sunnudagur, október 31

Í dag eru liðin 140 ár frá fæðingu Einars Benediktssonar

HöfundurÍ dag eru liðin 140 ár frá fæðingu Einars Benediktssonar. Af því tilefni skrifuðu tveir meðlimir Skýjaborga, Ásgeir Jóhannesson og Hjalti Snær Ægison, grein í Morgunblaðið. Greinin, sem birtist í blaðinu í dag, er nú birt hér.

Sá deyr ei, sem heimi gaf lífvænt ljóð
Einar Benediktsson, skáld, fæddist 31. október 1864 og eru því 140 ár liðin frá fæðingu hans. Hann lést þann 12. janúar 1940. Þótt Einar hafi verið mikill heimsborgari átti Ísland hug hans allan. Hann varði ævinni í að magna líf, tungu og list þjóðarinnar. Þess vegna er ástæða til að heiðra minningu hans í dag.

Einar var lögfræðingur að mennt og gegndi ýmsum störfum um ævina; embættismaður, lögmaður, fasteignasali, kaupsýslumaður og ritstjóri. Hann stofnaði fyrsta dagblað landsins, Dagskrá, árið 1896, og skrifaði alla tíð mikið um stjórnmál, sögu og menningu. Ástríða Einars var samt skáldskapur og birtist hann í fimm bókum; Sögum og kvæðum, Hafbliki, Hrönnum, Vogum og Hvömmum. Hann þýddi einnig leikritið Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen. Kvæði Einars Benediktssonar eru full af djúpri speki, sterkum tilfinningum og stórbrotnum náttúrulýsingum. Málfarið er meitlað og mergjað. Algyðistrú setur svip á mörg kvæði Einars og gefur þeim aukna dýpt. Kristján Albertssonar hefur látið hafa eftir sér að „[e]kkert annað skáld [hafi] ort af svo djúpri trúarvitund og lotningu fyrir guðdómi æðsta máttarvalds allífs og tilveru.“

Mikið hefur verið skrifað um ævi og kvæði Einars Benediktssonar. Valgerður Benediktsson (eiginkona Einars til margra ára), Steingrímur J. Þorsteinsson, Sigurður Nordal, Jónas Jónsson, Björn Th. Björnsson, Gils Guðmundsson og síðast en ekki síst Guðjón Friðriksson hafa, auk nokkurra erlendra höfunda, skrifað bækur um Einar. Einnig hafa margir skrifað greinar og ritgerðir um Einar, þar á meðal þeir Kristján Albertsson, Kristján Karlsson og Þorvaldur Gylfason.

Steingrímur, sem var bókmenntafræðingur og prófessor, lét eftirfarandi orð falla: „Einar Benediktsson er vafalaust einhver merkilegasti maður, sem fæðst hefur á Íslandi, og einn þeirra örfáu samtímamanna okkar, sem munaður verður og metinn eftir þúsund ár, ef nokkur veit þá deili á íslenskum mönnum og menntum.“

Á Einar erindi við nútíma Íslendinga?
Franski fræðimaðurinn dr. Patrick Guelpa, sem hefur einsett sér að kynna Einar fyrir Frökkum, sagði í viðtali: „Prúðmennskan og andríkið, nánd við alþýðu manna, örlæti og margt fleira einkenndi líf Einars og störf. Hann fer ekki troðnar slóðir í skáldskap sínum, og það er einmitt eitt mesta sérkenni hans. Einar klæddi hugmyndir sínar og tilfinningar óvenjulegum táknmyndum. Þetta þótti mér bestu ástæðurnar fyrir því að kynna hann Frökkum. Það er ómaksins vert að koma Einari Benediktssyni til vegs hér í Frakklandi.“ Guelpa telur Einar eiga erindi við Frakka og vill að þeir átti sig á hversu stórt skáld hann var.

En hvað með Íslendinga? Er Einar vel kynntur fyrir þeim? Þrátt fyrir að mikið hafi verið skrifað um hann er sannleikurinn sá að þekking fólks á kveðskap Einars ristir almennt ekki djúpt. Oft er vitnað í hann á hátíðlegum samkomum, en segja má að þekking fólks á kveðskap Einars sé oft jafn yfirborðskennd og slíkar samkomur. Íslendingar virðast vera mun betur að sér varðandi verk ýmissa annarra rithöfunda og skálda.

Ástæðan er ef til vill sú að Einar Benediktsson er nánast útskúfaður úr grunn- og framhaldsskólum. Nemandi sem lokið hefur stúdentsprófi hefur þurft að lesa þrjár til fjórar bækur eftir Halldór Laxness, en aðeins brot úr einu ljóði eftir Einar (Einræður starkaðar).

Er Einari nægur sómi sýndur?
Einari Benediktssyni var sýndur mikill sómi eftir andlát sitt, þegar hann var fyrstur manna lagður í heiðursgrafreit á Þingvöllum, þar sem hann hvílir nú ásamt Jónasi Hallgrímssyni. Því miður er ekki hægt að segja það sama um þau 64 ár sem liðin eru frá andláti hans.

Styttan, sem reist var af Einari á Miklatúni í Reykjavík, er illa staðsett, ómerkt og borginni til skammar. Engu safni um Einar hefur verið komið á fót, þó að upplagt hefði verið að hafa slíkt safn í Höfða, þar sem hann bjó lengi, eða í Herdísarvík, þar sem hann bjó síðustu æviárin. Minningu Einars er ekki haldið nægjanlega á lofti.

Skýjaborgir
Vefritið Skýjaborgir.com hóf göngu sína 30. september síðastliðinn. Þar munu birtast greinar um menningu, listir og hugvísindi, viðtöl við lista- og fræðimenn, listagagnrýni, kvæði, brot úr bókum og fleira. Ritið er helgað Einari Benediktssyni og reglulega verður fjallað um hann og hans kveðskap.

Tilgangur Skýjaborga er að fjalla um menningu, listir og fræði á þann hátt sem okkur líkar. Vonandi verður eitthvað sem birtist á ritinu einhverjum innblástur og örvun til sköpunar.

Það er við hæfi að láta afmælisbarnið eiga síðasta orðið. Tvö síðustu erindin í kvæðinu Krossgötur hljóða þannig:

Þetta eitt hef ég lært – ég stend einn, með vilja,
útlagi, frjáls, þar sem götur skilja;
og tælinn í ástum og tvímáll í svörum
ég tryggðaeið finn mér brenna á vörum.

Ég á mér nú trú og efa til hálfs,
mín ást er án vonar, mitt ljóð er án máls. –
Og þó sver ég ástum og óði án tafar
mína æfi frá þessum degi til grafar.
..
>> Lesa

laugardagur, október 30

Fagna og syng, móðir Rússland! Á landi voru skulu engir fjendur lifa!

HöfundurÞann 1. desember 1938 var frumsýnd rússnesk kvikmynd sem vakti meiri fagnaðarlæti en dæmi voru til um í rússneskri kvikmyndasögu fram að því. Þetta var myndin Alexander Nevskíj eftir Sergei Eisenstein.

Alexander Nevskíj byggir á rússneskri sögn um hinn mikla Alexander (1220-1263), prins af Novgorod, sem hlaut viðurnefnið „Nevskíj“ eftir að hann sigraði sænskt innrásarlið á bökkum ánnar Nevu. Kvikmyndin lýsir atburðum sem gerðust 1242 þegar Alexander varðist tevtónskum innrásarher í daglangri og blóðugri orustu á svelli stöðuvatnsins Tsjúd. Myndin var fyrsta hljóðmynd Eisensteins, en þær urðu aðeins þrjár. Hún er talandi dæmi um snilli hans og þá tækni sem hann þróaði með listsköpun sinni. Eisenstein er einn kunnasti fulltrúi formalíska skólans í kvikmyndagerð heimsins, en kenningakerfi formalistanna snerist fyrst og fremst um áhrif klippitækninnar og samspils myndskeiða. Markmið Eisensteins var að mynda syntesu með því að flétta saman tvær atburðarásir og láta þær varpa nýju ljósi hvorri á aðra. Þannig myndaðist nýtt merkingarlag við áhorfið, en Eisenstein ætlaði áhorfendum sínum að vera virkir í merkingarsköpun mynda sinna. Hann batt töluverðar vonir við áhrifamátt kvikmyndalistarinnar og öll skrif hans um kvikmyndir einkennast af miklum framfarahug.

Þessi bjartsýni á möguleika kvikmyndalistarinnar var ekki sjaldgæf meðal samtímamanna Eisensteins, og margir töldu að hér væri komið e.k. altækt listform. Í þeim hópi var t.a.m. tónskáldið sem samdi tónlistina við Alexander Nevskíj, en sá hét Sergej Prokofiev. Tónlistin í myndinni á ekki lítinn hlut í mikilfengleik hennar, og ekki eru mörg dæmi um jafnfrjóa samvinnu tónskálds og leikstjóra í sögu kvikmyndalistarinnar til þessa. Prokofiev áleit það að semja kvikmyndatónlist ekkert síður göfugt en að semja balletta eða óperur. Allt væru þetta greinar af sama meiði, tónlist samin fyrir dramatísk verk. En Prokofiev ætlaði sinni kvikmyndatónlist annað og meira hlutverk en að vera eingöngu bakgrunnur fyrir atburði myndarinnar. Tónlistin var hugsuð sem virkt afl í dramanu, hún átti að mynda tilfinningalega harmóníu með atburðum sögunnar. Mynd og hljóði var ætlað að styrkja hvort annað og skapa óviðjafnanleg hughrif hjá áhorfandanum. Prokofiev fylgdist náið með allri hljóðupptöku og hljóðtæknivinnu kvikmyndarinnar því honum var mjög umhugað um að rétta sándið skilaði sér. Tónlist myndarinnar byggir á notkun leiðarstefja og til þess að tryggja að tevtónski lúðraþyturinn yrði sem óljúfastur hinu rússneska eyra lét Prokofiev blásturshljóðfæraleikarana þenja hljóðfæri sín beint í hljóðnemann.

Þær miklu vinsældir sem myndin naut meðal rússneskra bíógesta má skýra með fleiri en einni ástæðu. Umfram allt var myndin sannkallað stórvirki, tímamótaverk og virkaði eins og bensín á eld í málflutningi þeirra manna sem heitast trúðu á hlutverk hreyfimyndalistarinnar. Þó var annað atriði sem eflaust var ekki léttvægara. Árið 1938 höfðu nasistar verið við völd um nokkurra ára skeið, og þótti Sovétmönnum sem þeim stafaði nokkur ógn af herskáum fyrirætlunum þýsku stjórnarinnar. Alexander Nevskíj var strax túlkuð sem hvatning til samtímans með skírskotun í sögu rússnesku þjóðarinnar, óbein ádeila á Þjóðverja og endurspeglun á hugsanlegu ástandi sem svo varð að veruleika þegar herlið nasista réðst inn í Rússland í júní 1941. Þegar Rússar og Þjóðverjar gerðu friðarsamkomulag í ágúst 1939 var kvikmyndin tekin af dagskrá kvikmyndahúsa af ótta við að hún kynni að raska stöðugleikanum milli ríkjanna tveggja. Samkomulagið var þó meira í orði en á borði og eftir að innrás Þjóðverja hófst var myndin tekin aftur til sýninga.

Alexander Nevskíj verður sýnd í Bæjarbíói 2. nóvember kl. 20:00 og 6. nóvember kl. 16:00.
..
>> Lesa

föstudagur, október 29

Frelsi

HöfundurKvæðið Frelsi eftir Einar Benediktsson birtist í Vogum, sem kom út árið 1921.

Frelsisins eilífa, eggjandi von,
sem ættlöndin reisir og skipar þeim vörð,
þú blessar við arininn son eftir son,
þú sættir hjartað við þessa jörð.
Víkjandi blika þíns fyrirheits foldir,
fjallbláar, hátt yfir allar moldir -
og fagnandi lýð gegnum lífið og stríðið,
þú leiðir undir hinn græna svörð.

Oss ljómar í hyllingum frjálsara Frón
- það fylkir oss, knýr oss á eina lund,
sem friðarbogans blessaða sjón
í bernsku oss dró eftir óskastund.
Þar eigum vér mið fyrir hendur og hugi,
sem hámarkið lyftir skeytisins flugi -
því ekkert skín fegur, né fastar dregur,
en framtíðin yfir niðjagrund.

Hve verður sú orka öreigasnauð,
sem aldrei af trú er til dáðar kvödd.
Ef ódáinsvonin er visin og dauð,
hve verður þá auðlegðin hróplega stödd.
Vænglausu hugirnir heftast og bindast.
Oft kostaði gæfuna kynslóðar æfi
að kalsa við brjóstsins innstu rödd.

Í hæsta dómi um vilja og verk
þar verður jafnað um stórt og smátt.
Ef hvötin er aðeins há og sterk
hinnst, og að réttu, þú sigur átt.
Þá torrek vors stríðs er talið að kveldi
er trúin málmgildið brennt af þess eldi.
Til þess er hvert tap og tjón, sem oss skapast,
að treysta til þrautar vorn fórnandi mátt.

Ljós yfir vegum hvers lýðs og manns,
vér leggjum með þér út á tímans straum.
Þú beitir í strenginn, en stefnir til lands
þótt stríkki og dýpki og vöð séu naum.
Og skriki fótur og falli yfir
í fjarlægð, í hæðum minningin lifir.
Merkið vort bjarta, þig heimtar hvert hjarta,
því hvað er vort líf, ef það á engan draum.

Frelsi - vor eflandi, yngjandi von
sem Ísland skal reisa og skipa því vörð,
þú blessar í átthögum son eftir son,
þú signir vorn trúnað á dal vorn og fjörð.
Bliki þíns háa fyrirheits foldir
fjallbláar, út yfir brim og moldir.
Helgist þér lýður, í lífi og stríði,
svo langt sem kennist vor gnoð og hjörð.
..
>> Lesa

fimmtudagur, október 28

Þekking af þrennu tagi

HöfundurSigurður Nordal taldi þekkingu vera af þrennu tagi.

„Sum er notagild, nauðsynleg sérþekking til þess að vinna fyrir sér. Önnur hefur einungis venjugildi: Menn verða að vita það sem allir vita til þess að vera ekki eins og álfar út úr hól í samtölum, geta lesið blöð og bækur. Oft er þessi þekking skelin tóm eða reykur af réttunum ... Loks er sú þekking sem er sjálfgild: Þess efnis og svo numin að menn vitkast og vaxa af henni. Frá því sjónarmiði er meira um vert að hafa lesið eina bók að gagni en kunna fjölda tómra titla, betra að vita rækilega um aðal og starf eins merkismanns en nöfn og nakin æviatriði tuga manna. Og það er alls ekki víst að jafnan sé þroskavænlegast að kynnast því sem tískan hefur gert fleygast.“
..
>> Lesa

miðvikudagur, október 27

Hin líðandi stund

HöfundurÁgúst H. Bjarnason, prófessor, (f. 1875, d. 1952) lét eftirfarandi spöku orð falla í fyrirlestri árið 1940:

Ekki höfum við nein tök á því liðna því að það er horfið og kemur aldrei aftur. Ekki höfum vér heldur nein tök á framtíðinni því að hún er enn ókomin og meira að segja óvíst hvort hvort vér lifum hana. Hvað er þá á valdi voru? Hin líðandi stund og ekkert annað. Hún er í raun réttri aleiga vor og að þessu leyti erum vér allir jafn-ríkir og jafn-fátækir. En hún getur þá líka orðið oss til ævarandi heilla eða þá til falls og niðurdreps.

Hvað er þá þessi líðandi stund, þetta augnablik sem kemur og fer? Það er hinn lifandi hlekkur í perlufesti tímans, sem enn er óharðnaður og ekki horfinn í gleymskunnar djúp. Það er uppgönguauga alls, móðurskaut það sem allt sprettur úr, illt og gott. Augnablikið getur orðið hvort heldur sem er upphaf að upphefð vorri eða niðurlagningu, láni eða óláni. Ef vér förum illa með það getur það orðið oss til böls og tjóns í bráð og lengd; en notum vér það vel og dyggilega verður það oss til heilla.
..
>> Lesa

þriðjudagur, október 26

Tónleikar Kammermúsík-klúbbsins í Bústaðakirkju, 25. október

HöfundurCuvilliés-kvartettinn
Florian Sonnleitner: 1. fiðla
Aldo Volpini: 2. fiðla
Roland Metzger: viola
Peter Wöpke: selló

Þegar ég gekk inn um dyrnar á Bústaðakirkju hálftíma áður en tónleikarnir hófust komu fáeinir karlmenn á móti mér og voru á leið fram á gang. Þetta voru tónlistarmennirnir. Þeir höfðu verið að æfa fram á síðustu stundu. Ég spjallaði við einn af stjórnarmeðlimum Kammermúsíkklúbbsins fyrir tónleikana og hann tjáði mér að síðustu þrjá daga hefðu þeir félagarnir æft sleitulaust í kirkjunni.

Strax og tónleikarnir hófust sá ég í hendi mér að þessar sleitulausu æfingar höfðu ekki verið haldnar í kvíðakasti og til að berja í brestina. Hér voru greinilega fyrsta flokks spilarar á ferðinni. Hver stroka var framkvæmd af slíku öryggi og þekkingu að annað eins er sjaldgæf sjón á tónleikum hér á landi. Þegar maður horfir á íslenska tónlistarmenn spila er aldrei langt í þá hugsun að þetta sé fólk sem maður gæti rekist á í sundi eða úti í búð. Cuvilliés-félagar eru hins vegar menn sem ómögulegt er að ímynda sér öðru vísi en í kjölfötum og með hljóðfærin sín í höndunum.

Á efnisskránni voru verk eftir tvo tékkneska höfunda og einn þýskan: Dvořak, Janáček og Beethoven. Fyrsta verkið var Ameríski strengjakvartettinn (F-dúr, B179 op. 96) eftir Dvořak, saminn 1893. Kvartettinum svipar nokkuð til 9. sinfóníunnar, enda var hún samin sama ár. Í báðum verkunum eru ríkjandi stef sem sniðin eru að fyrirmynd indíánatónlistar, auk þess sem áhrif frá tónlist Bandaríkjamanna af afrískum uppruna koma víða fyrir. Þau má þó með sönnu kalla tveggja heima verk, enda er tékkneska elementið ekki langt undan. Flutningur kvartettsins var leikandi og hrífandi, alveg eins og hann á að vera.

Flutningurinn á verki Janáčeks er trúlega meira krefjandi og hlýtur að standa eða falla með túlkun flytjenda á nokkrum krítískum köflum, ekki síst þar sem hermikontrapunktur og eltingaleikur tveggja hljóðfæra hvort við annað kemur oft fyrir. Sagt er að Janáček hafi stundum stefnt að því að líkja eftir mannlegu tungumáli í hljómfallinu í tónlist sinni, og maður fær helst á tilfinninguna að í verkinu sem Cuvilliés-kvartettinn flutti sé rifrildi í gangi. Hér er um að ræða Kreutzer-sónötuna frá 1923 sem innblásin er af samnefndri sögu Tolstojs, en hún er aftur innblásin af samnefndri fiðlusónötu eftir Beethoven. Þekktasta ópera Janáčeks, Káta Kabanová, mun einnig vera byggð á þessari sömu sögu Tolstojs. Að mínu mati voru mestu tilþrif kvöldsins í þessum kvartett, enda samhæfingin sýnilega enginn barnaleikur.

Eftir hlé kom svo lengsta verkið: Strengjakvartett í B-dúr, op. 130 frá 1825 eftir Beethoven. Það er auðvitað ótrúlegt að snargalinn og heyrnarlaus oflátungur skuli hafa samið aðra eins fegurð. Kvartett þessi á sér óvenjulega sögu. Hann var saminn að beiðni Nikolaj Galizins, fursta. Strax eftir frumflutning var það samdóma álit flestra sem heyrt höfðu að lokakaflinn, svonefnd Grosse fuge, væri algjörlega úr samhengi við fyrri hlutann, stórskorinn og tyrfinn í samanburði við þá ljúfu tóna sem á undan fóru. Beethoven lét segjast og samdi nýjan lokakafla, en Cuvilliés-kvartettinn flutti verkið í upprunalegri mynd. Þeir voru svo sannarlega trúir anda Beethovens og komu hrikalegum hljómunum til skila.

Allt í einu voru horfnir tveir klukkutímar sem höfðu liðið jafnhratt og tvær mínútur. Að tónleikunum loknum var bros á hverju andliti og allir voru upprifnir, menn féllust jafnvel í faðma á göngum Bústaðakirkju. Þetta var sannkölluð fagmennska og enginn var svikinn af. Mikil skemmtun, mikil list.
..
>> Lesa

mánudagur, október 25

Kristján Albertsson 3

H?fundurÍ viðauka bókarinnar Kristján Albertsson - Margs er að minnast er birt kveðjuljóð Kristjáns til látins föður síns. Hann var aðeins fjórtán ára þegar hann kvað til pabba síns á líkbörunum:

Ég vil þig, pabbi, kveðja, þótt brostin sé þín brá
og bleikt og fölt sé ennið, er kossi' þrýsti ég á.
Ég veit ógerla enn þá, hve mikið ég hef misst,
en mér er ljóst, að fölt er ennið, sem ég hefi kysst.

Þótt lát þitt góði faðir, nú leggist þungt á mig
þá lengst af finn ég huggun við minninguna' um þig.
Hún stendur mér svo skýr, og hún er svo helg og heit
og hreinni' bæði og ástríkari' en nokkur maður veit.

Ég vil hér ekki ljóða neitt lof eða hól um þig,
en lengst af þessi hugsun mun fróa og gleðja mig.
Og lengi mun þín röddin lifa' í minni sál
til leiðbeiningar för minni' um veraldarál.

---

Og tár af mínum hrjóta hvörmum
og heit þau falla niður kinn,
því vafinn dauðans er nú örmum
hann elsku - hjartans pabbi minn.
..
>> Lesa

sunnudagur, október 24

Norðurljós

H?fundurKvæðið Norðurljós eftir Einar Benediktsson birtist í Sögum og kvæðum, sem kom fyrst út árið 1897. Kvæðið er í miklu metum í Skýborgum, sérstaklega þriðja erindið, sem er frábært - og með því besta sem Einar orti.

Veit duftsins son nokkra dýrðlegri sýn
en drottnanna hásal í rafurloga?
Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga! -
Hver getur nú unað við spil og vín?
Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín;
mókar í haustsins visnu rósum.
Hvert sandkorn í loftsins litum skín
og lækirnir kyssast í silfurrósum.
Við útheimsins skaut er allt eldur og skraut
af iðandi norðurljósum.

Frá sjöunda himni að ránar rönd
stíga röðlarnir dans fyrir opnum tjöldum,
en ljóshafsins öldur, með fjúkandi földum,
falla og ólga við skuggaströnd.
Það er eins og leikið sé huldri hönd
hringspil með glitrandi sprotum og baugum. -
Nú mænir allt dauðlegt á lífsins lönd
frá lokuðum brautum, frá myrkum haugum,
og hrímklettar stara við hljóðan mar
til himins, með kristalsaugum.

Nú finnst mér það allt svo lítið og lágt
sem lifað er fyrir og barist er móti.
Þó kasti þeir grjóti og hati og hóti
við hverja smásál ég er í sátt.
Því bláloftið hvelfist svo bjart og hátt.
Nú brosir hver stjarna þótt vonirnar svíki,
og hugurinn lyftist í æðri átt,
nú andar guðs kraftur í duftsins líki.
Vér skynjum vorn þrótt, vér þekkjum í nótt
vorn þegnrétt í ljóssins ríki. -

Hve voldugt og djúpt er ei himinsins haf
og hásigldar snekkjur, sem leiðina þreyta.
Að höfninni leita þær, hvort sem þær beita
í horfið - eða þær beygja af.
En aldrei sá neinn þann sem augað gaf
- og uppsprettur ljóssins ei fundnar né skýrðar.
Með beygðum knjám og með bænastaf
menn bíða við musteri allrar dýrðar.
En autt er allt sviðið og harðlæst hvert hlið
og hljóður sá andi, sem býr þar.
..
>> Lesa

Flakk án fyrirheits

H?fundurEf ég segði við þig að allir ættu að stunda flaneurisma, þá gætir þú sagt: „Oj! Perri!”

Og þá myndi ég segja: „Nei, heyrðu... þú ert eitthvað að misskilja.“

Flaneurismi er illþýðanlegt hugtak. Það þýðir eitthvað á þessa leið: Sú iðja að ferðast um borg án stefnu eða tilgangs annars en þess að virða fyrir sér borgina. Ég leyfi mér því að sletta frönsku. Fyrir nokkrum árum birtist grein í Morgunblaðinu, í Fólki í fréttum minnir mig, um þetta háttalag og var stuttlega rakin saga þess þess, upphafið hjá Baudelaire og áhrif á mannlega hugsun. Ég ætla að sleppa öllu þess konar. Í staðinn ætla ég aðeins að benda þér á nokkra staði sem ég hef fundið við eiginn flaneurisma. En fyrst ætla ég að segja þér af hverju þú ættir að sleppa því að lesa þessa grein.

Það er ekki skrítið að flaneurisminn eigi upphaf sitt á nítjándu öld þegar mestu hetjur alþýðunnar voru landkönnuðir. Flaneurinn er í raun að kanna jafn óþekkt svæði og þeir sem fóru til Afríku, Ástralíu, Asíu og fleiri staða sem voru að sjálfsögðu vel kunnir því fólki sem átti þar þegar heima. Flest þekkjum við okkar nánasta umhverfi nokkuð vel. Ég ólst upp í Hlíðunum og Holtahverfi, en bý nú miðbænum og tel mig þekkja það svæði nokkuð vel, eða taldi mig. Ég hóf nýlega starf með námi sem stöðumælavörður, en það er, ásamt póstburði, hið fullkomna starf fyrir flaneur. Eftir þriggja vikna störf hef ég uppgötvað nýja fleti á svæðum sem ég taldi mér þaulkunnug. Þetta hefur verið mér talsverð uppspretta ánægju. Þess vegna mæli ég með því að þú hættir að lesa þessa grein og farir á röltið eða rúntinn í leit að þínum eiginn heimsálfum til að nema í Reykjavík. Eða í öðrum borgum sértu staddur erlendis.

Jæja, ef þú ert enn að lesa þá skal ég nefna nokkra staði sem ég hef mikið dálæti á. Fyrst nefni ég stað sem allir þekkja en ekki kannski allir gera sér grein fyrir að bjóði upp á fleira en sumarsprell. Jamm, tilbúna ströndin í Nauthólsvík. Ég hef aldrei komið þangað á góðviðrisdegi en legg leið mína þangað oft á köldum vetrarnóttum. Hughrifin við að koma þangað eru illhöndlanleg. Seinast þegar ég kom þangað minnti staðurinn mig á strendurnar í Normandí sem Þjóðverjar víggirtu í seinni heimsstyrjöld. Áður hafa þau minnt mig á módernísk hof til dýrðar sjávargoðinu Nirði. Og fyrst á haus á risastóru skordýri með kjálka sem skaga út í víkina.

Í leit minni að þeim anga Reykjavíkur sem lengst er í burtu frá miðbænum (og hér hef ég kosið að líta framhjá Esjuhverfi) fann ég stað sem ég hef kosið að kalla Endapunkt Reykjavíkur. Ef keyrt er alla leið upp að Korpúlfsstöðum og haldið áfram, er komið það langt að ef vegurinn færi lengra myndi maður enda í Mosfellsbæ. Þá er beygt niður að sjó og keyrt þangað til vegurinn endar í litlum hring sem minnir um margt á punkt við enda setningar. Þar hefur maður góða sýn út Eiðsvíkina á stóran hluta borgarinnar sem og náttúruna fyrir norðan hana. Eins og með marga staði sem flaneurinn uppgötvar þarf stundum að deila þessum með pörum í bílum eða fólki að reykja hass, en það hefur sig oftast á brott um leið og það verður vart við mann. Þarna er annars mikil ró. Sá blær liggur yfir að þetta sé ákveðin endastöð fyrir Reykjavík. Að hérna sé hún komin og það sé alveg nóg og nú sé kominn tími til að hvíla sig.

Eins og lesendur hafa líklega áttað sig á, eru þessir tveir staðir betur til þess fallnir að fara þangað á bíl. Þótt það gangi gegn hefðum flaneurismans þá mæli ég með því að flaneurar keyri um í félagi, helst tveir. Það er ekki gott að fylgjast með umhverfinu meðan ekið er án þess að verða sér og öðrum til mikillar hættu. En við rölt er hins vegar nauðsynlegt að vera einn á ferð. Eiginlega má líta á flaneurisma sem úthverfa íhugun. Það er hægt að tvinna þessu saman með því að keyra í einhvern borgarhluta, leggja og síðan fara á smá flakk.

En nú ætla ég að benda á tvo staði miðsvæðis sem ég hef fundið við flanerie. Fyrst er að nefna grafirnar á litla torginu við gamla Landssímahúsið. Þær eru vel þekktar en þetta er svo sérkennilegt að ég verð að minnast á þetta hafi einhver sem er að lesa ekki vitneskju um þær. Í beðunum er nokkrir legsteinar og fólk þar undir. Farið og lítið á. Þarna hlammar sér niður minnisvarði um dauðann beint í alfaraleið. Oft sér maður fólk sitja á þeim og það hefur greinilega ekki hugmynd um hvað þetta er.

Hinn staðurinn er nýleg uppgötvun. Ég taldi mig þekkja svæðið kringum Hlemm eins og lófann á mér, en svo var nú ekki. Næst þegar hvasst er í veðri skalt þú fara á Grettisgötuna vestan Snorrabrautar. Nálægt horninu, rétt austan Tónabúðarinnar er stálgrindverk sem er ásýndar alveg eins og tugir annarra í borginni, nema að lítil göt eru boruð í það efst og neðst á grindunum. Það veldur því að það er eins og eitthvert vindorgel úr vampírumynd. Torkennileg og óraunveruleg hljóð sem valda ákveðnum ónotum, en þó þannig að maður hrífst með. En ekki vildi ég vera myrkfælinn íbúi í nálægu húsi.

Það eru hundruðir staða í Reykjavík sem bíða þess að vera uppgötvaðir. Farðu á flakk og finndu flaneurinn í sjálfum þér.

Viðbót ritstjórnar: Tilvalið er að þýða flanerie sem flandur. Samkvæmt Marðarbók merkir flandur meðal annars flakk eða ráp. Sá sem stundar flandur, flaneur, gæti kallast flandrari (í Marðarbók segir reyndar að flandrari sé flæmingi, en að sjálfsögðu getur orðið einnig haft þá merkinguna sem hér er lögð til). Flandrarar flandra (sem sagt sögnin að flandra). Af þessu leiðir að flaneurismi er flandurhyggja á ástkæra ylhýra.
..
>> Lesa

föstudagur, október 22

Völundarkviða

H?fundurVölundarkviða er eitt af okkar ástkæru eddukvæðum, sem varðveitt eru í Konungsbók (Codex Regius) frá því um 1265-1280. Sögusviðið er ríki konungs sem nefndur er Níðingur og er það sagt vera það landsvæði sem í dag er þekkt sem Svíþjóð. Söguhetjan er Völundur (sem nafn kvæðisins vísar til), en hann tekur sér valkyrju fyrir konu líkt og tveir bræður hans. En ekki var Völundur lengi í paradís því að valkyrjunar yfirgefa þá bræður af ókunnum ástæðum og hverfa sporlaust út í buskann. Bræður Völundar ákveða að leggja af stað í leit að kvenfólkinu en slík er vosbúð og volæði Völundar að hann verður eftir og tregar harma sína yfir kvenmissinum.

Í vorkunseminni og einmanaleikanum er Völundur orðinn berskjaldaður svo að Níðingur konungur kemur og yfirbugar Völund sem hann settur svo í þrældóm, því að Völundur býr yfir sérstökum hæfileikum til smíðahagleiks glæsilegra og fagurlegra djásna. Við hirð Níðings er Völundi haldið ófrjálsri hendi og hann látinn smíða hvern dýrðargripinn á eftir öðrum handa konungi.

Völundur hefur þó ekki hugsað sér að vera fangi konungs um ókomna tíð og smíðar sér því á laun sérstaka vængi til að geta flogið burt. En áður en hann losar sig úr haldi konungs hefnir hann sín grimmdarlega með því að drepa syni konungs, láta konung drekka úr hauskúpum þeirra, smíðar skartgripi úr augum og tönnum þeirra handa drottningunni og -að því virðist- barnar að lokum dóttur þeirra.

Kviðan er 40 erindi sem ort eru undir órímuðu fornyrðislagi og hefur ekki fasta hrynjandi. Slíkur bragarháttur er gjarnan settur í tengsl við ævintýra- eða dulúðarkennd frásagnarkvæði (samanber til dæmis Völuspá og Þrymskviðu). Frásagnarháttur er með fjarlægum ljóðmælanda í þriðju persónu lengst af, en nokkur kvæðin eru þó í beinni ræðu. Stuðlasetning tengir saman tvær og tvær braglínur, en getur ekki talist vera fullkomlega regluleg þar sem ójafnar línur hafa ýmist einn eða tvo stuðla. Erindaskipting er breytileg og eru braglínur ýmist fjórar, sex eða átta. Þessi breytilega erindaskipting stafar eflaust af gömlum aldri kvæðisins, en á þeim tíma þegar það hefur verið ort hefur bragarhátturinn ekki þróast í þá reglu sem seinna varð föst erindaskipting fornyrðislags við átta braglínur.

Ákveðin dulhyggja er svífandi yfir vötnum í Völundarkviðu. Óljós tengsl eru á milli Völundar og einhverra yfirnáttúrulegra fyrirbæra og er hann kallaður álfa ljóði og vísi álfa, en talið er að þessi uppnefni þýði álfakonungur. Ásatrú kemur fram í kvæðinu með valkyrjunum sem giftast Völundi, bræðrum hans og fornu orðalagi þar sem oft eru vísanir yfir í örnefni og sögur af Ásum. Orðfærið er einstaklega myndrænt og á köflum tilfinningaþrungið, dramatíkin er lifandi og gróteskar lýsingar lyfta kvæðinu upp í efstu hæðir. Kvæðið hreyfir við lesandanum á skemmtilegan hátt ásamt því að hafa seiðmögnuð áhrif sem valda því að lesandi og áheyrendur vilja ólmir endurtaka leikinn og upplifa áhrif kvæðisins á ný. Völundarkviða er undra vel ort og má jafnvel segja að hún sé hrein Völundarsmíð.
..
>> Lesa

fimmtudagur, október 21

Magnús Magnússon Stormur

HöfundurÍ tilefni þess að veturinn virðist vera kominn, þó að dagatalið segi annað, til borgarinnar með tilheyrandi kulda og vosbúð þótti mér rétt að rifja upp brot úr bók Magnúsar Magnússonar Storms. Þar er sagt frá frostavetrinum mikla 1918 og birtist í einni af hans mögnuðu sjálfsævisögum, Syndugur maður segir frá, sem kom út árið 1969. Manni finnst nefnilega kuldinn vera svo mikill þegar sumarið er svona nýliðið hjá.

Magnús segir svo frá eftir að hafa lýst miklum frosthörkum og jafnvel svo miklum að hann sá sig knúinn til að flytja frá Bergstaðastrætinu niður á Amtmannsstíg:

,,Þórbergur Þórðarson rithöfundur, sem þá var ekki orðinn eins frægur og nú, vandi allmikið komur sínar til mín þenna vetur og var erindið löngum það að biðja mig að segja sér drauga- og fyrirbærasögur. Eitt sinn er ég hafði sagt honum mjög magnaða draugasögu – mig minnir að það væri sú, er ég flaugst á við drauginn í Klömbrum, varð Þórbergur svo myrkfælinn, að hann þorði ekki heim til sín einn, og var þó albjört vornótt, varð ég að klæða mig og fylgja honum vestur á Bræðraborgarstíg, en þar átti Þórbergur heima. Hann sagði mér, að ef hann færi Túngötuna, þá kæmu þeir sem dáið hefðu á Landakotsspítala á móti sér, en ef hann færi Vesturgötu mætti hann þeim sem drukknað hefðu í höfninni.

Mér varð bölvanlega við þetta, því aldrei hef ég sporviljugur verið. Hugsaði ég mér nú að leika á Þórberg, er hann kæmi næst og þess var ekki lengi að bíða. Ég bjó á kvisti á efstu hæð og nokkrum kveldum seinna heyrði ég þramm Þórbergs í stiganum. Þá lagðist ég á dívaninn, tætti í sundur á mér hárlubbann, sem var geysimikill, ranghvolfdi augunum og horfði undir dívaninn. Þórbergur drap á dyr og gekk svo inn. Þá hvessti ég á hann tryllingsleg augun, en leit svo aftur undir dívaninn. Þórbergur rak upp óp mikið, hentist niður stigann og út. Hann hljóp niður Austurstræti, hitti þar Kristján Albertsson og sagði honum að annað hvort væri Magnús Magnússon orðinn brjálaður eða andskotinn væri undir dívaninum hjá honum. – Eftir þetta kom Þórbergur aldrei til mín.”
..
>> Lesa

miðvikudagur, október 20

Hugleiðingar um heimildarmyndir

H?fundurÞessa dagana stendur yfir heimildar- myndahátíð í Háskóla- bíói. Einungis fjórar myndir eru á boð- stólnum, en hátíðin er síst síðri þótt myndir- nar séu ekki fleiri. Hin sívaxandi hátíðavæðing óháðra kvikmynda er oft til ama, því framboðið verður gjarnan óhóflega mikið miðað við þann litla tíma sem hátíðin stendur yfir. Venjulegt fólk hefur öðrum hnöppum að hneppa en að hanga í bíói mörg kvöld í röð, og því viðbúið að stundum geti maður ekki séð allar myndirnar sem mann langar til að sjá.

Myndirnar fjórar á hátíðinni höggva allar í sama knérunn, þær eru ádeila á spillingu, rotið siðferði og stofnanavæddan þankagang. Ég er búinn að sjá tvær þessara mynda: Bush’s Brain og The Corporation. Þótt umfjöllunarefni myndanna tveggja sé svipað eru efnistök og framsetningarmáti gerólík.

Bush’s Brain fjallar um mann að nafni Karl Rove sem er helsti ráðgjafi Bandaríkjaforseta. Rove hefur frá æsku verið þekktur fyrir rökfastan og sannfærandi málflutning. Hann drakk í sig stefnuskrá Repúblikanaflokksins með móðurmjólkinni og hengdi upp auglýsingaplaköt fyrir flokkinn í herberginu sínu sem unglingur, þegar jafnaldrar hans hengdu upp myndir af Hendrix og Eagles. Í myndinni eru leidd sterk rök að því að Rove sé meira en bara venjulegur ráðgjafi forsetans, hann sé beinlínis maðurinn sem stjórnar í gegnum forsetann, strengjameistarinn sem stýrir brúðunni.

Í Bush’s Brain eru tekin viðtöl við ýmsa fyrrum samstarfsmenn Roves og eru þeir flestir jakkafataklæddir bjúrókratar. Áhorfandanum til hægðarauka eru nöfn mannanna alltaf birt neðst á skjánum, jafnvel þótt viðmælandinn sé ekki að birtast í fyrsta sinn. Viðfangsefni myndarinnar er skýrt afmarkað og hún er ekki nema 80 mínútur að lengd. Myndin er byggð á samnefndri bók og er iðulega talað opinskátt um hana í myndinni. Tveir viðmælenda eru titlaðir sem höfundar bókarinnar (talandi um tilvísunargildi!). Afleiðingin verður sú að myndin stendur ekki nægilega traustum fótum sem sjálfstætt verk. Hún játar það fúslega að vera ekkert annað en kvikmyndaútgáfa af bókinni, og þótt ýmsar sjokkerandi staðreyndir séu tíundaðar í myndinni er framsetningarmátinn engan veginn nógu áhugaverður. Á hitt ber þó að líta að e.t.v. er þessi hófstilling með ráðum gerð. Yfirgengilegur og glannalegur stíll að hætti Michaels Moores höfðar svo sannarlega ekki til allra, og vera má að Bush’s Brain sé fyrst og fremst ætlað að höfða til annars áhorfendahóps en Fahrenheit 9/11.

Kvikmyndin The Corporation er mun yfirgripsmeiri og lengri en Bush’s Brain, eða rúmlega tveir og hálfur tími. Í henni er rakin saga viðskiptasamsteypunnar frá því á 18. öld, og tekin ýmis svæsin dæmi um þær öfgar sem viðgangast í heimi nútímakapítalisma. Líkindi eru dregin fram með viðskiptasamsteypum nútímans og ráðandi stofnunum annarra tímabila, kirkjunni á miðöldum og Kommúnistaflokknum í Sovétríkjunum. Meginþráður myndarinnar byggist á þeirri staðreynd að í Bandaríkjunum hafa fyrirtæki sömu réttarstöðu og manneskjur. Höfundar myndarinnar vinna út frá þessari líkingu og greina persónueinkenni nokkurra fyrirtækja eins og um manneskju væri að ræða. Niðurstaðan er sú að flestar viðskiptasamsteypur samtímans hlytu að vera geðsjúklingar ef þær væru manneskjur í raun.

The Corporation er byggð á bók, eins og Bush’s Brain, en þess er ekki getið fyrr en í lokin. Umfjöllunarefnið spannar vítt svið: Umhverfisspjöll, mútur, vinnuþrælkun, ofbeldi gagnvart dýrum, svik, lygar o.fl. Áhrif myndarinnar á áhorfandann eru veruleg ef hann horfir með opnum huga. Myndinni lýkur svo á áskorun til hans um að gera sitt til að breyta ríkjandi kerfi og bæta ástand heimsins, hvernig svo sem hann vill fara að því. Með kreditlistanum birtist fjöldinn allur af vefsíðum sem hægt er að heimsækja til þess að leggja sitt af mörkum. Hápólitísk mynd, sem sagt, og vekur mann til umhugsunar. Ég vona að hún verði sýnd í sjónvarpinu áður en langt um líður. Ekki bara til þess að útbreiða boðskapinn, heldur sem áminning til íslenskra fjölmiðlamanna um að láta af hálfvelgju sinni og tileinka sér almennileg vinnubrögð.
..
>> Lesa

þriðjudagur, október 19

Einar Ben er einstakur að mati dr. Patrick Guelpa

H?fundurFranski fræðimaðurinn dr. Patrick Guelpa gaf út bók um Einar Benediktsson fyrir tæpu ári síðan. Að mati Guelpa er enginn eins og Einar Ben og hann hefur til dæmis látið eftirfarandi ummæli falla:

„Frakkar sjá kannski ekki ennþá hve stór rithöfundur hann var, en í þá eyðu ætti bók mín að fylla að einhverju leyti. Prúðmennskan og andríkið, nánd við alþýðu manna, örlæti og margt fleira einkenndi líf Einars og störf. Hann fer ekki troðnar slóðir í skáldskap sínum, og það er einmitt eitt mesta sérkenni hans. Einar klæddi hugmyndir sínar og tilfinningar óvenjulegum táknmyndum. Þetta þótti mér bestu ástæðurnar fyrir því að kynna hann Frökkum. Það er ómaksins vert að koma Einari Benediktssyni til vegs hér í Frakklandi.

„Einar Benediktsson var margþættur persónuleiki. Hann velti vöngum yfir öllu því sem hann taldi geta orðið þjóð sinni til góðs. Hann vildi til dæmis skipa Íslendingum á bekk með iðnvæddum þjóðum. Hann átti sér marga drauma, en var þó samtímis mikill athafnamaður og gerði allt til að hugsjónir hans fengju að rætast. Hann vildi koma fátæku landi sínu að gagni með því að útvega erlent fjármagn. Hann trúði á auðvaldshagkerfið til að gera Ísland að nútímaríki. Hann stríddi ávallt við mótlæti, smámunarsemi og einangrun, enda er slíkt alloft hlutskipti snillinga.“

„Það sem ég tel að muni mest höfða til Frakka í skáldskap Einars er ást hans á frelsi og sjálfstæði, en líka stórmennska hans og þetta samspil athafnamanns og skálds í einum manni. Einar fellur Frökkum líka vel í geð fyrir þrána í fari hans, hann er stöðugt að setja sjálfum sér hærri mörk í lífinu.“
..
>> Lesa

mánudagur, október 18

Edith Piaf

H?fundurBrunabjallan fór í gang í hléi þegar ég var á leiksýningunni Edith Piaf í Þjóðleikhúsinu síðastliðið föstudagskvöld. Enginn lét sér bregða, og fólk virtist ekki trúa því að það hefði í raun og veru kviknað í húsinu. Eftir nokkrar mínútur var tilkynnt að eldur hefði komið upp í eldhúsi Þjóðleikhússkjallarans og í kjölfarið var fólki fylgt út á tröppur leikhússins. Skömmu síðar bættust leikarar sýningarinnar í hópinn. Leikhúsgestir þyrptust í kringum þá og Brynhildur Guðjónsdóttir, sem leikur Edith Piaf á ógleymanlegan hátt, tók nokkur lög við undirleik hljómsveitarinnar, þar sem valinn maður er í hverju rúmi. Þetta mæltist vel fyrir; fólk sem átti leið hjá stoppaði og fylgdist með og einnig kom fólk af nærliggjandi skemmtistöðum til að sjá hvað væri í gangi. Í nokkrar mínútur var stemningin töfrandi ljúf eins og í handriti eftir Richard Curtis.

Saga Edith Piaf er átakanleg og er svo sannarlega góður efniviður í leiksýningu. Höfundurinn, Sigurður Pálsson, gerir sögunni góð skil og leikstjórinn, Hilmar Jónsson, kemur henni vel til skila. Tónlistarstjóri sýningarinnar er Jóhann G. Jóhannsson og hljómsveitina skipa auk hans, Birgir Bragason, Hjörleifur Valsson, Tatu Kantomaa og síðast en ekki síst Jóel Pálsson. Þeir standa sig frábærlega, líkt og Brynhildur, sem mér finnst smám saman vera að breytast í Edith Piaf. Aðrir sem komu að sýningunni stóðu sig vel og ekki er yfir neinu að kvarta.

Edith Piaf er klárlega heitasta sýningin á fjölunum um þessar mundir. Hún er skemmtileg, skilur engan eftir ósnortinn og allir ættu að drífa sig að sjá hana.
..
>> Lesa

sunnudagur, október 17

Skýjaferð

H?fundurKvæðið Skýjaferð eftir Einar Benediktsson birtist í bókinni Sögur og kvæði. Í Skýjaferð er rætt um „höll við ský [sem] hugur skapar“ og minnir sú setning óneitanlega á nafn þessa vefrits.

Létt og hratt,
í kátum klið,
klingir satt
og logið við.
Falla í hljóm
að fúsu eyra,
dauð orð tóm.
Dátt er að heyra.

Liggur sál
lúin undir
Hvellur mál,
hverfa stundir.
Styðjast staf
stolin svör,
skilur haf
hjarta og vör.

Feiga rót
feyskjan bítur,
himni mót
höfuð lítur.
Höll við ský
hugur skapar.
Moldu í
maðkur hrapar.
..
>> Lesa

laugardagur, október 16

Kristján Albertsson 2

H?fundurVið birtum nú annað brot úr bókinni Kristján Albertsson - Margs er að minnast.
-----
Ég átti ekki eftir að hitta Einar Benediktsson framar og þegar ég hugsa til þessara síðustu orða sem ég heyrði hann segja finnst mér að þau hefðu mátt verða hans andlátsorð. Hvað lá honum mest á hjarta þegar hann gamall maður spyr fornvin sinn Árna Pálsson í trúnaði og nærri barnslegri einlægni hvort hann hafi haft sóma af því sem hann hefur ort? Hann þurfti síst að bera kvíðboga fyrir dvínandi lofgjörð manna um kvæði sín en hefur aðeins fundið til óvissu um sinn eigin dóm, hvort verk sitt hefði lánast eins vel og hann hafði viljað. Sá efi hlaut að vera eðlilegur skáldi sem alltaf hafði gert ströngustu kröfur til listar sinnar í einu og öllu. Ég heyrði hann eitt sinn tala um nauðsyn skálda á kröfuhörku við sjálfa sig og segja:
„Fátt í skáldskap er nógu gott og ekkert getur nokkru sinni orðið of gott.“
Einar Benediktsson átti sér veröld ofan mannheimum þar sem hann var einn og vildi vera einn og varðaði ekki um neitt nema aðeins almáttugan Guð - og sjálfan sig. Veröld:
þar sem andinn rís í himinhvelfing,
hafinn yfir sorpsins smán og skelfing,
aleinn liðs, en eilífur og sterkur.
Hann er í þeirri veröld þegar hann yrkir í kvæði sínu Fjallaloft:
- Að lifa sér, að vera alls sá eini,
er ódauðlegi viljinn mikli hreini.
Ég veit, hvað er að fagna í fjallsins geim,
og finn þar leggja ilm af hverjum steini.
Sú dýpsta sjón, hún sýnist aldrei tveim. -
Ég sakna ekki neins um víðan heim.
Einar Benediktsson er mesta guðstrúarskáld á vorri öld. Ekkert annað skáld hefur ort af svo djúpri trúarvitund og lotningu fyrir guðdómi æðsta máttarvalds allífs og tilveru. Hann orti fátt sem kallast geti trúarljóð í venjulegum skilningi en trú hans er sem heitur undirstraumur í nær öllum af hans mestu ljóðum. Stundum nægja honum örfáar hendingar eða aðeins ein til að lyfta augliti sínu til Guðs. Þannig er fegusta bæn sem hann orti aðeins ein hending í löngu kvæði:
- Guð verndi list vors máls og Íslands heiður.
Hve hátt sé stefnt í óskadraumum æðstu stundar kemur hvergi fram með opinskárra móti en í þessum orðum í kvæði Einars Öldulíf:
Mín innsta hugsun, hún á ekkert mál,
en ósk og bæn, sem hverfur mér sjálfum, -
að senda hátt yfir heimsins sól
hljómkast af annarrar veraldar orðum,
- að standa upp fyrir alveldis stól,
þar eilífðar hirðin situr yfir borðum.
Stórlátari ósk hefur aldrei orðið til í brjósti íslensk skálds.
-----
..
>> Lesa

Ekkert er nýtt undir sólinni

H?fundur„Er mælt hér eitt orð, sem ei fyr var kunnað?“ Þarf að segja eitthvað meira?

Fegursta ljóðið hefur verið ritað. Merkasta skáldsagan hefur verið lesin. Hví að reyna að endurtaka og umorða það sem áður hefur verið sagt og gert? Hví rembast menn ár eftir ár eins og rjúpa við staurinn við að endursegja, umorða og útþynna það sem áður hefur verið sagt af meiri færni? Af hverju taka rokkararnir okkar sig ekki saman um það að syngja ljóðin sem þjóðskáldin okkar kváðu? Allir vildu Lilju kveðið hafa sagði íslenskukennarinn minn í menntaskóla, en af hverju er Lilja ekki sungin.

Ég þarf ekki að yrkja um það sem brennur á mér, því að Einar Ben. hefur sagt allt sem segja þarf á svo stórkostlegan hátt. Orðum bundið mitt líf, mitt starf, mína hugsun, minn efa, mínar vangaveltur og fallvaltleika míns sjálfs mun betur en ég sjálfur nokkurn tíma gæti gert. Ég þarf því ekki að leita að orðum til að tjá mig, heldur þarf ég aðeins að fletta ljóðabókum Einars til að finna þar perlu sem á við. Að sjálfsögðu eiga fleiri en hann þakkir skildar, en maður verður að byrja á byrjuninni.
..
>> Lesa

föstudagur, október 15

Teningarnir

H?fundurTeningarnir birtust í Hafbliki, sem er önnur ljóðabók Einars Benediktssonar og kom fyrst út árið 1906. Kvæðið endar á spurningu og er vægast sagt kynngimagnað.

Örlög velta á hending tveggja handa.
Hart slá nornir vef og þræði blanda.
Vefst í höggi hverju æfikafli,
hljótt þær leiknum stýra í duliðskufli,
grúfa yfir gróðaspilsins dufli,
gægjast inn í mannsins blinda anda.
Vissi hann af sínu eigin afli
æðri ráð hann hefði á lífsins tafli?
..
>> Lesa

fimmtudagur, október 14

Blindsker

H?fundurÞegar Óli Palli var með opið fyrir símann í Popplandi á mánudaginn hringdi þangað maður sem vildi ekki fá óskalag. Hann hringdi bara af því að hann varð að þakka fyrir sig; um helgina hafði hann séð Blindsker í bíó. Hann gat vart á heilum sér tekið af hrifningu og þakkaði Óla Palla fyrir það mikla starf sem hann hefði unnið í þágu lands og þjóðar með þessari mynd. Var krafinn um óskalag en vildi ekki heyra á slíkt minnst. Tilfinningarnar sem bærðust í röddinni minntu á heittrúaðan kaþólikka sem fær áheyrn hjá páfa. Óli Palli varð að skella á hann að lokum til að geta haldið þættinum gangandi.

Þegar ég labbaði út af myndinni skildi ég hvernig þessum manni hafði liðið. Blindsker er sannkölluð veisla fyrir sjón og heyrn. Óli Palli er að vísu ekki eini maðurinn á bak við hana, hún er framleidd af kvikmyndafyrirtækinu Poppoli þar sem fóstbræðurnir Ólafur Jóhannesson (leikstjórn) og Ragnar Santos (kvikmyndataka) ráða ríkjum. Þeir eru flinkir strákar sem hafa gert allmargar stuttmyndir og sjónvarpsmyndir saman. Á þessu ári hafa þeir einnig barist ötullega gegn spillingu í styrkjakerfi íslenskrar kvikmyndagerðar með því að þjarma að Hrafni Gunnlaugssyni.

Blindsker er mynd um tónlistarmann sem hefur gert um 50 plötur á ferli sínum og því viðbúið að yfirferðin sé stiklukennd að miklu leyti. Sá kostur er tekinn í myndinni að dvelja ekki við hverja og eina plötu fyrir sig heldur reyna að draga upp heildarmynd af manninum Bubba Morthens og viðburðaríkri ævi hans. Blindsker er ekki gangrýnin úrvinnsla á verkum listamanns heldur ævisöguleg frásögn. Frásagnaraðferðin er þétt og samfelld. Þegar best tekst upp birta myndefnið annars vegar og hljóðrásin hins vegar tvo vinkla á sama hlutinn svo að hver sekúnda er fullnýtt.

Ferill Bubba er svo stór að kvikmynd eins og þessi getur bara birt manni eina útgáfu af honum. Það væri auðvitað hægt að tína til ýmislegt sem vantaði: Ég nefni sem dæmi umræðu spekinga á borð við Jónatan Garðarsson og Dr. Gunna um einstakar plötur. Ég saknaði þess líka að sjá ítarlegri útlistun á tónlistarlegum rótum Bubba og hans helstu áhrifavöldum (Woody Guthrie, Leadbelly, Bob Dylan eða Megasi). En þetta eru vissulega hártoganir, enda virkar myndin þrælvel sem heild. Sum myndskeiðin eru ómetanleg: Bubbi og Megas í þykjustuleik í þættinum hjá Hemma Gunn, Bjöggi Halldórs þegar hann fær að heyra að Bubbi sakar hann um metnaðarleysi, Gvendur jaki í Dagsbrúnarafmælinu, Bubbi og Ómar að lýsa boxinu, o.fl. o.fl.

Blindsker er nútímaleg mynd, gerð með ferskum og frumlegum aðferðum. Myndefnið er meira en bara myndskreyting eins og oft er raunin hjá fúskurum í faginu – það er sjálfstæður texti. Myndin hefur því oft mörg merkingarlög og er í alla staði fagmannlega unnin. Helsti styrkur myndarinnar er þó auðvitað aðalsöguhetjan sjálf sem fer á kostum í umræðu um líf sitt í fortíð og nútíð. Blindsker er vonandi til marks um áframhaldandi velmegunarskeið í íslenskri heimildarmyndagerð – væri ekki ráð að taka Megas fyrir næst?
..
>> Lesa

miðvikudagur, október 13

Kristján Albertsson

H?fundurBókin Kristján Albertsson - Margs er að minnast kom út árið 1986. Bókin er byggð á samtali Jakobs Ásgeirssonar við Kristján Albertsson. Skýjaborgir hafa fengið leyfi höfundar til að birta nokkur brot úr bókinni og birtist það fyrsta núna (feitletrun er Skýjaborga).
-----
Stefán Jóh. Stefánsson var samtíða Kristjáni í skóla og á einum stað í endurminningum hans frá þeim árum segir svo: „Þar var og Kristján Albertsson, alltaf gagntekinn af bestu sögunni og fegursta kvæðinu, sem hann hafði þá nýlega lesið, en stundum líka af fegurstu stúlkunni, sem hann hafði þá hitt og séð. Hann var hlaðinn kynngi, djarfur og áhugasamur og ekki í vafa um það, hver væri köllun hans í lífinu, sem sé sú, að verða rithöfundur.“

- Það er víst nokkuð til í því sem minn gamli vinur og skólafélagi segir að ég hafi verið í meira lagi hrifgjarn á þessum árum. Ef við höldum okkur við „bestu sögurnar og fegustu kvæðin“ þá var ég víst ævinlega mjög uppnuminn af öllu sem mér fannst gott í bókmenntum. En eitt var að láta sig dreyma í ljúfum fögnuði eftir að hafa lesið til dæmis sumar sögur Björnsons og Jónasar Lie og annað að kynnast skáldskap sem sveif á hugann eins og vín svo að heimurinn varð allt annað en verið hafði, dögum og vikum saman. Þetta gerðist í fyrsta sinn þegar ég, rétt upp úr fermingu, las skáldsögur Hamsuns frá yngri árum, Mysterier, Pan og Viktoríu. Hvergi fannst mér ástin milli manns og konu verða að jafn undursamlegu lifandi magni eins og í þessum bókum.

Næsti útlendi höfundur sem ég fékk mikla ást á var Turgenjef sem ég las í danskri þýðingu. Mér hefur alla tíð fundist hann vera mestur formsnillingur hinna miklu rússnesku skáldsagnahöfunda og lýsing hans á sorgbitinni ást hans til þjóðar sinnar hafði djúp áhrif á mig.

Ég las auðvitað sum helstu leikrit Ibsens og Björnsons á skólaárum mínum en sérstaklega þótti mér vænt um þegar ég sá þau leikin. Sumar eftir sumar kom þá danskur leikflokkur til Íslands og lagði undir sig Iðnó í nokkrar vikur: sýndi ágætlega nokkur leikrit og varð af þessu mikil upplyfting fyrir borgarbúa.

Mér fannst náttúrlega mikið til um allar bestu Íslendingasögurnar og ekki hvað síst um sjálfa tunguna eða stílinn. Og alla tíð hef ég ekki þurft annað en að grípa niður í svo til hvaða sögu sem væri og lesa nokkrar blaðsíður til að finnast ég hafa orðið fyrir einhverju svipuðu og hressandi sundspretti í hæfilega köldu og undursamlega fersku vatni. Ég get ekki lesið fornar bókmenntir með svokallaðri nútímastafsetningu. Sú sem áður tíðkaðist, hin svokallaða normalíseraða stafsetning, varðveitir miklu betur forneskjulegan og tígulegan blæ málsins - og skiptir í því sambandi engu þótt ágætir danskir málvísindamenn hafi átt sinn þátt í að móta þá stafsetningu. Mér finnst „Þat mælti mín móðir“ vera fallegra en „Það mælti mín móðir“ og fara nær því sem ég held að verið hafi tungutak Egils Skallagrímssonar. Mér hefur aldrei getað fundist útgáfa fornbókmennta með nútímaréttritun vera annað en skemmdarverk - og að halda því fram að fyrri tíðar stafsetning á Íslendingasögum torveldi skilning á efni þeirra, einkum í augum æskunnar, er eins og hver önnur endemis fjarstæða sem ekki er eyðandi orðum að.

Loks er að nefna að á skólaárum mínum varð Einar Benediktsson auðvitað með því forvitnilegasta í íslenskum ljóðaskáldskap. Þó að kvæði hans ættu ekki jafn vel við smekk eldri kynslóðar held ég að æskan hafi talið hann öðrum fremur sitt skáld. Við vorum allir hugfangnir af hans stórfenglega og mergjaða málfari, hugarflugi og mannviti. Þorsteinn Erlingsson yrkir:
Það er líkt og ylur í
ómi sumra braga.
Mér finnst oft mikilfenglegri ómur í ljóðum Einars Benediktssonar en í nokkru öðru sem ort hefur verið á íslensku.

-----
..
>> Lesa

þriðjudagur, október 12

List undir gróðurhúsaáhrifum - „We have a substance-abuse problem with carbon dioxide“

Kári TuliniusVeistu hvað Wexelblat-hamfarir eru? En óviljagarður?

Það kemur þér kannski ekkert á óvart að ég var að þýða þess hugtök úr ensku, Wexelblat-disaster og involuntary park, en þetta eru meðal þeirra hugtaka sem Viridian hreyfingin hefur búið til eða tekið upp á sína arma. Viridian hreyfingin er listastefna sem hefur örar breytingar í lofthjúp jarðar og önnur stórfelld áhrif mannsins á náttúruna sem frumforsendu sína.

Wexelblat-hamfarir eru nefndar eftir Alan Wexelblat, sem er sérfræðingur í samverkun náttúrunnar og manngerðrar tækni. Hamfarir þær sem hann skilgreindi fyrstur manna verða þegar öfgaveður setur eitthvert manngert kerfi úr jafnvægi þannig að stórslys hlýst af. Fellibylurinn Mitch fór yfir Tegucigalpa, höfuðborg Hondúras, í október 1998. Það í sjálfu sér olli miklum hamförum, en eru ekki Wexelblat-hamfarir í sjálfu sér. Hins vegar stíflaðist holræsakerfið sem varð þess valdandi að íbúar borgarinnar þurftu að vaða hland og saur sem flæddi upp úr holræsunum.

Mér kemur ekki til hugar neitt slíkt sem hefur gerst hér á landi. Vinur minn benti mér á að um seinustu eða þarseinustu áramót fylltust holræsi upp á Granda þannig að rotturnar sem þar lifðu flutu upp og æddu um göturnar og inn í hús og önnur lokuð svæði. En það myndi varla teljast miklar Wexelblat-hamfarir. Ef einhver lesandi getur sagt mér frá einhverju slíku þá er hægt að senda mér tölvupóst með því að smella á nafn mitt efst á síðunni. Ég man óljóst eftir einhverju sem gerðist í áburðarverksmiðjunni á Gufunesi á seinni hluta níunda áratugarins, en fann engar heimildir.

Óviljagarður er svæði þar sem lífríkið fær að vera í friði út af því að það er of mengað til að fólk geti lifað þar. Frægasti óviljagarðurinn er án efa Tsjernóbyl-svæðið. Þar býr ekki sála og engum er hleypt þar inn. Því hafa dýr og plöntur fjölgað sér og ýmsar dýrategundir sem eru í útrýmingarhættu annars staðar lifa þar góðu lífi. Frægastir eru Przewalski-hestakynið, sem talið er vera eina dæmið um hestakyn sem enn lítur út og hegðar sér eins og þeir hestar sem fyrst voru tamdir í árdaga. Fjölmörg önnur dæmi eru um slík svæði.

En hvað hefur þetta að gera með menningu? Nú, þessi hugtök hafa verið búin til og breidd út af hópi fólks sem kallar sig Viridians. Hreyfing þessi var stofnuð af rithöfundinum Bruce Sterling undir lok síðustu aldar. Hann skrifar vísindaskáldsögur og var einn af helstu hugmyndafræðingum cyberpönks. En árið 1998 flutti hann ræðu þar sem hann lýsti því yfir að hann ætlaði að hanna listhreyfingu.

Orðið viridian merkir ákveðið litbrigði af grænum lit. Ekki ætti því að koma neinum á óvart að hreyfingin er „græn” pólitískt. En hún er einnig fagurfræðilega græn. Ein af helstu stefnumiðum hennar er að list og hönnun sé umhverfisvæn, noti efnivið sem mengi ekki umhverfið og sé auðvelt að endurvinna. Eins og Bruce Sterling lýsti yfir í ræðunni 1998: „My art movement is about the Greenhouse Effect“. Varast skyldi þó að draga þá ályktun að Viridian hreyfingin sé hippahreyfing. Því fer fjærri lagi. Hið mystíska og andlega er ekki velkomið. Hið áþreifanlega og vísindalega er haft í hávegum. Það mætti slá því fram að þetta væri verkfræðileg listhreyfing.

Sterling svarar spurningunni hvernig Gróðurhúsaáhrifin séu fagurfræðilegt vandamál á eftirfarandi hátt: „Well, because it’s a severe breach of taste to bake and sweat half to death in your own trash, that’s why. To boil and roast the entire physical world just so you can pursue your cheap addiction to carbon dioxide. [...] What a cramp of our style. It’s all very foul and aesthetically regrettable.“

Fagurfræðihefð viridianisma má lýsa í hnotskurn með enska heitinu biomorphic, sem þýðir að eitthvað líkist lífverum eða gefur form og útlit þeirra í skyn. Sá listamaður sem Viridianar líta hvað mest upp til er Andy Goldsworthy sem býr til listaverk úr náttúrulegum efnum, stundum í galleríum, en oftast úti í náttúrunni sem hann síðan tekur myndir af. Viridiönsk list leitast þó við að sameina tækni náttúrunni eða öfugt. Hreyfingin er það ung að fá dæmi finnast enn um hreina Viridianska list. Hún leggur einmitt mikla áherslu á framtíðina og möguleika lista í framtíðinni. En þó eru ýmsir listamenn sem vinna á mjög svipuðum nótum. Helstan má nefna Eduardo Kac, sem frægastur er fyrir að hafa erfðabreytt kanínu svo hún glói græn.

En Viridian hreyfingin er enn ung að árum, sex ára gömul. Þó verður að minnast á það að Bruce Sterling hefur lýst yfir að henni verði hætt árið 2012. Búið, finis, kapút. Einn af hornsteinum Viridianismans er að allt hafi ákveðinn endapunkt. En þangað til mun hreyfingin starfa áfram.



Fyrri greinar eftir höfund
Af hverju ritmenning er ekki í hættu – amatör hagfræðiskýring
..
>> Lesa

mánudagur, október 11

Endalok þjóðveldisins

H?fundurÞegar talað er um íslenska þjóðveldið er mismunandi við hvað er átt. Annars vegar vísar þjóðveldið til þess samfélagsforms sem var við lýði á tímabilinu frá stofnun allsherjarríkis með stofnun Alþingis árið 930 og þar til fólk í íslenskum lögum féllst á yfirráð Noregskonungs með undirritun Gamla sáttmála árið 1262 (þjóðveldisöld, þjóðveldið í rýmri merkingu). Hins vegar vísar það til þeirrar stjórnskipunar sem einkenndist af goðorðum og leið í raun undir lok nokkru áður en Gamli sáttmáli var gerður (goðaveldi, þjóðveldið í þrengri merkingu).

Goðorðin voru mannaforráð svokallaðra goða, en helsta stétt goðaveldisins voru sjálfseignarbændur. Stjórnskipanin byggði á persónulegum tengslum goða við þá bændur sem tilheyrðu goðorði þeirra. Þau voru ekki afmörkuð landfræðilega heldur gat bóndi valið sér goða óháð búsetu og gerst þingmaður hans. Alþingi fór með löggjafarvald og æðsta dómsvald en framkvæmdavald lá í höndum þess er átti sök að sækja og goða hans. Árlega voru haldin héraðsbundin vorþing og leiðarþing fyrir þrjú goðorð sameiginlega.

Í þessari grein verður leitast við að svara þeirri spurningu hvers vegna íslenska þjóðveldið í hvoru tveggja þrengri og rýmri merkingu leið undir lok (á stöku stað er þjóðveldið persónugert). Fyrst verður fjallað um venjurétt þjóðveldisins og áhrif ritmenningar á hann. Því næst verður gerð grein fyrir því hvernig valdajafnvægi raskaðist og um þann ófrið sem fylgdi í kjölfarið. Þá verður útskýrt hvernig Noregskonungur lagði undir sig landið og þau tæki sem hann hafði til þess. Áður en niðurstöður eru teknar saman verður síðan fjallað stuttlega um Gamla sáttmála; efni hans, ástæður og afleiðingar.

Venjuréttur

Hinn sjálfsprottni venjuréttur þjóðveldisins og sá skilningur sem menn lögðu í lagahugtakið var samofin stjórnskipun þjóðveldisins og ein mikilvægasta forsenda þess. Lög landnámsmannanna voru óskráður venjuréttur. Ákvæði lögsögumanns- eða lögréttuþáttar Grágásar, lagaskrár þjóðveldisins, bera „óvéfengjanlega vætti um þá hugmynd að gömul og góð lög séu undirstaða þjóðfélagsins, þau geymast í minni manna, einkum hinna lögfróðu fyrirmanna, séu ópersónuleg sameign allra, þannig að ekki verði skilið á milli þeirra og almennrar réttarvitundar“(1).

Lög myndast við venjurétt þegar dómari sker úr ágreiningi með því að finna almenna reglu, er leysir ágreininginn og sambærilegan ágreining í framtíðinni.
Það, sem dómari í venjuréttarskipulagi gerir til úrlausnar slíks áreksturs, er að leita að og lögfesta venju, sem kveður á um einhvers konar einstaklingsbundinn afnotarétt, skaðabótaskyldu eða eignarrétt. Hann skilgreinir með öðrum orðum réttindi og skyldur einstaklinga þannig, að um frekari árekstra verði (vonandi) ekki að ræða. Þau lög, sem myndast við venjurétt, eru því til, áður en dómarinn finnur þau. Það, sem dómarinn gerir, er að uppgötva, hvernig gagnkvæmri aðlögun manna hefur verið háttað, og festa þá reynslu í letur. Hann skráir lögin og skýrir.(2)
En þegar dómari leysir úr ágreiningi einstaklinga með því að skilgreina réttindi þeirra og skyldur, gerir hann það ekki eftir eigin geðþótta, heldur styðst meðal annars við fastar venjur, dómafordæmi, meginreglur réttarins og eðli málsins.

Þessi skilningur á eðli laganna hefur verið talinn merkasta framlag germanskra þjóða til stjórnspeki Vesturlanda og ein helsta stoð réttarríkisins, sem enskumælandi þjóðir lýsa best með orðunum the rule of law (veldi laganna). Orðið lög merkir þá reglur sem hafa orðið til með framangreindum hætti.

Að rétta lögin og gera nýmæli

Landnámsmenn komu frá mörgum ólíkum svæðum og los komst á réttarvenjur þeirra. Eftir stofnun Alþingis var ágreiningur um hvaða lög giltu, leystur með því að leggja mál fyrir lögréttu sem rétti lögin. Hugsunin bak við orðin að rétta lög var sú að leiða í ljós efni og innihald hinna fornu laga. Lögréttumenn voru þannig kvaddir til vitnisburðar um gildandi lög. Í reynd voru þeir þó oft og tíðum að setja nýjar reglur, en hugarfar löggjafans þegar hann nálgaðist viðfangsefnið og sú hugsun sem lá á bak við lögin setti lagasetningunni ákveðin takmörk.
Þeir sem réttu lögin gátu ekki sett reglu að vild – hvað þá geðþótta – heldur hlutu þeir að taka mið af viðurkenndum hagsmunum, hefðbundnum réttindum og rótgrónum hugsunarhætti þjóðfélagsþegnanna. Þetta merkir að lögin sjálf – hin gömlu góðu lög – bundu hendur löggjafans áþekkt sáttmála og voru þannig hemill valdbeitingar.(3)
Í þessu liggja rætur hugmynda miðaldamanna um lögbundna stjórn sem meðal annars er lýst í orðatiltækinu með lögum skal land byggja. Sú aðferð að rétta lögin leysti þó ekki allan vanda. Á sumum sviðum þurfti að setja nýjar réttarreglur. Þess vegna var einnig sá kostur fyrir hendi að gera svokölluð nýmæli, en gengið að því gefnu hvað þau varðar að enginn væri bundinn af öðru en hann samþykkti sjálfur. Ef ekki náðist samstaða þurfti að miðla málum.
Í samræmi við þetta urðu nýmæli bindandi fyrir sammæli manna fremur en valdboð. Sú afstaða hefur stuðlað að því að einn valdahópur hefur temprað annan og reglur mótast af nokkurri málamiðlan. Þótt þetta væru einkum leikreglur hinna máttarmeiri hafa þær styrkt þá almennu lífsskoðun að vald væri takmarkað og hún væri almúga nokkur vörn gegn ofríki.(4)
Ef ekki tókst að miðla málum neyddust menn til að segja sig úr lögum hver við annan. Menn reyndu að forðast það eins og heitan eldinn því að það var eins og gefur að skilja álitið mjög slæmt, samanber eftifarandi orð sem Ari fróði hefur eftir Þorgeiri Ljósvetningargoða: „Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.“

Áhrif ritlistarinnar

Þau rök hafa verið færð gegn venjurétti að hann feli ekki í sér ráð til að leiðrétta eða lagfæra óskynsamlegar reglur sjálfkrafa, en margir fræðimenn sem rannsakað hafa venjuréttinn hafa komið með skynsamleg mótrök:
Þeir benda á, að heildarkostnaðurinn af óhagkvæmri reglu, sem venjuréttardómari setur með úrskurði í máli, er meiri en heildarávinningur. (Það er skilgreiningaratriði um óhagkvæma reglu.) Reglan kostar fólk í sömu aðstöðu og sá, sem tapar málinu, því meira er nemur ávinningnum fyrir fólk í sömu aðstöðu og sá, sem vinnur málið. Þetta merkir, að þeir, sem tapa á reglunni, hljóta að finna hjá sér hvöt til að fá henni breytt. Óhagkvæm regla verður því vefengd oftar, skotið oftar til dómstóla, en hagkvæm. Bandaríski hagfræðingurinn Harold Demetz ritar: „Eftirspurnin eftir því að vefengja úrskurð eykst, ef fyrri úrskurðir hafa haft í för með sér minni farsæld neytenda.“ Því er um að ræða neikvætt afturkast (e. negative feedback) á óhakvæma úrskurði. Þetta má orða svo, að hagkvæmar lagareglur séu líklegri til þess en óhagkvæmar að standast það próf, sem felst í málarekstri fyrir dómstólum.(5)
Áður en ritlistin barst til Íslands og menn fóru að skrá lögin niður hafði venjuréttur þjóðveldisins einmitt þá eiginleika að hagkvæmar reglur gátu leyst óhagkvæmar af hólmi. Þegar lögin voru óskráð var nefnilega hægt að hafa stjórn á varðveislu laganna með lagauppsögu lögsögumanns.

Eftir að ritlistin barst til landsins og menn tóku að skrá lögin, sem gerðist fyrst árið 1117, tóku menn þá ákvörðun að það skyldu vera gildandi lög sem á skrám standi og lagaskrár urðu í reynd æðsta réttarheimildin. Þessi ákvörðun var eins og rýtingsstunga í mikilvægt líffæri í „líkama“ þjóðveldisins, því að lagahugtak þess og venjurétturinn voru mikilvægir þættir þjóðveldisins.

Menn vissu ekki í hvern fótinn þeir áttu að stíga. Venjurétturinn gat ekki dafnað því að lögrétta (dómarar) átti mjög óhægt um vik að breyta því sem á skrám stóð, en um leið voru menn háðir fornum og rótgrónum hugmyndum um lög og voru ekki tilbúnir að viðurkenna virkara og margvíslegra lagasetningarvald, sem hefði þó verið nauðsynlegt fyrst að skráð lög voru æðsta réttarheimildin. Afleiðingin var sú að menn misstu tök á réttarþróuninni og þjóðfélagið gekk úr skorðum.

Þessi þróun mála var ekki óhjákæmileg. Hefðu menn viðurkennt heimild dómara til að þoka skráðum lögum vegna venju, meginreglu eða eðli máls er líklegt að lögin hefðu haldið sveigjanleika sínum og venjuréttur þjóðveldisins hefði þá ekki glatað þeim mikilvæga eiginleika að lagfæra óskynsamlegar reglur.

Valdajafnvægi

Valdajafnvægi milli goða var mikilvæg forsenda þess að goðaveldisskipulagið gengi upp. Menn gerðu sér grein fyrir þessari forsendu og þess vegna lögðu menn áherslu á að viðhalda jafnvæginu. Það tókst vel í tæp 200 ár, en árið 1096 var lögtekinn skattur sem kallaðist tíund og átti eftir að hafa afdrifarík áhrif. Tíundin var 1% eignarskattur og skiptist í fernt. Fjórðungur hennar rann til framfærslu fátækra í hverjum hreppi, fjórðungur til biskupsstaða, fjórðungur til kirkna og fjórðungur til presta. Helmingur tíundarinnar rann því til þeirra goða sem sáu um kirkjur, auk þess sem kirkjugoðar þurftu ekki að greina skattinn, og varð hún þannig „grundvöllur efnahagsójafnaðar“(6). Skatturinn hlaut að eyðileggja þjóðveldið; hann var eitur í „líkama“ þess og aðeins tímaspursmál hvenær það liði undir lok.

Áhrif tíundar (7)

Þegar tíundin var tekin upp mynduðu íslenskir kirkjugoðar með biskup í fararbroddi nýjan tekjustofn fyrir sig. Tíundin var nýr tekjustofn og um hann varð harðvítug keppni, en við þá keppni raskaðist jafnvægið milli einstakra goða og vísir myndaðist að raunverulegu ríkisvaldi. Í hagfræðinni kallast keppni af þessu tagi keppni að aðstöðuhagnaði.
Munurinn á henni og frjálsri samkeppni á markaði, er að ekki er keppt að gróða með því að bjóða fram betri eða ódýrari þjónustu en keppinautarnir, heldur er tími, fyrirhöfn og fjármunir notaðir til þess að útvega sér sérréttindi eða aðstöðu á kostnað annarra. Þetta leiðir til þess, að í keppni að aðstöðuhagnaði skapast engin verðmæti, eins og gerist í frjálsri samkeppni á markaði. Öðru nær. Þar er verðmætum beinlínis sóað.(8)
Héraðsríki myndast

Goðorðin urðu mikils virði og mjög hörð barátta hófst um þau. Smám saman söfnuðust þau á fárra manna hendur í byrjun þrettándu aldar voru öll goðorð í landinu komin í eigu örfárra ætta og afmörkuðust landfræðilega. Eins konar héraðsríki mynduðust og goðaveldisfyrirkomulagið var orðið óvirkt.

Yfirmenn héraðsríkjanna höfðu mun meira vald en goðarnir höfðu áður haft og samband þeirra við þingmenn líktist meir sambandi yfirvalds og þegna en sambandi goða og þingmanna, enda voru þeir yfirleitt kallaðir höfðingjar fremur en goðar. Um 1220 skiptist nánast allt landið milli 10 eða 12 héraðsríkja og fram til 1262 var Ísland lauslegt samband þeirra þar sem sameiginleg yfirstjórn var varla til.

Það má segja að þjóðveldið í þrengri merkingu hafi liðið undir lok á þessum tíma eða alla vegana „legið banaleguna“. Í raun er það önnur spurning hvers vegna Íslendingar gerðust þegnar Noregskonungs árið 1262.

Innanlandsófriður

Eftir að héraðsríkin voru orðin allsráðandi leið ekki á löngu þar til þau fóru að berjast sín á milli um forræði yfir landinu öllu. Höfðingjar börðust um völd og hlýddu hvorki lögum né réðu þeim. Með héraðsríkjunum var komið fram mun öflugra valdatæki en verið hafði og höfðingjarnir gátu nú safnað stórum herjum til að koma málum sínum fram með illu ef það tókst ekki með góðu.
Kostum hins upphaflega fámennisveldis var glatað. [. . .] [H]öfðingjar [hættu] að vera forystumenn og verndarar þingmanna sinna, fóru að ráða landsvæðum, svo að rétturinn að kjósa um goða varð að hégóma. Nú var farið að leggja skatta á bændur, þegar það varð um seinan til að varðveita jöfnuð hinna fornu goðorða. Alþýða manna var hrakin og þjáð, er stórbokkarnir áttust illt við. Hún varð leið á höfðingjaskiptum, ófús og ótrygg til fylgis við aðkomumenn, trúnaðarsamband goða og þingmannasveitar var rofið. Valdabraskararnir sjálfir voru venjulega lánlitlir og gengi þeirra skammvinnt.(9)
Í innanlandsófriðnum gekk á ýmsu, þúsundir bænda týndu lífinu eða hlutu örkuml og sú stund kom að bændastéttin missti þolinmæðina og vildi ekki una ástandinu lengur. Þeir voru raunar orðnir svo langþreyttir á átökum innlendra höfðingja að á ráðstefnum sumarið 1255 höfðu þeir við orð, að best væri að hafa enga höfðingja yfir sér.

„Banalega þjóðveldisins“ var sársaukafull fyrir þjóðina og það var ljóst að eitthvað þyrfti að gera. Útilokað var talið að endurvekja hið gamla skipulag og margir töldu lausnina fólgna í að sameina landið undir eitt vald.

Hákon gamli

Hákon gamli var valdamesti konungur Noregs frá upphafi. „Hann hafði eftir 1240 alla landshluta og allan landslýð jafnt á valdi sínu, höfðingjana, sem voru orðnir þjálir viðskiptis, alþýðuna, sem var friðnum fegin, og klerkana, sem nutu skjóls konungsvaldsins“(10). Hákon var metnaðarfullur og vildi innlima Ísland í veldi sitt. Hann vissi „upp á hár hvað hann vildi heimta af Íslendingum, sótti mál sitt með vinmælum og fögrum heitum, vélum, hótunum og harðfylgi“(11).

Andspænis þessum konungi, sem vissi hvað hann vildi og stefndi að ákveðnu marki, var sundruð þjóð. Íslendingar gerðu sér ekki fullkomlega grein fyrir hvar þeir voru á vegi staddir með stjórnarfar sitt, en eins og áður sagði töldu margir það affarasælast að sameina landið undir einni stjórn til að binda endi á ófriðinn. Þjóðin sem í fyrndinni yfirgaf sitt gamla land meðal annars vegna þess að hún vildi vera frjáls undan konungsvaldi var nú farin vegna ráðaleysis síns og áróðurs Noregskonungs að líta á hann sem hugsanlegan bjargvætt sinn.
Á meðan hún var bæði sundruð og höfuðlaus, enginn höfðingi gættur viti, vilja og mætti að steypa heild úr brotunum, hafði Hákon konungur tögl og hagldir að etja mönnum saman, gera alltaf út nýja flugumenn, norska og íslenska, lærða og leika, til þess að halda óöldinni við og auka hana. Samtímis klifaði hann og lét klifa á því, að friður kæmist ekki á, fyrr en einn réði mestu – með fulltingi sínu. Þeir Íslendingar, sem skýrasta grein gerðu sér fyrir rökum þess, er að var hafzt um 1262, játuðu skattgjaldinu í von um, að þeir væru að kaupa frið – sér og niðjum sínum.(12)
Siglingar og verslun (13)

Meðal mikilvægra „vopna“ sem Noregskonungur gat notað gegn Íslendingum var stjórn hans á siglingum norskra skipa til landsins og verslun. Íslendingur litu svo á að þeir væru Norðmenn háðir um aðflutninga nauðsynja og töldu Noregskonung geta bannað kaupferðir til landsins ef honum þóknaðist.
Annaðhvort hefðu Íslendingar þurft að taka verzlunina í sínar hendur, svo að við mætti hlíta, eða fá aðrar þjóðir en Norðmenn til þess að hefja hingað siglingar. Fyrri kostinum voru þeir orðnir nær afhuga. Olli því vafalaust mjög timburleysið í landinu. Þeir kunnu ekki að smíða skip, og á tímabilinu 1200-1264 er enginn Íslendingur nefndur, sem færi kaupferðir á eigin skipi. Síðari kosturinn var þeim vankvæðum bundinn á 13. öld að útflutningsvörurnar voru sniðnar eftir markaði í Noregi. Meðal þeirra gætti enn lítt skreiðarinnar, sem beindi síðar athygli Hansakaupmanna og Englendinga að Íslandsverzluninni. Af íslenzkum höfðingjum var ekki að vænta, að þeir hefðu þá verzlunarþekkingu og þau tök á að breyta atvinnuháttum þjóðarinnar, sem þurft hefði til þess að ryðja nýjar brautir í viðskiptum. Og líklegt er, að verzlun Þjóðverja eða Englendinga hefði að lokum leitt af sér undirokun hins varnarlausa lands og hún varla orðið léttbærari en yfirráð Noregskonunga.
Kirkjan (14)

Íslenska kirkjan var hluti hinnar alþjóðlegu kaþólsku kirkju og íslensku biskupsstólarnir lutu erkibiskupnum í Niðarósi frá miðri 12. öld. Hákon gamli beitti kirkjuvaldinu til að hafa áhrif á íslensk stjórnmál, með ljúfu samþykki erkibiskupsins í Niðarósi, enda var gott á milli konungs og biskups á þeim tíma.

Árið 999 eða 1000 var kristni lögtekin á Alþingi að undangengnu um 20 ára kristniboðsstarfi. Fyrstu áratugi eftir kristnitöku dvöldu á Íslandi erlendir farandbiskupar en árið 1056 var fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gissurarson, vígður. Árið 1106 var Íslandi síðan skipt í Skálholts- og Hólabiskupsdæmi og varð Jón Ögmundsson fyrsti Hólabiskup. Frá árinu 1238 og fram undir lok þjóðveldis sátu norskir biskupar á báðum íslensku biskupsstólunum. Sumir þeirra stóðu í nánu sambandi við Hákon konung.

Tök kirkjunnar á þjóðinni voru sterk. Í fyrsta lagi gátu biskupar bannfært höfðingja og þá var allt samneyti við þá bannað. Í öðru lagi réð erkibiskup vígslu íslenskra biskupa og þeir réðu síðan vígslu presta og kirkna. Þess vegna gat erkibiskup sett biskupsefnum kosti og biskupar landsmönnum. Bréf sem bannaði að vígja goða til presta gróf undan undirstöðu hinnar þjóðlegu kirkjuskipunar og færði vald út úr landinu til Niðarósar.
Undir eins og erkibiskup gerði sig líklegan til þess að styðja mál konungs og þeir fóru að stefna Íslendingum utan í samráði hvor við annan, áttu landsmenn um tvo kosti að velja til varnar, annaðhvort að fá samþykki páfa til þess að setja erkistól á Íslandi eða til hins, að íslenzka kirkjan mætti hverfa undir annan erkistól. Líklega hefði Ísland þótt of fátækt og fámennt til þess að bera erkistól, því að undir hann var ekki hægt að leggja önnur lönd en Grænland. Og óvíst er, að minni hætta hefði stafað af því, þegar stundir liðu fram, að danskur, þýzkur eða brezkur erkibiskup hefði ráðið íslenzku kirkjunni.(15)
Íslenskir handgengnir menn (16)

Önnur leið Noregskonungs til áhrifa á Íslandi var í gegnum íslenska hirðmenn sína. Frá fornu fari hafði verið algengt að íslenskir menn væru handgengnir Noregskonungi og þegar konungur girntist landið var honum mikil stoð að því að eiga hirðmenn meðal íslenskra höfðingja. Þeir voru bundnir trúnaðareiðum við konung og háðir hirðlögum. Konungur gat stefnt þeim til sín og bannað þeim að fara aftur til Íslands. Einnig lögðu handgengnir menn oft mál sín í dóm konungs, eins og Gissur Þorvaldsson og Þórður kakali gerðu árið 1246, og þá gat konungur hagað dómi sínum þannig að best þjónaði hagsmunum hans sjálfs varðandi Ísland.
Þegar hirðmenn konungs höfðu mannaforráð á Íslandi gat ekki hjá því farið að konungur eignaðist fyrr eða síðar eitthvað af þeim sjálfur. Fyrst mun hann hafa komist yfir mannaforráð Snorra Sturlusonar. Hann lét drepa Snorra fyrir landráð og taldi sér síðan allar eignir hans, meðal annars goðorðin. Smám saman fékk konungur eignarhald á fleiri mannaforráðum hér og fékk þau íslenskum hirðmönnum sínum til stjórnar í umboði sínu. Þannig var konungur orðinn stórveldi í íslenskum stjórnmálum, áður en Íslendingar játuðust undir konungsvald hans.(17)
Norskir hirðmenn

Ennfremur hafði Noregskonungur áhrif hér á landi með því að senda hingað norska hirðmenn sína, en til þess greip konungur þó ekki lengi vel.
Fyrsti Norðmaðurinn sem konungur sendi hingað beinlínis í því skyni að reka erindi sitt var Ívar Englason sem kom hingað árið 1255 og fékk Norðlendinga til að játa konungi skatt árið eftir. Seinna varð það svo norskur hirðmaður, Hallvarður gullskór, sem rak smiðshöggið á innlimun Íslands í norska konungsveldið.(18)
Gamli sáttmáli

Svo fór að árið 1262 gerðu Íslendingar undir forystu Gissurar Þorvaldssonar sáttmála við Noregskonung, þar sem þeir játuðu honum skatt, land og þegna, en í staðinn skyldi konungur láta þá ná friði og íslenskum lögum og sjá um að minnst sex skip gengu frá Noregi til Íslands árlega.

Eins og áður segir beitti Hákon gamli ýmsum brögðum til að ná yfirráðum yfir Íslandi og vafalaust hefur hann verið ánægður þegar hann tryggði sér þau.. Hins vegar eru yfirráð hans bundin ýmsum skilyrðum og sáttmálinn er um margt ásættanlegur fyrir Íslendinga miðað við aðstæður.

Bændur töldu friðvænlegt að sameina landið undir eitt vald og hafa ber í huga að ef til vill vildu bændur frekar sverja fjarlægum konungi hollustu en nálægum höfðingjum, því að „útlendir höfðingjar voru þeim jafnan fjarri og vönduðu lítt um siðu manna“, eins og Snorri Sturluson orðaði það í Ólafs sögu helga. Íslendingar endursömdu sáttmálann síðan í ljósi fenginnar reynslu og skömmtuðu konungi mjög knappan rétt út miðaldir vegna þess að að hann gat ekki efnt fyllilega loforð sín um löggæslu og siglingar fyrr en á 16. öld.

Það sameiginlega yfirvald sem komst á var hið norska konungsvald, en ýmsir höfðingjar virðast hafa stefnt að því að landið yrði sjálfstætt jarlsdæmi í lauslegum tengslum við Noreg. Reynt var að koma til móts við slík sjónarmið með hinu skammlífa jarlsdæmi Gissurar Þorvaldssonar, sem lauk með dauða hans árið 1268.

Gamli sáttmáli markar lok þjóðveldisaldar, en á 19. öld öðlaðist sáttmálinn nýtt gildi þegar hann varð einn af hornsteinunum í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, sem endaði með fullveldi landsins árið 1918 og sjálfstæði árið 1944.(19)

Þjóðarvitund

Hákon gamli neyddi aldrei Íslendinga beinlínis til að játast undir yfirráð sín. Ástæða þess kann að vera sú að hann hafi ekki haft tök á því og því leitast við að vinna landið með hernaði Íslendinga sjálfra sín í millum. Noregur var ekki ríkt land, heilt úthaf var á milli landanna, Ísland var strjálbýlt og af þessum sökum hefði verið erfitt að halda saman herflokkum til lengdar á Íslandi vegna vistarfanga. Munur á fólksfjölda á milli landanna var einnig mun minni en í dag, Norðmenn voru um það bil 300 þúsund, en Íslendingar 50-70 þúsund.

Sumir sagnfræðingar hafa undrast af hverju óbeinar aðgerðir hans hafi dugað til að fá Íslendinga til að játast undir yfirráð hans án þess að hann hafi þurft beinlínis að grípa til aðgerða sem neyddu Íslendinga til að játast undir yfirráð hans. Þrátt fyrir að síðari tíma menn skilji vel viðleitni manna til að koma á friði hafa sumir hneykslast á því hve lítt Íslendingar virðast hafa metið þjóðfrelsið á 13. öld.

Sigurður Líndal hefur hins vegar bent á það að þegar Íslendingar sömdu við Noregskonung árið 1262 hafi þeir ekki verið að semja sem ein sjálfstæð þjóð, heldur sem margir sjálfstæðir einstaklingar. Þjóðin hafi því ekki verið að afsala sér fullveldi í hendur Noregskonungi, því að hvorugt hafi verið til, þjóðin eða fullveldið.

Andstaða sumra Íslendinga gegn Gamla sáttmála og yfirráðum Noregskonungs stafaði samkvæmt kenningu Sigurðar aðallega af ótta við nýjar álögur. Skattskylda var ekki aðeins óvinsæl vegna fjárútláta, heldur litu germanskar þjóðir á hana sem tákn um ófrelsi einstaklinga.

Niðurstaða

Íslenska þjóðveldisskipulagið var viðkvæmt skipulag því að í því var ekkert miðstýrt framkvæmdavald og framkvæmdavald goðanna var veikt. Af þeim sökum má líkja þjóðveldinu við dýr sem deyr út vegna þess að það getur ekki varist árásum eða aðlagað sig breyttum aðstæðum. En það eitt að það var viðkvæmt var vitaskuld ekki ástæða þess að það leið undir lok, þó að það hafi vissulega skipt sköpum.

Eftir að goðaveldið hafði riðlast varð upplausn í samfélaginu og valdabarátta, sem Noregskonungur nýtti sér til að ná yfirráðum. Innanlandsófriðurinn sem ríkti hér á landi var ekki ástæðan fyrir falli þjóðveldisins, heldur afleiðing af falli þess. Íslendingar féllust á yfirráð Noregskonungs aðallega vegna þeirrar trúar að hann gæti komið á friði. Á hinn bóginn er það ekkert launungarmál að norska konungsvaldið var mun sterkara stjórnmálaafl en íslenska þjóðveldið og ásælni konungs og undirhyggja höfðu áhrif á að það féll. Við upphaflega skipun þjóðveldisins var gengið að því vísu að einangrunin tryggði það fyrir erlendri ásælni. Vitsmunir Íslendinga beindust aldrei að ráðagerðum um utanríkismál, hvernig þjóðveldið ætti að bregðast sem eitt ríki við öðrum ríkjum.

Endalok þjóðveldisins átti sér tvær megin rætur. Í fyrsta lagi rýtingsstungan, sem fólst í þeirri reglu að það væru lög sem á skrám stæði – og olli riðlun venjuréttar. Í öðru lagi eiturtakan, sem fólst í upptöku tíundarskattsins – og olli riðlun valdajafnvægis. Eins og áður hefur komið fram er vafi á því hvort þjóðveldið hafi verið „með lífsmarki“ þegar Noregskonungur hjó á háls þess með hjálp Gissurar jarls og samþykki Íslendinga. Ef til vill hafði konungur illan ásetning þegar hann gerði Gamla sáttmála og talið sig vera að fremja kaldrifjað „morð“ á þjóðveldinu. En í huga Gissurar og annarra Íslendinga var hins vegar sennilega ekki um „morð“ að ræða, heldur „líknardauða“ þess eftir erfiða „banalegu“ – og loforð um ríkulegan arf frá böðlinum, Noregskonungi.

Þjóðveldisskipulagið var úrelt í huga margra samtímamanna skipulagsins og það ætti í raun enginn að undrast fall þess. Straumur tímans lá einfaldlega allur í átt til aukins ríkisvalds og miðstýringar.

Var þjóðveldið gott skipulag?

Íslenska þjóðveldið er dæmi um lög án ríkis og að sjálfsögðu er endalaust hægt að þræta um gæði þjóðveldisskipulagsins, þó fullyrða megi að það sé gott í augum þeirra sem óbeit hafa á ríkisvaldi og miðstýringu. Venjurétturinn, sem blómstrar í þjóðfélagsskipulagi eins og íslenska þjóðveldinu, er einnig líklegri en settur réttur til að vernda einstaklingsfrelsið.
Þau mál, sem lögð eru fyrir dómstóla og skorið úr með tilvísun til venju eða fordæmis, snúast jafnan um árekstur tveggja eða fleiri einstaklinga. Reglur venjuréttarins myndast til að leysa úr málum, þar sem athafnir eins manns hafa óæskilegar afleiðingar fyrir annan, að því er sá telur. Slík lög verða til af ákveðnu tilefni og af frumkvæði einstaklinga úti í þjóðfélaginu, þegar þeir halda, að gildandi lög skeri ekki á fullnægjandi hátt úr ágreiningsmálum þeirra. Slík lög eru sett í því skyni að bregðast við aðkallandi og afmörkuðum vanda, ekki til þess að fella allt þjóðlífið í hugmyndafræðilegar skorður.(20)
Hins vegar er óumdeilt, óháð öllum stjórnmálaskoðunum, að skipulagið er áhugavert frá sjónarhóli stjórnmálaheimspekinnar og var einstakt í heiminum öfugt við höfðingjaveldið sem við tók.

Einnig er vert að nefna nokkra kosti sem allir geta verið sammála um að venjuréttur hafi umfram settan rétt. Settur réttur virðist áreiðanlegri, þar sem ganga má að einstökum lögum skjalfestum og enginn þarf að fara í grafgötur hver lögin eru. En málið er ekki svo einfalt.
Í fyrsta lagi geta ýmsir smíðagallar verið á hinum settu lögum, eins og Lon Fuller bendir á, svo að þau eru ekki áreiðanleg eða skýr. En í annan stað, og það sem skiptir mestu máli í þessu viðfangi, myndast settur réttur ekki smám saman við tilraunir dómara til að leysa úr árekstrum einstaklinga með því að finna almennar reglur, heldur verður hann til í samningum ýmissa hagsmunahópa á löggjafarþingum nútímans: „Við kjósum með ykkur í þessu máli, ef þið kjósið með okkur í hinu“.(21)
Reglur setts réttar eru áreiðanlegar, þegar til skamms tíma er litið, þar sem þær eru skjalfestar og flestar sæmilega skýrar. Reglur venjuréttarins eru hins vegar áreiðanlegri, þegar til lengri tíma er litið, því að þær breytast hægar og auðveldara er að að spá fyrir um hverjar þær verða eftir nokkur ár.

Venjuréttur felur einnig í sér meiri hagnýta þekkingu en settur réttur. Það skiptir ekki máli hve duglegir þingmenn eru að safna upplýsingum um síbreytilegar aðstæður í þjóðfélaginu. Þeir geta aldrei safnað nógu mikilli þekkingu til þess að geta fundið þær reglur sem eru heppilegastar til að auðvelda gagnkvæma aðlögun margra ólíkra einstaklinga. Venjuréttur geymir hins vegar í sér reynslu miklu fleiri einstaklinga en þingmenn geta náð til, með því að „myndast við aðferð happa og glappa, óteljandi tilraunir fólks til að laga sig að síbreytilegum aðstæðum“. Þessi rök fyrir venjuréttinum eru í samræmi við það sem Kató hinn gamli brýndi fyrir Rómverjum:
Ríki vort er á hinn bóginn ekki sköpunarverk neins eins manns, heldur margra. Það er ekki stofnað á einni mannsævi, heldur hefur það vaxið upp og þróast á mörgum mannsöldrum. [. . .] Það hefur aldrei verið uppi sá snillingur, að hann hafi séð allt fyrir. Jafnvel þótt vér gætum safnað allri þekkingu saman í huga eins manns, væri honum ókleift að sjá við öllu, því að hann hefði ekki þá hagnýtu kunnáttu til að bera, sem myndast smám saman við reynslu manna í langri sögu.(22)
Að lokum ber að minnast á það að lagahugtak hins setta réttar er valdboð óháð siðareglum, skynsemi, réttlæti og hagkvæmni, öfugt við venjuréttinn, sem hefur að geyma reynsluvit kynslóðanna og er hreinlega ofinn úr siðareglum, skynsemi, réttlæti og hagkvæmni fyrir langa þróun. Nátengt þessu er að venjurétturinn takmarkast af sjálfum sér, eins og áður segir, en sá annmarki er á hinum setta rétti að hann gerir það ekki.

Lokaorð

Íslenska goðaveldið stóð óslitið í um það bil tvö hundruð ár og þjóðveldisöldin í rúm þrjú hundruð ár. Það er langur tími í stjórnmálasögunni og til samanburðar má nefna að líftími Sovétríkjana var aðeins um það bil 70 ár.

Þjóðveldisöldin á Íslandi var mikið menningarlegt blómaskeið. Þá voru skapaðar bókmenntir sem teljast til mestu listaverka mannsandans og eru lesnar um allan heim. Vegna þeirra mun sagan aldrei gleyma þeim 50-70 þúsund manna hópi sem byggði landið á þjóðveldisöld.

Hver þjóð á sína gullöld. Gullöld Grikkja var á 5. öld fyrir Krist, gullöld Frakka var á 17. öld, gullöld Dana var á fyrri helmingi 19. aldar, gullöld Norðmanna var á síðari helmingi 19. aldar, en þjóðveldisöldin var gullöld Íslendinga. Í því ljósi ætti hver Íslendingur að skilja trega Sigurðar Nordals þegar hann lætur eftirfarandi orð falla:
Auðvitað gátu Íslendingar ekki um 1260 séð fyrir, hversu miklar afleiðingar og illar friðkaupin við Hákon gamla mundu hafa á næstu öldum. En þau voru eigi að síður frá sjónarhorni samtímans ósamboðin þjóð, sem var frá fornu fari stórlát og harðfeng og hafði lengi búið að fullu sjálfstæði og merkilegri menningu. Talið er, að á tímabilinu frá 1208-1260 hafi um 350 menn fallið í bardögum eða verið teknir af lífi á Íslandi. Ófriðurinn var ekki mannskæðari en svo. Að vísu urðu menn fyrir ýmsum ófarnaði af honum, limlestingum, sárum, misþyrmingum, ránum, erfiði og kostnaði, og framar öllu hefur þeim verið leið óvissan um, hvað einatt gæti borið að höndum. En þungar voru þessar hörmungar ekki í samanburði við það, sem margar þjóðir fyrr og síðar hafa verið fúsar til að þola til varnar sjálfsforræði sínu. Sé þess gætt, að talsverðar róstur mundu hafa verið í landinu án tilverknaðar konungs, engum hinum hörðustu ráðum hafði verið beitt, hernaði á landið eða farbönnum af hálfu konungs né bannlýsingu landsins af kirkjunnar hálfu, – verður ekki með sanni sagt, að Íslendingar hafi verið dýrseldir á frelsið. Sigraðri þjóð væri ekki láandi, þótt hún hefði orðið að sætta sig við jafnlélega kosti sem að fela friðgæzluna því valdi, sem undanfarna áratugi hafði haft úti allar klær til að spilla friðnum. En Íslendingum hefði verið vorkunnarlaust að þrauka enn um skeið og láta skeika að sköpuðu, hvort þeir gætu ekki staðið af sér harðara él, ef yfir skylli.(23)
Í hugleiðingum sínum um þjóðveldið segir Sigurður einnig:
Líklega farnast hverjum manni svo best, að hann telji sig gæfumann og eina af brýnustu skyldum að una hlutskipti sínu, landi, þjóð og samtíð, þótt hann reyni að bæta um það allt.(24)
Við erum ekki uppi á þjóðveldisöld, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þó að Íslendingum hafi tekist að lifa og starfa án ríkisvalds, meðal annars vegna þess að óveruleg hætta var á innrás í landið, er ekki víst að nútíma Íslendingar geti sinnt réttarvörslu án ríkisvalds og í raun mjög ólíklegt. Ríkið er staðreynd, sem við verðum að una, þótt við reynum að bæta það og takmarka vald þess til að ráðskast með borgarana.

Gæfan var ekki hliðholl þjóðinni eftir lok þjóðveldisaldar. Þegar að Íslendingar endurheimtu fullveldi sitt og sjálfstæði sköpuðust skilyrði fyrir endurreisn og gæfan gekk í lið með þeim á ný eftir að frjálslyndum stjórnmálaviðhorfum óx ásmegin á síðasta áratug tuttugustu aldar. Íslendingar eru um þessar mundir komnir í allra fremstu röð meðal þjóða heims og framtíðin er björt ef vel er haldið á spilunum. Ný gullöld er hafin.

Neðanmálsgreinar

(1) Sigurður Líndal: Lög og lagasetning í íslenzka þjóðveldinu, bls. 149
(2) Hannes H. Gissurarson: Stjórnmálaheimspeki, bls. 93
(3) Sigurður Líndal: Lög og lagasetning í íslenzka þjóðveldinu, bls. 150
(4) Sigurður Líndal: Lög og lagasetning í íslenska þjóðveldinu, bls. 150
(5) Hannes H. Gissurarson: Stjórnmálaheimspeki, bls. 105
(6) Íslenska alfræðiorðabókin H-O, bls. 170
(7) Kenningin um áhrif tíundar er aðallega sótt úr doktorsritgerð Birgis Þ. Runólfssonar, hagfræðings: „Institutional Evolution in the Icelandic Commonwealth“.
(8) Hannes H. Gissurarson: Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis, bls. 362-363.
(9) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 340
(10) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 336-337
(11) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 337
(12) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 340
(13) Stuðst við kafla eftir Gunnar Karlsson í Sögu Íslands II
(14) Stuðst er við kafla eftir Gunnar Karlsson í Sögu Íslands II
(15) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 338
(16) Stuðst er við kafla eftir Gunnar Karlsson í Sögu Íslands II
(17) Gunnar Karlsson: Saga Íslands II, bls. 51
(18) Gunnar Karlsson: Saga Íslands II, bls. 51-52
(19) Björn Þorsteinsson og Sigurður Líndal: Saga Íslands III, bls. 39
(20) Hannes H. Gissurarson: Stjórnmálaheimspeki, bls. 97
(21) Hannes H. Gissurarson: Stjórnmálaheimspeki, bls. 100
(22) Hannes H. Gissurarson: Stjórnmálaheimspeki, bls. 102
(23) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 340-341
(24) Sigurður Nordal: Íslensk menning í Fornum menntum I, bls. 173-174

Heimildaskrá

Birgir Þór Runólfsson. 1993. „Institutional Evolution in the Icelandic Commonwealth“. Constitutionnal Political Economy.

Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson. 1991. Íslands saga til okkar daga. Sögufélag, Reykjavík.

Björn Þorsteinsson og Sigurður Líndal. 1978. Saga Íslands III. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Gunnar Karlsson. 1975. Saga Íslands II. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Hannes H. Gissurarson. 1997. Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Hannes H. Gissurarson. 1999. Stjórnmálaheimspeki. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Íslenska alfræðiorðabókin H-O. 1990. „Ísland“. Örn og Örlygur, Reykjavík.

Sigurður Líndal. 1984. „Lög og lagasetning í íslenska þjóðveldinu.“ Skírnir. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Sigurður Nordal. 1942. Íslensk menning. Mál og menning, Reykjavík.
..
>> Lesa

sunnudagur, október 10

Mungát

H?fundurKvæðið Mungát eftir Einar Benediktsson birtist í Hvömmum, sem kom út árið 1930.

Svo há og við er hjartans auða borg,
að hvergi kennir rjáfurs eða veggjar.
En leiti ég manns, ég lít um múgans torg;
þar lifir kraftur, sem minn vilja eggjar.
Hvað vita þessir menn um sælu og sorg,
er supu aldrei lífsins veig í dreggjar.
Ég þrái dýrra vín og nýja vini,
og vel mér sessunaut af Háva kyni.
..
>> Lesa

laugardagur, október 9

Kvartett Kára Árnasonar á Borginni, 7. október

H?fundurSigurður Flosason: saxófónn
Ómar Guðjónsson: gítar
Agnar Már Magnússon: orgel
Kári Árnason: trommur

Jazzklúbburinn Múlinn er underground og engum háður – og veit af því. Heimasíða Múlans lítur út eins og byrjendaverkefni í Frontpage og lógóið er eins og léleg eftirherma af Planet Pulse-merkinu sáluga. Fáir vita yfirhöfuð að Jazzklúbburinn Múlinn sé til. Kynningu hans og markaðssetningu á viðburðum er ekki ætlað að keppa við aðra afþreyingu sem höfuðborgarbúum stendur til boða í öllum þeirra lífsins Smáralindum.

En djassinn ratar til sinna. Í gærkvöldi sveif andi John Coltrane-kvartettsins yfir vötnunum á Borginni og gladdi hjörtu þeirra sem á hlýddu. Það væru ýkjur að segja að fullt hafi verið út úr dyrum á tónleikunum, en fjöldinn hæfði salnum ágætlega. Á efnisskránni voru mestmegnis lög af plötunum Crescent og A Love Supreme. Þessar plötur voru báðar gerðar 1964. Þá stóð yfir mesta blómaskeið Coltranes sem listamanns. Hann var leitandi listamaður og ekki einhamur í sköpun sinni; þrátt fyrir mikla velgengni kvartettsins hélt hann sífellt áfram að breyta um stíl og áherslur, og tók gjarnan óvænt skref. Snemma fékk hann það orð á sig að vera aggressífur og erfiður viðfangs í hlustun, en það er þó nokkur einföldun því tónlist hans einkennist bæði af miklum ákafa og lýriskri mýkt. Undirstaðan í flutningi kvartettsins var ekki síst goðsagnakenndur trommuleikur Elvin Jones, en hann lést fyrr á þessu ári.

Það þarf ekki minni saxófónleikara en Sigurð Flosason til þess að fara í fötin hans Coltranes. Sigurður ræður vel við sveiflurnar og klifrið sem einkenndi flutning Coltranes, átökin voru allmikil enda ekki um neina lyftutónlist að ræða. Hann var trúr þeirri einlægni og tilfinningasemi sem er aðalsmerki Coltranes. Kári Árnason trommuleikari hefur sótt margt til Elvins, forvera síns, og lifði sig rækilega inn í það sem hann var að gera. Dýnamíkin var svo raunveruleg að hann var búinn að missa kjuðann sex sinnum þegar ég hætti að telja. Því miður er salurinn á Borginni ekki sérhannaður fyrir svo öflugan trommuleik þannig að tilburðir Kára áttu það til að yfirgnæfa það sem var að gerast hjá félögum hans. Agnar Már Magnússon spilaði á rafmagnsorgel og uppfærði verk McCoy Tyners þannig í anda Jimmy Smiths með skemmtilegum árangri. Innlifun hans var líka mikil og hann lét sig ekki muna um að taka sólóið með því að spila á orgelið með vinstri og á flygil með hægri. Ómar Guðjónsson var samt langflottastur, eins og oft áður. Það er alltaf stíll yfir Ómari og gítarleikur hans er hófstilltari en hjá mörgum kollega hans. Þannig eftirlætur hann hlustandanum alltaf rými til að vinna með það sem hann gerir og er aldrei yfirþyrmandi.

Næstu tónleikar Jazzklúbbsins Múlans verða haldnir fimmtudagskvöldið 21. október á Borginni. Það verða útgáfutónleikar B3 Tríós á öðrum diski þeirra félaga. Fyrir þá sem hafa áhuga á að læðast bakdyramegin inn í undraheim djassins væri það fín hugmynd að láta sjá sig á tónleikum hjá Múlanum.
..
>> Lesa

Greinasafn

september 2004 október 2004 nóvember 2004 desember 2004 janúar 2005 febrúar 2005 mars 2005 apríl 2005