fimmtudagur, janúar 27

Davíð Stefánsson

Höfundur110 ár eru liðin frá fæðingu Davíðs Stefánssonar, skálds frá Fagraskógi í Eyjafirði. Davíð var eitt helsta skáld landsins. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Er rétt að fara örlítið yfir ævi hans og skáldferil í tilefni afmælis hans.

Davíð fæddist að Fagraskógi, 21. janúar 1895. Kenndi hann sig ávallt við æskuheimili sitt og varð það alla tíð fastur hluti af skáldnafni hans. Foreldrar hans voru Stefán Stefánsson bóndi og alþingismaður, og eiginkona hans, Ragnheiður Davíðsdóttir. Davíð var fjórði í röð sjö systkina. Fagriskógur var þá og er enn í dag eitt af helstu býlunum í Arnarneshreppi og mikið fremdarheimili. Ungur fór Davíð til náms í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, lauk hann gagnfræðaprófi 16 ára gamall, 1911. Davíð dvaldist í Kaupmannahöfn 1915-1916 og komst á skrið sem skáld. Fyrstu ljóð Davíðs birtust í tímaritum á þessu tímabili. Fór hann í lærdómsdeild Menntaskólans í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1919.

Sama ár kom fyrsta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir út. Með útkomu hennar var braut skáldsins mörkuð. Bókinni var tekið mjög vel og varð ein af helstu ljóðabókum aldarinnar. Setti mikið mark á sögu ljóðanna Eitt af fallegustu ljóðunum í þeirri bók er Stjörnurnar.

Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.

Honum fannst ekkert af öllu
yndi sér veita né ró
og allt vera hégómi og heimska
á himni, jörð og sjó.

Svo var það á niðdimmri nóttu,
að niðri á jörð hann sá,
hvar fagnandi hin fyrsta móðir
frumburð sinn horfði á.

Og þá fór Guð að gráta
af gleði; nú fann hann það
við ást hinnar ungu móður,
að allt var fullkomnað.

En gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er grét hann í fyrsta sinn,
eru stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn.

Haustið 1920 hélt Davíð til útlanda og dvaldi víðsvegar um Evrópu, t.d. á Ítalíu. Samdi hann þar fjölda fallegra ljóða og setti Evrópuferðin mikinn svip á aðra ljóðabók hans, Kvæði, sem kom út árið 1922. Davíð kenndi sögu við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1922-1924 en hélt þá til Noregs og var þar í nokkra mánuði. Hann kom heim síðar sama ár og þá kom út þriðja ljóðabókin, Kveðjur. Með henni festi Davíð sig endanlega í sessi sem eitt vinsælasta ljóðskáld landsins. Eitt þekktasta ljóðið í bókinni er Til eru fræ:

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.

Árið 1925 fluttist Davíð til Akureyrar þar sem hann bjó allt til æviloka. Hann varð bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri sama ár. Ennfremur reyndi hann þá fyrir sér við leikritagerð og hið fyrsta kom til sögunnar ári síðar, Munkarnir á Möðruvöllum. Næsta ljóðabók Davíðs kom út árið 1929 og bar heitið Ný kvæði. Eitt þekktasta ljóðið í þeirri bók er Kveðja:

Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál
er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur.
En seinna gef ég minningunum mál,
á meðan allt á himni og jörðu sefur.
Þá flýg ég yfir djúpin draumablá,
í dimmum skógum sál mín spor þín rekur,
Þú gafst mér alla gleði sem ég á.
Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur.

Svo kveð ég þig. En er þú minnist mín,
þá mundu, að ég þakka liðna daga.
Við framtíð mína fléttast örlög þín.
Að fótum þínum krýpur öll mín saga.
Og leggðu svo á höfin blá og breið.
Þó blási kalt og dagar verði að árum,
þá veit ég að þú villist rétta leið
og verður mín - í bæn, í söng og tárum.

Árið 1930 vann Davíð til verðlauna í samkeppni um Alþingishátíðarkvæði. Sá hluti kvæðisins sem helsta frægð hlaut er Sjá dagar koma:

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða. -
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.

Næsta ljóðabók Davíðs kom út árið 1933 og bar heitið, Í byggðum. Þóttu ljóðin í henni bera annan keim en þau sem áður höfðu komið út og vera nokkuð meiri félagsleg ádeila og horfa í aðra átt og sýna Davíð í öðru ljósi sem ljóðskáld. Ein þekktasta ljóðabók Davíðs, Að norðan, kom út árið 1936 og telst enn í dag marka mikil þáttaskil á ferli hans. Á þessum árum hóf hann að safna bókum af miklum áhuga og átti við ævilok sín á sjöunda áratugnum mikið safn bóka sem ættingjar hans ánöfnuðu Amtsbókasafninu. Að norðan markaðist vissulega af því að Davíð fór eigin leiðir í yrkisefnum og leitaði sífellt meir til fortíðar í yrkisefnum og hugsunum í ljóðlist. Vinsældir hans voru mestar á þessu tímabili og má fullyrða að bókin Að norðan hafi átt stóran þátt í hversu vel hann festist í sessi sem eitt helsta ljóðskáld aldarinnar. Eitt þekktasta kvæði bókarinnar er Þú komst í hlaðið.

Þú komst í hlaðið á hvítum hesti,
þú komst með vor í augum þér.
Ég söng og fagnaði góðum gesti
og gaf þér hjartað í brjósti mér.

Ég heyri álengdar hófadyninn,
ég horfi langt á eftir þér.
Og bjart er alltaf um besta vininn
og blítt er nafn hans á vörum mér.

Þó líði dagar og líði nætur,
má lengi rekja gömul spor.
Þó kuldinn næði um daladætur,
þá dreymir allar um sól og vor

Í kjölfarið fór Davíð í auknum mæli að leggja rækt við leikritagerð og skáldsagnaritun og sinnti því fleiru en ljóðunum. Árið 1940 kom út skáldsaga Davíðs í tveim bindum og bar heitið Sólon Íslandus. Fjallar hún um einn þekktasta flæking Íslandssögunnar, Sölva Helgason. Ári síðar gaf Davíð út leikritið Gullna hliðið, byggt á hinni þjóðkunnu sögu, Sálin hans Jóns míns, sem hann hafði áður ort um þekkt kvæði. Leikritið varð strax mjög vinsælt og urðu söngljóðin í leikritinu landsfræg í þekktum búningi Páls Ísólfssonar sem gerði við þau þekkt lög. Eitt hið þekktasta var Ég leiddi þig í lundinn:

Ég beið þín lengi lengi
mín liljan fríð,
stillti mína strengi
gegn stormum og hríð.
Ég beið þín undir björkunum
í Bláskógarhlíð.

Ég leiddi þig í lundinn
mín liljan fríð.
Sól skein á sundin
um sumarlanga tíð.
Og blærinn söng í björkunum
í Bláskógarhlíð.

Davíð hóf aftur að yrkja um miðjan fimmta áratuginn. Árið 1947 kom út ljóðabókin Nýja kvæðabókin. Skömmu síðar veiktist hann alvarlega og varð óvinnufær næstu árin. Í upphafi sjötta áratugarins samdi hann leikritið Landið gleymda. Tæpum 10 ár liðu á milli þess að Davíð gæfi út ljóðabók, árið 1956 kom út ljóðabókin Ljóð frá liðnu sumri. Það síðasta sem birtist eftir Davíð meðan hann lifði voru Háskólaljóð árið 1961. Síðasta ljóðabók Davíðs Stefánssonar kom út árið 1966, að honum látnum. Bókin bar hið einfalda nafn Síðustu ljóð. Í þeirri ljóðabók birtist það síðasta sem skáldið orti fyrir andlát sitt. Eitt þekktasta ljóðið í bókinni var ljóðið Vornótt, þar sem hann yrkir til heiðurs Eyjafirði.

Í nótt er gott að gista Eyjafjörð
og guðafriður yfir strönd og vogum.
Í skini sólar skarta haf og jörð
og skýjabólstrar slegnir rauðum logum.

Það veit hver sál, að sumar fer í hönd,
en samt er þögn og kyrrð um mó og dranga,
og hvorki brotnar bára upp við strönd
né bærist strá í grænum hlíðarvanga.

Svo ljúft er allt í þessum heiða hyl,
svo hátt til lofts og mjúkur barmur jarðar,
að víst er engin veröld fegri til
en vornótt björt í hlíðum Eyjafjarðar.

Davíð Stefánsson fluttist árið 1944 í hús sem hann reisti sér að Bjarkarstíg 6 á Akureyri. Þar bjó hann allt til æviloka. Eftir daga hans var húsið ánafnað Akureyrarbæ og þar er safn til minningar um hann. Húsið er varðveitt eins og það var er hann yfirgaf það síðasta sinni og er engu líkara en þegar gesturinn sem kemur til að líta þar inn og skoða heimili skáldsins en að viðkomandi sé gestur Davíðs en hann hafi í raun brugðið sér frá örskotsstund. Andi skáldsins er ljóslifandi í húsinu þó fjórir áratugir séu liðnir síðan hann yfirgaf það hinsta sinni. Þeir sem eiga leið um Akureyri eru eindregið hvattir til að líta í Bjarkarstíg 6 og kynna sér þetta merka hús, heimili sannkallaðs heimsmanns sem þrátt fyrir að vera sveitastrákur að uppruna varð sannkallaður veraldarmaður að lokum. Bý ég skammt frá Bjarkarstíg og fer ég oft á sumrin í safnið og á veturna er einnig oft gengið þar framhjá. Húsið er lítið en fullt af merkilegum sjarma sem er erfitt að lýsa í orðum. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

Á sextugsafmæli Davíðs, 21. janúar 1955 var Davíð sýndur sá heiður að hann var gerður að heiðursborgara Akureyrarbæjar. Er líða tók að ævilokum skáldsins varð hann sífellt minna áberandi. Hann sat oft heima við bókalestur og varð æ minna sýnilegur í skemmtanalífinu, en hann var rómaður gleðimaður og var þekktur fyrir að skemmta sér með veraldarbrag, eða ferðaðist sífellt minna um heiminn. Seinustu árin áttu Eyjafjörður og Akureyri hug hans allan, eins og sést af seinustu kvæðum hans og skrifum. Hugurinn leitaði heim að lokum. Fjörðurinn og það sem hann stóð fyrir að mati skáldsins var honum alla tíð mjög kær og jókst það sífellt eftir því sem leið að ævikvöldi hans. Í ljóðabókinni Að norðan, árið 1936 orti Davíð svo til Akureyrar, bæjarins sem hann síðar varð heiðursborgari í.

Bærinn stendur við botn á löngum firði
Bláir álar í sólskininu loga
Þó kann öðrum að þykja meira virði,
að þorskur og koli fylla alla voga.
Hvernig sem blæs, er fjörðurinn alltaf fagur.
Fáir heilluðu lengur gamla vini.
Hann skín, þegar ljómar á lofti heiður dagur
Hann leiftrar í stjarnanna dýrð og mánaskini.
Við borgarans augum blasa fjallatindar
brekkur og hlíðar vaxnar grænu lyngi.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þann 1. mars 1964, 69 ára að aldri. Seinustu árin hafði Davíð átt við veikindi að stríða og hafði kennt sér hjartameins sem að lokum leiddi hann til dauða. Akureyrarbær lét gera útför hans eins virðulega og mögulegt var og fór hún fram frá Akureyrarkirkju, þann 9. mars 1964. Mikið fjölmenni fylgdi Davíð seinasta spölinn. Hann var jarðsettur í kirkjugarðinum í sveitinni heima, að Möðruvöllum í Hörgárdal. Eins og sagði í upphafi var Davíð skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.
..
>> Lesa

laugardagur, janúar 22

„Þá er ég líka skáldsaga.“ Um Skáldsögu Íslands eftir Pétur Gunnarsson

HöfundurFyrir síðustu jól kom út bókin Vélar tímans sem er þriðja bindið í Skáldsögu Íslands, bókaflokki Péturs Gunnarssonar. Af því tilefni er gluggað hér í fyrri bindin tvö, Myndina af heiminum og Leiðina til Rómar, og reynt að rýna í eiginleika þeirrar frásagnaraðferðar sem höfundurinn kýs að nota.

Nafnið Skáldsaga Íslands gefur bersýnilega til kynna að hér sé um skáldverk að ræða, en þar með er ekki öll sagan sögð. Það þarf ekki að lesa lengi í Myndinni af heiminum eða Leiðinni til Rómar til að sjá að þar eru ekkei hefðbundin skáldverk á ferð, þótt skilgreiningin „skáldsaga“ sé nokkuð almennt viðurkennd á þeim í bókabúðum og á bókasöfnum, kannski ekki síst vegna fjölskyldusögunnar af Mána sem er tvinnuð saman við frásögnina. Skáldsaga Íslands býður upp á margvíslegar vangaveltur um það hvar mörk sagnfræðinnar liggja: Hvenær hættir sagnfræði að vera sagnfræði og byrjar að vera skáldskapur? Undirritaður ætlar sér ekki þá dul að veita svör við stórum spurningum eins og þessari. En rétt eins og hægt er að skoða Skáldsögu Íslands sem skáldsögu er sömuleiðis hægt að líta á hana sem sagnfræðilegt verk. Sú staðreynd að íslenskur rithöfundur á 21. öld skuli ákveða að feta sig eftir brautum íslenskrar miðaldasögu í skáldverki hlýtur að kveikja þá hugmynd hjá lesandanum að tilgangurinn sé að efla áhuga lesenda sinna á fræðunum – að „vekja hungur“. Er Skáldsaga Íslands kannski e.k. hungurvaka fyrir nútímaíslendinginn?

Sagnfræðin flæðir óneitanlega um allan textann í Skáldsögu Íslands, höfundur vísar víða í heimildir sínar, tilgreinir ártöl og „tjáir hið almenna“ (svo notað sé orðalag úr skáldskaparfræði Aristótelesar). Mikið er um staðhæfingar sem í hugum flestra lesenda tilheyra sagnfræðiritum og kennslubókum. Sú aðferð höfundarins að beita 1. persónu frásögn í fleirtölu á stöku stað myndar líka hugrenningatengsl við kennslubækur.

En skáldskapur sem kennslutæki er alls ekki ný hugmynd. Dídaktískur skáldskapur hefur verið tíðkaður í ýmsum myndum allt frá því að Hesíódos skrifaði Störf og daga um 700 f. Kr. Það sem hins vegar skilur bókaflokk Péturs Gunnarssonar frá hefðbundnum dídaktískum verkum er það hversu órætt viðfangsefni Péturs er. Störf og dagar Hesíódosar og Atli og Arnbjörg eftir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal eru leiðbeiningarit fyrir bændur og búalið. Markhópurinn er skýr og viðfangsefnið áþreifanlegt. Fyrirbæri eins og Íslandssaga eru hins vegar óáþreifanleg, ópraktísk, og forgengileg að því leyti að þau eru andlegt fóður. Sögukennsla í skólum hefur oft verið umdeild og áhugi nemenda á efninu jafnan takmarkaður. Það má því segja að Pétur Gunnarsson leggi höfundum sögukennslubóka lið með hinum nýja bókaflokki sínum þar sem eitt hans helsta hugðarefni virðist vera að auka áhuga lesenda sinna á því að fræðast frekar um efnið sem hann fjallar um.

Þótt orðræðan í Skáldsögu Íslands minni á kennslubækur, eins og sýnt var hér að ofan, eru aðferðirnar sem höfundur notar við að miðla sagnfræði sinni þó að mestu leyti óhefðbundnar, enda af ætt skáldskaparins. Gunnar Karlsson, einn reyndasti sögukennslubókahöfundur Íslendinga, hefur lýst muninum á sagnfræði og skáldskap með þessum orðum:
…[S]aga er, eða á samkvæmt reglunni að vera, búin til úr raunverulegum, sögulegum staðreyndum eingöngu. Af því leiðir svo að hvert nýtt fróðleiksatriði í sögu þarf að vera samrýmanlegt öllum sögulegum fróðleik sem vitaður er fyrir, eða hafna honum. Sá sem segir: Kristnitakan á Íslandi fór fram árið 999, hann er þar með að mótmæla öllum sem hafa tímasett hana árið 1000. Skáldskapur gerir þar enga slíka kröfu. Þegar Halldór Laxness kýs að kalla konu Magnúsar Sigurðssonar júnkæra í Bræðratúngu Snæfríði en ekki Þórdísi, eins og hún hét í raun og veru, þá er hann ekki að andmæla því sem segir í Sögu Íslendinga VI, s. 82. (Gunnar Karlsson: „Að læra af sögunni“)
Pétur Gunnarsson fer bil beggja í bókaflokki sínum. Líklega dettur engum í hug að atyrða hann fyrir að vera óljós, ónákvæmur, eða einhliða í vali sínu á þeim atburðum sem lýst er, hvað þá fyrir að tilgreina ekki nákvæma heimildaskrá. Myndin af heiminum og Leiðin til Rómar eru ekki fullnægjandi lýsing á öllu tímabilinu sem frásögnin spannar enda eiga þær ekki að vera það. Snorri Sturluson, Þórður kakali, Gissur Þorvaldsson og fleiri stórmenni sem tilheyra sögutímanum eru víðs fjarri. Pétur velur sjálfur fáeinar persónur og atburði þeim tengda sem hafa almennt ekki hlotið mikið pláss í sögukennslubókum, t.d. Hall Teitsson, Gissur Hallsson og Einar Hafliðason. Með þessari aðferð græðir hann bæði sem rithöfundur og sögukennari. Annars vegar eykst rýmið sem hann hefur fyrir eigin skáldskap, hið listræna frelsi er meira því eyðurnar sem þarf að skálda upp í eru fleiri. Hins vegar beinir hann sjónum lesenda að mönnum og málefnum sem þeir þekkja lítið sem ekkert. Sagan gæðir lífi fólk sem í flestra hugum hefur aðeins verið dauðir stafir á bók í áraraðir og þannig má líta á hana sem tilraun til þess að víkka hinn sagnfræðilega sjóndeildarhring lesandans.

Helsta einkennið á list og mælsku Skáldsögu Íslands er sú mikla áhersla sem lögð er á samruna fortíðar og nútíðar. Söguskoðun Péturs Gunnarssonar eins og hún birtist í bókunum einkennist umfram allt af þeirri hugmynd að öll mannkynssaga sé samfelldur tími. Raunveruleiki nútímans er á sama plani og fortíðin vegna þess að á vissan hátt er allur tími fortíð, öll skoðun hluta er í raun skoðun á fortíðinni. Leiðin frá viðfanginu um upplýsingamiðilinn til viðtakandans hlýtur að taka tíma og því skoðum við raunveruleikann alltaf eins og hann var, ekki eins og hann er. Í fortíðarlýsingunum eru hvarvetna viðlíkingar við samtímann þar sem líkindi eða mismunur aðstæðna er dreginn fram. Oftast nær er vísað í almennt ástand, daglegt líf, viðteknar hugmyndir eða skoðanir nútímamanna:
En ferðalög eru Íslendingum skeinuhætt á miðöldum, þeir eru ekki komnir með fulla aðild að sóttkveikjusambandi álfunnar og því berskjaldaðir fyrir pestum meginlandsins. (Leiðin, bls. 10)
Samkvæmt kokkabókum kirkjunnar er Hallur á Saga Class til himnaríkis. (Leiðin, bls. 25)
Einnig er vísað í einstaka atburði eða fólk úr nútímanum:
Svo líður tíminn, átta hundruð og fimmtíu ár, og það þarf að tyggja tíðindin ofan í háttvirta áheyrendur: Tvíburaturnar? Alkaída? Ússama bin hvað?
Þegar George Bush 2. hélt herhvöt sína þar sem hann boðaði til krossferðar í Afganistan var engu líkara en hann hefði stigið ofan á líkþorn í löndum múslima. (Leiðin, bls. 28–9)
Eins og sjá má er víða stutt í húmorinn. Sögumaðurinn endursegir fornar heimildir á gamansaman hátt, bæði með því að nota eigið orðalag og einnig með því að koma með beinar tilvitnanir og skýringar fyrir framan eða aftan. Stundum eru heimildirnar jafnvel gerðar hjákátlegar með gildismati sögumanns á eftir tilvitnunum í þær, t.a.m þar sem sýnt er hvernig höfundur Jóns sögu helga ber í bætifláka fyrir þau tvö hjónabönd sem Jón Ögmundsson var í. Málfarskenndar athugasemdir eins og „obb–obb–obb!“ og „Hvernig læt ég.“ hjálpa enn fremur til við að grafa undan heilagleikanum sem einkennir fornrit á borð við Jóns sögu helga. Textinn snýst hér upp í kennslu í gagnrýnum vinnubrögðum. Sögumaðurinn tekur sér stöðu við hlið lesandans og í sameiningu gera þeir góðlátlegt grín að hinum nafnlausu miðaldahöfundum. Jafnalvarlegri bókmenntategund og biskupasögum er kippt niður á annað plan sem stendur lesandanum nær. Þrátt fyrir allt fjalla biskupasögurnar um menn og eru skráðar af mönnum.
Sögumaðurinn er sjálfur lesandi og allvíða ber hann upp spurningar fyrir hönd viðmælenda sinna, rétt eins og vandvirkur höfundur sögukennslubóka ætti að gera. Alþýðlegt málfar og slettur eru svo enn einn þátturinn í aðferð höfundarins við að höfða til lesenda sinna. Þetta er hluti af samrunanum á milli nútíðar og fortíðar sem er svo víða áberandi. Orð eins og „brillera“ og „by the way“ sóma sér ekki vel í akademískum sagnfræðiritum – þau tilheyra annars konar stíl. Með því að tjá athafnir miðaldamanna á svo nútímalegu máli er fræðunum miðlað til fólks sem annars hefði líklega farið á mis við þau.

En samruninn sem Skáldsaga Íslands leitast við að skapa tekur ekki aðeins til tíma heldur líka staða. Atriði úr íslandssögu og mannkynssögu eru spiluð á víxl og er sannsögulegum atburðum úr ólíkum áttum þannig slegið saman í eitt. Dæmi um þetta er ferð Einars Hafliðasonar til Avignon. Hann hittir ítalska skáldið Petrarca sem bjó þar á 14. öld. Engar heimildir segja frá því að fundum þessara tveggja manna hafi nokkru sinni borið saman. En það er vitað að Einar Hafliðason fór til Avignon skömmu fyrir miðja 14. öld – á þeim tíma sem Petrarca bjó þar. Svona samspil milli persóna í skáldskap og sögulegra persóna er ekki með öllu óþekkt. Nefna má t.d. bandarísku ævintýrahetjuna Indiana Jones sem er aðalpersónan í ófáum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Á ferðum sínum hefur Jones hitt nokkra af þekktustu mönnum 20. aldarinnar, t.a.m. Sigmund Freud og Adolf Hitler. Kennslufræðilegt gildi aðferðarinnar er augljóst í Skáldsögu Íslands. Með henni tekst höfundi að samstilla sögu Íslands og umheimsins, og virkjar hann þannig lesandann til þess að tengja saman tvær (eða fleiri) atburðarásir. Íslandssagan heldur áfram út í mannkynssöguna.

Af framansögðu sést að Skáldsaga Íslands er ekki bara kennslubók í sögu. Hún er líka tilraun til þess að afsanna þá hugmynd að fornar bókmenntir séu alltaf óhæfari til að fullnægja kröfum nútímamannsins heldur en bókmenntir sem eru miðaðar sérstaklega við þarfir hans. Heiti bókaflokksins er í sjálfu sér ákveðin yfirlýsing um stefnu höfundarins. Líkt og miðaldahöfundar gerir hann engan greinarmun á sögu sem bókmenntaverki og sögu sem vísindagrein. Skáldskapur og raunveruleiki eru eitt og hið sama, rétt eins og fortíð og nútíð:
En eins og jafnan er um þá sem eru allir er gervöll ævi þeirra undir á sérhverju andartaki. Sem að vísu gildir um alla menn, við sem drögum andann núna erum í senn fortíð okkar og framtíð – við erum það sem er í vændum – einungis á það eftir að verða. (Leiðin, bls. 51)
Þessu verður vart betur lýst en með tilsvari bátsmannsins í Myndinni af heiminum þegar Máni heldur því fram að Njála sé skáldsaga:
Þetta er nú víst bara skáldsaga.
Skáldsaga! hváði bátsmaðurinn í þilfarstón og hallaði sér út yfir kojuna svo öfugt andlitið gein við mér, ábyggilega ekki frýnilegra en Skarphéðins í brennunni.
Þá er ég líka skáldsaga, sagði hann um leið og hann rétti sig upp og ég heyrði hann bylta sér og bölva alltof stuttu teppi. (Myndin, bls. 147)


Helstu heimildir:
Brynhildur Ingvarsdóttir. 1998. „Hverjum þjónar sagnfræðin?“ Íslenska söguþingið 28.–31. maí 1997: Ráðstefnurit II, bls. 68–74. Ritstjórar Guðmundur J. Guðmundsson og Eiríkur K. Björnsson. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Sagnfræðingafélag Íslands, Reykjavík.
Gunnar Karlsson. 1992. „Að læra af sögunni.“ Að læra af sögu: Greinasafn um sögunám, bls. 95–100. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
Pétur Gunnarsson. 2002. Leiðin til Rómar. Mál og menning, Reykjavík.
Pétur Gunnarsson. 2000. Myndin af heiminum. Mál og menning, Reykjavík.
Steblin-Kamenskij, M.I. 1981. Heimur Íslendingasagna. Helgi Haraldsson þýddi. Iðunn, Reykjavík.
..
>> Lesa

fimmtudagur, janúar 20

Sjaldan launar kálfurinn ofeldið

Höfundur-Blóð og bein- Chi to Hone
Það er svo margt líkt með borgarísjaka og menningu, hvort sem um borgarmenningu eða annarskonar menningu er að ræða. Rétt eins og ísjakarnir eru margir og ólíkir hver öðrum að lögun er landlægur mismunur milli einkenna menningar samfélaga, sem eru í raun fjölda mörg. Hvorki er ein afrískmenning né ein evrópskmenning. Ekki er einn ísjaki í norðri og þaðan af síður einn í suðri. Sama hvað við sjáum mikið á yfirborðinu er svo margt og svo miklu meira dulið fyrir okkur undir niðri. Nokkuð sem þarf skilning og þolinmæði til að átta sig á.
„Tíminn líður hratt á gervihnatta öld“
Með auknu áreiti fækkar tækifærum til slökunar. Þegar önnum köfnum manninum er orðið svo tamt að leita ekki lengur af bókum tillestrar, heldur horfa bara á það sem honum er skammtað vilja margir staldra við og hugleiða hvort rétt braut sé af mannkyninu rötuð. Ætlaði Hafnfirðingurinn ekki að bíða eftir kvikmyndinni í stað þess að kaupa Íslensku Alfræðiorðabókina.

„Að horfa á kvikmynd er góð skemmtun“
Það er alltaf skemmtilegra að geta slegið fleiri flugur í færri höggum en öfugt. Ef skemmtuninni fylgir einhver fræðsla getur maður snúið ánægðari fyrir vikið heim að loknu áhorfi. Á síðasta ári var frumsýnd kvikmynd sú fyrsta sinnar tegundar, er opnar augu áhorfanda fyrir sambandi milli eins af möndulveldum hins illa og þeirrar þjóðar sem stendur í hvað mestu stappi við það möndulveldið.

Svart/hvítt
Fólk er sagt hata annað fólk, en fyrilítur það kannski frekar eða fordæmir það. Eitt þekktasta dæmi um slíkt hatur hóps fólks á öðru fólki, kemur reglulega fram í kvikmyndum af vestanverðu Vínlandi. Einnig hefur samskonar hatur verið fyrirferðamikið í Evrópu. Grunnur þessa haturs liggur oftar en ekki í því hve ólíkt fólkið er á yfirborðinu og í sumum tilfellum reka menn tærnar í trúarbrögð. Í Danmörku sáust fyrir um áratug límmiðar með áletrun sem sagði – lækkum skatta, skjótum Færeying(a) – eða eitthvað á þá leið. Í því tilfelli er hvorki hægt að kenna um ólíku útliti né öðruvísi trúarbrögðum. Samskonar tregðu í samskiptum fólks má finna í Japan. Þó kurteisin og viðmótsþýðan hylji í flestum tilfellum það sem opinskáum Dönum gæti dottið í hug að segja hvar og hvenær sem er. Færeyingar Japana eru Kóreubúar. Margur Kóreumaðurinn býr við góðan aðbúnað í góðu yfirlæti í Japan, en því er ekk að heilsa á heimili allra þeirra sem frá Kóreu koma til Japans. Hinsvegar er hálf Kórea frjáls frá Japönum en hálf var fjötruð af kommúnisma í loks seinna stríðs. Það breytir því ekki að hátt í milljón Kóreubúa eða fólks ættaðs frá Kóreuskaganum býr nú í Japan. Nú er því svo komið að þeir sem voru fæddir í Kóreu eru í hverfandi minnihluta. Drjúgur hluti Kóreubúanna í Japan kemur frá nyrðri hluta Kóreu. Norður-Kóreubúum er ógerlegt að gerast Japanskir ríkisborgarar í staðinn fá þeir að reka það sem Japönum er óheimilt, fjárhættuspil. Kóreubúarnir hafa hagnast vel á spilakassarekstri í Japan og senda bróður part gróðans heim til Norður Kóreu, svo fólkið þar fái gagnast af striti þess sem hélt að heiman í árdaga. Á sama tíma og japönsk stjórnvöld fóstra fjármagns-innflutning til Pyongyang, standa þau í stappi við Kim og undirsáta hans með að endurheimta Japani sem var rænt í Japan og fluttir nauðugir til Norður Kóreu. Þannig brjóta Norðurkóresk stjórnvöld reglu þægðarinnar - að bíta hvorki né berja þann sem fæðir mann og klæðir. Því á sama tíma og Kim og félagar þiggja fjármagn frá Japan, gætu þeir verið að hlaða vopnin sem beint er að Tokyo og því hafa Japönsk stjórnvöld fáa kosti í vítahring þessum.

Laun kommúnismans er dauði
Í kvikmynd Yoichi Sa, Blóð og bein, er rakin saga Kóresks manns, Shunpei,, sem leikinn er meistaralega af Takeshi Kitano. Kvikmyndin er byggð á samnefndri skáldsögu Sogiru Yan. Shunpei er fyrirlitinn af japönskum samborgurum sínum fyrir uppruna sinn eins og er með marga Kóreubúa. Hann verður auðugur á fé sem hann sendir reglulega til Norður Kóreu – hann styrkir málstaðinn –, því ekki hugnast honum fósturlandið, þó þar verði hann öllu auðugri en honum er unnt að verða í sínu föðurlandi. Reiði hans vegna stöðu hans í samfélaginu brýst út í ofbeldisverkum sem hann vinnur ítrekað á sínum nánustu. Ef laun heimsins er vanþakklæti eru laun kommúnismans dauði. Því söguhetjan snýr, eins og nokkur dæmi eru um, aftur til Pyounyang, þar er honum þakkað fyrir fjárframlögin með fábrotnu lífi hvar skorturinn skefur lífsgleðina algerlega af brauðstritinu. Myndin er myrk en eftirminnileg.

Þó Shunpei komi upphaflega frá syðri hluta Kóreu þá fórnar hann einum sona sinna fyrir málstaðinn, horfir á eftir honum norður, þar sem gleðin yfir því að fá að byggja upp nýtt land að loknu stríði og japönskum yfirráðu. Frá honum heyrðist ekkert þrátt fyrir ást og fögur fyrirheit um að tengslin skyldu halda heim til föðurhúsa þrátt fyrir fjarlægð. Suður Kórea hefur ávalt haft góðsamskipti viðjapönsk stjórnvöld, sú staðreynd hafði ef til vill eitthvað með það val að gera að vinsemdin beindist norður.

Myndin lýsir lífshlaupi Shunpeis frá því að hann kemur sem ungur maður til Japan uns hann deyr í Norður Kóreu. Í Osaka verður Shunpei sér fljótlega út um eiginkonu, henni til allrar óhamingju. Hann situr á fót matvælaframleiðslu og stýrir henni með harðri hendi. Allt tal um illan aðbúnaður starfsmanna Impregilo við Kárahnjúka er lélegur brandari í samanburði framkomu Shunpeis við starfsmenn sína. Shunpei tekur á móti lausaleiks króga sínum með sínum hætti og fer það svo að lokum að sá er flæmdur á brott af heimili föðurins.

Fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott
Ekki þurfa áhorfendur að bía lengi uns Shunpei dregur inn í fjölskyldu lífið hjákonu sem hann gerir eiginkonu sinni að þjónusta. Þegar heimtufrekja og hroki Shunpeis gengur fram af hjákonunni þá sýnir illmennið einhverskonar vott af manngæsku. Hann fær sér aðra hjákonu til að þjóna þeirri fyrri. Þetta var eina dæmið sem sannaði það að enginn er alillur.

Af rekstri sínum græðist honum nokkuð fé samt sem áður skamtar hann fjölskyldu sinni skorpu brauðmola ekki hætis hót umfram það. Síðar færir hann út kvíjarnar og hefur okurlána starfsemi, hvar útlendingurinn stendur í viðskiptum við glæpaklíkur Japans. Þá fáum við að sjá góða glefsu af skapfestu Shunpeis með eftir minnilegu blóðmjólkunar atriði. Atburðar sem leiddi til sjálfmorðs skuldarns, svo harkalega gekk hann fram.

Shunpei horfir á eftir fjölskyldu sinni, eigin konu yfir móðuna miklu og svo hjákonu og börnum út um hvippinn og hvappinn. Þá fer það svo að þar sem elsdti sonurinn hefur með öllu gerst föður sínum afhuga og hyggur á egið líf þegar móðir hans gefur upp öndina. Shunpei skilur fálæti sonar síns ekki og vill hann með sér til fyrirheitna landsins Norður Kóreu. Því stelur Shunpei yngsta syni sínum af seinnin hjákonunni og flytur hann nauðugan með sér til Kims í Kóreu nyrðri, hvar feðgarnir lifa við sult og seyru og loks líður illmennið útaf hvar sonur hans vil fremur verða sér útt um örlitla næring en að veita Shunpei nábjargirnar.

Blóðið rennur og bein brotna í myndinni, vegna vilja og vonsku höfuðs fjölskyldunnar. Það er ekki öllum gert að lifa við slíkar aðstæður. Fjölskyldan brestur undan álaginu. Illskunni linnir ekki fyrr en Shunpei gefur loks upp öndina. Myndin er sannarlega um djöful í mannsmynd. Sem eirir varla nokkrum sköpuðum hlut.
..
>> Lesa

þriðjudagur, janúar 18

Vísindabyltingin og rætur hennar í fornöld og á miðöldum

HöfundurMeðal þeirra bóka sem gefnar voru út fyrir jólin en létu lítið fyrir sér fara í jólabókaflóðinu var bókin Vísindabyltingin og rætur hennar í fornöld og á miðöldum. Höfundur bókarinnar er Andri Steinþór Björnsson en Háskólaútgáfan gefur bókina út, sem skýrir ef til vill hvers vegna lítið fór fyrir henni í jólabókaflóðinu. Af inngangi bókarinnar má skilja að höfundur hennar sé menntaður sálfræðingur þó hann hafi lagt áherslu á vísindasögu í meistaranámi. Einhverjir kynnu að halda að til að rita verk um vísindasögu hefði þurft vísindasagnfræðing, vísindaheimspeking eða raunvísindamann með sérhæfingu í þeim kenningum sem teknar eru fyrir í bókinni. Andri Steinþór segir strax í formála: “[É]g var nemi í sálfræði, ekki í eðlisfræði eða stærðfræði, líffræði eða jarðfræði. Ég hef alltaf trúað því að það væri kostur að vera ekki með formlega menntun í þessum greinum, því að ég hefði betri skilning á því en innvígðir hvað þyrfti að skýra út fyrir almennum lesendum”. Bókinni er einmitt ætlað að vera skemmtileg og skýr umfjöllun um vísindabyltinguna sem varð á 16. og 17. öld þegar vísindi náðu fótfestu í vestrænum samfélögum og gjörbreyttu þeim, sem og heimsmynd manna. Bókin er skrifuð fyrir almenning – þ.e. alla þá sem ekki eru menntaðir vísindasagnfræðingar – og á erindi til allra þeirra sem áhuga hafa á vísindum af öllu tagi – sem og þeirra sem kaupa eingöngu bækur sem lúkka vel í hillu því kápan er sérlega smekkleg.

Efni bókarinnar er einnig víðfemt. Bókinni er skipt í átta kafla, sem eru: Inngangur, Frumherjar skýringarvísindanna, Gullöld heimspekinnar, Stærðfræðigreinarnar í lok fornaldar, Miðaldir, Endurreisnartíminn, Vísindabyltingin og Sólmiðjukenningin. Eins og sjá má af þessari upptalningu fjallar efni bókarinnar ekki eingöngu um atburði á 16. og 17. öld heldur er einnig fjallað ítarlega um rætur hennar í fornöld og á miðöldum eins og titill bókarinnar gefur til kynna. Þar er m.a. fjallað um upphaf og þróun heimspekinnar og þar á meðal helstu hugsuði forn-Grikkja, stjörnufræði og stærðfræði allt frá helleníska tímabilinu og þar til Galíleó og Kepler fóru að vinna með Sólmiðjukenningu Kóperníkusar og Tycho Brahe og Ísak Newton lögðu sitt af mörkum til þróunar vísindanna. Auk þess að fjalla er um kenningar fyrrnefndra vísindamanna sem og margra annarra fylgir stutt æviágrip þeirrra. Þar að auki tekur höfundur fyrir þróun vísindanna á nokkrum svæðum, m.a. í bæði vestur og austur Evrópu sem og vísindi í Íslam á miðöldum. Bókin er einnig prýdd fjölda ljósmynda og teikninga sem gefur henni lifandi svip og eykur fjölbreytni hennar töluvert.

Höfundur þessa pistils verður nú að játa það á sig að vera hvorki menntaður í vísindasögu né vísindaheimspeki heldur er hann menntaður, eins og höfundur bókarinnar, í félagsvísindum. Þar af leiðandi er ógerningur fyrir undirritaðan að leggja faglegt mat á innihald bókarinnar. Það er hins vegar nauðsynlegt að segja að hafi markmið höfundar verið að skrifa aðgengilegan, áhugaverðan og skemmtilegan texta fyrir almenning þá hefur það svo sannarlega tekist. Það verður að teljast nokkuð afrek að gefa út glæsilegt rit á íslensku um þetta efni. Þó vandað hafi verið til verka í alla staði er alveg óvíst að eftirspurnin sé næg til að verkið standi undir sér án styrkja. Bókin er því hvalreki á fjörur þeirra sem unna vel skrifuðum fræðibókum og hún mun lifa mun lengur en margar metsölu-skáldsögurnar sem komu út fyrir þessi jól.
..
>> Lesa

sunnudagur, janúar 16

Murder on the Leviathan eftir Boris Akunin

Höfundur
Ef lesendur sögunnar upplifa löngun eftir fleiri sögum um Fandorin. þá er ekki að örvænta, því Árni Bergmann hefur þýtt tvær aðrar bækur um hann; Ríkisráðið og Krýningarhátíðin. Eftir það er víman búin og við tekur löng og ströng bið eftir næsta skammti.
Svohljóðandi voru lokaorðin í umfjöllun minni um Vetrardrottninguna eftir rússneska rithöfundinn Boris Akunin. Augljóslega var Akunin gjörsamlega búinn að heilla mig og fanga sem einhver skemmtilegasti spennusagnameistari dagsins í dag. Löngunin og þráin eftir næsta skammti var hins vegar farin að kvelja mig og hrjá. Ég reyndi að fylla þetta tómarúm með kvikmynda þrillerum og öðrum höfðingjum spennufrásagnarinnar á borð við Dan Brown og Arthuro Peréz-Reverte. Allt kom fyrir ekki, og að lokum var það lágt gengi dollars sem sannfærði mig um að koma höndum yfir enn eina söguna af Erast Petrovitsj Fandorin í gegnum veraldarvefinn. Nú var ekki aftur snúið og eftir eina viku eða svo voru hreyfðust augu mín taktfast í lestri á vímugjafanum.

Sagan ber titilinn Murder on the Leviathan í enskri þýðingu, ekki veit ég hvernig væri best að útfæra þetta yfir á tungu vora, og er því kannski bara best að ég sleppi slíkum tilraunum. Sagan hefst með inngangi i formi lögregluskýrslu þar sem lýst er skelfilegu fjöldamorði í París. Ein af vísbendingunum sem finnst á morðstaðnum leiðir franska lögreglustjórann „Papa“ Gauche í átt til farþegaskipsins Leviathan, gufuknúnu tækniafreki og risavirki á sínum tíma. Gauche ákveður að dulbúa sig sem einn af farþegum skipsins þar sem hann er handviss um að morðinginn sem hann leitar sé um borð. Þegar gufuferlíkið hefur viðkomu við Kalkúttahöfn bætist í farþegahópinn ungur rússneskur diplómat. Erast Fandorin nefnist ungi herramaðurinn sem nýlega hafði þotið upp rússneska titlastigann eftir að hafa flett ofan af kaldrifjuðu glæpakvendi, svokallaðri Vetrardrottningu. Með undraverðri athyglisgáfu sinni er Fandorin ekki lengi að átta sig á hinum franska Gauche og býður honum aðstoð sína. Saman reyna þeir síðan að leysa ráðgátuna um hver hafi framið morðin í París, til þess eins að því virðist að koma höndum yfir ómerkilegan silkiklút.

Þessi saga er ólík öðrum sögum um Fandorin að því leyti að hér skiptist sjónarhornið á milli persóna sem samtímis liggja undir grun hjá þeim Fandorin og Gauche. Þannig fær lesandinn að sjá hverja persónu frá ólíku sjónarhorni. Kaflaskiptingin fer eftir því hver er í aðalhlutverki og er nánast breytt um frásagnaraðferð í hvert einasta sinn, stundum er frásögnin í formi bréfaskrifta, lögregluskýrslna, dagbóka eða í höndum hefðbundna sögumanna í þriðju eða fyrstu persónu. Með slíkri byggingu öðlast lesandinn ákveðna nálægð við persónur sögunnar sem er hrifsuð í burtu strax í næsta kafla. Lesandinn verður einnig vitni að ýmsum atburðum og hugsunum sem persónurnar reyna að dylja hvor fyrir annarri. Hins vegar er aldrei skyggnst inn í hugarheim aðalpersónunnar, Fandorins, heldur er fylgst með honum athafna sig úr fjarlægð í gegnum hina grunuðu. Þessi frásagnarmáti er skemmtilegri en ekkert sérstaklega góður. Ýmsir vankantar fylgja því að segja sögu á þennan hátt en mér finnst Akunin takast ágætlega upp með þetta, og á köflum er eins og maður finni fyrir því hversu vel höfundurinn skemmti sér við uppbyggingu fléttunnar.

Hinir grunuðu eru allir hluti af sama matsalnum og sameinast því við hverja máltíð. Hópurinn er litskrúðugur og þar er meðal annars að finna dularfullan japanskan samúræja, undarleg hjón, sagnfræðiprófessor, ólétta hefðarfrú, og enskan aðalsmann. Akunin er greinilega að þreifa fyrir sér með því að skrifa í anda Agöthu Christie Frásögnin ber ótrúleg líkindi við þessar gömlu spennusögur sem sagðar eru skrifaðar samkvæmt ensku hefðinni. Tveir rannsakendur, annar klár, hinn (of) fljótur að draga ályktanir, margir grunaðir, gjarnan með mismunandi bakgrunn og allir fastir á sama stað. Ágætis formúlan fyrir spennusögu í anda ensku hefðarinnar.

Ég hugsa að hinar sögunnar um Fandorin hafi heillað mig meira en þessi. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með að fá ekki að fylgjast meira með sjálfum Fandorin í sögunni. Niðurstaðan verður því eitthvað á þessa leið: Stórskemmtileg frásögn sem fullnægir öllum þörfum spennusagnafíkilsins, mismunandi sjónarhorn í hverjum kafla myndar óvænta spennufléttu sem leyst er meistarlega úr, frábær persónusköpun fær að njóta sín til hins ítrasta og gaman er að lesa nýja sögu sem skrifuð er í anda elstu spennusagnahefðarinnar. Hefði samt viljað sjá meira af snilldartöktum Fandorins.
..
>> Lesa

fimmtudagur, janúar 13

Hæstiréttur Bandaríkjanna

HöfundurFyrir nokkru lét af störfum sem dómari við Hæstarétt Pétur Kr. Hafstein og skráði sig í kjölfarið í sagnfræði í Háskólanum. Hér verður þó ekki fjallað um það hver tók við af honum og hvernig þótt vissulega sé umfjöllunarefnið Hæstiréttur og sagnfræði. Til grundvallar er lagt rit William H. Rehnquist, forseta Hæstaréttar Bandaríkjanna, um sögu réttarins, The Supreme Court.

Bókin á að mínu mati ekki aðeins erindi til þeirra sem auka vilja við skilning sinn á bandarískri lögfræði heldur einnig sagnfræði, stjórnmálafræði, félagsfræði, hagfræði og viðskiptafræði.

Bókin kom upphaflega út árið 1987 en var endurútgefin árið 2001. Rehnquist segir reyndar að nýja útgáfan sé ekki eins lögfræðileg og sú gamla og þakkar hann dóttur sinni, Nancy Spears fyrir það.

Rehnquist byrjar á að lýsa fyrstu kynnum hans sjálfs af Hæstarétti Bandaríkjanna, þegar hann byrjar að vinna 1952, rétt eftir útskrift frá Stanford, sem aðstoðarmaður dómara við réttinn. Lýsing hans, sem ungs manns kemur lesandanum í skilning um hlutverk réttarins og hvernig hann virkar. Mjög ánægjulegt var, sérstaklega fyrir íslending sem aldrei hefur búið í Bandaríkjunum, þegar Rehnquist útskýrir á leikmannamáli hvernig mál rétturinn fæst við og hvernig þau eru unnin.

Bókin er þannig uppbyggð að eftir að hafa lýst í stuttu máli bandarísku réttarkerfi rekur Rehnquist ævi og störf fyrri forseta réttarins og öðrum þeim dómurum sem þar hafa setið. Þá er farið rækilega í saumana á því hvaða menn sátu í réttinum hverju sinni og hvað það var sem réð því að ákveðnir menn völdust í réttinn en ekki aðrir. Þá er rýnt í menntunarlegan bakgrunn helstu dómenda og reynt að varpa ljósi á skoðanir þeirra og hvernig þær endurspeglast beint eða óbeint í einstökum dómum réttarins. Allt þetta er samtvinnað lýsingum á þeim höfuðdómum sem skópu landið, stjórnmálin og bandarísku réttarsöguna og jafnvel rétt annarra ríkja eftir atvikum.

Fyrsta og jafnframt þekktasta málið, sem Rehnquist fjallar um, er Marbury v. Madison frá árinu 1803. En þar er komist að því í fyrsta skipti, í bandarískri réttarframkvæmd, að rétturinn hefði vald til að lýsa tiltekin lög í bága við stjórnarskrána. Það sem vakti hvað mesta athygli undirritaðs við lýsingar í bókinni var hve skilmerkilega sögulegum bakgrunni hvers máls er lýst hverju sinni ásamt því að lögfræðileg álitaefni eru skoðuð ofan í kjölinn. Svipað mætti t.d. rita um þá íslenska dóma sem hvað mest áhrif hafa haft, þ.a.e.s. setja þá ekki aðeins í lögfræðilegt, heldur og, í sagnfræðilegt samhengi og safna saman í einu riti svo aðgengilegt væri sem flestum. Flestar þær lagabókmenntir eru ætlaðar sem kennslurit fyrir laganema og uppflettirit fyrir lengra komna og því nær eingöngu einblínt á hin lögfræðilegu atriði en sögulegum bakgrunni lítið sinnt. Reyndar er hér þó ekki verið að gera lítið úr þeim ritum sem Sigurður Líndal og Páll Sigurðsson hafa sent frá sér um réttarsögulega atburði. En hingað til hefur undirritaður ekki rekist íslenskt rit líkt og það rit sem Rehnquist hefur hér látið frá sér.

Ef reynt væri að líkja eftir þeirri aðferð sem Rehnquist notar mætti byrja á svokölluðum Hrafnkötludómi frá 1943, sem birtur er í dómasafni Hæstaréttar árið 1943 á bls. 237. Hrafnkötludómurinn á það sameiginlegt með Marbury v. Madison dóminum, að hér var í eitt fyrsta skipti á Íslandi kveðið á um það að lög væru andstæð stjórnarskrá. Það skal jafnframt athugast að hér verður aðeins um lauslega úttekt á málinu að ræða og einungis notaðar þær heimildir sem voru undirrituðum næstar.

Aðdragandinn að málinu var að Jónas Jónsson frá Hriflu var í miklu stríði við helstu rithöfunda og skáld þjóðarinnar á þessum tíma. Honum fannst þeir vera of hallir undir kommúnisma og fór að skipta sér að því hvernig styrkjum til listamanna var úthlutað og m.a. lét hann lækka styrk til Halldórs Laxness verulega. Guðjón Friðriksson lýsir aðdraganda Hrafnkötlumálsins mjög ítarlega í þriðja bindi ævisögu Jónasar frá Hriflu, Ljónið Öskrar, sem kom út árið 1993. Í 16. kafla, sem nefnist Skáldastríðið, segir að haustið 1941 hafi Helgafell, sem Ragnar Jónsson í Smára stofnaði, boðað að gefnar yrðu út Íslendingasögur með nútímastafsetningu í útgáfu Halldórs Laxness og gera ætti útgáfuna sem aðgengilegasta almenningi. Jónas frá Hriflu brást harkalega við og skrifaði þegar í stað leiðara í Tímann og sagði að kommúnistar ætluðu, með aðstoð ,,smjörlíkissala” í Reykjavík (Ragnars í Smára) að draga fornbókmenntirnar í svaðið. Einnig hvatti Jónas til þess að Alþingi gerði sitt til að verja fornbókmenntirnar með refsiviðurlögum á hendur þeim sem gefa út fornritin, nema að hafa til þess leyfi Stjórnarráðsins. Þá lét Jónas Þjóðvinafélagið skora á kennslumálaráðherra að flytja frumvarp þess efnis á Alþingi að leggja bann við því að fornbókmenntirnar yrðu prentaðar í afbökuðum útgáfum. Alþingi samþykkti síðan frumvarp um að ekki mætti prenta rit höfundar breytt að efni, málblæ og meðferð þó að meira en 50 ár væru liðin frá dauða hans og lögboðin var samræmd stafsetning á fornritunum. Jónasi frá Hriflu fannst reyndar ekki nóg að gert og vildi að ríkið hefði einokun á fornritunum og var breytingartillaga við frumvarpið samþykkt um að ríkið hefði einkarétt á útgáfu íslenskra rita frá því fyrir 1400.

En áður en frumvarpið var samþykkt unnu Ragnar og félagar hans nótt og dag við að koma Laxdælu út sem og tókst. Halldór Laxness sagðist hafa samið formála að bókinni á tveimur sólarhringum og með Jónas frá Hriflu ,,óðan og ríðandi yfir húsum”. Þá nefndi Halldór frumvarpið ,,geðbilunarfrumvarp” Jónasar og spáði því að næst ætti að lögleiða ,,samræmt göngulag fornt”. Þeir héldu svo ótrauðir áfram og næst réðust svo þeir Ragnar og Halldór í að gefa út Hrafnkötlu, en þá voru þeir í kjölfarið kærðir.


Sigurður Líndal reifar svo Hrafnkötludóminn allítarlega í sinni mjög svo skilmerkilegu bók Um lög og lögfræði frá 2002 á bls. 86-87, og verður byggt á þeirri reifun hér. En þannig var málinu háttað að Ragnar í Smára og Stefán Ögmundsson, prentari, kostuðu útgáfu og sáu um sölu á Hrafnkötlu, Hrafnkels sögu Freysgoða og að hún yrði færð til nútíma stafsetningar. Halldór Laxness bjó bókina undir prentun og ritaði formála. Voru þeir kærðir fyrir brot gegn lögum nr. 127/1941 um viðauka við lög 13/1905 um rithöfunda- og prentrétt, það sem Halldór Laxness kallaði ,,geðbilunarfrumvarp” Jónasar frá Hriflu. Í héraðsdómi voru þeir allir þrír dæmdir til greiðslu 1000 króna sektar til ríkissjóðs fyrir brot gegn lögunum. En í 1. gr. laganna sagði að ekki mætti birta rit höfundar breytt að efni, meðferð né málblæ ef breytingum væri svo háttað að menning eða tunga þjóðarinnar biði tjón af. Ekki taldist Halldór Laxness hafa brotið þetta ákvæði. Í 2. gr. laganna var íslenska ríkinu áskilinn einkaréttur til útgáfu rita sem samin voru fyrir 1400 og öðrum óheimilt nema samkvæmt ráðuneytisleyfi og mátti binda það því skilyrði að fylgt væri samræmdri stafsetningu fornri. Meirihluti Hæstaréttar sagði að samkvæmt 67. gr. stjórnarskrárinnar (nú 73. gr.) skyldi vera prentfrelsi á Íslandi, þó að menn yrðu að bera ábyrgð á prentuðu máli fyrir dómstólum. Ritskoðun og aðrar tálmanir á prentfrelsi mætti því aldrei í lög leiða. Þá sagði meirihlutinn að prentfrelsi takmarkist að vísu af því að áskilja mönnum höfundarétt að ritum og meina öðrum útgáfu þeirra á meðan sá réttur haldist, en sú takmörkun byggist á nánum persónulegum hagsmunum höfundar sem liggi ekki til grundvallar 2. gr. laga 127/1941. Með því að áskilja ríkinu einkarétt til birtingar þessara rita og banna öðrum birtingu nema með fengnu leyfi stjórnvalda hafi verið lögð fyrirfarandi tálmun á útgáfu þeirra sem óheimil verði að teljast samkvæmt 67.gr. (nú 73.gr.) stjórnarskrárinnar. Hér taldi því meirihluti Hæstaréttar að lögin sem sett voru 1941 færu í bága við prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og því væri ekki hægt að sekta þá félaga Ragnar, Stefán og Halldór.


Einn dómari Hæstaréttar, Gizur Bergsteinsson, skilaði sératkvæði og taldi að ,,geðbilunarfrumvarp” Jónasar, sem varð að lögum nr. 127/1941, hefði þann tilgang að vernda þjóðleg verðmæti, þ.e. fornritin og að handhafar ríkisvaldsins ættu að vernda þau gegn spjöllum. Taldi Gizur að lögin fyrirskipuðu ekki ritskoðun heldur kvæðu einungis á um viðurlög gegn brotum á þeim og taldi þau vera í samræmi við 67. gr. (nú 73. gr.) stjórnarskrárinnar. Þá sagði hann heldur enga heimild fyrir dómstóla í nefndu stjórnarskrárákvæði til að fella umþrætt lög úr gildi og síðast en ekki síst þá taldi Gizur að dómstólar gætu ekki virt að vettugi þau lög sem hinn almenni löggjafi hefur sett, nema stjórnarskráin sjálf veitti til þess ótvíræða heimild.

Ef fara ætti þá leið, sem Rehnquist notar í bók sinni um Hæstarétt Bandaríkjanna, að finna út stöðu einstakra dómenda m.t.t. til tengsla þeirra eða bakgrunns, mætti jafnvel í svipuðum dúr leiða að því líkum að Gizur hafi verið hliðhollur Jónasi frá Hriflu eftir að hafa byrjað sinn starfsferil hjá honum sem fulltrúi í dómsmálaráðuneytinu. Guðjón Friðriksson segir í öðru bindi ævisögu Jónasar, Dómsmálaráðherrann, sem kom út árið 1992, að árið 1927 hafi Gizur Bergsteinsson, ásamt öðrum, verið skjólstæðingur Jónasar og farið um landið til að koma í veg fyrir smyglun og bruggun áfengis. Það verður þó að koma hér skýrt fram að hér er aðeins verið að varpa ljósi á ákveðin tengsl Gizurar við Jónas frá Hriflu en ekki verið að segja að eitthvað bogið hafi verið við sératkvæði þess fyrrnefnda árið 1943.

Í ævisögu Jónasar frá Hriflu, Ljónið öskrar, kemur að endingu fram að málið hafi svo endað á því að lög um einkarétt ríkisins á að gefa út fornrit og samræmda stafsetningu forna hafi verið gerð að engu með því að dómsmálaráðherra veitti Halldóri Laxness formlegt leyfi til að gefa Njálu út með nútímastafsetningu. Skáldin höfðu því hér sigur gegn Jónasi frá Hriflu, þeir sigrar áttu þó eftir að verða fleiri.

Heimildir:
Guðjón Friðriksson, Dómsmálaráðherrann, Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu, annað bindi, Iðunn, Reykjavík, 1992.
Guðjón Friðriksson, Ljónið öskrar, Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu, þriðja bindi, Iðunn, Reykjavík, 1993.
Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði, grundvöllur laga – réttarheimildir, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, 2002.
..
>> Lesa

mánudagur, janúar 10

Umfjöllun um fyrsta hluta Æviþátta Bob Dylans

HöfundurÁ síðasta ári kom út í Bandaríkjunum og Bretlandi fyrsti hluti æviþátta bandaríska tónlistarmannsins Bob Dylan, Chronicles. Útgefandi er bókaforlagið Simon & Schuster. Útgáfan hlaut gríðarlega athygli um allan heim enda hafði verið beðið eftir henni í um þrjú ár, en þá náðust samningar við tónlistarmanninn um skrifin. Ástæður athyglinnar liggja ekki síst í þeirri staðreynd að Bob Dylan gefur sjaldan færi á ýtarlegum viðtölum við sig og auk þess hefur hann nánast aldrei rætt um einkalíf sitt á opinberum vettvangi. Það hefur þó ekki stoppað fjölda höfunda í að skrifa langar og miklar ævisögur um hann. Auk þess hefur tónlist fárra listamanna verið stúderuð jafn nákvæmlega í ræðu og riti og tónlist Bob Dylans.

Margir voru þegar búnir að fordæma Æviþættina vel fyrir útgáfu þeirra. Bob Dylan hefur ekki mikla reynslu af bókaskrifum. Um miðjan 7. áratuginn asnaðist hann til að gera samning um útgáfu bókar sem vegna mikilla samningarlegra deilna kom ekki út fyrr en árið 1971 en þá höfðu þegar margir lesið hana í ólöglegum útgáfum. Bókin sem bar nafnið Tarantula var sundurlaust safn súrrealískra prósa sem hefðu eflaust gengið vel ofan í almenning hefði hún komið út strax eftir að hún var skrifuð, árið 1966. Bókin fékk slæma dóma, enda var í raun um einskæra sölumennsku að ræða, allt sem hafði Bob Dylan á kápunni seldist vel. Einstaka eilífa-bítnikkar hrósuðu henni þó hástemmt og er hana eflaust að finna í bókahillum flestra harðkjarna Bob Dylan aðdáenda. Árið 1985 kom svo út heildarsafn allra texta listamannsins ásamt teikningum eftir hann. Í samhengi við útgáfu Æviþáttanna kom út uppfærð útgáfa af textunum á síðasta ári.

Þessi litla reynsla Bob Dylan af bókaskrifum hindraði þó ekki fjölmarga virta háskólaprófessora til að taka sig saman fyrir nokkrum árum og tilnefna skáldið til Nóbelsverðlauna í bókmenntum. Hann hlaut ekki verðlaunin, en tilnefningin ein og sér hlaut mikla athygli og vakti upp hina gömlu umræðu um það hvort að tónlistarmenn gætu í raun talist skáld vegna textagerðar sinnar. Sú umræða leiðir okkur svo hinsvegar að stóru umfjöllunarefni hinnar nýju bókar. Bob er tíðrætt um það í Æviþáttunum hversu þrálátlega hann hafi verið misskildur í gegnum tíðina. Hann segir fólk hafa gert óraunhæfar kröfur til sín, kallað hann spámann eða jafnvel messías og viljað að hann yrði einhverskonar leiðtogi hinnar nýju frjálsu kynslóðar 7. áratugarins. Þetta fór fyrir brjóstið á Bob sem segist ekki vera neitt meira en samviskusamur laga- og textahöfundur sem vilji starfa í friði. Hann afneitar skáldatitli sínum þó aldrei og ekki virðist hann vera hissa á velgegni sinni, enda hefur sjálfstraustið oftast verið á sínum stað hjá manninum sem sagði einu sinni: “I’m a poet, I know it, I hope I don’t blow it”.

Æviþættirnir í þessu fyrsta bindi eru samtals fimm og ekki er mikið samhengi á milli þeirra. Í raun má segja að samhengið sé svo lítið að það verði að teljast einhverskonar brandari að bókin heiti í raun “Chronicles” sem myndi samkvæmt flestum túlkunum vísa til þess að þættirnir ættu að vera í tímalegu samhengi. Þrír þáttanna fjalla um tímann sem að Bob Dylan varði í Minneapolis og New York sem ungur maður áður en hann varð frægur. Inn í þá sögu fléttast æskuminningar frá Minnesota og auk þess er helstu tónlistarlegu áhrifavöldum gerð nokkuð rækileg skil. Í allt má segja að þessi frásögn sé afar athyglisverð og kemur þar margt fram sem jafnvel hörðustu Bob Dylan aðdáendur vissu líklega ekki um. Hann lýsir t.d. nokkuð ýtarlega vinasambandi sínu við þjóðlagatónlistarmanninn Woddy Guthrie, en áður hafði nokkuð margt verið á huldu með eðli þess. Jafnframt eyðir hann talsverðum tíma í að kynna lesandann fyrir öllum þeim helstu bókmenntaverkum sem höfðu áhrif á hann. Nefnir hann þar m.a. Don Juan eftir skáldið og lávarðinn Byron og Furstann eftir Machiavelli. Jafnframt upplýsir hann að setningin “Je est un autre” eftir franska geðsjúklingaskáldið Rimbaud hafi líklega haft meiri áhrif á sig heldur en flest annað.

Hinir tveir þættir bókarinnar eru í raun talsvert frábrugðnir. Í öðrum þeirra lýsir hann ævi sinni árið 1970 og aðdraganda útkomu plötunnar New Morning. Það er í þessum kafla sem flest styggðaryrði hans gagnvart frægðinni er að finna. Bob Dylan hefur löngum verið í hópi þeirra dægurmenningarstjarna sem hefur andstyggð á frægð sinni og hefur eytt mikilli orku í gegnum tíðina í að berjast gegn ágengum aðdáendum og blaðamönnum. Til að vera alveg hreinskilinn verð ég að segja að mér hefur ávallt leiðst slík hugðarefni. Ekkert finnst mér jafn óspennandi og niðurdrepandi og yfirlýsingar frægs fólks um að það vilji í raun bara vera venjulegt. Á endanum eru slíkar yfirlýsingar innantómt píp þegar skoðað er hversu djarflega hið sama fólk hefur gengið fram í að öðlast frægð sína. Enda er það yfirleitt tilfellið að stjörnurnar byrja ekki að kvarta undan frægð sinni fyrr en sköpunarmátturinn er tekinn að þverra. Í tilfelli Bob Dylans er þó að finna marga áhugaverða punkta, hann virðist oft og tíðum hafa verið hundeltur af geðsjúklingum en þó oftar hreinum fávitum. Frásögn hans af áreitinu er heldur í léttari kantinum án þess þó að verða nokkurn tíma fyndin. Í reynd má skynja eilítin biturleika. Í allt leyfi ég mér að segja að þessar hugleiðingar séu ekki sérlega áhugaverðar þó margt annað í kaflanum sé vel lestrarins virði.

Þá er ógetið þess þáttar sem stærsta spurningamerkið má setja við. Áttatíu blaðsíðum bókarinnar er varið í útlistun á upptökum og aðdraganda plötunnar Oh Mercy sem kom út árið 1989. Hér er Bob Dylan staddur í New Orleans og rekur oft nokkuð nákvæmlega hvernig hann keyrir um á mótorhjóli sínu og stoppar á veitingastöðum og upplýsir stundum hvaða rétti hann pantaði sér. Auk þess er drjúgum tíma varið í að lýsa ástandinu í upptökuverinu og hversu erfiðlega gekk að taka upp einstök lög. Þrátt fyrir að Oh Mercy hafi verið vel tekið af gagnrýnendum er hún líklega ein af þeim plötum Bob Dylans sem einna síst yrði talin skyldueign enda hefur hún alls ekki selst vel. Maður fær því jafnvel á tilfinninguna að um ákveðið markaðstrikk sé að ræða, að hugmyndin sé sú að eftir lestur kaflans muni Bob-aðdáendur um víða veröld stökkva út í búð til að kaupa Oh Mercy til að fá hlutina í betra samhengi. Það eitt er víst að heldur fáir lesendur bókarinnar munu kannast við lögin sem Bob eyðir miklum tíma í að útskýra í þessum þætti. Þó verður ekki framhjá því litið að kaflinn hittir á vissan hátt í mark. Það má segja að Bob sé staddur á lágmarki ferils síns sem skapandi listamaður er við hittum hann fyrst fyrir árið 1987. Hann talar af mikilli einlægni um það hvernig hann geti ekki lengur sungið lögin sín og hvernig hann beinlínis kvíði fyrir tónleikum og æfingum. Hæfileiki hans til að semja ný lög er að sama skapi algerlega blokkeraður. Í gegnum kaflann fylgjumst við svo með honum ná sér á strik og í heildina er umfjöllunarefnið býsna áhugavert.

Mörgum þótti sem Bob Dylan hefði ekki verið nógu duglegur við að upplýsa óljósa hluti í bókinni. Á margan hátt má taka undir þetta sjónarmið. Ævi Bob Dylans er ekki einu snifsi minna dulúðleg eftir lestur bókarinnar, frekar að hitt sé heldur upp á teningnum. Þó vil ég geta tveggja atriða sem eru e.t.v. með þeim bitastæðustu í bókinni. Að mér vitandi hefur Bob Dylan aldrei viljað gefa upp um uppruna sviðnafns síns en hann hét upprunalega eins og flestir vita Robert Zimmerman. Í bókinni rekur hann hinsvegar samviskusamlega ástæður þess hvernig Robert Zimmerman varð Bob Dylan og viðurkennir í raun að velska ógæfuskáldið Dylan Thomas hafi þar spilað stóra rullu eins og flestir hafa haldið fram til þessa. Jafnframt talar hann nokkuð frjálslega um samband sitt við hina mystísku Suze Rotolo en fyrir þá sem ekki vita það, þá er hún ljóshærða stúlkan sem heldur utan um hann á plötuumslagi tímamótaverksins The Freewheelin’ Bob Dylan. Til frekari glöggvunar þá er engum vafa undirorpið að hún er megin yrkisefni laganna Don’t Look Twice It’s Allright, Boots of Spanish Leather og Ballad in Plain D sem öll eru meðal þekktari verka listamannsins.

Fram að þessu hefur þessi litla ritgerð að mestu miðast við að útlýsa efnislegt inntak Æviþáttanna sem er að mínu mati oft og tíðum vafasamt. Þó vil ég fá að hnykkja út með því að helsti galli bókarinnar, efnislega séð, er einfaldlega hversu stutt hún er. Að sjálfssögðu er aðeins um fyrsta hluta af þremur að ræða en það kemur ekki í veg fyrir að maður er skilinn eftir eins og maður hafi e.t.v. ekki lesið heila bók heldur aðeins úrdrætti. Frásagnarstíl Bobs get ég hinsvegar borið einstaklega gott vitni. Áður er á það minnst hvernig hann virðist ná að kynna sjálfan sig á einlægan hátt lausan við flest það yfirlæti sem einkennir fólk sem hefur fjörutíu ára langa reynslu af óeðlilegri athygli og já-kveðandi samstarfsmönnum. Það er ljóst að hugur hans er bljúgur og viðhorf til lífsins einstaklega heilbrigð enda grundvölluð á virðingu og miskunnsemi frá fyrstu tíð. Hann talar af fágun um samferðarmenn sína og virðist hafa einstaklega góðan skilning á stöðu sinni í heiminum, þá og nú. Í reynd tel ég að það skipti í raun minnstu máli nákvæmlega um hvað þessi bók er. Enda er það svo að við nákvæma skoðun geta allir hlutir reynst áhugaverðir og gefandi. Jafnvel þegar Bob Dylan talar um skjaldbökusúpuna sem hann fékk sér í New Orleans en hafði svo ekki lyst á þegar á hólminn var komið þá er bókin áhugaverð. Bob hefur yfir að búa kímnigáfu sem ólíkt því sem við eigum að venjast byggist ekki á kaldhæðni. Í stað þess að snúa út úr hlutunum og taka fjarstæðukennd dæmi til útskýringar tekst hann á við viðfangsefni sín með því að grandskoða þau með hógværu auga, og við slíka skoðun kemur oftar en ekki ýmislegt spaugilegt í ljós.

Æviþættir I eftir Bob Dylan er skemmtileg lesning þó hún sé langt í frá tæmandi. Jafnframt því að vera ljúf viðkynning á hinum of-stóra Bob Dylan þá er hún einnig skemmtileg söguskoðun, bæði fyrir þá sem upplifðu tímana sem um er rætt og einnig fyrir þá sem fæddir eru síðar. Óhætt er að fullyrða að flestir þeir sem hafa lesið þessa bók bíði spenntir eftir framhaldinu.
..
>> Lesa

fimmtudagur, janúar 6

Kiljan

HöfundurKiljan er annað bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Halldór Kiljan Laxness. Fyrsta bindið var ein umtalaðasta bók síðari ára og spruttu af því mikil átök og dómsmál, en annað bindið hefur ekki fengið nærri því eins mikla athygli þó að um það hafi verið skrifaðar nokkrar fínar greinar. Hannes var gagnrýndur af hópi menntamanna fyrir að hafa ekki vísað nægjanlega í heimildir þegar hann notaði texta annarra. Hannes svaraði fyrir sig, en það skín í gegn að bergmál málsvarnarinnar ómar í öðru bindinu. Málsvörnin felst í því að benda á að Halldór Kiljan hafi mjög oft tekið texta næstum orðrétt frá öðrum og notað í sínum bókum. Þó að oft sé athyglisvert að sjá hve litlu Halldór breytir þegar hann notast við texta annarra er þessi lokahnykkur málsvarnar Hannesar helsti galli bókarinnar.

Fyrsta bindi Hannesar um Laxness var bráðskemmtileg og góð bók þó að frágangur hafi mátt vera aðeins betri. Í því bindi fannst mér Hannes reyna að feta í fótspor Guðjóns Friðrikssonar hvað varðar aðferðir við ævisagnaritun, en í þessu bindi finnst mér hann hverfa aðeins frá því og notast frekar við sinn eigin stíl. Ef til vill er ein af ástæðunum sú að í öðru bindinu er sagt frá mjög pólitísku tímabili í lífi nóbelskáldsins og Hannes er því á heimavelli. Ég er mjög hrifinn af ævisögum Guðjóns og þeim aðferðum sem hann notar, en það hentar ekki öllum að skrifa þannig og Hannesi hentar betur að nota sinn stíl. Að því leyti er annað bindið betra en það fyrsta.

Kiljan er löng bók, 540 blaðsíður. Þjóðbraut bókarinnar, ef svo má að orði komast, er að sjálfsögðu ævi Halldórs Laxness, en frá þeirri braut eru margir afleggjarar. Eflaust er það mat einhverra að þessir afleggjarar séu óþarfa útúrdúrar, en ég hefði ekki viljað að höfundur sleppti þeim. Halldór kynntist mörgu áhugaverðu fólki og var viðstaddur marga sögulega viðburði. Það gefur bókinni skemmtilegan blæ að hún er öðrum þræði mannkyns- og Íslandssaga 20. aldarinnar.

Kiljan er um ævi Halldórs Kiljans Laxness frá þrítugu til 46 ára aldurs. Halldór fyrsta bindisins höfðaði mun meira til mín en Kiljan annars bindisins, en ég ætla ekki frekar út í þá sálma hér. Mér finnst ævi Laxness að hluta til vera sífelld paradísarleit og leit listamanns að öruggum og lífvænlegum stað í óöruggum og ólífvænlegum heimi. Fyrst finnur hann þann stað í kaþólsku klaustri og paradísina á himnum að þessari jarðvist lokinni. Síðan finnur hann þann stað í Sovétríkjunum og paradísina á jörðinni í þessari jarðvist. Hvoru tveggja klaustrið og Sovétríkin voru fyrir honum flótti í annan heim þar sem líf og brauðstrit listamannsins var auðveldara. Þau voru öðrum þræði fjárhagslegt haldreipi fátæks manns. Hugsjónir lífs hans brugðust honum hins vegar og það opnaði huga hans á ný og lokaði á kreddurnar. Eftir að hann komst á listamannslaun og bækur hans seldur betur var ekki eins mikil þörf fyrir haldreipi af fyrrgreindum toga og þá fékk taóismi og önnur austræn speki aukna athygli hjá skáldinu.

Halldór ferðaðist mikið og mér fannst skemmtilegustu kaflar bókarinnar vera um kynni hans af heiminum, til dæmis ferðalög hans til Argentínu og Sovétríkjanna. Í bókinni eru ótal áhugaverðir hlutir; á næstum hverri síðu rakst ég á eitthvað sem ég staldraði við og velti fyrir mér. Lífsgleði og sannleiksleit Hannesar skilar sér vel í bækur hans; frásögnin er lifandi og full af fróðleik.

Frágangur bókarinnar er ágætur og aðeins smáatriði sem hægt er að setja út á. Eitt af því sem mig langar að nefna er þýðingarleysi á setningum úr erlendum tungumálum. Yfirleitt eru slíkar tilvitnanir þýddar og hafðar innan sviga, en þó ekki alltaf. Það er ekki hægt að ætlast til þess að lesendur bókar á íslensku kunni rómönsk mál og í raun er ekki rétt að ætlast til þess að þeir kunni nokkurt erlent tungumál. Í íslenskri bók á allt að vera skiljanlegt á íslensku. Þetta er þó ekki algengt í bókinni og háði mér ekki nema á einum stað.

Á stöku stað ryðst Hannes full mikið inn í frásögnina með sínar fílósófísku skoðanir, en það er þó ekki mikið lýti á bókinni.

Í það heila er Kiljan góð bók og höfundur hennar á hrós skilið fyrir þetta framlag sitt til íslenskrar menningarsögu.
..
>> Lesa

mánudagur, janúar 3

Það var vínarkruss, vals og ræll, cha-cha-cha, þetta ár: Um skaupið 2004

Höfundur
Þegar skaupið fór af stað huggaði ég mig við þá tilhugsun að það var útlendingur staddur með mér fyrir framan sjónvarpið, þannig að ef skaupið yrði lélegt gæti ég að minnsta kosti skemmt mér við að horfa á furðusvipinn á honum. Ég hafði ekki beinlínis hoppað hæð mína af gleði þegar ég frétti nokkrum vikum fyrr að Spaugstofumenn ættu að sjá um skaupið, enda má þátturinn þeirra svo sannarlega muna sinn fífil fegurri.

En áramótaskaup eru mjög sérstakur miðill vegna þess að þau eru sjaldnast öðru vísi en þau sýnast í fyrstu. Maður sér það venjulega á allra fyrstu mínútunum hvort það verður gott eða vont. Og þegar Hljómar „opnuðu“ skaupið að þessu sinni hafði ég strax látið sannfærast – þetta lofaði svo sannarlega góðu. Það hafði sem sagt verið ákveðið að hafa Þjóðminjasafnið sem grundvöll, sem var ekki verri hugmynd en hver önnur. Það kom líka fljótt í ljós að það voru margir leikarar í spilinu, sem er alltaf jákvætt, því þá dreifast hlutverkin og minni hætta skapast á mjög vondum eftirlíkingum eins og tíðkast svo oft í spaugstofuþáttunum (sáuði t.d. Örn Árnason að leika Sollu Pé? Fyndið í u.þ.b. tvær sekúndur). Nú var m.a.s. bætt um betur og nokkur fjöldi fólks fenginn til að leika sjálft sig: Ómar, kastljósfólkið, Samúel Örn, Bjarni Fel, Frikki Sóf, Geirjón o.fl. Úrræði sem var notað jafnt og þétt allan tímann, en þeirri aðferð hefur aldrei verið beitt í áramótaskaupi áður.

Ragna Fossberg vann sitt starf af mikilli hind eins og fyrri daginn, þarna voru bæði gömul og góð gervi og líka ný og fersk, t.d. uppfærð útgáfa af Kristjáni Jóhannssyni og Dóri Gylfa að leika Árna Magnússon, sem virkaði þrælvel. Eitt frumlegasta einkennið við þetta áramótaskaup var hvernig vísað var í eldra grín. Stundum var það gert óbeint, t.d. í atriðinu þar sem Kristján í Kastljósinu tók bullviðtal við Þorgerði Katrínu og það var klippt saman við raunveruleg svör úr viðtali við hana. Þetta var mikið gert í skaupinu '85 (sem Siggi Sigurjóns leikstýrði líka) og þáttunum Spaug til einhvers frá 1987, en var síðar masterað í Ekkifréttum á Rás tvö (þætti sem allir sannir grínunnendur syrgja enn í dag). Afdalabræðurnir Magnús og Eyjólfur voru líka óbein vísun í skaupið '85, þar sem þeir komu (fyrst?) fram. En vísanirnar voru líka beinni, og á ég þar einkum við atriðið þar sem Jónsi syngur saknaðarsöng til Davíðs Oddssonar og sýnd eru brot úr atriðum þar sem er hermt eftir honum í gömlum áramótaskaupum. Hugmyndin um skaup sem sjálfhverfan miðil fær hér byr undir báða vængi.

Atriðið með Jónsa er atriði af því tagi sem var helsti styrkurinn við skaupið í ár. Þetta eru atriði þar sem tvær flugur eru slegnar í einu höggi, gert er grín að tveimur (óskyldum) hlutum sem kallast á að einhverju leyti. Í dæminu með Jónsa (sem, meðal annarra orða, var eiginlega besti „alvöruleikarinn“ í ár) felst tengingin í brotthvarfi Davíðs úr forsætisráðherrastóli og efni júróvisjónlagsins, sem er saknaðarsöngur í alvöru. Önnur dæmi af þessum toga eru t.d. auglýsing Framsóknarflokksins um að útrýma kvenráðherrum, sem tengist Siv Friðleifsdóttur að því er varðar efni, en auglýsingu frá tryggingafélagi (hvers nafni ég hef nú gleymt) að því er varðar form. Tengingin var annars konar, eða rökleg, í atriðinu þar sem handboltalandsliðið getur ekki æft sig fyrir Ólympíuleikana út af öllum tónleikunum í Laugardalshöll, en þar voru líka afgreiddir tveir hlutir í einu. Bensín-kókauglýsingin og atriðið þar sem Alfreð Þorsteinsson keppir á Ólympíuleikunum í peningakasti siðblindra virkuðu á sama hátt.

Það er alltaf gæðamerki þegar upplýsingaflæðið er svo þétt að maður nær ekki að grípa alla brandarana við fyrsta áhorf, en því var til að dreifa í þessu skaupi (hjá mér, þ.e.a.s.). Ég get ekki stillt mig um að nefna nokkur smáatriði sem voru ansi vel falin, ef ske kynni að aðrir en ég skyldu hafa misst af þeim við fyrsta áhorf:

* Árni Magnússon signir sig áður en hann fer á rjúpu.
* Ólafur Stefánsson kallar Deep Purple dópista og aumingja.
* Þegar Dorrit lætur Ólaf Ragnar sverja forsetaeiðinn segir hún: „Óla-Fur, lofar þú að vera besti forseti í heimi?“ Hann svarar: „Já, ég ætla að vera æðislegur!“
* Óperan sem Kristján Jóhansson syngur nokkrar aríur úr (Norðlendingurinn ljúgandi) er eftir Johnny Cash.
* Diskurinn hans Kristjáns Jóhanssonar heitir Pagame Mucho, sem er ítalska og þýðir „Borgaðu mér mikið.“

Það má enn fremur telja þessu skaupi til tekna að inn á milli komu atriði til að létta stemmninguna, fimmaurabrandarar sem hvert barn getur hlegið að en áttu sér enga sérstaka fyrirmynd í atburðum ársins. Þetta voru t.d. atriðið með No Name-stúlkuna sem var stoppuð af löggunni, grímuverðlaunaafhendingin þar sem sigurvegarinn er sviptur verðlaununum þegar hann fellur á lyfjaprófi (það þótti grunsamlegt hvað hann lék vel), svo og öll stuttu atriðin með Sveppa þar sem hann hljóp með ólympíueldinn. Sveppi var reyndar e.k. þungamiðja skaupsins, hann var tákn fyrir gamla árið sem breytist í hið nýja – keppendanúmerið hans stækkar alltaf í hverju nýju atriði, fyrst er hann númer 2, svo 20, þá 200, síðan 2004 og þegar hann kemst loksins á Þjóðminjasafnið er hann númer 2005.

En svo komu vondu brandararnir og þau atriði, er þú segir um: Mér líka þau ekki. Hannes Hólmsteinn á Gljúfrasteini og Vala Matt með blinda manninum voru frekar slöpp, og atriðin með jökulinn í París og talningamanninn uppi á Héraðsdómi voru allt of löng. Foreldrarnir sem kynna börnin sín fyrir áfengismenningunni á menningarnótt var gamall brandari og atriðið með karlmennina tvo sem kepptu í samhæfðu listsundi mun vera stolið úr Saturday Night Live. Ég fékk aulahroll þegar Magnús stakk ljósleiðaranum upp í rassinn á sér og hrópaði: „Ég er onlæn! Ekki trufla mig, ég er að dánlóda!“ Senan með Kristjáni Jóhannssyni í Kastljósinu var á mörkunum, Örn var jú góður en atriðið var fulllangt í annan endann og brandarinn með rauðu brjóstin var tekinn aðeins of oft.

Heildaráferðin var þó fín, og tökumenn og klipparar Sjónvarpsins sýndu nokkur glæsileg trikk, t.d. þegar Alfreð Þorsteinsson keyrir um í hitabylgjunni og bíllinn hans sést í gegnum tíbrá á veginum. Áferðin á atriðinu með gamaldags bankastjóranum sem hefur viðskiptavinina undir hælnum var sömuleiðis glæsileg. Söngatriðin voru líka flest skemmtileg, sem er alls ekki sjálfgefið. Textarnir (sem eru að öllum líkindum eftir Karl Ágúst Úlfsson) voru smellnir og pössuðu jafnvel beint við það sem var sýnt á því augnabliki, eins og í upphafsatriðinu þar sem Hljómar syngja: „Það var með tómat og hráum og steiktum lauk þetta ár,“ og sýnd er mynd af pylsu og servíettu sem Clinton hefur áritað. Því sem gert er grín að var stundum veitt inn í farveg upprunalegra texta laganna, t.d. þar sem sungið er um olíusamráðið: „Græddir þú / græddi ég / við saman.“ Auk þess var því loksins komið í verk sem við höfum öll beðið eftir svo lengi: Að láta „Dorrit“ ríma við „forrit.“

Þetta var gott skaup, eiginlega frábært. Besta skaupið í þrjú ár. Ég þakka kærlega fyrir mig. Strákarnir í Spaugstofunni sýndu og sönnuðu að þeir kunna þetta enn þá, bara ef þeir fá svolítinn tíma til að undirbúa sig.
..
>> Lesa

Greinasafn

september 2004 október 2004 nóvember 2004 desember 2004 janúar 2005 febrúar 2005 mars 2005 apríl 2005