheimur skerðir sitt eigið vit?
- Vér finnum aðeins sem fjarlægan þyt
af flugtökum hærri anda.

Ljóð er það eina, sem lifir allt;
hitt líður og týnist þúsundfalt -
uns Hel á vorn heim að svæfa.
Orð eru dýr, þessi andans fræ,
útsáin, dreifð fyrir himinblæ,
sem fljóta á gleymskunnar sökkvisæ
um sólaldir jarðneska æfa.

Þá hágöfgast maður í menningar heim,
er manið, frjáls býður eining af tveim,
signd við þann sið, er vér tókum.
Útvaldi söngvarinn saltarans
sinnti ei glaplögum Edenbanns.
Sjálfsköpuð þján, bæði þjóðar og manns,
skal þurrkast úr lífsins bókum.
..
>> Lesa

sunnudagur, nóvember 14

Gísli Magnússon, píanó

HöfundurÍ haust kom út tvöfaldur geisladiskur með leik Gísla Magnússonar, píanóleikara, sem lést árið 2001. Elstu hljóðritanirnar eru frá 1955, þegar Gísli var 26 ára, og sú yngsta frá árinu 1988. Of langt mál væri að fjalla ítarlega um hvert verk á efnisskránni, en rétt er að benda á það áhugaverðasta sem leynist á diskunum.

Í fyrsta lagi ber að nefna verk Páls Ísólfssonar, Glettur, op.1 og Þrjú píanóstykki op. 5, sem Páll samdi á árunum 1918 og 1920, þá 25 og 27 ára gamall. Stíll verkanna er í anda þýskrar síðrómantíkur og munu seint teljast framúrstefnuleg. Engu að síður eru þau grípandi og sýna ágæt tök Páls á píanóinu. Sérstaklega heillandi er stykki númer tvö, Intermezzo, í op. 5 flokknum; fallegt, ljóðrænt stykki sem hljómar afar fallega í höndum Gísla. Þessi verk Páls eru fyllilega þess virði að hlusta á og væri gaman að sjá fleiri íslenska píanóleikara spila þau opinberlega.

Margir píanóleikarar spila verk Bachs eins og þeir væru að reyna að láta þau hljóma sem þau væru spiluð á sembal (sem þau voru reyndar samin fyrir). Það á þó ekki við hér þar sem þýður, fallegur tónn er einkennið. Þó forðast Gísli að spila verkin í rómantískum stíl og ekkert bólar á pedalnotkun. Hún er þó eflaust til staðar, en einn vandinn í Bach spilun er að kunna að nota pedalinn án þess að hlustandinn í rauninni átti sig á því. Hörku er hvergi að finna í flutningi Gísla og í 24. prelúdíunni og fúgunni (í h-moll) tekst fullkomlega að ná fram þeim dáleiðandi áhrifum sem má svo oft finna í tónlist Bachs.

Verkin eftir Beethoven og Brahms voru hljóðrituð árið 1988 þegar Gísli var tæplega sextugur. Sónata Beethovens op. 110 virðist vera sniðin að stíl Gísla við píanóið. Allir mestu píanósnillingar heims hafa glímt við þessa sónötu og flestir þeirra hljóðritað hana. Það eru engar ýkjur að segja að þessi upptaka stenst þeim bestu fyllilega samanburð. Leikurinn er íhugandi og alveg laus við yfirborð- og sýndarmennsku.

Händel tilbrigðin eftir Brahms eru eitt stærsta píanóverk meistarans ásamt sónötunum þremur. Gísli hefur e.t.v. ekki þá tæknilegu fullkomnun sem menn eins og Benno Moiseiwitsch og Egon Petri hafa, og er því á stundum örlítið varkárri í hraðavali í hinum snúnustu tilbrigðum en þeir miklu snillingar. Hann bætir það þó fullkomlega upp með blæbrigðaríkum leik og þykkum, safaríkun tón sem hæfir vel verkum Brahms. Auk þess er leifturhraði alls ekkert skilyrði fyrir ahrifamiklum flutningi sem þessi svo sannarlega er.

Útgáfa þessa disks er mikið og gott framtak. Undirritaður veltir fyrir sér hvaða fleiri upptökur með íslenskum píanóleikurum leynast þarna úti sem á eftir að koma á geislaplötur. Til dæmis kom á níunda áratugnum út plata þar sem Halldór Haraldsson leikur verk eftir Chopin og Liszt. Undirritaður hefði mikinn áhuga á að sjá þær upptökur endurútgefnar enda er um gæðaflutning að ræða.

Diskurinn með Gísla Magnússyni fæst í Skífunni, Laugavegi.

Diskur I:

Páll Ísólfsson
- Glettur, op. 1
- Þrjú píanóstykki, op. 5

Sveinbjörn Sveinbjörnsson
- Vikivaki
- Idyll

Johann Sebastian Bach
- Ensk svíta nr. 6 í d-moll

Franz Schubert
- Moments musicaux, op. 94 nr. 3 & 4
- Ländler, op.171

Domenico Scarlatti
- Sónata í C-dúr, K.132
- Sónata í E-dúr, K.20

Béla Bartók
- Dans svínahirðisins
- Allegro barbaro

Diskur II:

Johann Sebastian Bach
- Prelúdíur og fúgur nr. 1, 2, 23 & 24 úr Das wohltemperierte Klavier I

Ludwig van Beethoven
- Sónata í As-dúr, op. 110

Johannes Brahms
- Tilbrigði og fúga um stef eftir Händel
..
>> Lesa

laugardagur, nóvember 13

Konstrúkt lífsins

HöfundurÁ dögunum kom út bókin Snöggir blettir eftir Sigurð Gylfa Magnússon, og hefur hún að geyma safn gamalla ljósmynda. Myndirnar eiga það sameiginlegt að vera flestar af fólki sem fór ótroðnar slóðir í lífi sínu, og við hverja mynd er stuttur texti eða hugleiðing. Þessi bók er e.k. leikur með samspil myndar og texta, en um aðferð sína segir höfundurinn í formála:

„Ég hef ekki áhuga á að steypa fólkinu á ljósmyndunum í ákveðna kví, að halda einhvers konar fríksjó á hópi fólks sem hafði af einhverjum ástæðum orðið útundan í lífinu. Ég vil miklu frekar bera kennsl á kosti þessara einstaklinga eins og þeir blasa við mér – sem skyndimyndir af vettvangi dagsins. Til þess að það megi takast reyni ég að horfa á lífið án þess að styðjast við þekkt viðmið.“ (bls. 8)

Um leið og þessi orð sýna að höfundurinn vill umgangast viðfangsefni sitt með virðingu vekja þau upp spurningar: Er hann að ætla sér hið ómögulega? Hvernig í ósköpunum á það að vera mögulegt að horfa á lífið án þess að styðjast við þekkt viðmið? Sigurður Gylfi lýsir þessu ekki nánar, og líklega er auðsótt mál að sanna að þetta sé óraunhæf hugmynd. Það er þó greinilegt að textarnir í Snöggum blettum eiga fátt skylt við hefðbundna myndatexta. Þeim má gróflega skipta í fimm flokka (sumar myndirnar falla í fleiri en einn):

1) Textar þar sem manneskjum á mynd er lýst út frá myndinni sjálfri („Konungur vallanna“ bls. 30).
2) Textar þar sem manneskjum á mynd er lýst með sögu eða gildismati sem tengist myndinni sjálfri ekki („Fögnuður“ bls. 66).
3) Textar sem fjalla um einhvern tiltekinn eiginleika myndarinnar en fjalla ekki beint um manneskjuna á myndinni („Að horfa“ bls. 46).
4) Samanburður á myndefni og einhverju sem er því fjarlægt, þar sem dregnar eru fram hliðstæður eða andstæður fyrirbæranna tveggja („Staður í landslagi“ bls. 62).
5) Textar þar sem hvorki er minnst á manneskjuna á myndinni né neitt sem tengist ljósmyndinni sjálfri, heldur reynt að skapa hughrif í samspilinu („Gleði“ bls. 50).

Sigurður Gylfi sækir margt í samanburðinum við eigið líf, ekki síst æskuna og er bókin að nokkru leyti sjálfsævisögulegt verk. Myndirnar í bókinni eru úr fórum Helga Magnússonar, afa Sigurðar, sem gaf syni sínum þær, Magnúsi Helgasyni föður Sigurðar Gylfa. Bókin er opin í endann því hún endar á bréfi Sigurðar Gylfa til barna sinna og þannig setur hann viðfangsefnið í náið samband við gang kynslóðanna.

Snöggir blettir eru um leið óbeinn óður til ljósmyndarinnar, miðilsins sem gerir augnablikið eilíft. Sigurði Gylfa tekst dável að útfæra klassíska hugmynd á nýstárlegan hátt, þ.e. hugmyndina um varanleika ljósmyndarinnar. Enn fremur er bókin sniðug kennslubók í því að lesa ljósmyndir og setja þær í víðara samhengi en hefðbundin hugsun gerir ráð fyrir. Snöggir blettir er frumlegt og einlægt verk, myndabók en líka hugvekja um myndræna eiginleika orðsins.
..
>> Lesa

föstudagur, nóvember 12

„Umbreyting í fljótandi ástand“

HöfundurÁ árinu gaf Bjartur út smásagnasafn eftir japanska rithöfundinn Haruki Murakami, sem í íslenskri þýðingu Ugga Jónssonar nefnist Eftir skjálftann. Safnið samanstendur af sex smásögum sem tengdar eru með jarðskjálftanum sem varð í borginni Kobe árið 1995 og hafði gífurlega eyðileggingu og manntjón í för með sér. Murakami notar þann atburð sem sögusvið, án þess þó að staðsetja neina aðalpersóna sagnanna á skjálftasvæðinu sjálfu. Hins vegar hafa þær persónulegar fortíðartengingar við borgina eða svæðið í kring, og kemur jarðskjálftinn því töluverði róti á sálarlíf aðalpersónanna. Er hægt að segja að Murakami noti jarðskjálftann sem hliðstæðu fyrir þær nafnlausu hræringar sem eiga sér stað í undirmeðvitund mannsins og hvernig þær verða á einn eða annan hátt að brjótast upp á yfirborðið. Við það getur skapast viss eyðilegging, en eins og Murakami virðist vilja benda á, þá losnar líka um óþolandi spennu. Skjálftinn er náttúrulegt fyrirbæri, nauðsynlegur í sköpun nýs jafnvægis og sáttar.

Athyglisvert er að skoða smásagnasafn þetta og sér í lagi hugmyndina um kraftana sem krauma í iðrum jarðar og raska stundum sléttu og felldu yfirborði, með tilliti til japansks samfélags. Séð vestrænum augum er Japan land hrópandi mótsagna; uppfullt af hefðum og siðavenjum sem við eigum erfitt með að botna í. Þetta milljónasamfélag byggist að miklu leyti á því að halda yfirborðinu með kyrrum kjörum með stífum reglum svo að allt gangi sem smurt. Hver þegn á að þekkja sína stöðu og jafnvæginu er haldið föstu, meðal annars með flóknum kurteisisvenjum. Rígbundið (þótt sveigjanlegt sé orðið á undanförnum árum) samfélagsformið veitir persónulegt rými í svo þéttbýlu landi en er tvíeggja sverð, eins og Murakami lætur í ljós skína þó svo að hann fjalli um hina nýju kynslóð Japana. Hætta er á að milli manna geti skapast óyfirstíganleg fjarlægð, einangrun, einmanaleiki.

Rétt eins og okkur finnst japanskt samfélag alltaf svolítið óskiljanlegt og framandi vestrænum veruleika, þá eru sögur Murakami oft og tíðum líkt og aðeins á skjön við raunveruleikann - þær hafa yfirnáttúrlegan blæ yfir sér. Þessi eiginleiki sagnanna er eitt af því fjölmarga sem ljær þeim þá sérstöðu sem skrif Murakami þykja hafa. Segja má að sögur hans einkennist helst af því sem ekki er tjáð beint, heldur dylst undir yfirborðinu og óbeint í orðunum. Texti íslensku þýðingarinnar, sem mér er tjáð að sé unninn úr enskri þýðingu viðurkenndri af rithöfundinum sjálfum, hlýtur að endurskapast gegnum svo flókið þýðingarferli, svo ekki sé minnst á úr hversu ólíkum heimi frumtextinn er sprottinn. Þýðing Ugga er hrein og öguð, næstum hnökralaus. Það er helst þá að lesandinn staldri við sérjapönsk fyrirbæri - það er alltaf dálítið skrítið að lesa um niðursoðinn kolkrabba eð eitthvað slíkt á íslensku, en það kemur ekki að sök, heldur eykur ánægjulega á ævintýrablæinn. Þótt sögurnar séu augljóslega merkingarþrungnari hinum japanska lesanda frumtextans þegar kemur að svo einföldum hlutum eins og staðháttum til dæmis, þá rýrir það ekki gildi íslensku útgáfunnar, því að í gegnum yfirborð smásagna Murakami birtist sammannlegur raunveruleiki er persónurnar takast á við nafnlausa en þekkjanlega drauga fortíðar.
..
>> Lesa

miðvikudagur, nóvember 10

Hr. Ibrahim og blóm Kóransins

HöfundurÚt er komin bókin Hr. Ibrahim og blóm Kóransins í þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttir í Neon-bókaklúbbnum hjá Bjarti. Bókin er sú fyrsta í þríleik eftir Eric-Emmanuel Schmitt um hlutverk trúarbragðanna í mannlegu samfélagi.

Eric-Emmanuel Schmitt fæddist árið 1960 í Lyon í Frakklandi. Samhliða menntaskólanámi stundaði hann tónlistarnám af kappi og að menntaskólaprófinu loknu nam hann heimspeki við hinn virta háskóla Ecole normale supérieure í París. Hann hlaut doktorsgráðu árið 1987. Fyrsta leikrit hans, Don Juan fyrir rétti, var sýnt árið 1991. Árið 1993 var leikrit hans, Gesturinn, frumsýnt. Það hlaut fjölda verðlauna og markaði upphaf af glæstum ferli Schmitt.

Hr. Ibrahim og blóm Kóransins er ekki löng bók, reyndar er hún svo stutt að hægt er að fara með hana á klósettið og klára á góðum tíma í stað þess að lesa þar misvonda bakþanka Þráins Bertelssonar í Fréttablaðinu eða eitthvað þvíumlíkt.

Sagan fjallar um 11 ára dreng, Móse, og samskipti hans við kaupmann, mellur og föður sinn, sem er lögfræðingur. Faðir hans er fátækur og lætur drenginn kaupa inn og elda fyrir sig. Móse reynir að spara þann pening sem hann á með því að láta föður sinn borða hundamat í stað venjulegs kjötbúðings og með því að stela frá kaupmanni nokkrum. Hann hættir að stela þegar Brigitte Bardot kemur í búð kaupmannsins og kaupir þar vörur á uppsprengdu verði, sem verður til þess að vinátta tekst á milli kaupmannsins og Móse, sem kaupmaðurinn kallar reyndar Mómó.

Sagan er skemmtileg og hugljúf þar sem vinátta gamla kaupmannsins og Móse skín í gegn. Bókin rennur því léttilega sitt skeið, enda eins og áður segir ekki ýkja löng.

Þegar Móse varð 11 ára braut hann sparigrísinn sinn og heimsótti mellurnar. Umfjöllun um vændiskonur hefur að nokkru leyti farið fyrir brjóstið á sumum gagnrýnendum bókarinnar, sem telja hinn rauða þráð hennar vera kvenfyrirlitningu. Jafnvel hefur verið gengið svo langt að telja hana viðhalda misrétti kynjanna með óbeinum skilaboðum sínum. Sú staðreynd að til séu konur, sem selja líkama sinn og kallaðar eru mellur, getur ekki og á ekki að koma í veg fyrir að fjallað sé um þær í bókmenntum. Þá er einnig fráleitt að gera þá kröfu til þeirra sem ætla að fjalla um slíkt efni í bókum sínum að gera það á neikvæðan hátt, eins og til dæmis gerð er krafa um í 3. tl. 3. mgr. 7. gr. tóbaksvarnarlaga. Á að takmarka tjáningarfrelsið til þess að gæta jafnrar stöðu karla og kvenna í ræðu og riti?

Þetta vefrit yrði þá, með sama hætti og bókaútgáfan Bjartur, sökuð um kynjamisrétti og um að vera gamaldags í jafnréttismálum, þar sem meirihluti þeirra sem skrifa í það eru karlkyns. Þeir sem hvað harðast ganga í slíkri „jafnréttisbaráttu“ myndu jafnvel reyna að koma í veg fyrir útgáfu ritsins uns hlutföll kynjanna hafi verið leiðrétt. Það er nú einfaldlega þannig að hugsandi fólk í dag kærir sig kollótt um það af hvaða kyni einstaklingur er. Það eina sem máli skiptir er hvað hann getur.
..
>> Lesa

Asseríumenn í efstu deild

HöfundurÍ dálknum áhugaverð vefsíða er lesendum vísað á síðu Asseríumanna, sem er áhugaverð um þessar mundir vegna stríðsins í Írak. Þau góðu tíðindi fyrir þessa þjóð hafa nú borist að Assyriska, knattspyrnulið Asseríumanna í Svíðþjóð, er komið í efstu deild, eftir að Örebro fékk ekki keppnisleyfi vegna fjárhagsvandræða. Heimasíða liðsins er assyria.se.

Það kann að koma á óvart að þótt Assiríumenn séu frá Austurlöndum nær er útlit þeirra frekar norrænt. Margir fræðimenn aðhyllast þá kenningu að Asseríumenn séu ekki semítar heldur af indó-evrópskum stofni. Þó að tunga þeirra sé aramaiíska, sem er sama tungumál og Jesús frá Nasaret talaði (hægt er að heyra hvernig það hljómar með því að horfa á Passion of The Christ), þá telja sömu fræðimenn að almenningur í hinni fornu Asseríu hafi talað germanskt mál. Semískt mál hafi hins vegar haft sömu stöðu í hinu forna ríki og latína hafði meðal Evrópubúa á miðöldum. Þau asserísku mannanöfn sem getið er um í fornum ritum eru af germönskum stofni og styðja því kenninguna (samt ekki hinn opinberi sannleikur eins og sjá má í alfræðiorðabókum). Ef fáni Asseríumanna er skoðaður sést að ránfuglinn í honum er sá sami og á einkennisbúningum foringja þýskra þjóðernissósíalista. Til eru trúarheimspekingar sem telja að ásinn Óðinn hafi verið Asseríumaður og hafi leitt fyrsta hóp þeirra til Norður-Evrópu. Asseríumenn er nú allir kristnir og hafa verið lengi. Upplýsingar um þá er að finna á síðunni atour.com.
..
>> Lesa

þriðjudagur, nóvember 9

Útsær

Höfundur- Andvaka haf, í ómi glitrandi stranda,
aleinn ég dvel í stjörnuhöll minna drauma
og lifi að nýju þinn ljóma og róm í anda. -
Mín léttustu spor eru grafin í þína sanda.

Svo orti Einar Benediktsson í Útsæ, sem hefst á hinum frægu orðum:

Til þín er mín heimþrá, eyðimörk ógna og dýrðar,
ásýnd af norðursins skapi í blíðu og stríðu.
Hjá þér eru yngstu óskir míns hjarta skírðar.
Útsær - þú ber mér lífsins sterkustu minning.
- Ég sé þig hvíla í hamrafanginu víðu;
Ég heyri þig anda djúpt yfir útskaga grynning.
Ofsinn og mildin búa þér undir bránni;
þú bregður stórum svip yfir dálítið hverfi,
þar lendingarbáran kveðst á við strenginn í ánni,
en upplit og viðmót fólksins tekur þitt gerfi.

Hve myndir og skuggar miklast í þínu veldi.
- Ég man þig um dægur, er skín ei af ári né kveldi.
Þá lyftirðu þungum og móðum bylgjubarmi
og bikar hins volduga myrkurs þú drekkur á höfin.
Augu þín lykjast undir helsvörtum kvarmi,
en hart þú bindur að ströndunum líkfölu tröfin. -
Þá er eins og líði af landinu svipir af harmi.
Þeir leita í þínum val undir marareldi
- og mæðuandlit svefnþung á svæfli og armi
sjá þá, er varstu bæði lífið og gröfin.

Mér er sem ég skyggnist yfir sædjúpsins jarðir -
þar er ekki hljómi líft, né geisla af degi.
En eins og vindar leiða hlíðanna hjarðir
hafbúann straumurinn áttar á sporlausum vegi.
Og ljósgjafaaugu svipast um undirsjáinn.
Þar sækja hafsins múgar sinn óraróður;
og vegast á til bana í lágum legi,
leiknir í fangbrögðum dauðans, varir og harðir.
Þar beita sér tálkn og barðar á rastanna gróður,
með bítandi tannir og skafla hvassa sem ljáinn.

Til lands sækir djúpsins líf. Þar merkirðu klettinn
og lætur þig sjást sem þú ert, með flakandi slæður.
Aftur og fram, meðan ertu steininum stæður
sem stormur í kjarri þú æðir í þaranna runni.
Áin sekkur í sjóinn sem dropi í brunni -
en sá, sem ræður, þig stöðvar við norðlenska blettinn.
Þá brýnirðu róminn og kallar af fjöru að fjalli,
en fjötruðu strandirnar bergmála einum munni.
Réttlausa frelsi í holskaflsins hvolfandi falli,
ég heyri þig steypa í rústir og lyfta frá grunni.

- Ég minnist þín löngum, heimur hverfulla mynda,
í hópnum, sem kemur og fer í voldugum borgum,
með óma, sem líða í öræfi hverfandi vinda,
með andlit, sem rísa og sökkva á streymandi torgum.
Bylgjur stynja og deyja í fjöldanna flóði.
Þar finnast ei blóðdropar tveir, sem að öllu jafnast.
Og eins er hvert brimtár og andvarp þitt sem safnast
í öldustríðsins máttuga, drukknandi hljóði.
En einhversstaðar á allt þetta líf að hafnast
og einhver minnisstrengur nær hverju ljóði.

Því dagar sólina uppi um unaðarnætur.
Þá eldist ei líf við blómsins né hjartans rætur.
- Hafkyrrðin mikla leggst yfir látur og breiður,
en lággeislinn vakir á þúsund sofandi augum.
Á firðinum varpar öndinni einstöku reyður,
og uppi við land kasta sporðar glampandi baugum.
Báruraddir í vogavöggunum þegja.
Ein vísa er aðeins hvísluð niðri í ósi.
Tíminn er kyrr. Hann stendur með logandi ljósi
og litast um eftir hverju, sem vill ekki deyja.

En stoltastur ertu og stærstur í roki á haustin.
Strandmölin grýtir landið. Þú seilist í naustin.
Skýin þau hanga á himninum slitin í tötra. -
Það hriktir í bænum eins og kippt sé í fjötra.
- Þá bryðurðu gaddinn við grúfandi bátastefnin.
Grunnsjórinn beljar um voginn svo jarðirnar nötra.
En hafáttin er í húmi og blikum til skipta;
hún hleypir skammdegisbrúnum föl undir svefninn.
Þá hamastu, tröllið. Í himininn viltu lyfta
hyljum þíns eigin dýpis og álögum svipta.

- Og alltaf ég man þig um mánaóttuna langa;
þá mæna til stjarnanna skuggar eyja og dranga
og vefjast í löngum örmum, sem risi og rýgur -
en röstin niður í fjarlægð, með blandaða strauma.
Þinn barmur aðeins hrærist og hljóðlega stígur
er himneska segulfangið á móti þér hnígur,
- Andvaka haf, í ómi glitrandi stranda,
aleinn ég dvel í stjörnuhöll minna drauma
og lifi að nýju þinn ljóma og róm í anda. -
Mín léttustu spor eru grafin í þína sanda.

Ó kveldsól á hafsins brotnu, blikandi speglum.
Bjargeyjan klæðist í liti, með snjóbleikum dreglum.
- Lognið þar ríkir. En boðarnir bregða hrammi
og bresta sem þrumur yfir dökknandi flæðum.
- Þá skil ég að heiðnin lifir aldanna æfi
með ódáinshallir, reistar í norðlægum sævi.
- - Að drykkju er Ægis hirð í hylgrænum klæðum.
Í hálfri gátt stendur Lokasenna frammi.
Og landbrimið mælir á mig kraptakvæðum -
vor kynstofn reis hæst í lífsins og guðdómsins fræðum

Fornhelga spekin veit að afl skal mót afli,
en andanum gefur hún seinasta leikinn í tafli.
Guðirnir yrkja í kveðandi brims og bylja
og brjóst hins illa valds er slegið með ótta.
Hamar Þórs hann vegur að Alföður vilja;
því víkur glottið í Ægisdyrum á flótta.
- Loki felur sig sjálfan í þjósti og þótta.
Hann þjakst og elskar í sinnar heiptar viðjum -
og minning hann ber um bros frá litverpum gyðjum
sem bjarma af von í myrkri eilífra nótta.

Útsær, þú hastar á hjartað og göfgar þess ama.
Þú hylur í þögn vorn fögnuð og gjörir hann ríkan.
- Veröld af ekka, ég veit engan mátt þér líkan.
Viljinn sig þekkir hjá þér og rís yfir hafið -
já, hafið sem á ekki strönd með fjarlægum frama,
en firnaríki í auðnir skýjanna grafið,
Þó deyi hjá þér okkar vonir, sem nefna má nöfnum.
og nísti þinn kali vor brjóst, er vald þitt hið sama;
því handan þín enginn átti að búast við höfnum.
Eilífð og himinn er landsýnin þar fyrir stöfnum.

- Sem leikandi börnin á ströndu, er kætast og kvarta
með kufung og skel frá þínu banvæna fangi,
ég teyga þinn óm frá stormsins og straumanna gangi.
stirnandi, klökka djúp, sem átt ekkert hjarta.
- Missýnir, skuggar, mókandi ey og drangi,
myndaskipti þín öll, þau skulu mér fylgja.
Þó kalt sé þitt brjóst, þar sem blikar geislanna sylgja,
þó björgin þú knýir til ákalls, en svarir ei neinu,
allt það, sem hjúpur þíns hafborðs gjörir að einu,
hnígur að minni sál, eins og ógrynnis bylgja.

..
>> Lesa

mánudagur, nóvember 8

Hátíðarljóð Alþingishátíðar 1930

HöfundurÁrið 930 skipar stóran sess í stjórnskipunarlegri sögu okkar Íslendinga. Það ár var Alþingi stofnað á Þingvöllum fyrir tilstilli víkinganna sem komið höfðu frá Noregi áratugina á undan. Síðan þá hefur Alþingi gengið í gegnum öldurót áranna, breyst með breyttum aðstæðum mannfólksins og flust frá hinum forna þingstað við mörk jarðflekanna miklu, til höfuðborgarinnar smáu.

Þegar þúsund ár voru liðin frá upphafsdögum Alþingis var tekin ákvörðun um að halda upp á þau tímamót með veglegum hætti, rétt einsog gert hafði verið árið 1874 þegar þúsund ára byggð í landinu var fagnað í Öskuhlíð og á fleiri stöðum. Á Þingvöllum, hinum forna þingstað skyldi haldin vegleg hátíð allrar þjóðarinnar.

Allt frá árinu 1923 höfðu menn vakið máls á því að nauðsynlegt væri að hefja undirbúning að hátíð sem þessari, það krefðist mikils tíma og fjármuna. Talið er að Björn Þóðarson, sem síðar fyllti sæti forsætisráðherra á Þingvöllum við Lýðveldisstofnun 1944, hafi fyrstur vakið máls á þessu í 1. og 2. hefti Eimreiðarinnar árið 1923. Fóru svo hjólin að snúast, hægt í fyrstu, en þegar Alþingi kom að málinu 1926 komst skriður á málin og nefnd í kringum hátíðina var skipuð. Var sú nefnd í raun forveri Þingvallanefndarinnar sem enn starfar. Hennar fyrsta verk var að vinna að undirbúningi þess að Þingvellir yrðu þjóðgarður.

Ekki er það ætlun mín að rekja sögu þessarar hátíðar í smáatriðum, það gerði raunar dr. Magnús Jónsson svo vel í bók sinni Alþingishátíðin 1930 að engu er við bætandi. Eitt er það þó sem strax vakti athygli mína við lestur þessarar miklu heimildar sem bók Magnúsar er; hátíðarljóðin. Hvílíkar gersemar sem þar er að finna, gersemar sem spruttu af vörum snillinga á tímamótum þjóðarinnar árið 1930. Er það ætlun mín í þessum texta að fjalla um þau.

Samkeppnin

Eitt af því fjölmarga sem undirbúningsnefnd Alþingishátíðarinnar stóð fyrir var samkeppni um hátíðarljóð. Var það raunar engin nýlunda að gert væri ráð fyrir bundnu máli í minningu atburðar sem þessa. Hefur það oftar en ekki verið íþrótt íslenskra skálda að semja ljóð í tilefni slíkra viðburða. Er í því sambandi skemmst að minnast Þjóðfundarsöngs 1851 sem Bólu-Hjálmar orti og svo hin ógleymanlegu ljóð skáldkonunnar Huldu og Jóhannesar úr Kötlum sem þau ortu fyrir lýðveldisstofnun 1944.

Raunar var það þannig að dómnefnd samkeppninnar taldi engin þeirra ljóða sem borist höfðu uppfylla þær kröfur sem nefndin hafði gert. Er ólíklegt að skáldskapurinn hafi ekki þótt nægilega vandaður, má heldur telja að ekkert ljóðanna hafi verið vel fallið til söngs, en nefndin hafði einmitt ákveðið að sigurljóðið skyldi flutt í söng á hátíðinni sjálfri. Niðurstaðan varð sú eftir nokkrar bollalegginar að þrír höfundar skyldu hljóta verðlaun hátíðarinnar. Einar Benediktsson og Davíð Stefánsson skyldu hljóta fyrstu verðlaun og ljóð Jóhannesar úr Kötlum hlaut einnig verðlaun. Þegar dr. Páll Ísólfsson, einn af dómendunum, ásamt fleirum, hafði lagt mat á ljóðin þrjú var talið heppilegast að ljóð Davíðs skyldi sungið, voru á því gerðar nokkrar breytingar af hálfu höfundar svo að vel heppnaðist til.

Ljóðin
Ljóðin þrjú eru mikil að vöxtum, skiptast þau í kafla og eru erindi hvers kafla oft á tíðum mörg. Þau eru ort undir mörgum bragarháttum, sumum einföldum en öðrum sem meira lætur yfir.

Ljóð Davíðs skiptist í 13 kafla, Einars í 6 og 44 erindi og ljóð Jóhannesar telur 43 erindi. Einsog búast má við er um ættjarðarljóð að ræða, að mörgu leyti í anda Bjarna Thorarensen og þeirra sem fyrstir ruddu braut rómantíkur í íslenskum kveðskap. Þau segja sögu landsins, segja frá afrekum forfeðranna sem nú endurspeglast í sjálfstæði þjóðar við nyrsta haf.

Ljóð Einars hefst í raun á frásögn af landnáminu og hvað af því leiddi:

Af Austhimni leiftraði stefnandi stjarna
um stranhauðrið mikla, Á Norðurveg.
Og bjart varð af þyrpingum eldaðra arna
er útver settust og knarranna leg.
Svo fæddist vor saga á skildi og skál.
Skeiðarnar mönnuðust vestur um ál.
Og ljóðgöfgað Hávanna helgimál
hrundi af vörum íslenzkra barna.

Davíð minnist svo liðinna daga er þjóðin gekk í gegnum þrengingar og gekk niðurlægð af oki erlendra herra er hann segir:

Fyrr var landið fjötrað hlekkjum,
fátt um vopn og hrausta drengi.
Þjóðhetjur af þingsins bekkjum
þurftu að berjast heitt og lengi.
Dirfsku þurfti að koma og krefja
konunga um lausn og bætur.
Frelsismerkið fyrstir hefja
fullhugar, sem þjóðin grætur.

Mestu flugi nær svo Jóhannes í fjórða erindi verk síns er hann segir:

Ó, Guð! sem skapaðir tign vorra tinda,
svo takmark vort hófst upp úr duftinu blinda!
Ó, Guð! Þú, sem bjóst oss hér norrænu nyrztu,
svo næðum vér sigri – og yrðum þeir fyrstu!
Vér fögnum nú hér
og þökkum þér,
sem þyrmdir, er ægði grand.
Í lifandi óði,
með brennandi blóði,
vér blessum þá stund, er þú gafst oss land!

Faldar perlur
Einsog glöggt má sjá á þeim erindum sem hér að framan birtast úr ljóðunum þremur er um miklar perlur að ræða. Er óhætt að fullyrða að nefndin sem fjallaði um ljóðin á sínum tíma hafi átt úr vöndu að velja. Ljóð Davíðs sker sig úr að einu leiti, nokkur erindi þess eru betur þekkt en ljóð Einars og Jóhannesar. Ræður þar eflaust mestu um að þessi erindi voru valin til flutnings við undirleik tónlistar á hátíðinni 1930. Hafa þau í raun fylgt stórhátíðum þjóðarinnar allar götur síðan og orðið hluti af samhljómi lýðveldisins sem hljómar á tyllidögum landsmanna.

Eftirfarandi kaflar eru hvað best þekktir úr ljóði Davíðs:

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða.
Hin dýpstu speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrztu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún djörf og sterk.
Í hennar kirkju helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.

og:

Brennið þið, vitar! Hetjur styrkar standa
við stýrisvöl, en nótt til beggja handa.
Brennið þið, vitar! Út við svarta sanda
særótið þylur dauðra manna nöfn.
Brennið þið, vitar! Lýsið hverjum landa,
sem leitar heim – og þráir höfn.

Þessi erindi ættu allir að kannast við. Því er að þakka frábærum kveðskap en ekki síður þeim fallegu lögum sem styðja textann og glæða hann lífi. Má telja víst að ef fleiri erindum í ljóði Davíðs og ákveðnum erindum í ljóðum Einars og Jóhannesar hefðu verið ljáðir tónanna vængir þá hefðu þau lifað með þjóðinni allt til þessa dags. Má t.a.m. ímynda sér að síðustu þrjú erindin í ljóði Einars hefðu getað sómt sér vel í flutningi stórra kóra á hátíðisdögum. Geri ég það hér með að tillögu minni að tónskáld nútímans taki þau upp á sína arma og glæði þau eilífðarlífi, fylgja þau hér á eftir með áskorun til þeirra er vaxnir eru til verksins!

Vér áttum heima í byggð, en ekki borgum,
við býli stjál og fámenn ólst vor þjóð.
Þar hófust ekki turnar yfir torgum,
en tindar bláir mændu að sólar glóð.
Hér risu ekki voldug minnismerki.
Við moldir fjöldans Saga þögul stóð.
Í stein og málm var manni ei lýst né verki.
Vor mikla fold hún stóð í eyði og hljóð.

Vor ríku goðorð áttu þjóðarþegna,
sem þekktu frelsið sjálft, með eigin völd.
Sú aldastofnun stóð. Lát jörðu fregna,
vor stjórn ber þroska fyrir konungsöld.
Vér inntum fórnir vegna þungra víta,
en veröld síðar bauð oss endurgjöld.
Nú taka skal vorn hlut og láta hlíta.
Vér höfum réttinn fyrir sverð og skjöld.

- Vor myndasöfn þau gnæfa í hugar heimi,
svo hátt sem andi býst í jarðnesk orð.
Og hirðmál er vor tunga í guðageimi,
þar greppar sækja eld við konungsborð.
Af öldnum slögum óma vorir salir
við orð, sem tímar haga ei úr skorð.
Af Braga dáðum varðast Íslands valir,
um Vínland góða, Frón og Eiríks storð.
..
>> Lesa

sunnudagur, nóvember 7

Að sjá til þín maður

Höfundur Sá merki atburður gerðist í lok vetrar 2003 að Leikfélag Hafnarfjarðar var endurlífgað eftir nokkurra ára dvöl. Á því eina og hálfa ári sem liðin eru frá endurreisninni hafa sex leikrit verið sett á fjalirnar og verður það að teljast góður árangur. Þessa dagana standa yfir sýningar á leikritinu Að sjá til þín maður (Mensch Meier) eftir þýska leikskáldið Franz Xaver Kroetz. Leikstjóri er edduverðlaunahafinn Gunnar B. Guðmundsson og með helstu hlutverk fara Guðmundur L. Þorvaldsson, Sara Blandon og Jón Stefán Sigurðsson.

Að sjá til þín maður var skrifað á áttunda áratugnum og fyrst sett á svið 1978. Það er ágætur vitnisburður um áherslurnar í þýsku nýbylgjunni sem þá var í algleymingi, einkum í kvikmyndum manna á borð við Fassbinder og Herzog. Í upprunalegri gerð er leikritið hráslagalegt og gætt hneykslandi atburðum á borð við nekt, samfarir, sjálfsfróun og ofbeldi, en aðeins eitt af ofantöldu kemur fyrir í uppfærslu Leikfélags Hafnfirðinga. Verkið greinir frá lágstéttarfjölskyldu, húsmóður, verkamanni og atvinnulausum og tómlátum syni þeirra. Íslenska þýðingin á titli verksins virðist benda til þess að sonurinn sé aðalpersónan, en í rauninni er faðirinn mun veigameiri. Faðirinn er sú persóna verksins sem vekur áhorfandann til umhugsunar um grundvallarspurninguna: Hvað eru verðmæti?

Verðmætamat föðurins er brenglað að því leyti að hann er uppteknari af smáglingri heldur en tengslunum við fjölskyldu sína. Líf hans einkennist umfram allt af skorti sem er táknaður með kúlupennanum sem hann hefur lánað yfirmanni sínum, en þorir ekki að biðja um að fá til baka. Honum býður við hreyfingarleysinu og sljóleikanum í umhverfi sínu og eina hreyfingin sem hann hefur í lífi sínu er þegar hann stendur við færibandið í vinnunni. Flugdrekasmíðar eru hans helsta áhugamál, en flugdrekinn er lykiltákn í leikritinu: „Það er auðvelt að vera frjáls þarna uppi,“ segir faðirinn þegar hann horfir á gripinn sinn svífa í háloftunum. Honum lætur vel að stjórna flugdrekum úr fjarlægð, en hefur enga stjórn á einkalífi sínu og nánasta umhverfi.

Móðirin er upptekin af sínum brostnu vonum en reynir að halda í þá blekkingu að líf hennar sé engu síðra en það hefði orðið ef allt hefði farið eins og foreldrar hennar ætluðu, en þau afneituðu henni ungri fyrir að giftast verkamanni. Hún er blind á þá þversögn að sjálf er hún komin í sömu stöðu og foreldrar hennar þegar hún leyfir syni sínum ekki að hafa full yfirráð yfir eigin lífi. Sonurinn er iðjulaus og virðist sneyddur þeirri litlu von sem foreldrar hans þó hafa um betra líf.

Þetta litla leikrit er heldur bitlaust sem lýsing á ófremdarástandi, a.m.k. í þeirri mynd sem Leikfélag Hafnarfjarðar birtir okkur það. Leikhópurinn virtist ekki tengja sig fullkomlega við karakterana. Guðmundur er sýnu skemmtilegastur sem hinn veruleikafirrti verkamaður. Senan þar sem hann rifjar upp hvað allt kostaði á veitingahúsinu þar sem hann bauð fjölskyldu sinni út að borða fangar mjög vel kjarna persónunnar; hann getur ekki notið lífsins, sama hvað hann reynir. Leikur Söru er skammlaus en túlkunin dugar ekki alveg til í tilfinningaþrungnustu senunum, t.a.m. vendipunkti verksins þar sem hún horfir upp á eiginmann sinn skipa syninum að afklæðast. Hlutverk hinnar passífu húsmóður er trúlega frekar erfitt viðfangs frá sjónarhóli leikstjórans, og því er eins og hún verði út undan. Jón Stefán er langt frá sínu besta, hann virtist reyna að daðra bæði við hlutverk hins þögla iðjuleysinga og hins reiða uppreisnarmanns, og útkoman er óákveðin eftir því. Fjórir aukaleikarar koma fram í nokkrum atriðum sem ætlað er að gefa tilfinningu fyrir samfélaginu utan heimilisins. Þessi atriði voru að mínum dómi helsti styrkur sýningarinnar, skemmtileg lausn á annars fremur þurrlegum texta.

Útkoman verður lágmælt og hófstillt, og leikurinn hæfir því – enda er hann að mestu laus við öfgar. Leikmyndin kallaðist skemmtilega á við rætur verksins, brúnt, gult og appelsínugult veggfóður, köflóttur dúkur á borði og tekkhúsgögn sköpuðu andrúmsloft verkamannaheimilis á 8. áratugnum.

Þótt Leikfélag Hafnarfjarðar hitti ekki alveg í mark með þessu verki er full ástæða til að veita hópnum athygli, enda er hann virkasta áhugaleiksmiðja landsins þessi misserin. Í þessum hópi er mikið af hæfileikafólki sem gæti átt eftir að búa til mjög flotta sýningu áður en langt er liðið.

Að sjá til þín maður er sýnt í gamla Lækjarskóla í Hafnarfirði. Þrjár sýningar eru eftir á verkinu. Þær eru:

Föstudaginn 12. nóvember kl. 20:00
Föstudaginn 19. nóvember kl. 20:00
Sunnudaginn 21. nóvember kl. 20:00
..
>> Lesa

laugardagur, nóvember 6

Bók mánaðarins og áhugaverð vefsíða

HöfundurSkýjaborgir hafa valið bók mánaðarins eins og sjá má hægra megin á síðunni. Vinstra meginn er á síðunni er annar nýr dálkur sem kallast áhugaverð vefsíða...
>> Lesa

föstudagur, nóvember 5

Um mikilvægi Parísar

HöfundurMestu listamenn vestrænnar menningar hafa séð hana í draumum sínum, málað hana á trönum sínum, ort um hana í ljóðum sínum, sungið um hana frá hjörtum sínum og eignað henni líkama sinn í dauða sínum. Hvort heldur sem er að vori, sumri, hausti, vetri, nóttu, degi, í rigningu, í sólskini, á tímum friða eða skálma hefur hún þótt allra mest gefandi og innblásandi. Það fyrirfinnst ekki sá hugsandi maður á jarðríki sem ekki hefur orðið snortinn af einhverju því listaverki eða hugsun sem hún hefur gefið lífsneistann. París. Borg rómantíkurinnar hvort heldur sem tón-, mynd-, matargerðar-, dans-, byggingar-, hernaðar-, eða nokkur önnur list á í hlut.

Það skiptir engu máli hvaða mynd við fáum upp í höfuðið: Djöflarnir sem hanga utan á Notre Dame og horfa yfir vinstri bakkann, Picasso með alpahúfu að reykja vindla á útikaffihúsi í Montmartre, japanskir túristar að taka myndir af Monu Lisu inni í Louvre, Jean-Paul Sartre með hrokasvip að stíga út úr leigubíl, leiðtogar Parísarkommúnunnar með sígarettustubba í munnvikinu bíðandi eftir að teknir af lífi af aftökusveit í Père Lachaise, Chopin með sultardropa í nefinu spilandi á flygil í röku þakherbergi, Sid Vicious að pissa utan í Eiffel-turninn, ungt par með trefla á skautum fyrir framan Hôtel de Ville, Serge Gainsburg að klípa í rassinn á ungri ljóshærðri konu þar sem þau leiðast niður Boulevard St. Michel, maður sjálfur að borða ís með mömmu sinni og pabba í þröngri götu með háum húsum. Það skiptir engu máli hver myndin er sem maður fær í höfuðið, hún mun alveg örugglega vera óraunveruleg, mjög oft kjánaleg, og ekki vekja upp neina sterka tilfinningu hjá manni. París er manni óraunveruleg. Maður veit af henni og þekkir mikilvægi hennar en hún er ekki sönn fyrir manni.

Í þessari stuttu grein verður því leitað svara við tveimur spurningum. Sú fyrri er hvort að París sé mikilvæg. Til að svara því verður einmitt að kafa dýpra heldur en í skyggnimyndir meðvitundarinnar og skoða stöðu hennar í veraldarsögunni hlutlægum augum. Síðari spurningunni verður svo svarað eftir því sem svarið við hinni fyrri gefur tilefni til. Síðari spurningin er hvers vegna París sé mikilvæg og hvað það sé sem laði fólk sífellt til hennar, og jafnframt hvort að tími Parísar sem mikilvægustu listaborgar heims sé liðinn.

Það fyrsta sem skiptir máli varðandi París er að hún er stærsta og mesta borg landsvæðis sem hefur kynþáttar- og hugmyndafræðilega greint sig frá öðrum landsvæðum síðan á tímum þjóðflutninga miklu í Evrópu fyrir um tæpum 1600 árum síðan: Frakklands. Frakkland dregur nafn sitt af germönskum þjóðflokki sem hefur búið afar lengi á þessu landssvæði, Frönkum, en þó er yfirleitt talið að það séu ekki Frankar sem verðskuldi mestu athyglina þegar kemur að því að kryfja franska menningu niður til fósturvísis. Þeir þjóðflokkar sem eiga hvað mest í Frökkum eru án efa keltar, fyrst og fremst sá hluti þeirra sem nefnast Gallar, en þeir bjuggu á þessu landsvæði þegar Rómverjar réðust þangað fyrst inn á 1. öld f. kr. og hafa í raun aldrei farið burtu. Talið er að uppruni kelta sé þó nær Mið-Evrópu og hafa mörg þúsund ára gamlar leifar af menningu þeirra fundist bæði í fjalladölum Austurríkis og Sviss. Eins og allir vita þá er stór uppistaða hinnar bresku þjóðar einnig keltneskir þjóðflokkar en það á þó einkum við um Skota og Íra. Hjá frönskum keltum sem og þeim sem bjuggu á Bretlandseyjum var menning komin á mun hærra stig heldur en hjá germönskum þjóðflokkum þótt þeir síðarnefndu séu alla jafna taldir hafa verið betri í hernaði. Þriðja mikilvæga elementið sem hefur haft áhrif á franska menningu oftar en einu sinni er svo það rómverska. Hér komum við að okkar fyrsta pósti. Frönsk tunga er rómönsk. Talið er að hið rómverska setulið hafi ekki skilið mikið af blóði eftir sig, en einhverra hluta vegna þá gáfu þeir Frökkum tungumál sitt. Vegna landfræðilegrar stöðu sinnar og fjölbreytts uppruna hefur hin franska þjóð þó tungumál sem hefur mun fjölbreyttari eiginleika heldur en hin kalda latína sem hún í upphafi var.

Með mikilli einföldun má því segja að hið öfugsnúna eðli Frakka, það er dyggð gagnvart bæði list og hernaði, komi til vegna hinnar sérstöku samsetningar þjóðarinnar og mikilvægri landfræðilegri stöðu hennar. Enda kom hið skrítna eðli strax í ljós. Eftir fall Rómarveldis gerði hinn franski Karla-Magnús strax tilraun til að stofna nýtt ríki, rómverskt Evrópuríki og var það ekki í síðasta sinn sem Frakkar stormuðu til austurs inn í Evrópu með rómverskan aga að vopni í von um að drottna yfir henni allri. Það mikilmennskubrjálæði var þó skammvinnt og áður en varði var Evrópa öll í heljargreipum kaþólsku kirkjunnar sem þó leyfði þjóðlöndum að dafna og konungum að sækja sinn skatt. Á þessum tíma, hámiðöldum, varð hið þjóðernisafmarkaða Frakkland til í fyrsta skipti og hið fyrsta verk var að reka víkinga úr landinu og gætir áhrifa þeirra því ekki mikið. Með hinu rómverska eðli sínu greindi Frakkland sig frá öðrum Evrópulöndum í einu atriði sem skiptir mjög miklu máli í þessari litlu ritgerð. Frakkland var strax á hámiðöldum býsna miðstýrt land í anda Rómarveldis. Í höfuðborginni sat konungur í höll sinni og sótti skatta frá gríðarlegu landsvæði sem þó átti eftir að stækka og verða enn centralíseraðra síðar meir. Það, ásamt hinu miðstýrða skipulagi kaþólsku kirkjunnar, gerði París að stærstu borg miðalda með nokkur hundruð þúsund íbúa. Til að sýna völd sín og áhrif reistu Parísarbúar Notre Dame kirkjuna í frumgotneskum stíl en hún varð síðar fyrirmynd slíkra bygginga um alla álfuna. Þetta er annar póstur. Strax á 12. öld var París í fararbroddi í evrópskri menningu þó að sú menning hafi verið þung og dimm á þeim tíma.

Eftir landafundina og endurreisnina, sem þó eru hvorugt fyrirbæri sem rekja má beint til Frakka, lifnaði yfir menningunni. Málverk urðu dýpri og bókmenntir hispurslausari. Evrópubúar drottnuðu yfir úthöfunum og eignuðust nýlendur og miðaldaupprunin stéttaskipting þegnanna gerði konungsríkin að vel smurðum verslunar-, viðskipta-, og menningarframleiðsluvélum. Það var í slíku ástandi, í miklu ríkidæmi og auðæfum hins menntaða einveldis, sem Frakkar létu fyrsta vitsmunahögg sitt dynja á heiminum. Upplýsingaöldin rann í hlað með allri sinni heimspeki og þjóðskipulagshugmyndum. Tími hinna myrku alda var liðinn og Frakkar voru í fararbroddi. Enn var ríkið miðstýrt og París varð að þungamiðju heimsins. En Frakkland er eins og áður var lýst í grunninn ein stór hugmyndatogstreita auðmjúkra og skapandi afla annarsvegar og drottnandi og eyðileggjandi hinsvegar. Í upplýstum þankagangi sínum átti hin franska þjóð eftir að fá hina miklu eldskírn. Vissulega hafði hún undirgengist mikil stríð við önnur lönd vegna landsvæða og auðæfa, einnig hafði öll Evrópa logað í ófriði á tímum trúarbragðastyrjaldanna, en nú áttu eftir að gerast atburðir sem nísta hvað mest inn að beini vestrænnar sjálfsvitundar; milljónir mannslífa áttu eftir að glatast á grundvelli hreinnar hugmyndafræðilegrar þjóðskipulagsdeilu. Á 17. og 18. öld voru skrifaðar svo mikilvægar bækur og svo mikilvægar ræður fluttar á franskri tungu að heimurinn hefur ekki enn náð að melta það allt. Niðurstaða hinna miklu hugsuða var að konungurinn yrði að fara. En því fór fjarri að allir væru sammála um hvernig ætti að stjórna landinu. Það fór því svo á endanum að hið grimma, miskunnarlausa og agaða eðli þeirra reis upp úr rjúkandi rústum hins ídeólógíska hamfaraskipualags, sem var ef til vill lógískt en alveg örugglega ekki praktískt. Napóleon mikli, einn tveggja ofurmenna veraldarsögunnar samkvæmt Nietzche (hinn er Goethe), Sesar endurfæddur enda úr ítölsku legi runninn, með stóra og metnaðarfulla þjóð á bak við sig hreinlega svipti Evrópu allri til sín með annarri hendinni. Þetta var leiftursókn sem tók fljótt enda. Enn þann dag í dag hyllir hin mótsagnarkennda en mjög svo heillandi franska þjóð sinn mikla einræðisherra jafnvegis hinum miklu hugsuðum upplýsingaaldarinnar; og minnisverki alls þessa er að finna í höfuðborginni París.

Eftir Napóleonstyrjaldirnar var Evrópa kominn í miklar hugmyndafræðilegar ógöngur. Það var búið að sanna að allt væri rangt en þó viðgekkst það enn. Enn voru konungar í höllum þó að búið væri að sanna að þeir væru úreltir, nýlenduverslun var í blóma sínum þó búið væri að sanna að hún væri siðferðislega röng, borgaramenningin náði hápunkti sínum þó búið væri að sýna fram á að stéttaskipting væri óréttlát. Með nagandi samviskubit og móðursýkisglampa í augum leið Evrópa í gegnum 19. öldina með rútínubundnum styrjöldum og byltingum. Febrúarbyltingin sýndi nýrri kynslóð Frakka hvernig það væri að horfa á mannshöfuð rúlla niður Concorde-torg. Napóelon III. lét enn eina rómverska holskeflu ríða yfir Frakkland og ekki síst París en hann lét nánast reisa hana frá grunni og alla í nýklassískum rómverskum stíl. Parísarkommúnan, einskonar minimalísk útgáfa af byltingum allra byltinga kom og fór á tveimur mánuðum og fær sagnfræðinga enn til að klóra sér í hausnum. Það átti aðeins eftir að stíga síðasta dansinn. Forleikurinn var þó hið óútskýranlega menningarævintýri la belle epoque þar sem öll siðferðislögmál fengu að fjúka fyrir fegurðarþránni. Konungshöll ævintýrisins? París að sjálfssögðu.

Með mikilli skáldlegri einföldun má segja að heimstyrjöldin fyrri hafi loksins bundið enda á það sem í framtíðinni mun nefnast „evrópsk menning“. Við vitum öll hvað gerðist. Þó að Þjóðverjar hafi átt fyrsta leikinn þá báru allar þjóðir þá þrá í brjósti að losa sig við alla sína vondu samvisku í eitt skipti fyrir öll. Nýlendufylleríið var á enda og Ameríka löngu orðin sjálfstæð og miklu stærri og ríkari en öll Evrópa samanlögð. Sjálfsmorð Evrópu hafði verið fyrirsjáanlegt í langan tíma og kom loks í framkvæmd með stríðinu sem átti að binda enda á allar styrjaldir. Í þessari styrjöld dóu margir menn, en þeir dóu þó flestir á vígvöllum fjarri hinum mikilfenglegu borgum álfunnar, þær stóðu óhaggaðar. Það sem dó var hin evrópska hugsun. Í rúm þúsund ár höfðu íbúar þessarar álfu gjört einn stóran hugmyndafræðilegan sólmyrkva með menningu sinni. Það sem eftir stóð var raunveruleiki sem var svo óraunverulegur að hann var ósannur. Það átti að skipta Evrópu upp eftir kynþáttum; ein þjóð fyrir eitt ríki, lýðræði og friður. Það hafði engin þor í sér til að berjast lengur. Stríð voru orðin óraunveruleg. Það voru ekki lengur hetjur sem stofnuðu til styrjalda. Það voru engar hetjur til lengur. Það var tómarúm í hjörtum mannanna.

París setti síðasta spilið á borðið. Eftir heimstyrjöldina fyrri flykktist fólk til borgarinnar. Materíalísk skýring er sú að fylla þurfti upp í störfin sem hinir föllnu hermenn höfðu gegnt. Raunveruleg skýring var sú að fólk fann frið í París, höfuðstaður vestrænnar menningar hlyti að vera óhultur fyrir hinum óraunverulega raunveruleika. Borgin fylltist af listamönnum, ekki síst gyðingum sem flúðu frá Austur-Evrópu. Þetta útspil hefur oft verið nefnt Parísarskólinn þó að ekkert sameini listamennina annað en það að þeir bjuggu allir í París á millistríðsárunum. List þeirra var furðuleg: kúbismi, dadaismi, súrrealismi. Raunveruleikinn var ekki lengur sannur þannig að það var nauðsynlegt að gera eitthvað fjarri honum, eitthvað óháð, abstrakt, til að túlka sannleikann. Og þannig fjaraði evrópskri menningu út, ef til vill á sama stað og hún hófst þúsund árum áður. Henni blæddi út.

Þeir sem halda að ég hafi fjarlægst upprunalegt markmið þessarar greinar ættu að nema staðar núna og taka sér góðan tíma í að velta fyrir sér þessari öfugsnúnu yfirferð yfir Evrópusöguna. Ágripið hefur ef til vill einna minnst fjallað um París en við skulum muna hvernig þessi grein hófst. Hún hófst með skyggnimyndasýningu af París: Eiffel-turninn, Chopin, fólk með trefla á skautum. Þetta eru óraunverulegar myndir. Það hefur stundum enga þýðingu að ná tökum á viðfangsefni öðruvísi en með því að horfa sífellt framhjá því og reyna að ímynda sér heiminn án þess.

Og hvers vegna er París mikilvæg? Vegna þess að hún er besta minning þess sem ég hef kallað evrópska menningu. Ég hefði getað eytt allri þessari grein í að útlista nöfn þeirra mikilvægu listaverka sem hanga á veggjum La Louvre eða Musée D’Orsey en það myndi aðeins fylla huga ykkar af japönskum túristum með myndavélar og jakkafataklæddum safnvörðum og biðröðum og tilfinningunni um að vera mál að pissa. Það sem er hinsvegar mikilvægt er að þessi listaverk eru þarna. Að ganga niður vel valda breiðgötu í París er þeysireið í gegnum alla hugmyndafræðilega sögu Evrópu. Að standa á Ítalíutorginu og horfa yfir fimmta hverfið þegar sólin sest er eins og að standa inni í málverki eftir Monet. En það tekur einfaldlega mikinn viljastyrk og mikinn aga til að fá ekki kjánahroll yfir því. Það kostar einstaklega mikinn skilning og þolinmæði að sætta sig við það að Frakkar eru hrokafullir vegna þess að þeir eru afsprengi elsta centralíseraða skólakerfis heimsins sem hefur sífellt heilaþvegið þá um mikilvægi sitt. En það svíkur jafnvel enn meira réttlætiskennd manns að mikilvægi þeirra er staðreynd og mikilvægi Parísar er og verður staðreynd.

Þá stendur aðeins ein spurning eftir. Er París ennþá mikilvæg? Svarið hefur þegar komið fram. Hún veröldinni mikilvæg eins og foreldrar eru mikilvægir stálpuðum börnum sínum. Hún er eins og fullorðin manneskja sem sífellt þroskast og styrkir persónuleika sinn en er búin að taka út framkvæmdaræði æsku sinnar. Það má enn sjá tvískinnunginn í París nútímans. Það má sjá hina gríðarlegu þörf fyrir að gera hvort tveggja í senn, eitthvað fallegt og smátt en þó drottnandi og ögrandi. Slíka tilburði má til dæmis sjá í skrifstofuhverfinu La Défense sem var reist í últra-módernískum stíl á 6. til 10. áratugi 20. aldar. En það verður ekki annar Napóleon eða annar Voltaire. Tími þeirra er liðinn. Tíminn þegar veröldin var enn að fikra sig áfram út úr myrkrinu er liðinn. Nú er tími ofbirtunnar hafinn þar sem hetjurnar munu varpa skuggum á oflýsta fleti til að sýna raunverulegan vöxt þeirra. Þeim er mikil vinna fyrir höndum.

Af eins mikilli einlægni og brjóst mitt leyfir vil ég þó enda þessa grein á vinsamlegum tilmælum sem eru einskonar hnotuskurn yfir siðferði hennar. Þú kæri lesandi sem hefur ferðast til nokkurra Evrópulanda með lest eða rútu og borðað McDonald’s í 25 mismunandi borgum og séð nokkrar dómkirkjur, ekki halda að þú skiljir heiminn!
..
>> Lesa

fimmtudagur, nóvember 4

Krossgötur

HöfundurÍ greininni, sem birtist í Morgunblaðinu á 140 ára afmæli Einars Benediktssonar, birtust síðustu tvö erindin í Krossgötum. Kvæðið í heild sinni hljóðar þannig:

Mér virtist áður öll veröldin tóm,
ég var sem trúlaus - í helgum dóm.
Og nóttin mig byrgði og bældi inni -
ég bað svo heitt að dagurinn rynni.

Svo birtist mér sólin við sjónarboga;
þá sá ég minn austurheim tindra og loga
og hratt af mér drungans og dofans hlekk.
Í dægurkappanna lið ég gekk.

Og röðulglampinn oss glóði á kinn;
hans guðabros rann yfir huga minn.
Ég söng um jörðina og himinsins hallir.
„Við heyrðum það áður“ - sögðu þeir allir.

Svo gekk ég þangað sem manna milli
er matist með listum um kvenna hylli.
Að vinna og tapa var gleði og gaman -
ég gegndi lit hjá þeim öllum saman.

Með þrótt í armi með eld í orði,
með auga í auga, mjöð á borði
ég flutti þeim manvísur mjúkar og snjallar.
„Þeir mæltu svo hinir“ - kváðu þær allar.

Þetta eitt hef ég lært – ég stend einn, með vilja,
útlagi, frjáls, þar sem götur skilja;
og tælinn í ástum og tvímáll í svörum
ég tryggðaeið finn mér brenna á vörum.

Ég á mér nú trú og efa til hálfs,
mín ást er án vonar, mitt ljóð er án máls. –
Og þó sver ég ástum og óði án tafar
mína æfi frá þessum degi til grafar.
..
>> Lesa

miðvikudagur, nóvember 3

Hending

HöfundurPaul Auster segist hafa byrjað að skrifa eftir að hann rakst á þekktan hafnarboltakappa á förnum vegi og var ekki með skriffæri á sér til að geta fengið eiginhandaráritun. Eftir þetta atvik ákvað hann að bera alltaf penna á sér og segir í athyglisverðu verki sínu Why write (1996): „If you always have a pencil with you, pretty soon you'll start to use it.“ Þannig segir Auster að atburður sem hann, á sínum tíma, leit á sem ferlega óheppni, hafi í raun leitt til þess að hann byrjaði að stunda skriftir sem seinna urðu að lífsviðurværi hans. Slíkir atburðir, aðstæður og afleiðingar þeirra, eru Auster hugleiknir og kemur það greinilega fram í verkum hans.

Paul Auster er einn af þekktustu rithöfundum Bandaríkjanna í dag, búsettur í New York, og fékk sviðsljós bókmenntanna til að skína á sig eftir útgáfu svokallaðs New York-þríleiks, sem kom út í Bandaríkjunnum á árunum 1985-87 og í íslenskri þýðingu undir titlunum; Glerborgin (1993), Draugar (1994) og Lokað herbergi (1995). Síðan þá hefur Auster verið erilsamur við skrifin. Eftir hann liggja fjölmargar sjálfsævisögur, skáldsögur, ljóðabækur ásamt athyglisverðum bókum sem erfitt er að segja hvers eðlis eru, en þær innihalda smásögur, hugleiðingar, uppköst o.fl. allt í bland. Einnig hefur hann skrifað kvikmyndahandrit og ættu flestir að kannast við myndina Smoke (1995), en einnig myndirnar Blue in the Face (1995), Lulu on the Bridge (1998) sem og The Music of Chance (1993). Auster skrifaði reyndar ekki handritið að þeirri síðastnefndu, en hún er byggð á skáldsögu eftir hann sem Bjartur gaf út á íslensku undir titlinum Hending (1998) í þýðingu Snæbjörns Arngrímssonar, og er hér til umfjöllunnar.
Á þeysireið sinni um Bandaríkin þver og endilöng rekst Nashe fyrir tilviljun á ungan mann, pókerspilarann Pozzi. Báðir eru þeir félitlir og féþurfi. Þeir heimsækja tvo sérvitra miljarðamæringa í afskekkt óðalssetur í Pennsylvaníu með það fyrir augum að vinna af þeim peninga í póker. En leiðangur sem upphaflega var lagt í til að bjarga fjárhagnum verður á endanum háskaför þar sem líf þeirra eru að veði.
Svo segir um skáldsöguna aftan á kápu bókarinnar og lýsir sögunni ágætlega án þess að segja of mikið um framvindu hennar. Sagan er athyglisverð. Líkt og áður sagði er söguþráðurinn tilviljanakenndir atburðir og afleiðingar þeirra. Andstæður eru áberandi og byggist sagan að miklum hluta á þeim, t.d. persónuleikar Nashes og Pozzi, miljarðamæringarnir, ríkidæmi og snauð. Einnig er innsta eðli mannverunnar skoðað og sýnt frá bæði kómísku sem og hrottafengnu sjónarhorni. Sjálf sagan er frábærlega skrifuð og atburðarásin vel samsett. Er þetta spennusaga? Ég get ekki alveg gert upp hug minn. Spennan er samt svo sannarlega til staðar og það er aðdáunarvert hvernig Auster tekst til við að fylla lesendan eftirvæntingu og löngun til að halda lestrinum áfram. Eftir að hafa lesið nokkrar blaðsíður var ég orðin fangi og þræll sögunnar fram að lokum.

Ég get ekki kvartað yfir þýðingunni neitt sérstaklega, hún er vel unnin og virðist skila sögunni vel frá sér. Ekki varð ég var við að grundvallaratriðum væri hnikrað til vegna hugsanlegra þýðingarvandræða eða einhvers slíks. Get ég alveg mælt með að fólk lesi íslensku þýðinguna, sem er meira að segja ódýrari (í Neon ritröð Bjarts) en enska útgáfan.

Vert er að minnast á að sögur Braga Ólafssonar Hvíldardagar (1999) og Gæludýrin (2001) sem eru af sams konar meiði og Hending. En Bragi þýddi einmitt Glerborgina (1993) eftir Auster. Ef fólk hafði gaman af sögum Braga er Hending örugg ánægju lesning.

Hending er vel skrifuð saga sem fjallar á átakanlegan, en einnig kómískan hátt, um hvernig gjörðir okkar geta leitt undarlegustu atburði af sér. Skemmtileg og athyglisverð lesning sem skilur mikið eftir sig og heldur lesandanum fullkomlega vakandi við efnið. Bók sem allir ættu að getað haft ánægju af; ungir sem aldnir, við náttborðið eða á notalegri kvöldstund.

Hér er aðgengileg heimasíða um Paul Auster og verk hans.
..
>> Lesa

þriðjudagur, nóvember 2

Marlene og Rússarnir á Hótel Tindastól

HöfundurHugleiðingar helgarinnar:
Ég átti erindi á Sauðárkrók um helgina og gisti eina nótt á Hótel Tindastóli, sem er elsta hótel Íslands, stofnað árið 1884. Herbergið, sem mér var úthlutað, er frægt fyrir þær sakir að þar gisti engin önnur en söngkonan Marlene Dietrich, þegar hún kom hingað til lands árið 1941. Myndir af henni skreyta herbergið. Þar sem ég sá fram á næði til lesturs tók ég með mér bækur, sem ég las þó ekki, því að í Skagfirðingabúð rakst ég á bókina Rússland og Rússar eftir Árna Bergmann. Hún vakti áhuga minn og ég keypti hana.

Eftir að hafa opnað bókina við arineld og kertaljós í notalegum kjallaranum á Hótel Tindastóli gat ég ómögulega lagt hana frá mér. Þrátt fyrir lítinn svefn sólarhringana á undan hírðist ég um nóttina uppi á herbergi eins og nemandi að læra nóttina fyrir próf, með yfirstrikunarpenna að vopni, og drakk í mig þann fróðleik, sem bókin hafði að geyma. Mér fannst bókin vera viss uppljómun og ég get aldrei farið að sofa eftir þannig reynslu. Þurfti að klára skrudduna, sem tókst reyndar ekki alveg, þar sem augnlokin titruðu og rúmið hennar Marlene togaði, með betri helminginn minn innanborðs.

Ég kláraði bókina í Reykjavík. Hún fjallar um rússneska þjóð, sögu hennar og menningu, en kenndi mér mikið meira en efnið bar með sér. Um leið og bókin krauf rússneska „þjóðarsál“ gaf hún mér innsýn í launhelgar mannkynssögunnar. Eftir lestur hennar skil ég betur þau orð Winstons Churchills að sagan geymi leyndardóm stjórnmálanna.

Bókin er ekki löng, en hún er mjög fróðleg og vekur upp áhuga á að kynnast nánar „aðalleikurunum“ í rússneskri sögu; Valdimari knjas í Kænugarði, Ívani grimma, Pétri mikla, Tolstoj, Dostojevskij, Lenín, Gorkí, Raspútín, Stalín, Eisenstein, Sakharov, Solzhenytsin og fleirum.

Árni Bergmann á hrós skilið fyrir þessa bók og vonandi á hann eftir að skrifa fleiri bækur í þessum stíl.
..
>> Lesa

mánudagur, nóvember 1

Ég er ekki hræddur

HöfundurBókaútgáfan Bjartur hefur nýlega gefið út bókina Ég er ekki hræddur eftir Niccoló Ammaniti og er bókin hluti af Neon útgáfunni. Bókin kom fyrst út á Ítalíu árið 2002 og hefur trónað efst á ítölskum metsölulista samfellt síðan. Bókin hefur verið þýdd á meira en þrjátíu tungumál. Aftan á bókarkápunni stendur:

„Sumarið 1978 komst í sögubækurnar á Ítalíu sem eitt það heitasta á öldinni. Michele Amitrano minnist þess þó fyrst og fremst sem sumarsins þegar hann fann barnið í holunni. Ævintýrið byrjaði reyndar nógu sakleysislega. Michele og fleiri börn úr smáþorpi á Suður-Ítalíu gengu fram á gamalt, hálfhrunið hús. En fyrr en varði voru þau flækt inn í óreiðukenndan draum hinna lánlausu um betra líf fyrir norðan.“

Ég er ekki hræddur er að mörgu leyti athyglisverð glæpa/spennusaga. Sögusviðið er rólegt smáþorp á suðurhluta Ítalíu þar sem fólkið býr við kröpp kjör, mun krappari en almenningur á norður Ítalíu. Aðalsögupersónan, Michele, hefur þó ekki skilning á því enda er hann aðeins níu ára gamall. Áhyggjur hans snúast mest um það hvaða refsingu hann þarf að þola fyrir að koma of seint heim í mat. Fullorðna fólkið hefur hins vegar töluverðar áhyggjur af ástandinu og hvað til bragðs skal taka.

Sagan er öll sögð frá sjónarhóli hins níu ára gamla Michele sem uppgötvar að framinn hefur verið glæpur – barnið í holunni. Í tilraunum hans til að skilja hvað gerst hefur og til að koma vitneskjunni frá sér kemst hann á snoðir um ráðagerð sem hinn litli drengur getur varla komið í veg fyrir. Á sama tíma birtast óvenjulegir gestir í þorpinu, sem og fyrrum íbúar þess sem engum geðjast að.

Ég er ekki hræddur
er fyrst og fremst spennusaga en veitir einnig skemmtilega innsýn í hugarheim unga drengsins sem skilur ekki allt sem gerist í atburðarásinni. Sagan er uppfull af skemmtilegum persónum sem lífga söguna töluvert. Paolo Turchi þýddi verkið yfir á afbragðs íslensku. Heilt á litið er þetta spennandi bók sem óhætt er að mæla með.
..
>> Lesa

Greinasafn

september 2004 október 2004 nóvember 2004 desember 2004 janúar 2005 febrúar 2005 mars 2005 apríl 2005