- Andvaka haf, í ómi glitrandi stranda,
aleinn ég dvel í stjörnuhöll minna drauma
og lifi að nýju þinn ljóma og róm í anda. -
Mín léttustu spor eru grafin í þína sanda.
Svo orti Einar Benediktsson í Útsæ, sem hefst á hinum frægu orðum:
Til þín er mín heimþrá, eyðimörk ógna og dýrðar,
ásýnd af norðursins skapi í blíðu og stríðu.
Hjá þér eru yngstu óskir míns hjarta skírðar.
Útsær - þú ber mér lífsins sterkustu minning.
- Ég sé þig hvíla í hamrafanginu víðu;
Ég heyri þig anda djúpt yfir útskaga grynning.
Ofsinn og mildin búa þér undir bránni;
þú bregður stórum svip yfir dálítið hverfi,
þar lendingarbáran kveðst á við strenginn í ánni,
en upplit og viðmót fólksins tekur þitt gerfi.
Hve myndir og skuggar miklast í þínu veldi.
- Ég man þig um dægur, er skín ei af ári né kveldi.
Þá lyftirðu þungum og móðum bylgjubarmi
og bikar hins volduga myrkurs þú drekkur á höfin.
Augu þín lykjast undir helsvörtum kvarmi,
en hart þú bindur að ströndunum líkfölu tröfin. -
Þá er eins og líði af landinu svipir af harmi.
Þeir leita í þínum val undir marareldi
- og mæðuandlit svefnþung á svæfli og armi
sjá þá, er varstu bæði lífið og gröfin.
Mér er sem ég skyggnist yfir sædjúpsins jarðir -
þar er ekki hljómi líft, né geisla af degi.
En eins og vindar leiða hlíðanna hjarðir
hafbúann straumurinn áttar á sporlausum vegi.
Og ljósgjafaaugu svipast um undirsjáinn.
Þar sækja hafsins múgar sinn óraróður;
og vegast á til bana í lágum legi,
leiknir í fangbrögðum dauðans, varir og harðir.
Þar beita sér tálkn og barðar á rastanna gróður,
með bítandi tannir og skafla hvassa sem ljáinn.
Til lands sækir djúpsins líf. Þar merkirðu klettinn
og lætur þig sjást sem þú ert, með flakandi slæður.
Aftur og fram, meðan ertu steininum stæður
sem stormur í kjarri þú æðir í þaranna runni.
Áin sekkur í sjóinn sem dropi í brunni -
en sá, sem ræður, þig stöðvar við norðlenska blettinn.
Þá brýnirðu róminn og kallar af fjöru að fjalli,
en fjötruðu strandirnar bergmála einum munni.
Réttlausa frelsi í holskaflsins hvolfandi falli,
ég heyri þig steypa í rústir og lyfta frá grunni.
- Ég minnist þín löngum, heimur hverfulla mynda,
í hópnum, sem kemur og fer í voldugum borgum,
með óma, sem líða í öræfi hverfandi vinda,
með andlit, sem rísa og sökkva á streymandi torgum.
Bylgjur stynja og deyja í fjöldanna flóði.
Þar finnast ei blóðdropar tveir, sem að öllu jafnast.
Og eins er hvert brimtár og andvarp þitt sem safnast
í öldustríðsins máttuga, drukknandi hljóði.
En einhversstaðar á allt þetta líf að hafnast
og einhver minnisstrengur nær hverju ljóði.
Því dagar sólina uppi um unaðarnætur.
Þá eldist ei líf við blómsins né hjartans rætur.
- Hafkyrrðin mikla leggst yfir látur og breiður,
en lággeislinn vakir á þúsund sofandi augum.
Á firðinum varpar öndinni einstöku reyður,
og uppi við land kasta sporðar glampandi baugum.
Báruraddir í vogavöggunum þegja.
Ein vísa er aðeins hvísluð niðri í ósi.
Tíminn er kyrr. Hann stendur með logandi ljósi
og litast um eftir hverju, sem vill ekki deyja.
En stoltastur ertu og stærstur í roki á haustin.
Strandmölin grýtir landið. Þú seilist í naustin.
Skýin þau hanga á himninum slitin í tötra. -
Það hriktir í bænum eins og kippt sé í fjötra.
- Þá bryðurðu gaddinn við grúfandi bátastefnin.
Grunnsjórinn beljar um voginn svo jarðirnar nötra.
En hafáttin er í húmi og blikum til skipta;
hún hleypir skammdegisbrúnum föl undir svefninn.
Þá hamastu, tröllið. Í himininn viltu lyfta
hyljum þíns eigin dýpis og álögum svipta.
- Og alltaf ég man þig um mánaóttuna langa;
þá mæna til stjarnanna skuggar eyja og dranga
og vefjast í löngum örmum, sem risi og rýgur -
en röstin niður í fjarlægð, með blandaða strauma.
Þinn barmur aðeins hrærist og hljóðlega stígur
er himneska segulfangið á móti þér hnígur,
- Andvaka haf, í ómi glitrandi stranda,
aleinn ég dvel í stjörnuhöll minna drauma
og lifi að nýju þinn ljóma og róm í anda. -
Mín léttustu spor eru grafin í þína sanda.
Ó kveldsól á hafsins brotnu, blikandi speglum.
Bjargeyjan klæðist í liti, með snjóbleikum dreglum.
- Lognið þar ríkir. En boðarnir bregða hrammi
og bresta sem þrumur yfir dökknandi flæðum.
- Þá skil ég að heiðnin lifir aldanna æfi
með ódáinshallir, reistar í norðlægum sævi.
- - Að drykkju er Ægis hirð í hylgrænum klæðum.
Í hálfri gátt stendur Lokasenna frammi.
Og landbrimið mælir á mig kraptakvæðum -
vor kynstofn reis hæst í lífsins og guðdómsins fræðum
Fornhelga spekin veit að afl skal mót afli,
en andanum gefur hún seinasta leikinn í tafli.
Guðirnir yrkja í kveðandi brims og bylja
og brjóst hins illa valds er slegið með ótta.
Hamar Þórs hann vegur að Alföður vilja;
því víkur glottið í Ægisdyrum á flótta.
- Loki felur sig sjálfan í þjósti og þótta.
Hann þjakst og elskar í sinnar heiptar viðjum -
og minning hann ber um bros frá litverpum gyðjum
sem bjarma af von í myrkri eilífra nótta.
Útsær, þú hastar á hjartað og göfgar þess ama.
Þú hylur í þögn vorn fögnuð og gjörir hann ríkan.
- Veröld af ekka, ég veit engan mátt þér líkan.
Viljinn sig þekkir hjá þér og rís yfir hafið -
já, hafið sem á ekki strönd með fjarlægum frama,
en firnaríki í auðnir skýjanna grafið,
Þó deyi hjá þér okkar vonir, sem nefna má nöfnum.
og nísti þinn kali vor brjóst, er vald þitt hið sama;
því handan þín enginn átti að búast við höfnum.
Eilífð og himinn er landsýnin þar fyrir stöfnum.
- Sem leikandi börnin á ströndu, er kætast og kvarta
með kufung og skel frá þínu banvæna fangi,
ég teyga þinn óm frá stormsins og straumanna gangi.
stirnandi, klökka djúp, sem átt ekkert hjarta.
- Missýnir, skuggar, mókandi ey og drangi,
myndaskipti þín öll, þau skulu mér fylgja.
Þó kalt sé þitt brjóst, þar sem blikar geislanna sylgja,
þó björgin þú knýir til ákalls, en svarir ei neinu,
allt það, sem hjúpur þíns hafborðs gjörir að einu,
hnígur að minni sál, eins og ógrynnis bylgja.
..
>> Lesa